22.6.2019 | 12:35
Skringilega orðuð könnun Maskínu og utanríkisráðuneytisins - Undarleg framsetning sem ýtir undir ranga túlkun
Ég rakst á frétt á Vísi þar sem fjallað var um viðhorfskönnun sem Maskína hefur gert fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf Íslendinga til fjöl- og alþjóðasamstarfs.
Könnun sem þessi er að mörgu leyti þörf og fróðleg, þó að aldrei eigi að taka slíkum könnunum sem heilögum sannleik, gefa þær vísbendingar sem geta nýst vel í umræðum og ákvarðanatökum.
En það er áríðandi að vel, nákvæmlega og heiðarlega sé unnið að slíkri könnun og hlutleysis sé gætt í hvívetna.
Persónulega finnst mér, alla vegna við fyrstu sýn (og jafnvel aðra) vanta þar upp á, alla vegna hvað varðar framsetningu niðurstaðna.
Látum vera hvernig fyrirsögn Vísis er, "Íslendingar eru almennt jákvæðir í garð Evrópusambandsins", þó að þeir séu ekki jákvæðir í garð aðildar að því, alla vegna ekki ef tekið mark er á skoðanakönnunum þar að lútandi.
En svo segir í fréttinni: "Hins vegar segjast aðeins 31,6 prósent hlynnt inngöngu Íslands í ESB, 25,4 prósent segjast í meðallagi hlynnt inngöngu og 43,0 prósent segjast andvíg."
Þetta þótti mér nokkur tíðindi.
Þarna er í fyrsta sinn í langan tíma komið svo að ef trúa á niðurstöðunni, er meirihluti Íslendinga hlynntur inngöngu í "Sambandið".
Þannig að ég fann könnunina og þar á síðu 115 er fjallað um afstöðu Íslendinga til inngöngu í "Sambandið".
Þarna eru semsagt flokkað í 5 möguleika. Tveir af þeim eru orðaðir svo að svarandi sé fylgjandi inngöngu Íslands í "Sambandið". Tveir flokkar á móti, og svo þessi skringilegi "Í meðallagi".
Mjög hlynntur
Fremur hlynntur
Í meðallagi
Fremur andvígur
Mjög andvígur
Hvað varð um orðalag svo sem "hlutlaus", eða tek ekki afstöðu. Hvað þýðir að vera "Í meðallagi andvígur eða fylgjandi umsókn?
Ef ég met vilja minn til þess að Ísland sæki um aðild að "Sambandinu" sem 3 af 5, slík afstaða getur verið frá 40 til 60% vilji, er ég að segja að ég vilji að sótt sé um aðild?
Væri t.d. það að vera 40% samþykkur því að sótt sé um aðild að "Sambandinu" ígildi þess að vilja að sótt sé um aðild?
Persónulega myndi ég segja nei við slíkri spurningu, það ætti að teljast sem andstæðingur umsóknar.
En eins og fram kemur hér að ofan er Vísir ekki í neinum vafa um hvernig beri að túlka niðurstöðurnar, að sálfsögðu "Sambandsaðild" í vil, eins og tíðkast í þeim miðli.
En svona framsetning er í besta falli villandi, vonandi ekki vísvitandi og að mínu mati ekki sæmandi könnunarfyrirtæki með sjálfsvirðingu, hvað þá utanríkisráðuneytinu.
En hér verður hver að dæma fyrir sig, en ég hvet alla til að kynna sér könnunina, en því miður er þessi mjög svo umdeilanlega framsetning gegnumgangandi í henni.
Því slík framsetning ýtir undir villandi túlkun eins gerist t.d. í frétt Vísis.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:12 | Facebook
Athugasemdir
Þetta orðalag: "Í meðallagi" er nýtt í svona könnunum, en verður ekki túlkað sem fylgi við aðra hvora afstöðuna, heldur: einhvers staðar þar á milli eða óákveðin(n) -- og kemur raunar í stað þess valkosts (sem einhvers staðar þarf að vera) að menn hafi ekki tekið afstöðu í málinu. En klaufalegt er þetta og ætti samt ekki að hafa gefið Vísi neitt tilefni til að rangtúlka niðurstöðu þessarar könnunar, en þá verður að hafa í huga, að Visir.is er alls ekki hlutlaus fréttamiðill og Jón Ásgeir Jóhannesson, yfirforstjórinn, eiginmaður eigandans, er yfirlýstur Evrópusambandssinni, því miður.
Öllu verra er svo, hvernig Fréttablaðið hefur í 1-2 áratugi verið notað til þess að agitera leynt og ljóst fyrir innlimun Íslands í þetta ógeðfellda stórveldi, sem ítrekað hefur verið með óréttmætan þrýsting á þjóðirnar í norðurhöfum og brotið á rétti þeirra (makríl- og Icesave-málin, sbr. og frekju þeirra gagnvart fiskveiðum í lögsögu Grænlands). Og nú stefna ráðandi ríkin, Þýzkaland og Frakkland, að því að fylgja eftir hugmyndafræði Lissabon-sáttmálans að gera Evrópusambandið að hernaðarveldi.
Jón Valur Jensson, 22.6.2019 kl. 13:32
@Jón, þakka þér fyrir þetta. Fjölmiðlum (nema Ríkisútvarpinu) ber engin skylda til þess að vera hlutlausir. Þeir geta haft skoðanir og er slíkt vel þekkkt víða um lönd. Oft lýsa þeir yfir stuðningi við einstaklinga eða flokka í kosningum.
Þess vegna kippi ég mér ekkert upp við þó að Fréttablaðið/Vísir birti fréttir sem eru hallar undir "Sambandið", við því er að búast.
En hitt er miklu mun alvarlegra að mínu mati að jafn loðið og skringilegt orðalag og raun ber vitni, sem ýtir undir möguleika á misskilningi og mistúlkun sé notað í könnum sem er kostuð af skattgreiðendum og unnin fyrir utanríkisráðuneytið.
Það er að mínu mati ámælisvert.
G. Tómas Gunnarsson, 22.6.2019 kl. 18:36
Það er auvelt að lesa úr þessu að það eru tæplega helmingi fleiri sem eru andvígir en fylgjandi. 23.4% gegn 12.Hversvegna er "mjög" sett þarna? Hvers vegna "fremur" vs "í meðallagi?
Ríflega 800 manna úrtak krefst einnig að það sé tekið fram hver dreifingin er. Borgin vs landsbyggðin. Það er drastískur munur á afstöðu í því samhengi. Það er meira að segja mikill munur ef tekið er tillit til 101 og úthverfa. Ég sjálfur tel muninn meiri en 50% en 50% munur er það sem ég les út úr könnuninni. 64% óvissuatkvæði er helst til geggjað.
Jón Steinar Ragnarsson, 22.6.2019 kl. 20:47
@Jón, þakka þér fyrir þetta. Sjálfur les ég út úr könnuninni að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga sé, nú sem oftast áður, andvígur því að sótt verði um aðild að "Sambandinu".
En orðalagið í könnuninni er skrýtið, í raun ámælisvert og því þótti mér ástæða til að vekja athygli á því.
En á næstu síðu er farið yfir aðrar breytus, s.s. búsetu, menntun, eftir flokkum.
En 800 manna úrtak er nóg til að gefa góða vísbendingu, þó að segja megi að stærra úrtak eins og 1200 hefði verið æskilegra.
Mér sýnist eins og ég sagði áður að ennþá sé tryggur meirihluti gegn aðild, en það er eins og uppsetningunni á könnuninni sé ætlað að fela eða draga úr því.
Skringilegt, eða hvað?
G. Tómas Gunnarsson, 22.6.2019 kl. 21:08
Ef könnunin sýnir að hátt í 70% þjóðarinnar gæti fallið hvorum megin við strikið sem er þá er augljóst að mínu mati að vilji sé til að búa til meiri óvissu um eitthvað sem hefur ekki verið nein óvissa um í meira en áratug. Heldur hefur andstæðan aukist en hitt.
Sammála þér að það er undarlega að verki staðið við þessa könnun og niðurstöðurnar svo óræðar að varla er hægt að segja að þetta gefi neina mynd af þessu. Aðeins um 300 manns taka ákveðna afstöðu en ríflega 500 eru volgir. Meikar engan sens fyrir mér.
Jón Steinar Ragnarsson, 22.6.2019 kl. 21:43
@Jón, þakka þér fyrir þetta. Fyrir mér liggur þetta nokkuð augljóst fyrir, 350 eru andvígir (fremur og mjög), 257 eru fylgjandi (fremur og mjög).
Þannig eru 43% andvíg aðild að "Sambandinu". Fyljgandi aðild eru 31.6.
Hlutlaus eða taka ekki (skýra) afstöðu eru 207, eða 24.5%.
Af þeim sem taka afstöðu, er niðurstaðan þessi: 57.66 eru andvíg aðild en 42.32% eru fylgjandi. (ég held að þetta sé nokkuð rétt reiknað hjá mér).
Þetta er ekki mikil frávik frá því sem hefur mátt sjá í flestum öðrum skoðanakönnunum um málið.
En hvers vegna Maskína og utanríkisráðuneytið kjósa að nota orð eins og "í meðallagi" er mér hulin ráðgáta og mér þykir það ámælisvert, eins og ég hef áður sagt.
G. Tómas Gunnarsson, 22.6.2019 kl. 21:58
Hver skyldi útkoman verða ef spurt væri um sannleikann: Viltu afhenda ESB yfirráðin yfir fiskimiðum okkar?
Örn Johnson (IP-tala skráð) 23.6.2019 kl. 07:52
@Örn, þakka þér fyrir þetta. Slík skoðanakönnun verður líklega seint gerð. En slíkt yrði vonandi framarlega í umræðunni ef aðildarumsókn kemst á aftur á eitthvert flug.
Því Íslendingar ættu að hafa lært .það af EEA/EES samningnum, að "óútfylltir samningar" sem hægt er að breyta nokkuð fyrirvaralaust, geta verið afar hættulegir.
Það má segja að það sé eins og að fara af stað í rússibana sem er enn þá í byggingu.
Ekki gott að vita hvernig ferðin muni enda.
G. Tómas Gunnarsson, 25.6.2019 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.