31.1.2019 | 07:38
Klaustursflaustur og flumbrugangur
Ég hafði eiginlega tekið þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að skrifa eitt eða neitt um "Klaustursmálið", það er eitthvað svo dapurlegt og "þunglyndislegt" að það vakti enga löngun hjá mér til skrifa.
En síðan finnst mér málið orðið svo vandræðalegt fyrir Alþingi og alþingimenn að ég mér finnst það orðið áhugavert.
Enginn velkist í vafa (að ég tel) um að hluti þeirra (en ekki allir) þingmanna sem sátu við borðið á "Klaustri" fóru langt yfir strikið. Þó að þeir hafi ráðist þar gegn ýnsum nafngreindum persónum, niðurlægðu þeir engan eins mikið og sjálfa sig.
Því að mínu mati niðurlægir tal eins og þeir viðhöfðu enga eins mikið og þá sem nota það.
En persónulega finnst mér viðbrögð margra manna umdeilanleg, og litast fyrst og fremst af þrennu.
Í fyrsta lagi, engin veit í raun hvernig á að taka á málinu,enda engin viðurlög, eða lög sem taka á slíku háttalagi, í öðru lagi kemur fram sterkur vilji til að "gera eitthvað" sem gæti friðþægt háværan hluta almennings og í þriðja lagi að nota málið til að ná sér niðri á pólítískum andstæðingum.
Ekkert af þessu þarf í sjálfu sér að koma á óvart, enda málið snúið, atkvæði koma frá almenningi og það er í eðli stjórnmála að ota sínum tota á kostnað mótherja.
En að láta eins og þeir eigi einhvern óskilgreindan rétt á því að sjá ekki þingmenn sem niðurlægðu sjálfan sig aftur, hvaðan kemur hann?
Lýðræðið snýst einmitt að hluta til um að við verðum að umbera einstaklinga sem eru með skoðanir sem okkur þykir jafnvel verulega ógeðfelldar, ef þeir eru val kjósenda.
Jafnvel einstaklingur sem lýsti því yfir að hann vildi afnema kosningarétt t.d. kvenna, á rétt á því að sitja á þingi ef hann nýtur stuðnings nægs hluta kjósenda.
Ef einhverjir vill berjast fyrir dauðarefsingum á Íslandi eiga þeir jafnan rétt á því að bjóða fram og allir aðrir. Og njóti þeir nægs stuðnings eiga þeir rétt á því að sitja á Alþingi, sitja í nefndum og jafnvel veita þeim forystu, að því gefnu að þeir njóti nægs stuðnings.
Þannig er það ekki nóg að finnast einhver "ógeðfelldur", að hann hagi sér "ósiðlega" eða sé "dóni", til þess að geta krafist að hann víki af Alþingi.
Og þó að mér þyki kynferðisleg áreitni sýnu alvarlegri en dónaskapur, er það heldur ekki nóg til þess að einhver þurfi að segja af sér þingmennsku. Við gætum sagt að það væri æskilegt, en það er ekkert sem gerir það að verkum að viðkomandi þurfi þess.
Og svona af því að ég minnist á það, vil ég segja að hér og þar hefur mátt sjá gagnrýni á Samfylkinguna fyrir að láta eigin siðanefnd fjalla um málið.
Slík gagnrýni er einfaldlega út í hött, og skref Samfylkingarinnar til fyrirmyndar.
Sík umfjöllun siðanefndar tekur engan rétt af hugsanlegum brotaþola til þess að leita réttar síns eftir hefðbundnum lagalegum leiðum.
En svo að það sé líka ljóst, þá getur engin "flokksleg" siðanefnd svipt einstakling þingsæti sínu. Það er hægt að reka einstakling úr flokki, en ekki af Alþingi.
Rétt eins og Flokkur fólksins gat rekið þingmenn sína úr flokknum fyrir að illmælgi um formanninn, en þingsætin eru þeirra.
Og þó að finna megi flokksaga ýmislegt til síns ágætis, er ég eindregið þeirrar skoðunar að gefa flokkum lögsögu yfir þingsætum yrði hræðileg afturför.
En það er vel til fundið að flokksstofnanir fundi um mál "sinna" manna, en þó alls ekki nauðsynlegt.
Það er líka svo að þó að allir réttkjörnir eigi rétt á því að sitja á Alþingi, getur hver og einn valið sér samstarfsfólk og ákveðið hvernig þeir greiða atkvæði.
Þannig geta t.d. þingflokkar, eða einstaka þingmenn, ákveðið að hafna öllu samstarfi við ákveðna þingmenn eða þingflokka um kjör í nefndir o.s.frv.
Það er ekkert sem mælir á móti slíku, ekki frekar en þingmenn ákveða hvort að þeir styðji ríkisstjórn eður ei, alveg burtséð frá því hvort þeir deili flokkum með ráðherrum eður ei.
Það er heldur ekkert sem mætir á móti því að málinu sé haldið vakandi, stjórnmálamenn og flokkar geta staðið fyrir málþingum, ráðstefnum, panelumræðum, leiksýningum og hvers kyns uppákomum til að vekja athygli á málinu.
En það fer betur á því að mínu mati að slíkt gerist "út í bæ".
Mér þykir að einnig blasa við að málið verði fyrirferðarmikið í næstu kosningum. Slíkt er eðlilegt, og þá kemur það til hins "æðsta dómstóls", kjósenda.
En lýðræðið og þingræðið þarf að hafa sinn gang.
Á meðan einstaklingar hafa kjörgengi, eru löglega kosnir og vilja sinna þingmennsku eiga þeir fullan rétt til þess. Alveg burtséð frá hvað öðrum þingmönnum kann að finnast um skoðanir þeirra eða framkomu.
Þingmenn eru kosnir til að sinna ákveðnum störfum og ættu að einbeita sér að þeim, í þinghúsinu. Um frítímann gilda önnur lög og aðrar reglur.
Funda um Klaustursmál á föstudag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:20 | Facebook
Athugasemdir
Hvers vegna ætli það hafi aldrei komist á sú hefð á Íslandi, eins og í öðrum löndum, að þingmenn sem "skíta upp á bak" segi sjálfviljugir af sér?
Ég hef þá kenningu að það sé vegna þess að þá verði þeir launalausir, og það er náttúrulegt óþægilegt. Núna nýverið var breskur þingmaður Verkamannaflokksins dæmdur í fangelsi fyrir lögbrot, en á samt að halda fullum launum og hlunnindum. Lögmaður hennar segir að hún ætli ekki að afsala sér launum vegna þess að þá verði hún tekjulaus.
Kristján G. Arngrímsson, 31.1.2019 kl. 12:36
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Hér gildir hið fornkveðna: Þegar stórt er spurt.
Sjálfsagt hefur þú nokkuð til þíns máls, enda í flestum tilfellum ekki auðvelt að vera launalaus og víða hefur mátt lesa upp á síðkastið að fyrrverandi þingmenn telja sig verða fyrir "fordómum" og eiga erfitt með að fá störf.
Nú þekki ég ekki hvort að þingmaður sem segir af sér á einhver rétt á biðlaunum.
Ef til vill vantar líka nægilegt aðhald frá "baklandinu", nú eða frá fjölmiðlum. Því "fjórða valdið", sem líklega er sterkasta aðhaldið, hvernig hagar það sér?
Er ekki nóg að birta litla "afsökunarbeiðni", sem gjarna er óljóslega orðuð á ínnsíðu til að "forsíðu upplátturinn" sé afsakaður?
Er ekki allt í lagi að sjónvarpsstjóri spyrji formann stjórnmálaflokks um hver sé heppilegur viðmælandi í umræðuþætti?
En ef til vill er það líka að einhverju marki sú "hefð" sem virðist býsna sterk á Íslandi, að viðurkenna að hafa rangt fyrir sér, er því sem næst álitin veikleiki.
Að skipta um skoðun er jafnvel litið hornauga.
En af því að þú minnist á Bretland, þá hefur afsögn þar miklu alvarlegri afleiðingar en á Íslandi og víða annars staðar.
Því í einmenningskjördæmunum er enginn varamaður, og því þarf að efna til aukakosninga. Þannig geta valdahlutföll breyst.
En svo við víkjum aftur að Íslandi, þá væri gaman að sjá rannsókn sem athugaði hvort að það að þingmenn þrjóskist við að segja af sér hafi einhver marktæk áhrif á fylgi flokka þeirra. Og svo að sjá hvort að afsagnir (akkúrak núna koma helst Guðmundur Árni og Bjarni Harðar upp í hugann) hafi að einhverju marki jákvæð eða neikvæð áhrif.
G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2019 kl. 13:12
Já, kannski er ástæðuna einmitt að rekja til þess sem þú nefnir, að hér á Íslandi er fyrst og fremst horft á afleiðingar afsagnar, fremur en einhver prinsipp, en í Bretlandi standa menn á prinsippinu jafnvel þótt það hafi slæmar afleiðingar bæði fyrir þá sjálfa (verða launalausir) og flokkinn þeirra (missa völd).
Líklega er það gömul saga og ný að Íslendingar séu ekki miklir prinsippmenn. Sem getur verið bæði vont og gott, ekki misskilja. Að þingmenn segi almennt ekki af sér er kannski "dökka hliðin" á annars frekar æskilegum pragmatisma.
Kristján G. Arngrímsson, 31.1.2019 kl. 13:34
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þetta er auðvitað margslungið, bæði hvað er prinsipp og á hvaða prisnippum viljum við standa.
Í Bretlandi hafa margir sagt af sér vegna "kynlífshneyksla". Handan við Ermasundið, veit ég ekki hvað kynlíf þyrfti að fela í sér til þess að einhver segði af sér.
Þar þykja "launbörn"; eða að skutlast á vespunni til hjákounnnar ekkert tiltölumál fyrir stjórnmálamenn. Annars staðar mega menn varla brúka "vindla", ef þú skilur hvað ég á við.
En ég held að á Íslandi hafi til dæmis ríkt í gegnum tíðina frekar mikið umburðarlyndi gagnvart ákveðnum "brennivínskúltúr".
Rétt eins og "saurlíkingin" sem þú greipst til hér í þínu fyrsta innleggi (og ég get viðurkennt að mér þykir alltaf frekar óviðeigandi og ósmekkleg, en það skiptir ekki meginmáli) gerist að ég tel helst hjá þremur hópum í hinu raunverlulega lífi.
Ungabörnum, sjúklingum og þeim sem eru ósjálfbjarga af drykkju.
Fjallað hefur verið um þingmenn drukkna í ræðustól, þeir hafa verið gripnir ölvaðir við akstur o.s.frv.
En þetta á ekkert bara við um Alþingi, heldur held ég að sama mynstrið gildi um þjóðfélagið í heild.
Þannig er þetta að hluta til "sá yðar sem syndlaus er.. ".. þú kannt líklega framhaldið.
Ég held til dæmis að fullyrðingar sem hefur mátt sjá hér og þar að "Klaustursmenn" hefðu verið reknir hefðu þeir starfað hjá einkafyrirtækjum, séu alrangar.
Það gæti hafa gerst, en margir hafa fengið annað tækifæri og jafnvel það þriðja hjá einkafyrirtækjum eftir að hafa "skandalíserað". Ég segi eiginlega sem betur fer.
Oft, þó að það hafi ekki nauðsynlega verið alltaf, hefur það verið fyllilega réttlætanlegt.
En ég er sammála þér að pragmatismi getur verið af hinu góða, upp að vissu marki.
G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2019 kl. 14:33
Þetta er allt móðursýki til heimabrúks. Málið gert pólitískt í augljósum tilgangi. Þegar farið er yfir það sem sagt er, þá er það sem útaf stendur það að einhver kallaði konu kuntu af því að honum fannst það og er væntanlega fráls þeirrar skoðunnar. Hér er víst enn málfrelsi að sögn.
Höfuðatriði þessa máls er þó að mínu mati að samtalið var tekið upp og birt gegn öllum lögum. Það er mesta áhyggjuefnið ef það sé tekið sem sjálfsagður hlutur.
Hvort þessar hleranir af einbeittum brotavilja, hannaðar til að klekkja á andstæðingum er svo alvarleg spurning líka og alvarlegra en allt sem sagt var og enn alvarlegra að mönnum sé meinað gagna til að rannsaka það. Ef eitthvað er glæpur í þessu, sem á erindi til dómstola, þá er það einmitt það. Ekkert af þessum upptökum eru réttækar, jafnvel þótt brot hafi verið framið vegna þess hvernig þeirra er aflað. Þeir hefðu þessvegna geta verið að ræða mannsmorð og enn ekki getað notað þetta sem sönnunargagn.
Þeir sem hafa eytt dýrmætum tíma alþingis í að blása á glæður þessa smámáls ættu að segja af sér framar öðrum, því þeir eru ekki vaxnir því starfi sem þeim er ætlað að sinna.
Jón Steinar Ragnarsson, 31.1.2019 kl. 14:48
@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta. Margt sem þú segir er alveg rétt. En það er þó ýmislegt sem er rétt að hafa í huga.
Fyrst og fremst er að það "tældi" engin viðkomandi þingmenn til að haga sér eins og þeir gerðu.
Auðvitað er það ekki ólöglegt, en það ber vott um dómgreindarleysi sem er vissulega athyglivert.
Gerðu þeir sér ekki grein fyrir hvar þeir voru?
Hinu er ég sammála, að það er full ástæða til þess að rannsaka hlerunina, það á að gera við öll lögbrot af þessu tagi.
Rétt eins og auðvitað átti að kæra 9menningana (er það ekki réttur fjöldi?) sem braut sér leið inn á Alþingi.
Það skiptir engu máli hvort að við höfum samúð með málstaðnum eða ekki, það er full ástæða til ákæru og láta dómstóla skera úr um.
Með lögum skal land byggja.
En það breytir því heldur ekki að þeir verða ekki sakfelldir, enda brutu þeir engin lög, alla vegna þekki ég þau ekki, dómgreindarleysi er ekki sakhæft, þó að það geti vissulega talist gallli á stjórnmálamönnum.
En "snjókornin" finnast víða og eiga sinn rétt til þess að sitja á Alþingi, rétt eins og allir aðrir ef þau njóta til þess stuðnings kjósenda.
Ef eitthvað er að marka þróunina á þeim aðeins eftir að fjölga.
G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2019 kl. 15:21
Ég sá á klaustursmálinu jákvæða hlið: á meðan þingheimur röflar og rífst um það mál, og sóa í það tíma, fer minni tími í hverskyns hryðjuverk, sem ég fæ ekki betur séð enn þeir stundi annars í óða önn.
Svo endilega, sem mest jaml og fuður um klaustur.
Ásgrímur Hartmannsson, 31.1.2019 kl. 16:27
@Ásgrímur, þakka þér fyrir þetta. Það hefur oft verið sagt að það gefist vel að halda bæði stjórnmálamönnu og kjósendum uppteknum við "smámál".
Þannig er gott að leggja til að byggðir verði "gróðurhólkar" utan um pálma, eða þyrla upp moldviðri í kringum fyllerísröfl á bar.
Það leiði athyglina frá öðrum "alvarlegri" málum.
Því þá gefst "hinn raunverulegu stjórn" tækifæri til að starfa í friði.
"Humpreyarnir" eru ekki uppteknir við "pálmana á Klaustri".
Þannig að eins og allt annað er þetta beggja blands. :-)
Þannig eru alltaf ótal sjónarhorn..
En ég man ekki eftir því að heildarskattar hafi lækkað þar sem ég hef búið.
G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2019 kl. 17:00
Viðbrögðin í samfélaginu við Klausturfokkinu eru fyrst og fremst til marks um breytt viðhorf og breytingar á gildismati. Þú nefnir, Tommi, langlundargeð Íslendinga fyrir fyllirísmenningu og meðvirkni með áfengissjúklingum sem skemma allt í kringum sig. Þetta er að breytast (og þótt fyrr hefði verið!)
Það er ekki heldur í lagi lengur að karlmenn líti á konur sem sér óæðri og tali illa um þær. Þeir sem vilja gera lítið úr Klausturfokkinu og segja það bara smotterí eru einfaldlega úr takti við breytt gildismat. Eins og við vitum eru það þeir sem geta aðlagað sig breyttum ytri aðstæðum sem komast af, en þeir sem sitja fastir í gömlu karlrembugildismati heltast úr lestinni.
Kristján G. Arngrímsson, 1.2.2019 kl. 10:47
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég held að ég geti tekið undir flest af því sem þú segir.
En það sem gerði það að verkum að mér fannst "Klaustursmálið" loksins áhugavert og ákvað að skrifa um það er það sem mætti kalla hin mismunandi "trend" sem nú mætast í málinu.
Þú segir að gildismatið sé að breytast og þolinmæði gagnvart "fyllerískúltúr" og kvenfyrirlitningu sé að hverfa og í stórum dráttum held ég að það sér rétt hjá þér.
En svo kemur enn eitt "trend" inn í blönduna og það er "snjókornastemmingin", að einstaka þinmenn telji sig ekki þurfa að sjá þá sem þeir telja "hafa farið yfir strikið", þeim eigi ekki að geta setið á þingi, stýrt nefndum o.s.frv.
Eða eins og ég las að einhver hefði orðað það að kjörnir fulltrúar geti ekki leyft sér að hafa svona skoðanir, eða eitthvað í þá áttina.
Persónulega lít ég svo á að ef "Dónakallaflokkurinn" vill bjóða fram í næstu kosningum, þá eigi hann auðvitað rétt á því. Ég myndi ekkikjósa hann en tvímælalaust styðja rétt hans til framboðs.
Og myndi hann nota óheflað, orðbragð sem inniheldi eitthvað af kvenfyrirlitningu, sem þeir viðhefðu drukknir í ræðustól á framboðsfundum, en samt ná kjöri, þá er það að mínu mati eitthvað sem einfaldlega verður að hafa sinn gang.
Aðrir þingmenn yrðu að lifa með því.
Slíkar árásir á lýð- og þingræði er nokkuð sem þarf að taka alvarlega að mínu mati.
Það má endalaust rökræða um hvort að einstaka þingmenn eigi að segja af sér eður ei, en á á meðan réttur þeirra er óvefengjanlegur, er það nokkuð sem aðrir þingmenn eiga og verða að virða að mínu mati.
G. Tómas Gunnarsson, 1.2.2019 kl. 13:38
Margir þingmenn hafa reyndar tekið það skýrt fram að þessi réttur til setu sé óvéfengjanlegur og að Klausturmenn verði að ákveða sjálfir hvort þeir sitji áfram.
Enda held ég að upphrópanir um afsagnir og að þingmenn geti ekki leyft sér að hafa svona skoðanir séu nú fyrst og fremst bara retorík. Enginn (amk fáir) telur sig eiga einhverskonar rétt á að Klausturmennirnir hætti á þingi. En auðvitað má fólk segja hvað því finnst að annað fólk eigi að gera, það er bara spurning um málfrelsi.
En annars er ég alveg sammála þér um Dónakallaflokkinn. Ég myndi ekki heldur kjósa hann. Eins og ég kem ekki til með að kjósa neinn af núverandi borgarstjórnaflokkum í næstu kosningum, vegna þess að mér finnst borgarfulltrúarnir þeirra enganvegin standa sig.
Kristján G. Arngrímsson, 1.2.2019 kl. 15:56
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. En mér skylst einmitt að það hafi verið "óháður fræðimaður", sem lét þessi orð falla um að þingmenn geti ekki leyft sér að hafa slíkar skoðanir.
Og jafn sjálfsagt það er að pólítíkusar reyni að ná sér aðeins niður á pólítískum andstæðingum, er það ekki eðlilegt að eðlilegt lýð- og þingræði sé skotspónninn í þeim "æfingum".
Það er einmitt það sem þingmenn hafa vonandi í heiðri, þó að vissulega sé ekki hægt að banna þeim að vera á móti.
Þess vegna finnst mér ástæða til að stinga harkalega niður fæti þegar farið er að tala á þann veg.
Í rauninni er það, að mínu mati, jafnvel alvarlegra en "dónatal".
G. Tómas Gunnarsson, 1.2.2019 kl. 16:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.