Meint frjálslyndi, íhaldssemi og stjórnlyndi

Það hefur all nokkuð verið rætt um frjálslyndi í Íslenskum stjórnmálum undanfarnar vikur. Sumir hafa kallað slíkt "merkimiðapólítík", sem er í sjálfu sér hvorki verra orð eða pólítík en önnur.

En mestu máli er þá að vitað sé hvað "merkimiðinn" stendur fyrir, hvað þýðir frjálslyndi og hver er andstæða þess?

Það virðist meira á reiki, enda langt frá því einfalt að koma með góða, einfalda og endanlega útskýringu á slíkum hugtökum. Líklega má segja að það sé næsta ómögulegt. Það er langt frá því að vera eina pólítíska hugtakið sem slíkt gildir um, og því verður umræðan næsta ruglingsleg á köflum, þar sem margir nota sömu hugtökin, en tala samt um mismunandi hluti.

Það er líka að mínu mati ekki rétt að tala um íhaldssemi sem andstæðu frjálslyndis. Oft byggist íhaldssemi á því að halda í frjálslyndið, á móti því sem oft er nefnt stjórnlyndi sem er hin raunverulega andstæða frjálslyndis (að mínu mati). Andstaða íhaldssemi er frekar byltingar, eða umbyltingarstjórnmál. Og það er auðvitað langt í frá að allar byltingar eða umbyltingar séu til góðs, eða í frjálslyndisátt.  En á þessu má sjá að álitamálin í "hugtakastríðinu" og "merkimiðastjórnmálunum" geta verið mörg.

Hér á eftir ætla ég að nefna nokkur dæmi um frjálslyndi og stjórnlyndi og taka fyrir mál sem hafa verið til umfjöllunar í Íslenskum stjórnmálum og fjölmiðlum. Það ætti ekki að þurfa að taka fram að einungis er um mínar persónulegu vangaveltur að ræða (en þó þykir mér ástæða til) og sjálfsagt eru aðrir með annan skilning á einhverju af þessum dæmum. Við því er í sjálfu sér ekkert að gera.

Aflétting ríkiseinokunar á áfengissölu er barátta háð með frjálslyndi að leiðarljósi. Einokunarrekstur og einkasala ríkisins er stjórnlyndi. Í mínum huga er enging leið til þess að líta á málið með öðrum hætti.

Síðan geta einstaklingar og félagasamtök fært margvísleg rök fyrir stjórnlyndinu. Lýðheilsurök, að ríkið veiti betri þjónustu á landsbyggðinni, sé betur fært um að draga úr eftirspurn o.s.frv.  En það er annar handleggur sem kemur spurningunni um frjálslyndi ekkert við.

Það sama gilti um baráttuna fyrir bjórnum og frjálsu útvarpi á sínum tíma. Það var barátta frjálslyndis gegn stjórnlyndi.

Löggjöf um jafnlaunavottun er dæmi um stjórnlyndi, ekki frjálslyndi. Síðan geta stjórnmálamenn og flokkar fært margvísleg rök fyrir stjórnlyndi sínu, en það breytir ekki eðli jafnlaunavottunar, sem er ákvörðun sem gerir þjóðfélagið stjórnlyndara.

Frjáls innflutningur á landbúnaðarafurðum er dæmi um frjálslyndi. Aukið úrval, aukin samkeppni, minni ríkisafskipti o.s.frv. eykur val neytenda.  Eins og áður er hægt að færa mörg rök fyrir stjórnlyndinu, lýðheilsu og vistfræðirök svo dæmi séu tekin, en það breytir því ekki að innflutningsbönn eru stjórnlynd aðgerð.

En að vilja eingöngu leyfa innflutning frá einu landsvæði eða bandalagi, getur í raun ekki talist verulegt frjálslyndi, þó að ef til vill megi segja að það mjaki málinu í frjálsræðisátt miðað við núverandi ástand á Íslandi. Einnig má halda því að slíkt færi stjórnlyndisákvörðunina aðeins til.

Aðild að Evrópusambandinu getur að mínu mati ekki talist skref í frjálslyndisátt. Vissulega er ýmislegt í lögum og reglugerðum "Sambandsins" sem stendur fyrir frjálslyndi, t.d. frjáls för einstaklinga, vara og fjármagns. En nota bene, það gildir einungis innan sambandsins og frjáls vöruinnflutningur myndi t.d. dragast saman á Íslandi, eins og fram hefur komið í fréttum (frjáls í merkingunni án afskipta hins opinbera í formi tolla og/eða vörugjalda).

Að bæta við yfirstjórn á Íslandi og í raun stóru viðbótar stjórnsýslustigi er ekki til þess fallið að auka við frjálslyndi.

Jafnrétti til handa samkynhneigðum, transfólki og öðrum minnihluta og jaðarhópum er gott skref í frjálslyndisátt.  Að banna einstaklingum (jafnt barnaskólakennurum sem öðrum) að tjá andstöðu sína eða skoðanir um slík málefni, er hins vegar jafn gott dæmi um stjórnlyndi, alveg sama hvaða rök eru fram færð fyrir stjórnlyndinu.

Tjáningarfrelsi, jafnt í ræðu sem riti er einn af hornsteinum frjálslyndisins. En við skulum ekki gleyma því að allir þurfa að bera ábyrgð á skrifum sínum, jafnvel fyrir dómstólum. 

En ég á erfitt með að sjá að bannað verði að vitna í bíblíuna, ja, nema hún eða tilvitnanir í hana verði bannaðar. Það þarf varla að taka það fram að slíkt gæti ekki talist frjálslyndi, alveg burt séð frá því hvaða skoðanir við kunnum að hafa á kristni, nú eða öðrum trúarbrögðum.

Aukin skattheimta er stjórnlyndi. Hið opinbera tekur stærri hluta af sjálfsaflafé einstaklinga og fyrirtækja. Að sjálfsögðu færa margir sannfærandi rök fyrir því að taka eigi meira fé af einstaklingum og fyrirtækjum, en það er ekki frjálslyndi.

Öll skattheimta er stjórnlyndi, en flestir eru sammála um að slíkt sé nauðsynlegt (upp að vissu marki) enda ekki margir sem sjá fyrir sér þjóðfélag þar sem stjórnlyndi hafi verið útrýmt. En það eru mörkin og viðfangsefnin sem deilt er um.

Að breyta um gjaldmiðil er ekki skref í frjálslyndisátt, né heldur stjórnlyndis, það er einfaldlega óbreytt ástand að því leiti að enn ríkir einokun á lögeyri. Skref í frjálslyndisátt væri ef frjálst væri að nota hvaða gjalmdiðil sem er sem lögeyri.  Hvort að mikill áhugi er á slíku er allt annað mál.

Enn og aftur má færa rök með og móti því að skipta um gjaldmiðil, en það hefur að mínu mati ekkert með frjálslyndi að gera.

Að leyfa að gæludýr komi inn á kaffihús og veitingastaði er dæmi um frjálslyndi. Ákörðunin er færð til eigenda viðkomandi staða. Að meina eigendunum að ákveða hvort að reykt sé eða "veipað" á sömu stöðum er dæmi um stjórnlyndi.

Það er ekkert óeðlilegt að skiptar skoðanir séu um bæði málin og lýðheilsa, ofnæmi koma ábyggilega þar við sögu. En að mínu mati á engin rétt á því að veitingamenn reki staði sem eru þeim að skapi, heldur á ákvörðunin að vera veitingamannana sem líklega taka hana út frá eigin viðskiptahagsmunum, enda leggja þeir sitt fé undir.

Það að vilja skipta algerlega um stjórnarskrá er að mínu mati ekki dæmi um frjálslyndi. Það væri frekar dæmi um umbyltingarstjórnmál. Þeir sem vilja hægfara eða engar breytingar teldust þá íhaldsmenn.

Hvorug afstaðan er frjálslyndi eða stjórnlyndi, nema að við teljum að ný stjórnarskrá lögfesti verulega aukið frjálslyndi eða stjórnlyndi í lög.

Þetta eru aðeins örfá dæmi sem ég tek sem hafa verið í umræðunni undanfarnar vikur og ég týni til eftir minni.

En mér sýnist að þeir sem hæst tala um eigið frjálslyndi sé oft á tíðum æði stjórnlyndir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband