2.3.2017 | 13:02
Að mörgu leyti skrýtin umræða - hvað er áfengi?
Það má ganga út frá því sem vísu að þegar Íslendingar ræða um fyrirkomulag á sölu áfengis, eða smásölufyrirkomulag yfirleitt, fer umræðan út um víðan völl og tekur alls kyns hlykki.
Þessi frétt er ágætt dæmi um það. Heilbrigðismálaráðherra Noregs segist hafa áhyggjur af því að Íslendingar kunni að auka frelsi í sölu áfengis.
En í Noregi er bjór seldur í flestum "búðum á horninu" og kjörbúðum. Kjörbúðir selja sömuleiðis bjór í Finnlandi. Það er engu líkara en að heilbrigðisráðherra Noregs telji bjór ekki til áfengis.
Hafa Íslendingar áhyggjur af því?
Það er rétt að hafa í huga nú degi á eftir "Bjórdeginum" að aukið frelsi, hvort sem er í áfengismálum eða smásölu hefur ekki komið af sjálfu sér og nær alltaf mætt harðri andstöðu.
Frumvarp um að leyfa bjór var ekki lagt fram í fyrsta sinn þegar það var samþykkt árið 1988. Ætli það hafi ekki verið nær 10. skiptinu sem slíkt frumvarp var lagt fram. Ef ég man rétt var slíkt frumvarp fyrst lagt fram árið 1960.
Og þær eru orðnar býsna margar breytingarnar á fyrirkomulagi í smásöluverslun sem "þjóðin" hefur klofnað yfir og rifist svo misserum skiptir.
Mjólk ætti ekki heima í kjörbúðum, bækur áttu ekki heima í stórmörkuðum, lesgleraugu átti að banna að selja í stórmörkuðum.
Kjörbúðir máttu ekki vera opnar nema til 6 á kvöldin og áttu að vera lokaðar um helgar. Slakað var á klónni í sumum sveitarfélögum og almenningur mátti náðarsamlegast kaupa sér nauðsynjar í gegnum lúgu.
Svo var auðvitað "blessað bjórlíkið", sem líklega fáir sakna, en auvitað var það bannað nokkrum árum áður en bjór var leyfður á Íslandi. Þáverandi dómsmálaráðherra gerði það árið 1985.
Auðvitað geta allir lifað lífinu án þess að einokun ríkisins sé afnumin á sölu áfengis, hvað þá að áfengi sé selt í matvöru eða öðrum verslunum.
Það sama gildir auðvitað um bjór, nú eða frjálst útvarp og sjónvarp, ekkert af þessu er lífsnauðsynlegt. En þetta er dæmi um frelsi sem hafðist ekki nema með strangri og áralangri baráttu á Íslandi, ekki síst í sölum Alþingis, sem sjálfsagt hafði eitthvað "verulega mikilvægara" að ræða þá, rétt eins og nú.
En reglurnar eru skrýtnar. Þannig er ekkert mál fyrir Íslending sem hefur náð áfengiskaupaaldri, að panta sér hvaða áfengi sem er frá erlendum aðilum og fá það tollafgreitt og sent heim að dyrum (t.d með DHL eða sambærilegri þjónustu) en að íslenskur aðili geti veitt slíka þjónustu (nema ríkið auðvitað) er algerlega fráleitt í hugum svo margra Íslendinga. Hugsanlega gætu þeir pantað á netinu hjá norska "ríkinu", en ég efast um að þeir afgreiddu pöntunina og verðið þar dregur engan að.
Forsjárhyggjugenið er það ríkt í Íslendingum (líklega ríkara í þeim sem leggja fyrir sig stjórnmál en öðrum) að þeim finnst það í góðu lagi að Íslendingar megi kaupa af einkaðilum, svo lengi sem þeir séu erlendis, þó að áfengið komi heim að dyrum á Íslandi.
Það hefur orðið alger sprenging í aðgangi að áfengi á Íslandi undanfarna áratugi. Bæði hefur ÁTVR fjölgað útsölustöðum sínum mikið og veitingastöðum sem selja áfengi hefur fjölgað hraðar en tölu má festa á.
Og vissulega hefur sala á áfengi aukist á undanförnum árum, en það verður varla séð að það sé umfram mannfjöldaukningu og stóraukin ferðamannastraum. Þó þarf að hafa í huga að í fréttinni sem vísað er í er eingöngu fjallað um sölu ÁTVR.
En það gildir um bæði Ísland og Noreg (og reyndar mörg fleiri lönd) að býsna mikill hluti áfengisneyslu sést ekki í innlendum sölutölum, líklega stærri hluti í Noregi.
Því með auknum ferðalögum fylgir meira fríhafnarbús og smygl.
Reyndar er svokallaður áfengistúrismi býsna merkilegt fyrirbrigði, ekki síst á Norðurlöndunum.
Svíar og Norðmenn flykkjast yfir til Danmerkur að kaupa ódýrt áfengi og margir Danir fara yfir til Þýskalands. Í Eistlandi má sjá Finna með drekkhlaðna bíla af áfengi á leiðinni heim. Talið er að allt að 25% af áfengi sem selt er í Eistlandi fari yfir til Finnlands.
Eistlendingar eru síðan í vaxandi mæli farnir að leita yfir til Lettlands, því þar er áfengi enn ódýrara.
Þannig skapar verðlagning og hömlur á sölu áfengis margar skrýtnar sögur.
En það má telja næsta víst að frumvarp um afnám einkaleyfi ríkisins til að reka áfengisverslanir, eða leyfa frjálsa sölu á áfengi verði fellt.
Það er enginn heimsendir. Þannig voru örlög frumvarpa um bjór um áratugaskeið og frjálst útvarp hafðist ekki í gegn án baráttu. Ef ég man rétt greiddi til dæmis enginn þeirra sem á hátíðarstundum töluðu um sig sem "frjálslynda jafnaðarmenn" atvæði með því frelsi á Alþingi.
En það er engin ástæða til að leggja árar í bát, þó að orusta tapist. Það er sjálfsagt að halda málinu og umræðunni vakandi.
Og þó að ef til vill sé ekki ástæða til að leggja frumvarp þessa efnis fram árlega, er ég þess fullviss að sá tími mun koma að einokun ríkisins verði aflétt.
Óttast áhrifin annarsstaðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Samkvæmt íslenskum lögum þá telst drykkur áfengur ef hann inniheldur meira alkóhólmagn en 2,25%. Í "klassískum" bjórlöndum, svo sem Bæjaralandi í Þýskalandi, inniheldur algengasti bjórinn sem drukkin er 3,5-4% alkóhól.
Ég held að slíkur bjór, sem er víst kallaður "lettöl", sé seldur í venjulegum verslunum í Noregi.
Bjór af þessum styrkleika mun ekki vera fáanlegur hér í Ríkinu. Hvers vegna?
Nú ætla ég ekki að vera með neinar fullyrðingar, en mig minnir að við setningu bjórlaganna, hér um árið, þá hafi bann við sölu bjórs af þessum styrkleika ekki verið afnumið. Það sé því enn bannað að selja "léttöl" hér á landi.
Þetta hafi svo allt saman gleymst, því að hver fer að kvarta yfir því að fá ekki nógu veikan bjór?
En kannski er þetta bara rugl í mér.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 13:52
@Hörður Þakka þér fyrir þetta. Ég er nú ekki sérfræðingur í áfengismálum í Noregi, en mig minnir að "hornbúðirnar" og kjörbúðirnar megi selja bjór (og að ég held blandaða drykki s.s. romm í kók eða gin í greip) upp að 4.75% áfengismagni. Svipað er það í Finnlandi.
Ef mig minnir rétt borgaði ég 30 eitthvað NOK fyrir dósina af Carlsberg 500ml.
Ég held að ekki sé bannað að selja bjór á milli 2.25 og 4%, án þess að ég þekki nógu vel til þess. En það þykir ekki "góð kaup", að borga svipað fyrir veikari munngát.
Hitt er svo að áfengisskattar á bjór eru hærri á % en á léttvíni. Það er skrýtin ákvörðun að mínu mati. Í sjálfu sér ætti áfengisskattur að vera 1. tala, margfölduð með styrkleika þess sem verið er að selja.
G. Tómas Gunnarsson, 2.3.2017 kl. 14:14
Við nánari athugun sá ég að þetta var rugl í mér, það er hægt að fá bjór með minna áfengismagni en 4% í Ríkinu.
Hann virðist hins vegar ekki vera mjög eftirsóttur.
Ég bið forláts.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 14:27
Það er kannski skrýtnast að einhverjir haldi að þetta yrði betra fyrir neitandann.
Það er rétt að minna á að hér er ekki samkeppni á smásölumarkaði heldur fákeppni.
ls (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 16:58
@Hörður Þakka þér fyrir þetta. Þetta getur ekki talist alvarleg yfirsjón.
@ls Þakka þér fyrir þetta. Og vöntun á samkeppni er þá líklega best leyst með einokun, eða hvað?
Ég get ekki séð að það yrði verra fyrir neytendur (það eru þó margir neitendur í þessari umræðu). Verð myndi ekki lækka mikið, ef nokkuð, enda svo stór hluti af verði áfengis álögur hins opinbera.
En ég held að samkeppnin yrði ekki til hins verra.
Síðan gætu sérverslanir með áfengi átt góða möguleika og sömuleiðis netverslanir.
Eins og ég minnist á í upphaflega pistlinum, þá er nú þegar löglegt að panta á netinu erlendis frá, hvers vegna ekki frá innlendum aðilum?
Sem betur fer er samkeppni að aukast á íslenskum smásölumarkaði og vonandi færir það íslenskum neytendum kjarabót.
En ef ekki er næg trú á samkeppni á smásölumarkaði, væri þá ekki best að tryggja neytendum besta mögulega kost og koma á einokun ríkisins á matvælum og til dæmis rafeindatækjum?
Viðtækjaverslun ríkisins er eitthvað sem eldri Íslendingar þekkja, en ég held að fáir sakni.
Gerir þú það?
G. Tómas Gunnarsson, 2.3.2017 kl. 17:24
Jú, ég man það.
Ég man líka eftir sjoppu við Snorrabraut, held að hún héti Örnólfur. Þar var hægt að kaupa ýmisslegt út um lúgu á kvöldin, eftir lokunartíma verslana, sem ekki mátti selja í sjoppum. Út af þessu var mikil rekistefna.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 17:46
Það mun vera verðlag á bjór en ekki eitthvað annað sem veldur því að bjór undir 4.5% er ekkert eftirsóknarverður hér.
Það er nefnilega fjáranum erfiðara að verða fullur af öllu undir 4.5% (man eftir því að við vorum að drekka marga lítra af 3.8% öli í Prag, og fannst ágætt, en fæstir ef nokkrir fundu á sér)
Ef maður á að borga 400+ fyrir sopann, þá er eins gott að fá góða vímu úr því. Annars getur maður eins drukkið pilsner.
Ásgrímur Hartmannsson, 2.3.2017 kl. 19:45
Frelsi í áfengssölu yrði afleitt fyrir okkur bjórelskendur og rauðvínssnobbara. Þetta færi eins og með bækurnar, Bónus yfirtæki markaðinn með undirboðum og seldi þá bara Víking og Gull og allir míkróbruggarar dæju drottni sínum eins og bókabúðir eru að gera - hér eru nú engar eiginlegar bókabúðir lengur, þær eru allar lundabúðir með smávegis af bókum með.
Þarna er ég bara að hugsa um eigin hag. Skítt með alkóhólistana og börnin!
Kristján G. Arngrímsson, 11.3.2017 kl. 15:15
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Svartsýnisseggir treysta á hið opinbera og þeir einnig sem telja að það sé hlutverk skattgreiðenda að tryggja sér þægilegt aðgengi að góðu úrvali af bjór og rauðvíni.
Þó að vissulega viti enginn nákvæmlega hvað gerist ef einokun ríkisins á sölu áfengis yrði afnumin, er engin ástæða til þess að ætla að úrval yrði minna.
En það yrði minna í Bónus.
En minnkaði úrval af áfengi þegar einokun ríkisins á heildsölu á áfengi var aflétt? Öðru nær, úrvalið jókst stórlega.
Það er því ekki ólíklegt að sama yrði upp á teningnum ef smásalan færi sömu leið, en ef til vill ekki á einum stað.
Fleiri söluaðilar með meira heildarúrval, rétt eins og einkasala hins opinbera á húsgögnum myndi líklega ekki tryggja gott úrval. En einstaklingar þurfa vissulega að fara víðar.
G. Tómas Gunnarsson, 15.3.2017 kl. 17:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.