Falskar fréttir eiga sér langa sögu

Falskar fréttir eiga sér líklega jafn langa sögu og fréttir, ef ekki heldur lengri.  Alla vegna hafa kvik og flökkusögur farið víða og skjóta oft upp kollinum aftur og aftur.

En falskar fréttir fá kraft sinn og styrk frá þeim fjölmiðlum sem birta þær. Því áreiðanlegri fjölmiðill, því áreiðanlegri fréttir - ekki satt?

Og af því að nafn New York Times er nefnt þarna sem fjölmiðils sem flytur falskar fréttir, þá er það ekki eins dæmi að blaðið sé sakað um slíkt, þrátt fyrir að margir telji það einn áreiðanlegast fjölmiðil veraldar.

Skemmst er að minnast hálfgerðrar afsökunar blaðsins sjálfs eftir forsetakosningarnar, sem og afsökunar "umboðsmanns lesenda" yfir þeim fréttum sem ekki birtust af Hillary Clinton.

En að New York Times hafi birt "falskar fréttir" eða þurft að biðjast afsökunar á þeim á sér býsna langa sögu.

Eitthvert frægasta dæmi um "falskar fréttir" sem birtar hafa verið er einmitt af síðum New York Times og það sem meira er, fréttamaðurinn sem þær skrifaði hafði stuttu áður hlotið Pulitzer verðlaunin.

Til að rifja þær upp þurfum við að fara aftur til fjórða áratugs síðustu aldar (sem er reyndar furðu vinsælt núna).

Þá var Walter Duranty fréttaritari blaðsins í Sovétríkjunum. Hann fullyrti að vissulega væru einhverjir þegnar þar svangir, en harðneitaði að þar ríkti hungursneyð.

Hann gekk það langt að fullyrða að allar fréttir um hungursneyð væru ýkjur eða illkvittinn áróður.

New York Times birti einnig fullyrðingar Duranty´s um að fréttir sem hefðu breskir blaðamenn hefðu skrifað um hungursneyðina í Ukraínu væru falskar og hluti á áróðursstríði Bretlands gegn Sovétríkjunum.  Deildi hann harkalega á hina bresku blaðamenn sem dreifu falsi.

En Duranty var ófeiminn við að lofa Stalín og Sovétríkin og eins og áður sagði fékk hann Pulitzer verðlaunin fyrir greinarflokk þaðan.

Þó varasamt sé að fullyrða um slíkt, vilja margir meina að greinarflokkur Duranty´s og fullyrðingar hans um ástandið í Sovétríkjunum hefi gert Franklin D. Roosevelt, pólítískt kleyft að viðurkenna Sovétríkin, sem hann gerði á sínu fyrsta ári í embætti forseta, 1933.

Það var síðan ekki fyrr en eftir valdatöku Gorbachevs sem fyrir alvöru var farið að huga að hversu alvarlegar rangfærslur Duranty hafði sett fram.

Þegar samtök Kanadabúa af Ukraínskum uppruna höfu svo herferð árið 2003 til að svipta Duranty Pulitzer verðlaunum, lét New York Times óháðan aðila loks rannsaka "fréttamennskuna".

2003 birti New York Times svo langa afsökunarbeiðni vegna falskra og hálf falskra frétta skrifaðar af Jayson Blair sem birst höfðu í blaðinu.

Þetta eru bara tvö dæmi sem ég datt um af tilviljun.

Sjálfsagt má finna fjöldan allan til viðbótar.

Falskar fréttir eru ekki nýtt fyrirbrigði og munu seint hverfa.

En sjálfsagt er það til bóta að þær komist meira í umræðuna og við lærum að lesa fréttir með gagnrýnu hugarfari og halda okkur ekki við eina eða tvær fréttaveitur.


mbl.is Falskar fréttir fara á flug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það mun hafa verið um páskaleytið 2002 að Palestínumenn gerðu uppreisn í bænum Jenin og var að sjálfsögðu mikið fjallað um hana í fréttum.

Ég held það hafi verið þriðjudaginn eftir páska að sagt var frá því í hádegisfréttum ríkisútvarpsins að ísraelski herinn hefði skotið til bana um 50 uppreisnarmenn sem höfðu gefist upp. Þessi frétt sló mig mjög, því man ég svo vel eftir henni.

Síðar kom í ljós að alls höfðu um 50 uppreisnarmenn fallið í þessum bardögum.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 7.2.2017 kl. 20:45

2 identicon

Hvað eru falskar fréttir, og hvaðan færðu vitneskju þína um að þær séu falskar fréttir?

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 8.2.2017 kl. 11:53

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Hörður Þakka þér fyrir þetta. Ég þekki ekki þetta dæmi sem þú nefnir, en það eru vissulega mörg dæmi um falskar fréttir.

Sjónarhorn eru einnig mjög mismunandi.  Þegar 20 einstaklingar horfa á sama atburðinn verða lýsingar þeirra samt sem áður mjög mismunandi.

Það er heldur engin tilviljun að "spunadoktorar" eins og þeir eru stundum kallaðir verða æ fyrirferðarmeiri.

En það er heldur engin skoðanalaus, hvort sem hann er fjölmiðlamaður eður ei.

@Bjarne  Þakka þér fyrir þetta.  Þetta er góður og mikilvægur punktur. Oft er hálfgert "catch 22" að ræða.  Hverjum treystirðu?

En stundum hefur það komið nokkurn veginn óvéfengjanlega í ljós að um falskar fréttir hefur verið að ræða.  Í sumum tilfellum eins og það með Jayson Blair eru hreinlega um játningu að ræða.

En það er alveg rétt að fyrir leikmenn (eins og t.d. mig) er oft aðeins nokkrar mismundandi frásagnir að ræða og í raun engin leið til að komast að hvað er rétt.

Sannleikurinn getur líka verið margslunginn og á honum nokkrar hliðar.

G. Tómas Gunnarsson, 8.2.2017 kl. 13:18

4 identicon

Það er hafið yfir allan vafa að falskar fréttir hafa fylgt manninum frá örófi alda.

Til eru fjölmiðlar sem leggja metnað sinn í að sía í burtu lygina en birta aðeins staðreyndir. Til þess hafa þeir ákveðnar leikreglur, t.d. fleiri en einn áreiðanlegan heimildarmann, ritstjórn sem staðreynir o.s.frv. Þessar varnir hafa þó oftar en ekki brostið. Dæmin frá NYT sýna það. Þegar það gerist bregst áreiðanlegur fjölmiðill við með því að draga lygina eða uppspunann til baka og biðjat afsökunar opinberlega.

Svo eru til fjölmiðlar sem hafa engar slíkar reglur. Orðið "áreiðanlegur" kemur einhvern veginn ekki upp í hugann þegar fjallað er um þá.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 8.2.2017 kl. 14:04

5 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Hörður Þormar. Annaðhvort var prentvillupúkinn að stríða þér eða þig misminnir. Fullyrt var að Ísraelar hefðu myrt 500 varnarlausa palestínska uppreisnarmenn sem hefðu gefist upp. Talsmenn Palestínumanna eins og Saeb Erekat töluðu um þúsundir. En þegar upp var staðið kom í ljós að alls höfðu 50 palestínskir stríðsmenn fallið í bardögum við ísraelska hermenn þar sem mannfall var sömuleiðis umtalsvert. Deilur á milli gyðinga og araba í Mið-Austurlöndum eru fyrst og fremst áróðursstríð. Vestrænir fjölmiðlar eru helsti vettvangur þeirra átaka. Þeir falla næstum undantekningarlaust fyrir ófyrirleitnum lygum. Næstum alltaf á kostnað Ísraela. Munurinn á Ísrael og svæðum Palestínumanna er að á fyrrnefnda svæðinu ríkir fullt ferða- og tjáningarfrelsi fyrir alþjóðlega blaðamenn. Á svæði Palestínumanna melda fréttamenn það sem Hamas og Al Fatah þóknast að sýna þeim og segja frá. Fréttamaður sem dirfist að fara út af línu þessara samtaka má þakka fyrir ef hann kemst lifandi frá því. Hann segir aldrei framar fréttir af því svæði! Sjá: / https://en.wikipedia.org/wiki/Battle_of_Jenin

Sæmundur G. Halldórsson , 9.2.2017 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband