15.11.2016 | 07:10
Þeir sem vita betur en kjósendur
Ég er í sjálfu sér sammála Páli Vali, að ég get hugsað mér margar betri ríkisstjórnir en AC/D(C) stjórnina sem nú er reynt að basla saman.
En á hinn bóginn tel ég að í raun eigi allir þeir flokkar sem nú eiga sæti á Alþingi að geta átt þokkalega "samleið". Það má í raun segja að það sé skrýtið að heyra hið gagnstæða frá einum af þeim fyrrverandi þingmönnum sem einmitt hefur verið svo tamt að tala um "ný vinnubrögð".
En reyndar hef ég stundum fengið það á tilfinninguna að "ný vinnubrögð" séu svolítil "einstefna". Það er að segja að hjá þeim sem má heyra þetta hugtak hvað oftast, þá meina þeir að taka eigi tillit til þeirra sjónarmiða, en þeir hafa engan áhuga á því að taka tillit til sjónarmiða annara.
Því þeir "vita betur".
Ég er ekki frá því að Óttar Proppe skilji hvað ég er að fara.
Hvað varðar svo Bjarna Benediktsson og "Panamaskjölin", þá virðist fyrrverandi þingmaðurinn, Páll Valur Björnsson, ekki skilja til hvers kosningar eru.
Þær eru til þess að kjósendur geti fellt sinn dóm.
Og sá dómur var felldur fyrir u.þ.b. tveimur vikum.
Sá dómur var á þann veg að kjósendur juku við fylgi Sjálfstæðisflokksins, hann er lang stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Í öllum kjördæmum landsins er hann stærsti stjórnmálaflokkurinn. Í kjördæmi Bjarna Benediktssonar hlaut flokkurinn mjög glæsilega kosningu, sem flestir eru sammála því að hafi verið góður persónulegur sigur fyrir Bjarna.
Á sama tíma minnkaði fylgi Bjartrar framtíðar og kjósendur felldu þann dóm yfir þingsetu Páls Vals Björnssonar, að frekari þingsetu af hans hálfu væri ekki óskað.
Að því leiti má sjálfsagt segja að ekki sé verið að óska eftir því að Björt framtíð eigi samleið með einum eða neinum í ríkisstjórn.
En lýðræðið tekur á sig ýmsar myndir. Stærstur hluti kjósenda óskar eftir Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.
Öllum flokkum ber skylda til þess að vinna heilshugar að því að á Íslandi myndist starfhæf ríkisstjórn. Það er eðlilegt að undir þeim kringumstæðum þurfi allir flokkar að gefa eftir.
Oft fer það svo að minni flokkar þurfa að gefa meira eftir en þeir stærri. Það getur varla talist óeðlilegur, ólýðræðislegur gangur.
Ég held að flestir kjósendur skilji það.
En það eru líka margir sem telja sig "vita betur" en kjósendur.
P.S. Vissulega var minnst á Bjarna Benediktsson í "Panamaskjölunum". Engan hef ég heyrt svo mikið sem ýja að því að það hafi verið tengt einhverju ólöglegu. Hefði svo verið má telja líklegt að mun meira hefði verið gert úr hans þætti fyrir kosningar.
Sjálfsagt hefði Ríkisútvarpið ráðið verktaka í málið.
Eiga ekki samleið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Reyndar eru þeir býsna margir sem eru sannfærðir um að Bjarni sé innsti koppur í búri í einhverju kolólöglegu og gróðavænlegu og ekkert gefið upp til skatts.
Þetta eru oft hinir sömu og telja að ef nafn einhvers (eða nafn einhvers sem tengist viðkomandi) er í þessum skjölum er sá annaðhvort dæmdur glæpamaður eða á eftir að dæma hann. Og ef það tekst ekki er viðkomandi í öllu falli algerlega siðlaus og óforbetranlega vond manneskja.
Það má vera að ég sé að ýkja eitthvað, en það er þá því miður frekar lítið ef eitthvað.
ps. Veit náttúrlega ekkert um Bjarna nema það sem maður les (nenni ekki að lesa allt), en hef svosem enga ástæðu til að ætla að hann sé eitthvað óheiðarlegri en fólk almennt. Mér hefur þó ekki sýnst hann vera neitt sérstaklega óheiðarlegur sem stjórnmálamaður ólíkt nokkrum öðrum í þeim bransa.
ls (IP-tala skráð) 15.11.2016 kl. 09:37
Sko, lýðræðið er ekki bara spurning um fjölda greiddra atkvæða heldur líka samtal og hæfileikann til að vera til í að gefa eftir - sbr. bara Óttarr, sem virðist fær um þetta.
Má rifja upp að meirihluti þeirra sem greiddi atkvæði í kosningunum í Bandaríkjunum kaus Clinton. Samt verður hún ekki forseti.
Þannig að þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið flest atkvæði er ekki endilega eðlilegt að hann verði í næstu ríkisstjórn.
Það er reyndar mjög athyglisvert hvernig svo virðist sem Sjálfstæðismönnum virðist þykja flokkurinn sinn vera hinn "eðlilegi" stjórnandi landsmálanna og að ef flokkurinn er ekki í stjórn þá sé ástandið á einhvern hátt óeðlilegt. Þetta er ekki mjög lýðræðislegur hugsunarháttur heldur eiginlega svolítið sovéskur!
Kristján G. Arngrímsson, 15.11.2016 kl. 10:49
Sé ekki betur en að liðsmenn flestra (ef ekki allra) flokka fari létt með að útskýra að kjósendur hafi einmitt verið að kalla eftir að þeirra flokkur fari með stjórnina eða að í það minnsta þeirra sjónarmið eigi að ráða för.
Eina eðlilega stjórnarmynstrið er það sem tekst að mynda. Myndun stjórnar snýst ekki bara um málefni heldur líka traust. Það gæti verið klókt fyrir suma að athuga að því ver sem þú talar um einhvern (einstakling/flokk - ekki stefnuna sem slíka) því erfiðara er fyrir viðkomasndi að treysta þér. Manni þarf ekki að líka vel við einhvern til að geta unnið með honum, en maður þarf að geta treyst honum upp að einhverju marki.
ls (IP-tala skráð) 15.11.2016 kl. 11:42
@ls Þakka þér fyrir þetta. Það eru margir sem álíta að allir sem eru í viðskiptum séu "crooked". Hitt er einnig að það er ekkert ólöglegt við að eiga aflandsreikning, eða koma fyrir í Panamaskjölum.
Ég man t.d. ekki eftir því að mikið hafi verið gert með að nafn forseta ASÍ hafi komið fyrir þar, án þess að mikið fjaðrafok hafi orðið.
Ég er þeirrar skoðunar að allir flokkar á Íslandi eigi að geta átt "samleið", í raun er ekki það langt á milli þeirra.
@Kristján Þakka þér yfirr þetta. Vissulega er skipting atkvæða mjög mikilvæg, en það er rétt að það er ekki það eina sem skiptir máli, það er alveg rétt.
Og það er hefur enginn sagt að engin stjórn geti verið án Sjálfstæðisflokks, ég held að það hafi verið meira um það að sagt sé að það sé óeðlilegt að næsta ríkisstjórn innihaldi Sjálfstæðisflokkinn og allir þeir sem tala um meira "samtal" og meira "samstarf", segja jafnframt að þeir hafi ekkert að ræða við hann.
En það er ekkert óeðlilegt að litið sé til stærsta flokksins. Sömuleiðis held ég að það sé vegna gengis þeirra í nýafstöðnum kosningum sem að svo margir telja að samstarf D og V sé æskilegt þegar litið er til niðurstaðnanna.
Hvað varðar niðurstöðuna í Bandaríkjunum, þá má vissulega horfa á heildaratkvæðafjöldann, en það sem skiptir máli er að stjórnarskrá þeirra, byggist á því að ríkin (sem eru nú 50) séu að velja sér sameiginlegan forseta. Kjörmannakerfið enda bundið í stjórnarskrá, en það eru ríkin sjálf sem ákveða hvernig þeim er úthlutað.
G. Tómas Gunnarsson, 15.11.2016 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.