Hófstillta, hófsama, frjálslynda miðjufólkið

Ég var að þvælast um netið þegar ég sá þessa stuttu frétt á Eyjunni. Þar er verið að ræða um hvar miðjan sé í íslenskum stjórnmálum og hverjir þá miðjumenn - gjarna bætt hófsamir fyrir framan.

Þar lýsir Ögmundur Jónasson yfir undrun sinni á því að Viðreisnarfólk tali um sjálft sig með miðjufólk, en bætir því við að sjálfur hafi hann álitið sig "frjálslyndan miðjumann".  En það var auðvitað einmitt frasinn sem Viðreisn fór fram undir í nýafstöðnum kosningum.

En það er líklega einmitt meinið, "holir frasar" eru teygðir og togaðir yfir hin ólíklegustu sjónarmið.

Hver hugsar um sjálfa/n sig sem harðsvíraða "öfgamanneskju"?

Sjálfur hef ég ég alltaf litið á sjálfan mig sem hófstillinguna holdi klædda og frjálslyndur er ég fram úr hófi.

En samt á ég hvorki fulla samleið með þeim Ögmundi Jónassyni, eða Pawel Bartozek í pólítík.

Samt hef ég í gegnum tíðina verið sammála Ögmundi á stöku sviðum, og borið fyrir honum mikla pólítíska virðingu. En ég get samt ekki stillt mig um að velta fyrir mér, hverjir eru í þeim fjölda sem er vinstra megin við Ögmund í íslenskri pólítík ef hann er staddur á miðjunni?

Eins er það með Pawel, mér hefur í gegnum tíðina líkað við æði margt sem hann hefur sett fram, bæði í blöðum/vefritum og útvarpi.  Ekki síst vegna þess að hann setur sínar skoðanir fram með föstum en hófstilltum hætti. 

Ég kann vel að meta slíkt.

En ég hef ekki litið á Pawel, ekki frekar en Ögmund, sem miðjumann í íslenskri pólítík.

Ef til vill er þetta angi af "algórhytmabómullinni" sem er að skjóta upp kollinum í umræðunni. Þar sem allir eru umkringdir jákvæðum skoðanasystkinum og allir utan "bómullarinnar" eru lítt þenkjandi "öfgamenn". Allt "gott fólk" er á miðjunni. En það er einmitt vaxandi tilhneyging í umræðunni, að sýna æ minna tillit til andstæðra skoðana og æ minna umburðarlyndi.

Ég er ekki dómbær á það, ég nota enga af þessum "samfélagsmiðlum", mér finnst þeir ekki henta mér, hef takmarkaðan áhuga á því hvað kunningjar mínir, hvað þá "frægt fólk" gerir í frítíma sínum eða snæðir. Líklega er eitthvað af "neanderdalsgenum" í mér.

En þegar upp er staðið, skiptir ekki meginmáli hvar á hinu pólítíska litrófi skoðanir eru staðsettar, það er lítið vandamál fyrir flesta að mynda sér skoðun á því hvort þeir séu sammála eður ei, jafnvel þótt pólítísk gps hnit liggi ekki fyrir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég hef grun um að orðið "hófsamur" (eins og í "hófsamur miðjumaður") sé oftar en ekki skrauthvörf fyrir "skynsamur" og að þeir sem telja sig vera og segjast vera hófsamir miðjumenn líti svo á að þeir séu fyrst og fremst skynsamir menn - og hinir séu þá álitnir óskynsamir (þá gjarnan kallaðir harðlínumenn eða afturhald).

Samanber manninn sem hóf gjarnan mál sitt á orðunum: Eins og mér finnst, og rétt er ...

Kristján G. Arngrímsson, 5.11.2016 kl. 20:04

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Þetta er eins og margt annað umdeilanlegt, þó að ég sé ekki frá því að þú hafir nokkuð til þíns máls (sjáðu nú bara hvað ég er "hófsamur" :-)

En ég reikna þó með að einhver mismunandi svör kæmu ef við myndum spyrja stóran hóp.  Líklega væru þeir býsna margir sem "vissu nákvæmlega um hvað væri að ræða, en kæmu því illa í orð".

En ég myndi sömuleiðis segja að hófsamur sé sá sem sættir sig við að hægara sé farið, kann að meta áfangasigra o.s.frv.

Það mætti þá líklega segja að mikið hafi borið á "harðlínufólki" í íslenskum stjórnmálum síðustu vikurnar, sem ekkert vilja gefa eftir í "hugsjónum" sínum og keppast við að lýsa því yfir að samstarf við þennan eða hinn komi ekki til greina.  Eða hvað?

En það er þetta með skrauthvörfin, sem mér finnast spila æ stærri sess í íslenskum stjórnmálum.

Fyrir nokkru varð "frjálslyndi" að einhverjum "kóda" yfir það að vilja ganga í Evrópusambandið.  Í þessum kosningum reyndu sumir að nota hugtök eins og alþjóðlega eða vestræna samvinnu yfir það sama, "Sambandsaðild".

Þannig heldur þetta líklega áfram og allir geta notað sömu "frasana", en talað um mismunandi hluti.

G. Tómas Gunnarsson, 6.11.2016 kl. 09:57

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er sosum gömul saga að "frjálslyndi" sé margrætt orð. Einn og sami maður getur t.d. verið frjálslyndur í efnhagsmálum en íhaldssamur í þjóðfélagsmálum. Stundum er sagt að þannig hafi stefna Sjálfstæðisflokksins upphaflega verið. Kannski er Viðreisn flokkur sem vill frjálslyndi í báðum þessum málum.

Skrauthvörf eru mjög vinsæl í pólitík.

Þetta með að Píratar hafi útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokk hafði með að gera stjórnarskrármálið og auðlindargjald. Sjálfstæðis er á móti báðu, en þetta eru grundvallaratriði í stefnu Pírata. Reyndar virðast allir flokkar vilja aukið auðlindagjald, nema náttúrulega Sjálfstæðisflokkurinn sem er hagsmunabandalag útgerðarmann sem vilja bara græða á sameign þjóðarinnar. (Talandi um þjófnað!)Þannig að það er hætt við að Sjallar endi útí horni og nái ekki að mynda stjórn með neinum útaf þessum málum. (Fyrir svo utan að hver vill vera í stjórn með flokki sem inniheldur öfgasinna á borð við Óla Björn, Sigríði Andersen og Ásmund Friðriksson?)

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 10:12

4 identicon

Eitt einkenni pópúlisma er að eiga ekki í vandræðum með að benda á hverjir séu vondu kallarnir og hvað allt væri auðveldara án þeirra...

ls (IP-tala skráð) 6.11.2016 kl. 11:10

5 identicon

Kannski rétt að skýra af hverju ég nefni pópúlisma, en hann hefur oft verið nefndur sem andstæða hófsemi og jafnvel miðjunnar á hægrivinstri skalanum.

ls (IP-tala skráð) 6.11.2016 kl. 11:27

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

 Is er væntanlega að meina Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem að hætti lítilla barna kennir öðrum um allt sem miður fer hjá sér, og tal Sjálfstæðismanna um hvað vinstri flokkar séu mikil ógn við stöðugleikann.

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 11:48

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Og talandi um skrauthvörf og önnur veigrunaryrði, er einhver ástæða fyrir því að þú, Tommi, segir "sumir" þegar þú ert að tala um Viðreisn og Is talar undir rós um Pírata?

Eruð þið hrædd við eitthvað?

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 11:51

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Is er greinilega hrædd við að koma fram undir nafni og mynd - eða finnst hún svo merkileg að henni finnst að við minni spámenn þurfum ekki að vita deili á henni.

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 11:53

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Frjálslyndi er í sjálfu sér ekki margrætt orð. Það sem þú lýsir er fyllilega eðlilegt og orðnotkunin sú sama. Frjálslyndi á móti stjórnlyndi (sem er betra orð en íhaldssemi). Þannig er engin tvíræðni fólgin í því að vera frjálslyndur á einu sviði en stjórnlyndur á öðru. Orðnotkunin er sú sama og auðskiljanleg. Það er meira að segja hægt að vera frjálslyndur í viðhorfi til verslunar (almennt) opnunartíma o.sv.frv, en vera stjórnlyndur í viðhorfi til einnar vörutegundar, s.s. áfengis. Slíkt mun vera býsna algengt viðhorf á Íslandi og í sjálfu sér ekkert út á það að setja. En skilningurinn á orðinu frjálslyndi er sá sami.

En hvað það hefur svo að gera með að vilja "Sambandsaðild" Íslandi til handa, er allt annað og mun óljósara, ég sé ekki tenginguna þar á milli.

Að sjálfsögðu er öllum frjálst að velja sér samstarfsaðila í pólítík, nú eða hafna þeim ef svo ber undir.

En það ber (að mínu mati) ekki vott um hófsemi, samstarfsvilja, lipurð, sáttfýsi eða löngun í ný vinnubrögð, ef viðmótið er að ekkert skuli gefa eftir.  En auðvitað eru sjálfsagt aðrir sem líta svo á.

Er það ekki merkilegt ef meiri sáttfýsi og eftirgefanleiki er að finna hjá flokknum þar sem allir einstaklingarnir sem þú kallar "öfgafólk" (frekar ósmekklegt að mínu mati) er að finna?

Og vissulega átti útgerðin nokkur frábær ár, þar sem næstum allt fell henni í hag. Lágt gengi, lækkandi olíuverð, hátt afurðaverð og svo kom makríllinn.

En hinn almenni Íslendingur getur farið að hugga sig við að hagnaður útgerðarinnar hefur farið minnkanndi og mun líklega gera það enn frekar. Hátt gengi krónunnar, fall pundsins, lokun Rússlands og almennt lækkandi afurðaverð (m.a. vegna bágs efnahags í "Sambandslöndum" mun sjá til þess.

En sem betur fer hafa margar útgerðir notað þessi gríðarlega góðu ár til þess að fjárfesta í nýjum skipum og nýjum tækjabúnaði sem mun gera þeim kleyft að auka framleiðni og fá hærra afurðaverð með auknum gæðum.  En það eru fyrst og fremst allra stærstu fyrirtækin sem munu ná að halda uppi þokkalegum hagnaði.

Og það er þetta með skrauthvörfin. Ég tek oft þann pólinn í hæðina að þegar ég ræði mál sem ég tel þess í raun ekki máli skipta hver það er sem er gerandi, að ræða þau án þess að tala um "persónur eða leikendur", ef svo má að orði komast.

Vissulega voru þessi tilteknu skrauthvörf lang alengust hjá frambjóðendum Viðreisnar, en ég myndi þó telja að þeeir hafi ekki verið einir um það. Reyndar er öll umræða um inngöngu í Evrópusambandið skringileg og skrauthvörfin holdi klædd. "Viðræðusinnar", því svo gott sem engin vill kannast hreint út við að vilja ganga í "Sambandið", tala um Evrópu, þörf fyrir meiri Evrópu, að eiga samstarf við Evrópu o.sv.frv.

Þetta er eiginlega spaugilegt, en að sama skapi háalvarlegur, vísvitandi og blekkjandi hugtakaruglingur.

Án þess svo að það klagi upp á mig, hvers vegna ertu svona upptekin af því hvað einstaklingar heita, eða heita ekki? Er ekki yfir drifið nóg að hafa eitthvað að segja og fyrir aðra að hlusta eftir því?

Og önnur spurning, út af hverju ertu þess fullviss að ls (LS) sé kvenkyns?  Sjálfur hef ég alltaf haft það á tilfinningunni að um karlkyn sé að ræða, þó að það skipti mig reyndar engu máli.  Ég enda annálaður hófsamur jafnréttissinni (en ekki femínsisti)  LOL

@ls  Þakka þér fyrir þetta. Ég er nú reyndar einn af þeim sem hef talið "popúlisma" gjarna hafðan fyrir rangri sök. Nú til dags er látið eins og enginn munur sé á "popúlisma" og lýðskrumi.  Því er ég ekki sammála.

Og nota bene, þeir sem tala niðrandi um "popúlisma" tala ekki um að þeir séu boðberar "elítisma", eða hvað við ættum að kalla það.

"Populismi" á í mörgum tilfellum rétt á sér, þó á slíkum nótum sé hægt að slá marga feilstrengi rétt eins og öðrum.

G. Tómas Gunnarsson, 6.11.2016 kl. 13:36

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Og vittu til, að þegar illa fer að ganga hjá útgerðinni verðum við hin lítið vör við að. Vegna þess að tekjusveiflur útgerðarinnar hafa lítil áhrif á aðra en útgerðina sjálfa vegna þess að hún hefur hingað til haldið öllum gróða í eigin vasa.

Enda með talskonu sem segir skatta vera þjófnað, þannig að við vitum hvert viðhorfið er á þeim bænum til sameiginlegra sjóða.

Umræddir öfgasinnar eru einfaldlega kallaðir það af mér vegna þess að skoðanir þeirra hafa birst opinberlega og eru til marks um það. Ásmundur hefur t.d. viðrað skoðanir sem fara mjög nærri því að vera rasismi. (Og ég verð víst að viðurkenna að hafa persónulega óbeit á Óla Birni).

En þetta með nafnleysið - það er bara spurning um kurteisi að kynna sig áður en maður tekur til máls. Annars er eins og maður annaðhvort álíti sig svo fræga(n) að þurfa ekki kynningu eða þorir ekki að koma fram undir nafni af einhverjum ástæðum.

Annars er ég eiginlega sammála þér um popúlisma. Það má vel til sanns vegar færa að Píratar séu popúlískur flokkur og ég hef ekkert við að athuga að því sé haldið fram.

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 15:46

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta.  Þó blessunarlega séu komnar fleiri stoðir undir íslenskt efnahagslíf, er engin hætta á öðru en þjóðin finni fyrir því þegar tekjur útgerðarinnar skreppa saman.

Tekjur sjómanna minnka samsvarandi, tekjur hafna vítt og breitt um landið minnka, fjárfesting útgerðarinnar minnkar, þjónustutekjur í kringum hana minnka, skattar sem hún greiðir minnka  o.s.frv.

Ég get lofað þér því að minnkandi tekjur útgerðarinnar hafa áhrif á Íslandi.

Enn og aftur verð ég að biðja þig að nefna dæmi um að skattar séu nefndir "þjófnaður", það hef ég hvergi séð, en þú virðist telja að nóg sé að segja það nógu oft til að það sé rétt.

En hinsvegar er ofbeldi í raun alltaf í bakgrunninum, þegar skattar eru innheimtir.  Þetta geta í raun ekki talist frjáls framlög.

Mín persónulega skoðun er sú að í raun finnist engar öfgar í íslenskri stjórnmálaumræðu, þó að sífellt sé verið að reyna að telja fólki trú um slíkt til að ata andstæðingin "auri".

En auðvitað eru öfgar illmælalegar, rétt eins og miðjan og réttlætið.

En þetta kemur líka inn á það sem rætt er nú, um þá sem lifa í "algórhytmabómullinni" og sjá flesta sem eru fyrir utan "jáhópinn" sem öfgamenn.

Persónulega óbeit get ég lítið hjálpað þér með, nema að benda þér á að láta hana ekki naga þig að innan.

Nafn segir mér ekkert, nema auðvitað ef ég þekki viðkomandi. Persónulega finnst mér það ekki skipta meginmáli á netinu, enda getur það verið "falsað" eða uppdiktað án þess að ég eigi möguleika á því að sannreyna það.

Þess vegna fer ég einfaldlega eftir því sem viðkomandi segir.

G. Tómas Gunnarsson, 6.11.2016 kl. 17:52

12 identicon

Það er kannski rétt að taka fram að þegar ég tala um pópúlisma er ég að tala um lýðskrum. 

Það er margt fleira sem einkennir lýðskrum, oft er t.d. öfundin virkjuð.

ls (IP-tala skráð) 7.11.2016 kl. 08:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband