Flokkakerfið, hægri og vinstri

Eins og eðlilegt má teljast er mikið rætt, spáð og spegúlerað bæði fyrir og eftir kosningar. Alls kyns spámenn, sérfræðingar og fræðimenn spá í spilin, rifja upp söguna og reyna að rýna í framtíðina.

Það er alltaf eitt og annað sem mér finnst orka tvímælis í umfjöllun fjölmiðla.

Sem dæmi um það er þegar talað er eins og Samfylkingin sé aðeins arftaki Alþýðuflokksins (sem er víst að nafninu til ennþá). Sannleikurinn er að Samfylkingin er samsteypa og áframhald fjögurra flokka.

Það er: Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Þjóðvaka, og Kvennalista.  Auðvitað má segja að Þjóðvaki hafi verið klofningur úr Alþýðuflokki, en það er þó viss einföldun, rétt eins og með flesta "klofninga".

En Samfylkingin tók við kefli frá öllum þessum flokkum, og tók yfir skuldir þeirra og eignir. Þannig eru sjóðir Alþýðubandalagsins (sem þeir erfðu frá gömlu sósíalista/kommúnistaflokkunum) í vörslu Samfylkingarinar, en ekki Vinstri grænna (í það minnsta ef ég hef skilið rétt).

Og fjölmargir félagar og frammámenn úr Alþýðubandalagi, Þjóðvaka (sem höfðu ekki allir komið úr Alþýðuflokknum) og Kvennalista gengu í Samfylkinguna.

Ég held að þegar saga Samfylkingar séu skoðuð, sérstaklega hin síðari ár, sé niðurstaðan að forystufólk flokksins hafi jafnvel frekar átt sinn pólíska "uppruna" í Alþýðubandalaginu en Alþýðuflokknum.

Mér þykir stórundarlegt hve margir fræðimenn kjósa svo gjarnan að líta fram hjá þessu.

Reyndar má auðveldlega halda því fram upprunalega séð, að Vinstri græn séu klofningur úr Alþýðubandalagi eða Samfylkingu. Svona eftir við hvaða tímapunkt er miðað.

Það er auðvitað langt frá lagi að Vinstri græn hafi fengið í "heimanmund" allt fylgi Alþýðubandalagsins.

Einnig kemur mér það spánskt fyrir sjónir að heyra æ oftar talað um Framsóknarflokkinn sem hægriflokk.  Vissulega eru hægri og vinstri óskýr hugtök, og jafnframt má segja að í Framsóknarflokknum finnist fleira en ein "vistarvera", ef svo má að orði komast.

En í mínum huga hefur Framsóknarflokkurinn verið vinstrisækinn miðjuflokkur.  Raunar oft nær því að teljast vinstriflokkur en miðju.

Vissulega hefur flokkurinn gjarna átt í samarfi við Sjálfstæðisflokkinn allar götur síðan 1995. Síðan þá hefur flokkurinn ekki átt ríkisstjórnarsamstarf við aðra flokka, og verið með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn ríflega 15 ár af þessum 21.

En það gerir Framsóknarflokkinn ekki að hægriflokki. Þó að flokkurinn hafi talið Sjálfstæðisflokkinn betri samstarfskost en vinstriflokkana, færir það flokkinn ekki yfir ásinn frá vinstri til hægri.

Ekki má til dæmis gleyma því að Framsóknarflokkurinn starfaði í R-listanum frá upphafi til enda.  Hann ennfremur veitti minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hluleysi sitt 2009, en líklega má segja að það "samstarf" hafi ekki verið gott og margir Framsóknarmenn ósáttir við það viðmót sem þeir fengu.

Mér þykir því skrýtið þegar svo algengt er að tala nú um "hægriblokk" (DB) og "vinstri blokk" (VASP) með Viðreisn sem flokkinn á "miðjunni".

Persónulega finnst mér að ekki rétt.

Em ef til vill er ekki síst að leita skýringa á þessum "skringilegheitum" í þeirri staðreynd að af þeim stjórnmálafræðingum sem fjölmiðlum þykir hvað oftast henta að leita til, er óeðlilega hátt hlutfall af fyrrverandi varaþingmönnum Samfylkingar og einnig stuðningsmönnum Evrópusambandsins.

Það tvennt skekkir líklega all verulega þá mynd sem haldið er að almenningi í fjölmiðlum.

Svo er það spurningin hvað er vinstri, hvað er hægri og hvað er miðja í íslenskum stjórnmálum?

Það má halda því fram að miðjan sé síkvik, færist til og sé erfitt að henda reiður á. Einnig skiptir sjónarhorn þess sem talar (eins og mín) líklega einnig einhverju máli.

En það er vert að hafa í huga að þó að einhver flokkur sé til hægri við einhvern annan flokk, gerir það hann ekki að hægri og flokki, nú eða öfugt.

Hin klassíska íslenska skilgreining frá vinstri til hægri, væri Alþýðubandalag/Vinstri græn (ásamt forverum alþýðuubandalagsins), Alþýðuflokkur/Samfylking, Framsóknarflokkur, og loks Sjálfstæðisflokkur.  Framsóknarflokkur var talinn miðjuflokkur, A-flokkarnir (VG og S) voru taldir vinstri flokkar Sjálfstæðisflokkurinn hægri flokkur.

Þetta var þó vissulega einföldun, enda í flestum flokkum hinir ýmsu "armar" sem sköruðust svo að mörkin á milli flokka voru ákaflega óljós.

Það var enda ekki út af engu sem hugtök eins og "framsóknarkommar" urðu til, en það vísaði bæði til hluta Framsóknarflokks og hluta Alþýðubandalags/Vinstri grænna.

Sjálfstæðisflokkurinn átti einnig sinn "framsóknararm" eins og það var stundum kallað, en ef til vill má segja að stærstur hluti flokksins hafi verið og sé "kristilegir íhaldsmenn".  Frjálshyggjuarmur varð nokkur áberandi (þó að deila megi um hvað stór hluti flokksins hann hafi verið) á 9. áratug síðustu aldar og enn eimir eitthvað eftir af honum

Alþýðuflokkurinn skiptist í vinstri og hægri krata, og svo mátti einnig finna afbrigði sem margir kusu að kalla "steinsteypukrata" (ef til vill má segja að sá síðasti af þeim hafi horfið nú, alla vegna úr framlínunni, með Kristjáni Möller).

Kratarnir sköruðust þannig bæði við Alþýðubandalag/Vinstri græn og svo aftur Sjálfstæðisflokk og mátti jafnvel á stundum segja að þeir sóttu að honum frá hægri.

"Bjúrókrata" mátti svo að sjálfsögðu finna í öllum flokkum.

En hvernig horfir þetta í dag?

Lengst til vinstri eru Vinstri græn (nema auðvitað að við hlustum á Alþýðufylkinguna, þá eru þau líklega auðavaldsflokkur og stéttarsvikarar), síðan kemur Samfylkingin (hún færði sig því sem næst alfarið af miðjunni eftir 2009), síðan Píratar (þeir byrjuðu sem býsna blandaður flokkur, en og það horfði við mér, tók vinstri hlutinn því sem næst algerlega yfir all löngu fyrir þessar kosningar, þegar valdabaráttan jókst í réttu hlutfalli við gengið í skoðanakönnunum).

Þá kemur Framsóknarflokkurinn og á eftir þeim Björt framtíð, og nota bene, við erum enn á vinstri vængnum.

Loks koma svo Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn og mál líklega deila um hvor er meira eða minna til hægri, það færi líklega mest eftir hvaða vigt væri sett á hina mismunandi málaflokka.

Frá mínum bæjardyrum séð erum við rétt farin að snerta hægrikantinn.

En svo getum við líka hreinlega leitað að "íslensku miðjunni" og þá finnum við að hún liggur einhverstaðar á bilinu Píratar/Framsóknarflokkur/Björt framtíð.

Að sjálfsögðu er um all mikla einföldun að ræða, það er erfitt að meta hluti eins og stjórnlyndi (sem finna má í öllum flokkum), frjálslyndi (sem er sömuleiðis að finna í öllum flokkum), alþjóðahyggju (sem sumir halda að þýði að vilja ganga í "Sambandið", en aðrir skilgreina á allt annan hátt), og svo má lengi áfram telja.

Eitt af vandamálunum við nútíma stjórnmálaumræðu, er að hugtök eru á reiki, og það er ekki óalgengt að margir aðilar noti sömu slagorðin, frasana og hugtökin, en séu í raun að tala um ólíka hluti.

Og ef til dæmis eitthvert hugtak er óumdeilt, eða því sem næst, er algengt að reynt sé að toga það yfir eins margt og mögulegt og jafnvel ómögulegt er.

P.S. Bara til að frýja mig frá augljósum "yfirhellingum" argra og "pólítískt réttsýnna" einstakling, er rétt að taka fram að pistilinn byggir ekki á neinum vísindalegum eða félagslegum rannsóknum, heldur eingöngu minni og tilfinningu höfundar.

 

 


mbl.is Kosningaþátttaka aldrei minni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið til í þessu.

Held að Framsóknarflokkur sé vinstri/miðju flokkur sem hefur verið í hægri sveiflu með velþóknun kjósenda sinna a.m.k. fasta fylgis eða kjarnans, vegna þess að þeir álitu nauðsynlegt að tryggja gangverk hagkerfisins umfram allt.

Það verk var að komast fyrir horn og stefndi í að hægt væri að fara að gefa á garðann til vinstri þegar óþolinmæði annara vinstrimanna varð svo yfirþirmandi að minsta ójafna gat orðið og varð að djúpri lægð óánægju með Framsóknarflokkinn þrátt fyrir að hafa leitt glæstan leiðangur gegn erlendu fjármálavaldi.

Panamaskjalahneykslið var semsagt marklaust yfirvarp, hin raunverulegu öfl voru þessi gamla vinstri/hægri togstreita hvar Framsókn skaðaðist alvarlega af samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn. 

En ólíkt Samfylkingu þá geta Framsóknarmenn huggað sig við allnokkurt mannfall með því að baráttan var ekki til einskins!  ;-) 

ps. Inn í þetta fléttast svo ýmsir straumar alþjóðlegrar fjölmiðlunar og fleiri þátta svo sem togstreitu við fjármálaöfl sem og nýungar í samfélagsmiðlun. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.11.2016 kl. 21:44

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Bjarni Gunnlaugur Þakka þér fyrir þetta. Þessi stutti pistill er auðvitað gríðarleg einföldun og aðeins um að ræða mínar hugleiðingar sem þrykkt var á lyklaborðið á fáum mínútum, þó að þær hafi gerjast í huganum all miklu lengur.

En pólítík er síbreytileg. Á síðast hluta síðustu aldar færðust stjórnmál all mikið til hægri, ef svo má að orði komast. Það var alþjóðleg þróun sem má rekja til áhrifa Thatcher og Reagans (auðvitað voru þau aðeins framlína og nöfn sem hentugt er að setja fram, en þúsundir standa að baki) og svo auðvitað fall kommúnismans í A-Evrópu.

Á Íslandi hafði þessi þróun að sjálfsögðu áhrif, ekki síst svo í gegnum velgengni Blair í Bretlandi.  Hann tók upp þráðinn þar sem Thatcher hafði skilið við hann, þó að vissulega hafi orðið all verulegar áherslubreytingar.

Það er svo merkilegt að staðan í dag er sú að þessi sigursælasti leiðtogi Verkamannaflokksins, er líklega sá einstaklingur sem "vinstrið" í Bretlandi, hatar hvað ákafast, þó að hann slái ekki Möggu við.

En "Blairisminn" hafði mikil áhrif á Íslandi, sérstaklega á Samfylkinguna, sem líklega spannaði vel yfir miðjuna hægra megin á köflum.

En gömlu "Allaballa" genin tóku hægt og rólega yfir, sérstakleg eftir 2009, og ef marka má lýsingar "innanhúsmanna" fylgdu innanmeinin með.

Hvað varðar Framsóknarflokkinn, held að ég "hliðrun" hans til hægri hafi síst verið meiri en stjórnmálanna almennt á þeim tíma.

En vissulega átti "fjármagnið" inngrip í flokkinn, en það sama má segja um alla flokka á Íslandi á "bóluárunum" sem við köllum svo nú (en hétu allt annað í "den".

Vissulega komu skringilegar hugmyndir frá flokknum, eins og um "alþjóðlegu fjármálamiðstöðina" en það flutu margar skrýtnar hugmyndir um á þessum árum.

En skörunin á milli flokka er og hefur alltaf verið mjög mikil að mínu mati.

G. Tómas Gunnarsson, 2.11.2016 kl. 09:14

3 identicon

Þegar ég tala um velþóknun kjósenda eða mögulegra kjósenda framsóknar til hægri sveiflunnar þá er ég að ræða um það sem gerðist eftir hrunið. 

Ekki þá vitleysu sem var í gangi fyrir hrun, alþjóðlegu fjármálamiðstöina og það allt. 

Auðvitað er hrun kommúnismans víða um lönd og þó aðalega í Rússlandi og fylgilöndum það sem hefur mest verið að róa undir í pólitík erlendis síðustu þrjá áratugina eða svo og skvetturnar hafa vissulega náð hingað. 

Þegar menn áttuðu sig á hversu ómögulegur kommúnisminn var þá opnaðist smuga fyrir nýfrjálshyggjuna eins og það hefði verið einhver sönnun fyrir hennar tilvist að kommúnisminn féll, sem það var auðvitað ekki. 

Annars merkilegt hvernig ómöguleiki eins er alltaf notaður til að sanna gildi einhvers annars sem er jafn ómögulegt.

Það að Blairisminn dróg Samfylkinguna til hægri sannar t.d. ekki að V.G. hafi eitthvað stórkostlegt erindi í íslenska pólitík.  Innanmeinin eins og þú kallar það fylgja þeim eftir sem áður. 

Það að fjármálabóla sprakk hér sannaði ekki að rétt væri að fylgja hverskyns órum og dellumakki hinna og þessara sérvitringa svo sem eins og að sækja um aðild að ESB. 

Svo gæti einhver látið sér detta í hug að vinstri hafi hrunið og hægri sem kom í kjölfarið hafi síðan líka hrunið og þar með sé komin sönnun fyrir því að kjósa anarkisma (Pírata). 

Vinstri og hægri verða samt áfram ágætis skilgreiningar og trúlega áfram þær skárstu til að skilgreina pólitíkina. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.11.2016 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband