Er ekki annað hvort Össur eða Steingrímur J. að segja ósatt?

Í raun er ekkert málefni í komandi kosningum mikilvægara en afstaðan til Everópusambandsins. Þó einhver málefni kunni að þykja mikilvægari á styttri tíma mælikvarða, er ekkert sem skiptir Íslendinga meira máli þegar til lengri tíma er litið.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að skiptar skoðanir séu um málið, en nauðsynlegt að það sé rætt af hreinskilni og sem mestar og réttastar upplýsingar séu á boðstólum fyrir almenning.

Að ýmsu leiti má segja að þar vanti upp á. Vissulega getur hver og einn farið og leitað sér upplýsinga, en fæstir hafa þó tíma til þess. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem starfa við það að afla upplýsinga og mynda sér skoðun (s.s. alþingismenn) geri það af einurð og miðli upplýsingum með sannleika og hreinskilni að leiðarljósi.

Það vantar þó mikið upp á þar, og ekki síst í kringum þar aðlögunarviðræður sem þegar hafa farið fram. Enginn þátttakandi þar hefur gert neina þá tilraun sem ég hef orðið var við, til að upplýsa almenning um framgang viðræðnanna. Allra síst um hvers vegna þær sigldu í strand.

En þegar ég gaf mér tíma til þess að horfa á umræðuþátt RUV um utanríkismál, vakti það mikla athygli mína að Össur Skarphéðinsson talaði á þann veg að Ísland hefði verið hársbreidd frá því að ná "glæsilegri" niðurstöðu í kaflanum um sjávarútvegsmál, þegar viðræðum við "Sambandið" var frestað í janúar 2013. Umræðan um "Sambandið" hefst þegar u.þ.b. 32:30 min eru liðnar af þættinum).

Þetta stangast á við allt sem ég hef áður heyrt og lesið.

Ég hef engan heyrt segja að "sést hafi til lands" í sjávarútvegsmálum og hyllt hafi undir "glæsilega niðurstöðu".

15. janúrar 2013 sagði Össur Skarphéðinsson í samtali við Morgunblaðið:

Ég tel til dæmis að það sé lýðræðislegt af okkar hálfu að búa svo um þetta mál að ný ríkisstjórn geti sett mark, ekki bara á framvindu málsins, heldur sérstaklega á samningsafstöðuna í þeim tveimur málaflokkum sem eru langmikilvægastir,“

Þá talar hann um að ekki einu sinni samningsafstaðan sé að fullu ákveðin.  Þegar spólað er næstum fjögur ár fram í tímann, lá við að niðurstaða væri fengin, þrátt fyrir að engar viðræður hafi farið fram í millitíðinni.

Í frétt Morgunblaðsins stóð ennfremur:

Í samtali við mbl.is sagði Össur þetta ekki vonbrigði fyrir Samfylkinguna, enda hefði alltaf verið rætt um að hægja á ferlinu í kringum kosningarnar. Hann leyndi hins vegar ekki vonbrigðum með hvernig sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin hefðu farið. Heimatilbúinn vandi hefði tafið för í landbúnaði og makríldeilan átt sinn þátt í að tefja sjávarútveginn.

Í þingræðu sagði Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Mitt mat var það að á árinu 2012, a.m.k. langt fram eftir því ári, voru engin þau tímamót uppi sem kölluðu á að endurskoða viðræðurnar, hvað þá slíta þeim. Það var m.a. þannig að allt það ár fram á haust bundu menn vonir við að sjávarútvegskaflinn opnaðist. Eitt af mínum fyrstu verkum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í janúar 2012 var einmitt að fara til Brussel og leggja ekki síst áherslu á það að Evrópusambandið drifi sig í að leggja fram rýniskýrslu sína þannig að við gætum farið í að ræða sjávarútvegsmálin eða sjá a.m.k. á spil Evrópusambandsins í því. Það var ekkert nýtt af okkar hálfu. Við höfðum lagt á það mikla áherslu. Í raun og veru er það sem er grætilegt eftir á að hyggja að okkur skyldi ekki takast að koma sjávarútvegskaflanum og eftir atvikum landbúnaðar- og dýraheilbrigðisköflunum lengra áfram þannig að við sæjum eitthvað meira hvar við stæðum í þeim efnum. Ég var og er mjög spenntur fyrir því að sjá það. Það er í sjálfu sér það sem eftir er til að við fáum einhverja mynd af því í hve ríkum mæli eða hvort Evrópusambandið býður upp á einhverjar þær sérlausnir fyrir okkur í þessum efnum sem gætu verið athugunarvirði.

Það voru að mínu mati engin tilefni til að gera brot í þetta ferli á árinu 2012 fyrr en leið að lokum þess og eftir ríkjaráðstefnuna í desembermánuði. Þá var orðið ljóst að við yrðum engu nær þegar kæmi að kosningunum enda biðum við átekta fram yfir ríkjaráðstefnuna í desember. Í beinu framhaldi af því tóku stjórnarflokkarnir að ræða saman um að úr því sem komið væri yrði að horfast í augu við að mikið meira mundi ekki gerast í þessu ferli fyrir kosningar. Þá væri lýðræðislegast að hægja á því (Forseti hringir.) og láta næsta kjörtímabil um að takast á við framhaldið.

Sem sagt, beðið var eftir og vonir stóðu til að að sjávarútvegskaflinn opnaðist. Vonast var eftir að "Sambandið" legði fram rýniskýrslu.

Ekkert hafði í raun gerst í hvað varðar sjávarútvegsmálin.

En í október 2016 talar Össur eins og aðeins hafi vantað herslumuninn á því að "glæsileg niðurstaða" kæmi í sjávarútvegskaflann og "sést hafi til lands".

En þeir geta ekki báðir verið að segja satt Steingrímur J. og Össur.

Annar hvor hlýtur að vera að ljúga.

Reyndar ber Steingrími J. ágætlega saman við Össur árið 2013.  Það er aðeins Össur árið 2016 sem kemst að allt annari niðurstöðu.  Því liggur því beinast við að álykta að Össur sé ósannindamaðurinn.

Nema auðvitað að Össur hafi staðið í samningaviðræðum á bak við Steingrím.

En því miður var því sem næst allt viðræðuferlið á þessa lund. Samfylkingin keyrði upp einhverja óútskýranlega bjartsýni og virtist segja því sem næst hvað sem er, bara að viðræðurnar gætu haldið áfram og áfram væri hægt að blekkja kjósendur.

Aldrei hefur verið rætt hreinskilnislega um hvers vegna viðræðurnar sigldu í strand, og enginn er krafinn svara um hvernig þeir hafi hugsað sér að taka upp þráðinn á ný.

Enn og aftur er meginþráðurinn óhófleg bjartsýni Samfylkingar og trú á "töfralausnina", enn á ný skiptir raunveruleikinn engu máli.

Nú berst "olíumálaráðherrann" fyrrverandi fyrir pólítísku lífi sínu og allt er leyfilegt.  Líka að segja að sjávarútvegskaflinn hafi verið á "síðustu metrunum" og stefnt hafi í "glæsilega niðurstöðu".

Það er óskandi að kjósendur sýni það á morgun, svart á hvítu hvað þeim finnst um slíkan málflutning.

P.S. Hér að neðan er svo stutt myndband, þar sem þáverandi stækkunarstjóri Evrópusambandsins tekur Össur í stutta kennslustund um hvernig aðlögunarviðræðurnar virka.

Þetta telst líklega vera "klassík".

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bottom lin er að engin kafli er varðaði framsal ríkisvalds og þar með orku og auðlindamál var opnaður, né mátti opna fyrr en heimild fyrir því væri gefin í stjórnarskrá. Rýniskýrslan fekkst aldrei birt af þeirri einföldu ástæðu að Össur og co vildu það ekki. Rýniskýrslur um alla aðra kafla voru birtar aður en þeir voru opnaðir.

Málið situr einfaldlega fast á því að það vantar heimild til framsal ríkisvalds í stjórnarskrá. Þetta er aðlögun en ekki samningaviðræður. Við tökum jafnt og þétt upp regluverkið og um það er ekkert samið eins og margift hefur komið fram.

Þegar nýju stjornarskrártillögurnar voru sendar Feneyjanefndinni til umsagnar, kom hún með dauðadóm sinn á þeim drögum með skýrslu 2013. Þar með féllu bæði umsóknin og stjórnarskrármálið um sjalft sig. Eitt helsta gagnrýniefni

Feneyjanefndarinnar var það að of margir fyrirvarar væru á þessu framsali. ESB hélt að sé rýniskýrslunni frægu og sýnir ekki á spilin fyrr en búið er að breyta stjórnarskránni þar um. Annað væri brot á núverandi stjornarskrá og reyndar landráð strangt til tekið.

Hér er skýrsla Feneyjanefndarinnar. Þú getur borið matið við stjórnarskrárdrögin lið fyrir lið. Kafli 111, er þarna relevant í þessu einstaka atriði.

http://www.althingi.is/pdf/venice.coe.pdf

Jón Steinar Ragnarsson, 28.10.2016 kl. 22:16

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo það er 100% að Össur lýgur eins og hann er langur til og fabúlerar um afslætti og samninga sem aldrei hafa verið í boði, né leyfiegir. Orð Stan Fule í myndbandinu undirstrika það.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.10.2016 kl. 22:21

3 Smámynd: Elle_

Fyrsta setning pistilsins er alveg hárrétt frá mínum bæjardyrum. Hvað gæti verið mikilvægara til langframa en fullveldið?

Jón Steinar stoppar vonandi ekki skýringarnar á stjórnarskrárvitleysunni, ætluð til framsals fullveldis af öllum þessum litlu stjórnlausu byltingarflokkum. Flokkum sem kunna ekki að meta stöðugleika, eða skilja hann.  Og hvar laug Össur ekki?

Elle_, 28.10.2016 kl. 23:12

4 Smámynd: Elle_

Það ætti líka að varða við lög að stjórnmálamaður blekki og ljúgi opinberlega að þjóðinni eins og Össur Skarphéðinsson. Varði það við lög, hví er maðurinn enn í stjórnmálum?

Elle_, 28.10.2016 kl. 23:40

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er eiginlega grundvallarspurning fyrir okkur sem viljum ekki inn, að það verði útskýrt á hverju strandaði.  Ég er eiginlega orðin hundþreytt á því að rífast við minn elskulega maka um málið.  Hann trúir ekki þegar ég segi að það sé ekkert að kíkja í pakkadæmi.  Hann vill fá skýr svör, en þau eru bara ekki til. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2016 kl. 01:56

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það þarf ekkert að vera að velta sér upp úr því á hverju strandaði. Það vita allir landsmenn, einnig Össur Skarphéðinsson, þó hann vilji ekki kannast við það.

Það kom skýrt fram á sínum tíma, bæði frá sumum þáverandi stjórnarliðum sem og fulltrúum ESB, að opnun á sjávarútvegs og landbúnaðarköflum fengist ekki nema með þeim skilyrðum að aðlögun þeirra hæfist. Þetta er ófrávíkjanleg regla samkvæmt Lissabon sáttmálanum og ætti að vera öllum landsmönnum kunn. Hins vegar hafði þáverandi ríkisstjórn ekki umboð til að hefja aðlögun þessara tveggja kafla og því strönduðu viðræður.

Hitt er ljóst að ef vinstri öflun komast aftur til valda munu þau tryggja að slík kvöð verði ekki á nýjum viðræðum, enda útilokað að hefja þær að nýju nema með því að hefja aðlögun þessara tveggja kafla.

Össur getur fabúlerað að vild, lygin frá honum getur samt aldrei orðið að sannleik.

Gunnar Heiðarsson, 29.10.2016 kl. 08:35

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir innleggin öll sömul.

@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Þú hefur verið óþreytandi - og átt þakkir skildar - fyrir að kafa ofan í mál. Óþreytandi við að halda á lofti staðreyndum, sem því miður virðast sjaldgæfar í þessari umræðu. Fréttamenn virðast t.d. almennt ekki ráða við það.

@Elle Þakka þér fyrir þetta. Það er ekkert stærra mál til lengri tíma litið, en því miður er ekki líklegt að það hvefi. Um langa framtíð munu verða til einstaklingar og flokkar sem munu berjast fyrir "Sambandsaðild". Því er áríðandi að halda vöku sinni eins og sagt er.

@Ásthildur Þakka þér fyrir þetta. Ég mæli með að þú útvegir þér Aquis (aðlögunarskilmála) "Sambandsins", pakkir þeim fallega inn og stingir undir jólatréð þetta árið handa þínum elskulega.  Segðu honum að þetta sé eini pakkinn sem hann fái að kíkja í. En eyðileggðu ekki fyrir honum jólin og gefðu honum líka eitthvað skemmtilegt.  :-)

@Gunnar Þakka þér fyrir þetta.  Því miður verð ég að vera ósammála þér.  Það er langt í frá að allir landsmenn viti þetta og því miður vantar "almennilega krufningu" á aðlögunarferlinu fram að því að það sigldi í strand.

Fjölmiðlafólk á Íslandi virðist ekki ráða við þetta.  Það ræður heldur ekki við að spyrja þá sem endilega vilja halda áfram með viðræður, hvernig það þeir vilji koma viðræðum af stað aftur?  Með því að gefa eftir skilyrði utanríkismálanefndar sem voru samþykkt á Alþingi?

Ef það er hnikað frá þeim, gildir samþykkt Alþingis ekki lengur (að mínu mati) og þá er um að ræða nýjar viðræður sem ekki er "restartað", heldur byrja frá grunni.

En það er svo margt sem er því miður óþægilega óskýrt í þessu ferli, lygarnar og blekkingarnar hafa verið svo margar.

Og eins og ég sagði áður, engin fer yfir málið og kryfur það til mergjar.

G. Tómas Gunnarsson, 29.10.2016 kl. 11:39

8 identicon

Það var reyndar búið að fást í gegn að ekki þyrfti að hefja aðlögun fyrr en búið væri að samþykkja aðild. En þingsályktunin sem umsóknin byggði á bannaði að samið yrði um framsal á yfirráðum yfir sjávarútveginum og því var Evrópusambandið ekki tilbúið að ræða sjávarútvegsmál.

ls (IP-tala skráð) 29.10.2016 kl. 13:20

9 Smámynd: Elle_

G. Tómas, nei ég meinti ekki að fullveldið sjálft væri stærra til langframa, hugsunin var að það gætu komið upp ógnarstór og stærri mál, ja eins og stríð, og við mundum ekki endilega kalla fullveldið stærsta málið á meðan. 

Elle_, 29.10.2016 kl. 14:28

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls Þakka þér fyrir þetta. Það kann að hafa fengist í gegn á einhverjum tíma að aðlögun hæfist ekki, en það stóðst ekki.

IPA styrkirnir voru til breytinga (aðlögunar) á stjórnkerfi Íslands. Það er tómur miskilningur að þeir séu "happdrættisvinningur" eða gjöf.  Þeir eru ætlaðir til að aðlaga umsóknarland að Evrópusambandinu.  Enda töldu ýmsir í VG sig hafa loforð um að IPA styrkir yrðu ekki þáðir.

@Elle Þakka þér fyrir þetta. Á langri tímalínu er ekkert mikilvægara fyrir þjóð en sjálfstæði og fullveldi. Alls kyns aðrir hlutir koma og fara, en sjálfsákvörðunarrétturinn er ákveðinn grundvöllur. Rétt eins og hjá einstaklingum má endalaust deila um hvort að hann hafi verið rétt notaður, eða hvort hafa hefði mátt málum öðruvísi. En að íbúarnir, þegnarnir, kjósendur, hafi valdið (þó að þeir framselji það þingmönnum í lýðræðisríkjum) skiptir mestu máli.

G. Tómas Gunnarsson, 29.10.2016 kl. 14:50

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha góður, sennilega geri ég þetta bara. cool

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2016 kl. 17:00

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Is.

Þingsályktunin gat ekki annað en bannað framsal, hverju nafni sem það nefnist af þeirri einföldu ástæðu að stjórnarskráin meinar það. Þessvegna er allt óðagotið og lýðskrumið um að breyta stjórnarskránni. Eini tilgangurinn er að ná í gegn því að leyfa framsal ríkisvalds. Allt annað er moðreykur og blekking. 

Það átti að vera búið að breyta stjórnarskránni með handafli en Framsókn neitaði að styðja bráðabirgðarstjornina 2009 nema að hún setti á stofn stjórnlagaþing. Það fokkaði forgangnum upp og þessvegna öll þessi lygaflækja með stjornarskrána síðan.

Í hundraðasta sinn... Skoðaðu þennan hlekk frá upphafi árs 2009. Þarna byrjaði stjornarskrærplanið. ESB umsóknin og stjórnarskrármálið er sama málið og hefur verið sama málið frá upphafi þessa.

http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492

Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2016 kl. 18:43

13 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð grein og það ætti í dag að taka upp málið á grundvelli þess að hann framdi Landráð og eða meira að segja á enski Grand treason. 

Valdimar Samúelsson, 30.10.2016 kl. 09:50

14 identicon

Þó það sé augljóst að það þyrfti að breyta stjórnarskránni til að Ísland gæti gengið í ESB hindraði það ekki að samræðurnar hæfust. Það mál stoppaði því ekki einn kaflann fremur en annan. Stjórnarskráin bannar alveg jafn valdaafsal í sjávarútvegsmálum og öðrum.

Ástæðan fyrir fyrivaranum í þíngsályktuninni var pólitísk; hún hefði ekki verið samþykkt nema hann væri þarna.

Og þó að þáverandi stjórnvöld hafi byrjað að breyta ýmsu til að liðka fyrir aðild (þ.m.t. að breyta stjórnarskránni), breytir það því ekki að ESB hafði veitt undanþágu frá þeirri reglu að aðlögun færi fram jafnhliða og yrði í reynd lokið að loknum viðræðum.

Þetta er merkileg undanþága þó hún breyti ekki eðli viðræðnanna, þ.e.a.s. segja að fara yfir hverju þyrfti að breyta í íslenskum lögum og hvernig það yrði gert til að þau samræmdust lögum ESB (en ekki að búa til samning glæsilegan eður ei til að samþykkja eða fella).

ls (IP-tala skráð) 31.10.2016 kl. 09:54

15 Smámynd: Valdimar Samúelsson

ls (IP-tala skráð) 31.10.2016 kl. 09:54. Ef ég man rétt þá er allt tal um að koma landi og þjóð undir önnur lög en okkar Landráð. Það er búið að viðurkenna að EES dæmið var Landráð og meira segja sagði Össur það í beinni útsendingu. Kíktu á Kafla X í hegningalaga bálkanum. Þar er líka sagt að landráð fyrnist ekki. 

Valdimar Samúelsson, 31.10.2016 kl. 10:20

16 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þarna er þetta mjög skýrt. Það var ofbeldi á Alþingi. Mönnum var hótað og þeim bolað í burtu, Það voru svik og svona mætti telja áfram. Það eru nokkrar greinar sem koma undir X kafla um Landráð.  X. kafli. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt

Valdimar Samúelsson, 31.10.2016 kl. 10:37

17 identicon

Kannski rétt að taka fram (til að fyrirbyggja misskilning) að ég vinn ekki hjá Ríkissaksóknara og hef þess vegna ekkert um það að segja hvort einhver er lögsóttur fyrir eitt eða annað.

Líklega rétt að taka líka fram að enginn þeirra stjórnmálamanna sem nefndir eru á nafn í pistlinum eru á einhverjum sérstökum vinalista hjá mér, eins og má reyndar segja um alla aðra stjórnmálamenn líka.

Finnst reyndar undarlegt að þurfa að taka þetta fram.

ls (IP-tala skráð) 31.10.2016 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband