21.10.2016 | 16:30
Kastljósið: Ný þróun í kosningabaráttu á Íslandi?
Á miðvikudag sá ég auglýsingar um komandi Kastljós og skildi þær eiginlega svo að spilað yrði í þættinum í upptaka af samtali Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde.
Það var því svo að í dag (föstudag) að leitaði ég uppi Kastljósið á vef RUV og horfði á, nokkuð spenntur.
Mér fannst þátturinn óttalegt þunnildi þegar upp var staðið. Ekkert nýtt kom fram sem ekki hefur verið í "umræðunni" í langan tíma, en það verður þó að segjast að það var undirbyggt nokkru betur.
En frétt af vef RUV segir þó líklega meira en margt annað að í raun er umfjöllun Kastljóss ekki byggð á samtalinu sjálfu, en frásögn er alltaf vafa orpin, heldur meira á sögusögnum:
Í umfjöllun Kastljóss kom fram að Sturla Pálsson, starfsmaður Seðlabankans, hefði borið því við í skýrslutökum hjá Sérstökum saksóknara að Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, hefði tjáð sér að hann hefði sagt Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, að lánið væri tapað áður en það var veitt og að ákvörðun um fyrirgreiðsluna hafi verið Geirs.
Orðalag eins og "...hefði tjáð sér að hann hefði sagt..." segir í þessu tilfelli allt sem þarf.
En að mörgu leiti er það meginmál að einhver hefur lekið til Kastljóss yfirheyrslu Sérstaks saksóknara yfir starfsmanni Seðlabankanns.
Það verður að ég tel að teljast nýmæli í kosningabaráttu á Íslandi að lekið sé gögnum af þessu tagi.
Persónulega tel ég enga leið til þess að ætla að tímasetning slíks leka sé tilviljun. Ég er einfaldlega ekki það trúaður á tilviljanir, þó að ég neiti því að þær séu til.
Það er þarf þó varla að efa (eða hvað) að nú upphefjist heljarinnar leit (sem verður lýst í næstum beinni í fjölmiðlum) að þeim sem hefur lekið afriti af umræddri yfirheyrslu.
Nema auðvitað að starfsmenn sérstaks saksóknara telji að brotist hafi verið inn í tölvukerfi embættisins.
En það styrkir þá tilfinningu að ekki hafi verið um tilviljun að ræða, að "kantmennirnir" voru tilbúnir. Það stóð ekki á "ýtarupplýsingum", ættarupplýsingum og jafnvel hvar einstaklingar búa. Aðrir "fréttamenn" voru reiðubúnir með pistla sína og sagan spann nokkuð vel.
En af því að ég sagði að um nýmæli væri að ræða í kosningabaráttu á Íslandi, má ef til vill rifja upp að nýlega birti RUV frétt um nýmæli í íslenskri kosningabaráttu, það er að segja að upp hefðu skotið kollinum, "nafnlaus" myndbönd.
Í því tilfelli fannst RUV aðalfréttin felast í "sendiboðanum", en ekki því sem hann hafði að segja.
Alla vegna fannst RUV engin frétt í því að haldið væri fram að Samfylkingin væri í húsnæði sem væri í eigu félaga sem lögheimili væri í erlendum skattaskjólum. (Ég er einn af þeim steingervingum sem ekki er á Facebook, en googlaði og fann myndböndin á YouTube og má finna það er varðar Samfylkinguna hér neðst á síðunni).
Skyldi RUV koma með frétt um "lekanýjungina" í íslenskri kosningabaráttu?
Þannig eru þær ýmsar nýjungarnar í íslenskri kosningabaráttu þessa dagana.
En af því að "kantmennirnir" voru svo áhugasamir um búsetu og ættartengsl, má velta því fyrir sér hvers vegna þeir tóku hugleiðingar sínar ekki lengra og víðar?
Þannig veltu þeir því ekkert fyrir sér að fréttamaður Kastljóssins væri fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar, afi hans hefði verið þingmaður og ráðherra fyrir Alþýðubandalagið, og að fyrir fáum árum hefði yfirmaður hans kallað hann "óþverra" (það er að segja af ég man það orðrétt). Sá fyrrverandi yfirmaður mun víst vera í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir þessar kosningar.
En þetta á auðvitað ekki að skipta neinu máli, þannig má líklega kasta "vafa" yfir ættartengsl flestra Íslendinga.
Og að sjálfsögðu bera fréttamenn ekki kala til nokkurs manns, hvað þá stjórnmálaflokks, það jaðrar auðvitað við "geðveiki" að halda slíku fram.
Að sjálfsögðu er þessi "uppljóstrun" hrein tilviljun, rétt eins og koma Evu Jolie og "drottningarviðtal" við hana í Kastljósi stuttu áður.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:33 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef orðið svolítið var við það, að það er algengt hjá fólki sem hefur aldrei unnið við fjölmiðla að vita ekki að fjölmiðlun er fag - prófession - og að í henni gilda ákveðin viðmið sem velflest fréttafólk heldur sig við.
Þeir sem af einhverjum ástæðum vita þetta ekki halda náttúrulega að allt sem fram kemur í fjölmiðlum og snertir það (eða vini þess) óþægilega hljóti að vera samsæri sem eigi sér persónulegar rætur. Þeir skjóta sendiboðann, sem er vel þekkt viðbragð við óþægilegum fregnum. Eða ófrægja hann. Þekktasta dæmið um það á síðari tímum er auðvitað Sigmundur Davíð, sem varð uppvís að ósannindum og óheilindum og ýmsu fleiru óhugnanlegu (skítlegu eðli aðallega, svo en sé notaður gamall frasi) og hefur síðan kennt fjölmiðlum um.
Að kenna öðrum um er vel þekktur varnarháttur barna - og sumra fullorðinna sem hafa ekki náð siðferðisþroska, eins og t.d. Sigmundur Davíð. Og fjölmiðlar eru alltaf þægilegur og nærtækur blóraböggull.
Kristján G. Arngrímsson, 21.10.2016 kl. 17:43
Það er misskilningur hjá Kristjáni að verið sé að ráðast að fréttamannastétt þegar hún eru gagnrýnd fyrir að búa til sviðsetningu. Það eru engin börn að segja frá því að aðför hafi verið gerð að forsætisráðherra Sigmundi Davíð í Kastljósi. Fjölmiðill sem á að vera hlutlaus á ekki að elta menn á röndum út alla skagastrendur. Ríkisútvarpið hefur tekið að sér pólitíska uppfræðslu þegar það á í hlutarins eðli að halda sig til hlés.
Frjálsir fjölmiðlar eru þess umkomnir að taka við hlutverki RÚV. Menn vita hvar þeir hafa þá. Ríkið á ekki að vera að vafstra í því sem aðrir geta sinnt.
Sigurður Antonsson, 21.10.2016 kl. 21:11
Það er einmitt meginhlutverk fjölmiðla að veita stjórnvöldum aðhald með linnulausri gagnrýni á þau. Fjölmiðlar eiga að vera í stjórnarandstöðu.
Þetta með meinta aðför að Sigmundi Davíð er vandræðalegt bull í stuðninsmönnum hans. Foringjahollir skósveinar illa haldnir af meðvirkni og foringjadýrkun reyna að kenna fjölmiðlum um því að í þeirra bláu augum er foringinn ófær um að gera eitthvað rangt.
Kristján G. Arngrímsson, 21.10.2016 kl. 21:17
Ekki er ég foringjaholl Framsóknarflokks en met Sigmund forsætisráðherra sem var neyddur í afsögn;Í dag kaus ég utankjörfundar Sjálfstæðisflokkinn. Aðförin að Sigmundi er gerendum til skammar,en sumum finnst ekkert að því að svifta menn ærunni fyrir peninga. Ég vona að frjálsu sjónvarpsstöðvarnar sýni myndband Guðbjörns Jónssonar,helst fyrir kosningadaginn,Það sýnir okkur rangfærslur ódámanna.
Helga Kristjánsdóttir, 22.10.2016 kl. 02:32
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Við höfum nú áður rætt um hlutleysi fjölmiðlafólks, og hvort að það sé yfirleitt mögulegt. Ég man ekki betur en þú segðir hafa misjafnar skoðanir á því á tíðum.
En sagan geymir mörg tilfelli af hlutdrægni fjölmiðla, í allar áttir.
En á stundum eru fjölmiðlamenn í erfiðri stöðu. Góður fjölmiðlamaður gerir sér líklega grein fyrir því, að ef hann fær sendan "leka" eins og þann sem Kastljósið byggði á, að verið er að "nota hann".
En í annan stað veit hann að hægt er að gera frétt úr þessu sem vekur athygli (reyndar var lítið um nýja fleti í þessu, nema ef til vill trúnaðarbrotið, enda var það fyrst og fremst sem "kantmennirnir" stukku á).
En þá á fjölmiðlamaðurinn auðvitað val. Lætur hann nota sig? Bíður hann örlítið með fréttina og vinnur hana frekar og kemur að fleiri sjónarhornum? En þá er auðvitað hætta á að "lekinn" fari víða og aðrir nái "skúbbinu".
Að hvaða leiti var "lekafréttin" í Kastljósi dæmi um að fjölmiðill veiti stjórnvöldum aðhald?
Þeir "leikendur" sem enn eru í sínum stöðum, eru Sturla og Már í Seðlabankunum. En að sala Seðlabankans á veðinu væri umdeild, var aðeins nefnd í framhjáhlaupi. Svona sem aukaatriði.
@Sigurður Þakka þér fyrir þetta.
@Helga Þakka þér fyrir þetta. Hvaða myndban Guðjörns Jónssonar ert þú að tala um?
Ef einhver hefur hlekk á það þætti mér gaman að sjá það.
G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2016 kl. 05:48
Já það er á bloggi Gunnars Heiðarssonar kallað "Nöldrarinn" Það er að minnsta kosti 1/2 tíma eða jafnvel 3 korter að horfa á.....
Helga Kristjánsdóttir, 22.10.2016 kl. 06:52
Hann Gunnar hefur skrifað tvo pistla á undan þeim sem ég nefni,hann heitir í tilefni dagsins.
Helga Kristjánsdóttir, 22.10.2016 kl. 07:08
@Helga Þakka þér fyrir þetta. Ég leit yfir myndbandið á "handahlaupum". Það líður fyrir býsna þvælulega framsetningu.
Það verður auðvitað að segjast að þó að Sigmundur Davíð hafi ekki framið neitt lögbrot, þá situr hagsmunaskráningin alltaf eftir.
En það sem skiptir máli er viðbrögð hans. Þau voru ekki til fyrirmyndar, en það voru vinnubrögð RUV ekki heldur.
En það hefur marg oft orðið að viðbrögð verða aðalatriði, þó að í raun hafi aldrei neitt rangt átt sér stað.
Það er lexía sem allir stjórnmálamenn ættu að stúdera.
En ég tók eftir því einng að í Kastljósinu (sem ég horfði aldrei á á sínum tíma) stærir blaðamaður sig af gögnunum, líklega gögnunum sem hann síðar sagðist ekki hafa undir höndum.
G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2016 kl. 09:46
Tommi: Fjölmiðlafólk er ekki óskeikult frekar en annað fólk. Og misjafn sauður í mörgu fé. Það breytir ekki almennu reglunni. Ég verð þaraðauki að segja að RÚV er eini fjölmiðillinn á Íslandi sem getur talist sæmilega alvöru. Allir aðrir eru píp.
Ég geri ráð fyrir að Seðlabankamálið núna hafi verið dæmi um það þegar kemur leki sem er af mörgum ástæðum ekki hægt annað en að nota - í þessu tilviki varðar hann umræddasta og dularfyllst símtal Íslandssögunnar, þar sem allar minnstu upplýsingar eru bæði fréttnæmar og eiga skilyrðislaust erindi til almennings. Þannig að það var að mér finnst eðlilegt að nota þetta.
En ég fatta ekki alveg hvað nákvæmlega var vont við að það kæmi fram sem þar kom fram. Hver var að nota Kastljósið til að koma höggi á hvern?
Kristján G. Arngrímsson, 22.10.2016 kl. 10:05
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það er auðvitað rétt að það er misjafn sauður í mörgu fé. Og sauðum hefur ekki farið fækkandi í fjölmiðlun á Íslandi, þvert á móti.
En fjölmiðlun verður alltaf erfið og sérstaklega erfið í litlu og fámennu landi eins og Íslandi.
Tengslin eru mikil og stjórnmálamenn og fjölmiðlafólk oft á tíðum í nokkurs konar "hlaupa í skarðið" og engin leið á sjá neinn mun á þessum tveimur hópum.
Ef fyllstu hlutlægnisaðferðum væri beitt væri staðan erfið á íslenskum fjölmiðlum. Hve margir fréttamenn væru þá t.d. þess umkomnir að fjalla um pólítíska baráttu síns fyrrverandi yfirmanns og þess flokks sem hann býður sig fram fyrir? Bara svona lítið dæmi.
Ef þú heldur að tímasetning lekans sé tilviljun, þá ertu einfaldari en ég hélt Kristján.
Í sjálfu sér er það sem kom fram í Kastljósinu "gamlar fréttir", en frekar sett fram til að "skapa andrúmsloft" ef svo má að orði komast. Minna á hrunið, og svo ýja að því sem aldrei kemur fram. Um að eitthvað gruggugt hafi verið á sveimi og halda á lífi mýtunni um "ónýta Ísland". Eitthvað sem þú ættir að kannast nokkuð vel við Kristján.
Ef til vill var stærsta fréttin að starfsmaður Seðlabankans hefði rofið trúnað. Enda voru "kantmennirnir" reiðubúnir með ættartölu eiginkonunar, hvar hún byggi og að Bjarni Ben væri bæði frændi hennar og nágranni.
Ég hef reyndar sagt það við þig áður, bæði hvað þig persónulega varðar og vinstri menn "almennt". Að þegar þið komist í þrot reynið þið að koma Davíð Oddssyni einhvern veginn í umræðuna. Það á við hér sem oft áður, enda hefur sterkara sameiningartákn aldrei fundist fyrir vinstri vænginn.
G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2016 kl. 10:28
Ég held að jafnvel ég sé orðinn leiður á DO. Og mér fannst líka eins og upplýsingarnar í Kastljósinu væru DO í hag fremur en hitt.
Annars fínn leiðari í Kjarnanum í dag sem segir líklega það sem segja þar - amk. mun betur en ég gæti sagt það:
http://kjarninn.is/skodun/2016-10-21-ef-thu-ert-ad-kvarta-yfir-fjolmidlum-tha-ertu-liklega-ad-tapa/
Kristján G. Arngrímsson, 22.10.2016 kl. 12:18
En nei, ég var ekki að halda því fram að tímasetning lekans hafi verið tilviljun. Engu að síður getur verið réttmætt að birta þær upplýsingar sem lekið var.
Kristján G. Arngrímsson, 22.10.2016 kl. 12:23
Og líka sammála því að vinstri vængurinn hefur aldrei fundið sér slíkt sameiningarafl sem DO, enda held ég að kannski sé það hluti af eðlismuninum á hægri og vinstri pólitík að vinstrimenn eru ekki eins foringjahollir og hægri menn.
Það samræmist því að frjálslyndi er jafnan kennt við vinstrið.
Persónulega myndi ég ekki vilja hafa sterkan leiðtoga og væri til í að fórna töluverðu til að komast hjá slíku. Ein meginástæða þess að ég ætla að kjósa Pírata er að þeir virðast forðast foringjamiðun - svo kemur bara í ljós hvort þeir standa við það, og þar með kemur líka í ljós hvort ég held áfram að kjósa þá.
Kristján G. Arngrímsson, 22.10.2016 kl. 12:28
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Ritstjórnarpistill Kjarnans er ágætur, þó að þeir geri nú reyndar frekar mikið úr því að um nýjar fréttir hafi verið að ræða. Það sem áður hefur komið fram var fékk þó frekari stuðning.
Við erum sammála um að tímasetning lekans sé ekki tilviljun, og ég held að fjölmiðlamaðurinn hafi gert sér grein fyrir því. Ég er líka sammála því að það er í raun ómögulegt fyrir fjölmiðlamanninn að nota ekki lekann. En það skiptir vissulega máli hvernig er unnið úr því og hvernig það er sett fram.
En það er reyndar mikill miskilningur hjá þér að frjálslyndi sé yfirleitt til vinstri, enda gjarna mikið stjórnlyndi hjá vinstri mönnum. Ég er þó ekki að neita því að frjálslyndi finnist á þeim vængnum, langt í frá.
En þetta sveiflast þó gjarna nokkuð til. Ég hugsa að það sé jafnvel frekar hægri menn sem hafa lagst harðar á árar frjálslyndisins á Íslandi í gegnum tíðina, en það er heldur engin ástæða til þess að líta fram hjá því að þar hafa fundist margir stjórnlyndir íhaldsmenn.
Ég held einnig að foringjadýrkun hafi verið mun sterkari á vinstri vængnum, þú þarft ekki að leita lengra en til Vinstri grænna en til þess að sjá það.
Bæði með Katrínu nú og ekki síður með Steingrím í gegnum árin. Persónulega man ég ekki eftir að nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður hafi verið "myndaður" á bol og sendur stuðningsfólki, en það kann þó ef til vill að vera.
Píratar virtust í upphafi vera frekar lausbeislaður flokkur, en einhvern veginn virðist þó að tiltölulega lítill hópur sé að herða þar tökin. Þau eru víða flokkseigendafélögin.
G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2016 kl. 12:47
Þetta er svo úr Kjarnanum: Hlutverk fjölmiðla er að miðla upplýsingum til almennings svo hann geti myndað sér skoðun á samfélaginu sínu, dregið rökstuddar ályktanir eða tekið upplýstar lýðræðislegar ákvarðanir. Og innan þess hlutverks rúmast sannarlega að segja framvindufréttir um neyðarlánaveitingu úr Seðlabanka allra landsmanna sem leiddi til tugmilljarða króna taps.
Ekkert rangt í þessu, en það má deila örlítið um það sem hvernig tjónið varð til og hefur verið gert.
Salan á FIH bankanum er fyllilega efni í sérstaka skýrslu, en í dönskum fjölmiðlum mátti lesa um hvernig þeir sem keyptu af seðlabanknum högnuðust um ef ég man rétt, hundruði milljarða íslenskra króna. En Seðlabankinn sat uppi með tap.
En ef til vill er enga "leka" að hafa í þeim efnum.
G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2016 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.