7.9.2016 | 16:45
Lýðskrum eða fáfræði?
Því miður er það allt of algengt í pólítískri umræðu að upphrópunum eins og hér má lesa sé slengt fram: Hvar eru þessar lækkanir?
Ef aðeins veruleikinn væri svona einfaldur.
Vissulega hefur núverandi ríkisstjórn unnið frábært starf í því að lækka ýmsa toll og gjöld, þó betur megi vissulega gera og sömuleiðis hefur íslenskur efnahagur risið hratt með tilheyrandi styrkingu krónunnar.
En eru þetta einu þættirnir í verðmyndun á innfluttum vörum?
Ég held að flestir geti svarað því að svo sé ekki.
Hvað skyldi til dæmis launakostnaður íslenskra fyrirtækja hafa aukist á sama tíma og gengi krónunnar hefur styrkst og gjöld hafa verið lækkuð?
Bæði í gegnum kjarasamninga og svo eins vegna launaskriðs sem eðlilega verður þegar efnahagslífið er þróttmikið og atvinnuleysi næsta lítið.
Skyldi húsnæðiskostnaður íslenskra fyrirtækja hafa aukist á sama tíma?
Það er hins vegar rétt að aukin samkeppni er besta leiðin til að skila betra vöruverði til neytenda. Það má færa ýmis rök fyrir því að hún mætti vera meiri á Íslandi.
En hafa íslenskir stjórnmálamenn staðið vaktina í því að auðvelda og auka samkeppni í landinu? Gera inngöngu á markaðinn auðveldari, dregið úr bákninu og gjöldum til hins opinbera?
Það er heldur ekki ástæða til þess að líta fram hjá því að þegar uppgangur er í þjóðfélaginu og kaupmáttur og eftirspurn eykst, minnkar hvati til verðlækkana. Þannig virkar lögmál framboðs og eftirspurnar.
En það má heldur ekki líta fram hjá því að annar kostnaður getur sífellt verið að aukast, þó að gengi styrkist og gjöld lækki.
Það verður hins vegar ekki hjá því litið að líklega hefur niðurfelling tolla og gjalda ekki getað komið á betri tíma, en þegar annar kostnaður svo sem laun hafa hækkað verulega.
Þannig hefur almenningur fengið umtalsverða kjarabót, í formi aukins kaupmáttar, og ekki síður í því að verbólgan hefur verið með lægsta móti sem skilar sér einnig til almennings í auknum stöðugleika lánaafborgana.
Slíkar fullyrðingar eins og Karl Garðarson slengir hér fram, lykta af lýðskrumi í aðdraganda kosninga, því ég hef enga trú á því að Karl geri sér ekki grein fyrir því að verðmyndun er mun flóknari en hann gefur í skyn með því að auglýsa eftir verðlækkunum.
Hvar eru þessar lækkanir? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:53 | Facebook
Athugasemdir
Ákall um lækkanir og afnám á tolla og vörugjöldum kom alfarið frá koníaksklúbbnum, sem kallar sig verslunarráð. Klúbbur sem hefur skrifað heilu frumvörpin sér til hagsbóta og látið lobbyista sína í röðum þingmanna koma í gegn.
Krafan kom ekki frá grasrótinni. Verðlag her var komið að sársaukamörkum, svo það varð að finna aðra matarholu. Þessar lækkanir hurfu inn í verðlagið á augabragði, eins og alltaf stóð til þar á bæ og verslunarmenn hlaupa hlæjandi í bankann.
Sömu sögu má segja um allt afnám og lækkun gjalda s.s. Lækkun vak á matvöru ofl. Það var ekki fólkið sem kallaði á það, heldur verslunin. Þannig nýtur nú frjálshyggjan óbeinna ríkistyrkja hvar sem litið er. Corporative socialism.
Karl er ekki að spyrja að ástæðulausu. Hann veit alveg hvernig kerfið er riggað til handa hinum efnameiri.
Ef þú heyrir einhverntíma ákall fyrir kjarabótum fyrir litla manninn þá gættu að úr hvaða átt sú göfugmennska kemur.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.9.2016 kl. 20:37
Þakka þér fyrir þetta Jón Steinar. Hér erum við ekki sammála, enda tel ég það ekki tilviljun hvað verðbólga hefur verið lág undanfarna mánuði, þó að ýmsar kostnaðarhækkanir, ekki síst laun hafi hækkað.
Svo hefur reyndar ýmislegt lækkað, s.s. verð á bílum (svo eitthvað sé nefnt sem ég hef tekið eftir), enda fer þar líklega saman lækkað innkaupsverð og stóraukin sala, sem vissulega leiðir af sér kostnaðarlækkun á selt eintak.
Það er hins vegar rétt að það er mikil þörf fyrir aukna samkepnni, og á ýmsum sviðum er hægt að binda vonir við komu Costco á markaðinn. Ef vel tekst til ætti hún að verða almenningi kjarabót.
Alla vegna hef ég mjög góða reynslu af þeirri verslun.
G. Tómas Gunnarsson, 8.9.2016 kl. 06:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.