14.7.2016 | 18:29
Argir "Sambandsmenn" og ljúgandi stjórnmálamenn
Það er ekki hægt að segja að lognmolla ríki í fréttum þessa dagana. Engin gúrka yfir sumartímann.
Ótrúlega margir "Sambandsmenn" ná vart andanum fyrir ergelsi.
Fyrst sökuðu margir þeirra Boris Johnson um að hafa stokkið frá borði og hlaupist undan ábyrgð, nú stökkva þeir upp á nef sér yfir því að BoJo (eins og hann er stundum kallaður) skuli hafa verið boðið og tekið að sér að verða utanríkisráðherra Bretlands.
Það getur varla talist að hlaupast undan ábyrgð.
Hvað varðar lygaáburð hins franska utanríkisráðherra á hendur Johnson, er erfitt að finna því nokkra raunverulega stoð.
Vissulega var margt sem var sagt báðum megin "víglínunnar" í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi þess eðlis að það vekur spurningar.
En þeim spurningum hefur flestum ekki verið svarað.
Svör við þeim mun að einhverju marki á næstu árum, en þó er aldrei hægt að fullyrða um niðurstöðurnar, því möguleikarnir eru svo margir.
Stjórnmál eru ekki raunvísindi, þar sem aðeins einn eða tveir möguleikar eru til staðar. Og þó að einhver kunni að hafa rangt fyrir sér þýðir það ekki að andstæðingur hans hafi haft á réttu að standa.
Lífið er flóknara en það.
En "Brexit" býður upp á ótal möguleika, og margar hættur og því eiginlega vonlaust að ætla að fullyrða á þessari stundu hvernig spilast úr stöðunni og hver verður niðurstaðan.
En persónulega er ég bjartsýnn fyrir hönd breta og hygg að til lengri tíma verði ákvörðunin þeim til góðs.
En talandi um ljúgandi stjórnmálamenn, þó mætti ef til vill líta til þeirra "loforða" sem voru gefin þegar barist var víða um Evrópu fyrir upptöku eurosins.
Þó voru ófá loforðin og margar fullyrðingarnar um hina efnahagslegu velmegun sem átti að koma í kjölfarið. Og á hinn veginn beið þeirra sem ekki vildu vera með, ekkert nema svartnættið, efnahagsleg hnignum og að verða hornreka í alþjóðlegum viðskiptum.
Varð það raunin?
Alls ekki. Hvort að þeir stjórnmálamenn sem svo fullyrtu lugu, vissu ekki betur eða höfðu einfaldlega látið sannfærast af röngum upplýsingum, er ekki gott að segja eða fullyrða um.
En þeir höfðu ekki rétt fyrir sér. Sjálfagt myndu einhverjir kalla þá lygara.
Íslendingar þekkja af eigin raun svipaða hluti.
En hitt er svo skiljanlegt að skipan Borisar Johnson sem utanríkisráðherra fái misjafnar undirtektir.
Hann er enda langt frá því að vera hinn "týpíski gerilsneyddi" stjórnmálamaður sem virðist vera hvað algengastur nú á tímum. Marg oft hefur "gúllinn" á honum komið honum í vandræði.
En það er líklega einmitt stór hluti af því sem hefur fært honum vinsældir á meðal almennings.
En það verður fróðlegt að fylgjast með honum í starfi og ég óska honum alls góðs.
Miðað við viðtökur fjölmiðla í dag, veitir honum svo sannarlega ekki af góðu starti.
Sagði Boris Johnson lygara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Ljúgandi stjórnmálamenn. Hefur einhver séð annað, eða kynnst öðru úr þeirri áttinni? Breta mun taka u.þ.b. fjögur ár, að átta sig á sælunni og efnahagsbatanum, sem fylgja mun því, að hafa yfirgefið krabbameinið í Brussel og Strasborg. Til hamingju Bretland.
Halldór Egill Guðnason, 15.7.2016 kl. 03:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.