23.11.2015 | 10:28
Schengen eða ekki Schengen?
Það hefur mikið verið rætt um Schengen samstarfið á Íslandi undanfarna daga og reyndar víðar en á Íslandi.
Það er eðlilegt, enda má segja að samstarfið sé í gríðarlegu uppnámi, jafnvel við það að liðast í sundur.
Það hefur endar reynt mikið á samstarfið og gallar þess komið í ljós. Ytri landamærin ráða ekki við álagið, stórir hlutar Evrópu (og þar með Schengen svæðisins) hafa í raun verið án virks landamæraeftirlits á köflum.
Undir slíkum kringumstæðum er ekki óeðlilegt að vilji sé fyrir því að ræða framhaldið og hvernig best slíku samstarfi sé háttað, nú eða hvort rétt sé að hætta því.
Slíkt er best að gera á yfirvegaðan hátt og án upphrópana eða slagorða.
Opin landamæri án eftirlits (þau eru þó aldrei án alls eftirlits) eru eftirsóknarverður kostur og auðvelda bæði ferðalög og viðskipti. Ávinningurinn (og áhættan) er þó mun meiri á landamærum samliggjandi landa, svo ekki sé talað um þegar þannig er hægt að ferðast í samfellu í gegnum mörg lönd.
Ávinningur eylanda verður aldrei eins mikill (né áhættan).
Það er vert fyrir íslendinga að velta því fyrir sér að líklega er um eða innan við helmingur þeirra farþega sem fer um Keflavíkurflugvöll á leið til einhvers aðildarríkis Schengen samningsins.
Þó að ég hafi ekki mikla reynslu í ferðalögum til og frá Íslandi undanfarin ár, þá get ég ekki sagt að ég hafi heyrt að Íslendingum þyki erfitt, eða verulega erfiðara að ferðast til landa utan Schengen svæðisins.
Þannig hefur staða Bretlands utan Schengen svæðisins ekki komið í veg fyrir að landið sé einn allra vinsælasti áfangastaðurinn frá Íslandi og fljúga þangað nokkrar flugvélar frá Keflavíkurflugvelli á hverjum einasta degi.
En Schengen er meira en landamæragæsla. Mikilvægur hluti samningsins snýr að upplýsingabanka og dreifingu, SIS, eða Schengen Information Systems. Þar safna aðildarþjóðirnar, og dreifa sín á milli, upplýsingum um einstaklinga og annað það sem þeim þykir skipta máli varðandi samstarfið.
Ýmsir hafa haft orð á því að það að missa slíkan aðgang væri slæmt fyrir lög- og landamæragæslu á Íslandi og get ég ekki séð nokkra ástæðu til að draga það í efa.
En það er spurning hvort að Ísland ætti möguleika á því að halda þeim hluta samstarfsins, þó að hætt yrði þátttöku í samstarfinu að öðru leyti. Að standa utan samkomulagsins hefur ekki komið í veg fyrir að bretar og írar taki þátt í upplýsingakerfinu.
Þannig er að ýmsu að hyggja, en jafn sjálfsagt að ræða þessi mál eins og önnur.
Fá mál eru meira áríðandi fyrir stjórvöld en öryggi íbúa landsins.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Ferðalög, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Upphrópanir og slagorð slæðast nú alltaf með,hvort sem menn ræða um Schengen eða flóttamenn,jafnt á þessum miðlum sem Alþingi. Mér skilst að Íslendingar hafi alltaf haft aðgang að SIS,áður en þeir gerðust aðilar að Schengen.
Helga Kristjánsdóttir, 23.11.2015 kl. 12:25
Nú væri um að gera að nýta KASTLJÓS sem fréttaskýringaþátt og fá þangað forsetann, ríkislögreglustjórnn ofl. til að kortleggja kosti og galla þessa samstarfs.
Jón Þórhallsson, 23.11.2015 kl. 16:25
@Helga Þakka þér fyrir þetta Ég veit ekki hvort að Ísland hefur haft aðganga að SIS áður en það tók þátt í Schengen, en það kann vel að vera. Í raun alls ekki ólíklegt.
Cameron, forsætisráðherra breta sagði í dag, að upplýsingar til breta væru meiri og betri frá löndum utan "Sambandsins" og þar með líklega utan Schengen.
Gaf upplýsingamiðlun "Sambandsins" ekki háa einkunn. Enda eru "öryggismál" í "Sambandinu" í uppnámi.
@Jón Þakka þér fyrir þetta. Umfjöllun í Kastljósi gæti verið ágæt, en ég er þó hræddur um að mál sem þetta verði ekki gerð góð skil, eða brotið til mergjar á 30 mínútum eða svo.
En það væri þarft að málið yrði krufið frekar.
G. Tómas Gunnarsson, 23.11.2015 kl. 16:39
Íslendingar eiga aðgang að EES- hliðum sbr. í Bretlandi og það er hagur allra þjóðanna að halda upplýsingasamskiptum sem bestum. Þjóðirnar loka nú sínum hliðum og „frjáls flutningur“ með eftirliti er að verða staðreynd. En við eigum ekki að halda skuldbindingar og loforð við Schengen sem eru einungis að verða íþyngjandi, án verulegra kosta.
Ívar Pálsson, 23.11.2015 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.