Geta löggur líka tjáð sig? Og hvenær eru þær ekki löggur?

Það er ef til vill ekki óeðlilegt að það veki athygli þegar lögregluþjónar tjá sig um réttarfar eða dóma.

En þegar við veltum þessu fyrir okkar, verðum við sömuleiðis að hafa í huga spurninguna, hvenær eru einstaklingar lögregluþjónar og hvenær ekki? Eða telst starfið 24/7, ef svo má að orði komast.

Það er engin leið að koma í veg fyrir að einstaklingar hafi skoðanir, hvort sem þeir eru lögregluþjónar eða gegna öðru starfi. En það eru til ýmsar leiðir til að reyna að koma í veg fyrir að þeir tjái þær.

Verðum við ekki  líka að gera skýran greinarmun á því hvort að lögregluþjónn tjáir sig í vinnutíma (eða í búningi) við fjölmiðil, eða hvort einstaklingur tjái sig á vefsíðu sinni, jafnvel þó að sá sami sé lögregluþjónn á frívakt?

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki ráðningasamninga lögregluþjóna og hvort þar er kveðið á um að þeir megi ekki tjá sig um dómsmál eða önnur samfélagsmál, jafnvel utan vinnutíma.

Vissulega hlýtur fullur trúnaðar að ríkja um allt sem þeir sjá og heyra á vinnutíma, en ég fæ ekki séð að þetta mál tengist slíku.

Þetta mál minnir mig dálítið (þó að ekki sé það fyllilega sambærilegt) á mál kennara norður í landi, sem einmitt var rekinn fyrir að skrif á sína prívat bloggsíðu.

Þar var einnig tekist á um skrif utan vinnutíma.

Ég tók afdráttarlausa afstöðu með kennaranum þá, og geri það einnig með "Bigga löggu" nú.

Með því er ég ekki að lýsa yfir stuðningi við málflutning þeirra. Það er ekki aðalmálið, heldur hitt að ég á erfitt með að sjá að bann við tjáningu þeirra sem einstaklinga sé réttlætanlegt, svo lengi sem það er gert á þann máta að enginn vafi leiki á að um einkaskoðanir sé að ræða og þær settar fram á þann hátt.

Þeir sem halda því fram að slíkar skoðanir geti valdið fordómafullri afstöðu viðkomandi til mála sem upp kunna að koma, verða að gera sér grein fyrir því að skoðanirnar voru til staðar, hvort sem þær voru settar fram eður ei.

Það sem mér þykir þó ekki hvað síst merkilegt í þessu máli, og ber það þá aftur saman við mál kennarans, er að ég hef það á tilfinningunni, að mörgum sem fannst sjálfsagt að kennarinn væri rekinn, eru annarar skoðunar í máli lögregluþjónsins og svo öfugt.

Hitt er svo að ef einstaklingum þykir vegið að æru sinni, þá geta þeir leitað til dómstóla.

En íslenskir dómstólar virðast þó vera þeirrar skoðunar að það að vera kallaður "nauðgari" sé ekki ærumeiðandi, jafnvel þó að myndbirting fylgi.

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég man ekki eftir því að mér hafi þótt íslenskir dómstólar setja meira niður í öðru máli, en því sem slík niðurstaða varð raunin.

En það er annað mál, sem líklega flestir þekkja.


mbl.is Mál Bigga löggu til skoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekkert að því að ætlast til þess að lögregluþjónar hafi óbrenglaða dómgreind. Sýni þeir skort á því, hvort sem er í starfi eða utan, þá eru þeir ekki hæfir til að vera lögregluþjónar. Enda byggir starfið á dómgreind en ekki hversu góðir þeir eru að aka á forgangsljósum og standa heiðursvörð.

Það skortir augljóslega verulega mikið á dómgreind manns sem opinberlega kallar sýknaða menn nauðgara án þess að hafa kynnt sér málið og undrast að einhverjum skuli þykja það athugavert.

Vagn (IP-tala skráð) 24.11.2015 kl. 11:37

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Vagn Þakka þér fyrir þetta. Það er vissulega rétt að dómgreind er mikilægur hæfileiki í starfi lögregluþjóns, rétt eins og í mörgum öðrum störfum. Þó mikilvægara í starfi lögregluþjóns en margra annara.

Ég er þó hræddur um að þeir væru ekki margir lögregluþjónarnir eftir í starfi (og það gildir um mörg önnur störf), ef allur dómgreindarbrestur utan vinnutíma væri brottrekstrarsök.

Reyndar er til, eins og ég sagði áður, dómur á Íslandi sem ekki telur orðið nauðgari vera "meiðyrði", og þar af líklega ekki meiðandi, jafnvel þó að myndbirting fylgi.

En persónulega myndi ég ekki nota orðfæri eins og lögregluþjóninn gerði.  Hann leiðrétti það  stuttu síðar. En var hann "lögregluþjónn" þegar hann skrifaði þetta?  Eða er það í starfslýsingunni, að það sé bannað að vera "mannlegur", jafnvel utan vinnutíma?

G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2015 kl. 12:13

3 identicon

Það að dómstóll hafi fundið að framsetning á "fuck you rapist pig" eða hvað það var nákvæmlega, hafi ekki verið meiðyrði er ekki það sama og að það séu ekki meiðyrði að kalla saklausan mann nauðgara. Fjöldi annara var sakfelldur fyrir einmitt það.

En að þessu máli. Biggi Lögga í upphaflegri færslu sinni kallaði drengina nauðgara. Það er ærumeiðing sama hvort viðkomandi hefur einhverntímann klæðst lögreglubúningi eða ekki.

Eftir breytingu er pistillinn litlu skárri. Þar gengur Birgir í lið með þeim sem telja að það geti ekki annað verið en að drengirnir hafi brotið á stúlkunni án þess þó að hann þekki til málsins sjálfur. Hér er um að ræða lögreglumann sem kýs að tjá sig um meint brot án þess þó að hafa nennu til að kynna sér málið.

Er það við hæfi að lögreglumaður tjái sig með svo ábyrgðarlausum hætti um mál sem hann gat ekki haft fyrir að kynna sér?

netnotandi (IP-tala skráð) 24.11.2015 kl. 19:15

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þegar myndband hefur verið birt opinberlega, þá hefur verið brotið á fólki.

Hver sér um að rannsaka hver tók myndbandið ("fotsjoppaða"?), og hverjir sáu um dópdreifinguna löglegu/ólöglegu, fyrir vefnaðinn?

Þessu verða lögmenn, verjendur og dómsstólar að kunna skil á, í siðmenntuðu réttaríki.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.11.2015 kl. 01:29

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

...fyrir verknaðinn...

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.11.2015 kl. 01:31

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@netnotandi Þakka þér fyrir þetta. Persónulega finnst mér innihald pistilsins ekki meginmálið.

Málið hlýtur að snúast um hvort að einstaklingi sem starfar sem lögregluþjónn, sé heimilt að tjá sig um menn og málefni utan vinnutíma. Enn frekar þyrfti þá að vera skýrt hvort bannið næði eingöngu til mála tengdum lög- og dómgæslu, eða hvort það næði víðar.

Væri einstaklingi sem er lögregluþjónn til dæmis heimilt að skrifa pistil um að hann teldi að lögleiðing kannabisefna væri framfaraskref, eða eiga lögreglumenn ekki að hafa opinbera skoðun á slíku?

Ég er hins vegar persónulega sammála því að það að vera kallaður nauðgari sé meiðyrði, þó að íslenskum dómstólum hafi gengið misjafnlega að komast að þeirri niðurstöðu.

Og öllum er að sjálfsögðu heimilt og frjálst að kæra slíkt til dómstóla, óháð því hvaða starfi viðkomandi gegnir.

Einnig er nauðsynlegt að skorið sé úr því hvort að viðkomandi einstaklingur er lögreglumaður þegar hann tjáir sig í sinni einkatölvu á sínu einkaheimili.

Eru einstaklingar lögregluþjónar 24/7?

Eru þeir látnir skrifa undir við ráðningu, að þeir afsali sér réttindum til tjáningar á opinberum vettvangi í ákveðnum málaflokkum?

Trúnaðarskylda er svo annað mál. En bendir eitthvað til þess að trúnaður hafi verið rofinn? Að eitthvað hafi komið fram í pistlinum sem almenningur hafði ekki aðgang að?

Í raun er ákaflega þarft að fá úr slíku skorið, líklega ekki eingöngu fyrir lögregluþjóna, heldur flesta opinbera starfsmenn.

@Anna Sigríður Þakka þér fyrir þetta. Það er að ég held ekki deilt um að myndbandsbirtingin var brot. Enda dæmt fyrir hana.

En þar var að verki einn einstaklingur, ef ég hef skilið rétt.

G. Tómas Gunnarsson, 25.11.2015 kl. 05:10

7 identicon

Sæll G.Tómas

a) Ég er ekkert að draga það í efa að réttur Birgis til að tjá sig er óbreyttur og hann má hafa skoðun á öllum málefnum og það hefur hann svo sannarlega gert undanfarin ár án þess að ég hafi reynt séð ástæðu til þess að taka réttinn af honum þó svo að ég hafi ekki verið sammála öllu því sem hann sagði.

b)Mér finnst þú svolítið vera að snúa út úr eða ekki skilja kjarna málsins þegar þú segir:

"Málið hlýtur að snúast um hvort að einstaklingi sem starfar sem lögregluþjónn, sé heimilt að tjá sig um menn og málefni utan vinnutíma. Enn frekar þyrfti þá að vera skýrt hvort bannið næði eingöngu til mála tengdum lög- og dómgæslu, eða hvort það næði víðar."

Þetta er ekki það sem málið snýst um.

Það er ásökunin um brot sem mér finnst ólíðandi að lögreglumaður flaggi í opinberri umræðu. Umorðun mín: 'Þó svo að réttarkerfið hafi fundið ykkur saklausa þá eruð þið samt sekir'.

Upphaflega skrifar Birgir: "Til ungu mannanna sem nauðguðu 16 ára stúlku í Asparfelli;

Jú ég segi nauðguðu vegna þess að þó svo að réttarkerfið nái ekki utan um brot ykkar þá gerir samfélagið það."

Eftir breytingu: "

Til ungu mannanna sem voru kærðir fyrir að nauðga 16 ára stúlku í Asparfelli;

Þó svo að réttarkerfið nái ekki utan um brot ykkar þá gerir samfélagið það."

Sjá breytingasögu hér (http://www.visir.is/sveinn-andri-vill-ad-biggi-logga-verdi-rekinn-vegna-facebook-faerslu/article/2015151129724)



Mér finnst ég vera að endurtaka mig svolítið hérna. Ég er ósáttur við ákveðin orð Birgis ekki almennar skoðanir hans sem honum eins og okkur öllum er frjálst að hafa og tjá. Þessi ákveðnu orð hann tel ég að gangi ansi nærri því að vera meiðyrði, ég segi ansi nærri vegna þess að enginn er nafngreindur en allir vita um hverja er verið að tala þar sem þessir drengir hafa verið nafngrendir á samfélagsmiðlum og hafa m.a. sætt hótunum þess vegna.

Er þetta brot í starfi? Kannski
Er þetta brot á siðareglum? Úr því fáum við skorið þökk sé kvörtun Sveins Andra.

Ber þetta vott um að Biggi lögga hafi mikinn skilning á því hvernig kerfið sem hann vinnur innan virkar? Alls ekki, þetta er mjög ófagmannleg framganga og fær mann til að vona að hans hlutverk innan lögreglunnar verði aldrei meira en bara það að slíta í sundur fyllibyttur.

netnotandi (IP-tala skráð) 25.11.2015 kl. 12:24

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@netnotandi Þakka þér fyrir þetta. Mér finnst eins og þú miskiljir mig, og ef til vil miskil ég þig.

En það er rétt að það komi fram að ég er ekki sammála því sem "Biggi" sagði í pistlinum sínum, mér fannst hann fara langt yfir strikið. Ég er ekki að verja "Bigga". Ég ver hins vegar "Bigga löggu". Það er að segja rétt "Bigga löggu", til að tjá sig sem einstaklingurinn "Biggi".

Ég hefði ekkert við það að athuga að Sveinn Andri (eða hver annar) höfðaði meiðyrðamál á hendur "Bigga". En mér þykir nokkuð langt seilst að krefjast þess að "Biggi lögga", verði rekinn fyrir það sem "Biggi" sagði sem einstaklingur.

Þetta segi ég með þeim fyrirvara að ég þekki ekki hvað "Biggi" skrifaði undir áður en hann var ráðinn sem "Biggi lögga". Það kann að vera að skrif hans brjóti algerlega í bága við þann samning, en mér þykir hæpið að skerða tjáningarfrelsi einstaklinga, sé að öðru leyti almennur trúnaður haldinn.

Hvort að "Bigga löggu" gæti orðið erfitt að halda starfinu ef "Biggi" yrði dæmdur fyrir meiðyrði, þekki ég ekki heldur.

En að lögreglustjóri geti "dæmt" menn frá starfi fyrir skrif sem þessi finnst mér vafasamt, með sama fyrirvaranum og ég nefndi hér áðan.

En ég er einnig sammála því að það er ágætt að Sveinn Andri kvartaði. Ég held að það sé gott fyrir lögregluþjóna og jafnvel opinbera starfsmenn í heild, að það sér gert skýrara hve langt tjáningarfrelsi þeirra nær.

G. Tómas Gunnarsson, 25.11.2015 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband