25.9.2015 | 17:32
Er betra að einkavæða eða aumingjavæða?
Það hefur verið nokkur hiti í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarna viku, vegna umdeilds sniðgönguáls gagnvart Ísrael, sem meirihlutinn lagði fram og samþykkti og vildi síðan draga til baka, sem hann og gerði.
Það er því ekki nema von að borgarstjóri, Dagur B., hafi gripið það feginshendi þegar borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins talaði um að þörf væri á einkavæðingu í félagsþjónustunni.
Þar sá hann möguleika á því að leiða umræðuna frá "viðskiptabannsklúðrinu".
En hann gleymdi því auðvitað að sami (fyrrverandi) borgarfulltrúi og lagði fram tilöguna um "viðskiptabannsklúðrið", hafði nýlega í blaðaviðtali gefið félagsþjónustunni á vegum Reykjavíkurborgar algera falleinkunn og talað um að þar færi fram aumingjavæðing, þó að hún reyndar notaði kurteislegra orðalag og talaði um veikleikavæðingu.
Ég gat ekki betur skilið en að sú aumingjavæðing væri ein af meginástæðum þess að hún hefði ákveðið að yfirgefa borgarmálefnin, hún hefði verið í forsvari fyrir þeim málefnum og ekki haft erindi sem erfiði.
En auðvitað er slík aumingjavæðing í réttu framhaldi af loforði Besta flokksins, "allskonar fyrir aumingja", sem Dagur B. féllst á að framfylgja eftir að hafa horft a "Wired" og myndaði með Besta flokknum meirihluta.
Það getur varla heldur verið í andstöðu við Bjarta framtíð, sem gaf sig út fyrir að vera arftaka Besta flokksins í borgarstjórn.
Boðun einkavæðingar kanna að vera nokkur atkvæðafæla fyrir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og aumingjavæðing að sama skapi skapað atkvæði fyrir meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.
En valið er auðvitað borgarbúa.
Hvert finnst þeim rétt að stefna, eða er til hin "þriðja leið"?
Er rétt að vona að enn sé hægt að finna leið til að láta aumingjavæðinguna virka, eða þurfa borgarfulltrúa að vera að láta af störfum til þess að sjá að svo sé ekki?
Svörin fást líklega ekki fyrr en í næstu borgarstjórnarkosningum, en mér þætti skrýtið ef þetta verður ekki eitt af stóru deilumálunum þá.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Sveitarstjórnarkosningar | Facebook
Athugasemdir
Spurningn er út í hött vegna þess að það sem Björk kallar aumingjavæðingu er ekki sá hluti velferarþjónustunnar sem Áslaug vill einkavæða.
Það sem Björk kallar aumingjavæðingu er að fólk sem fær fjárhgsaðstoð frá borginni, meðal annars vegna þess að það fær ekki lengur atvinnuleysisbætur, kemst upp með að vinna ekki þó að það sé vinnufært og störf séu í boði.
Einkavæðingaróskir Áslaugar ganga hins vegar út á heilsugæslu og umönnun sjúkra og aðldraðara sem er allt annar handleggur.
Það var rétt af Björk að segja af sér úr því að hún réð ekki við verkefnið. Í Hafnarfirði hefur þetta hins vegar gengið mjög vel. Starfsfólk bæjarins hefur haft samband við þetta fólk og borðið því starf og hafa flestir þegið það.
Þú veist þetta trúlega en velur í blekkingarskyni að láta sem valið sé um þessa tvo valkosti.
Púnar Vilhjálmsson prófessor hefur bent á að rannsóknir hafa sýnt að einkavædd velferðarþjónusta er bæði verri og dýrari en þjónusta á vegum opinberra aðila.
Krafan um hagnað gerir þjónustuna dýrari og sparnaður til að hámarka hagnaðinn gerir hana verri.
Við megum ekki við því að þjónustan versni né heldur að hún verði dýrari. Einkavæðing kemur því ekki til greina.
Ásmundur (IP-tala skráð) 26.9.2015 kl. 00:45
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Spurningin er alls ekki út í hött og snýr m.a. að því hvort að ekki þurfi að endurhugsa eða endurskipuleggja velferðarþjónustuna sem heild. Einkavæðing gæti verið hluti af því, eður ei.
Fjárhagsaðstoðin er einn hluti af því og ýmis konar þjónusta annar hluti af því.
Auðvitað myndi borgin eftir sem áður bera fulla ábyrgð á þjónustunni (lögum samkvæmt) og sem verkkaupi sjá um að hún væri framkvæmd eins og hún óskaði eftir.
Stór hluti heilsugæslu á Íslandi er í einkahöndum hvað ég best veit og hefur ekki þóst gefast illa. Kanada hefur þótt með góða heilsugæslu þó að sama og ekkert af henni sé rekið af hinu opinbera (en það sér hins vegar um að borga bróðurpart reikninganna).
Þetta er nokkuð sem sjálfsagt er að skoða og ekki gefa sér niðurstöður fyrirfram.
Eins og fjárhagsstaða borgarinnar er, hefur hún ekki efni á öður en að skoða alla möguleika.
G. Tómas Gunnarsson, 26.9.2015 kl. 06:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.