Að búa til söguna

Ég má til með að vekja athygli á stórgóðu viðtali við nýútskrifaðan sagnfræðing sem birtist á vefsíðunni visir.is.

Sagnfræðingurinn er enginn annar en Ingólfur Margeirsson, sem flestir ættu líklega að kannast við, alla vegna þeir sem hafa fylgst með stjórnmálum og tengdum efnum undanfarin ár.  Viðtalið er fróðlegt og fjallar að miklu leyti um lokaritgerð Ingólfs sem fjallar um meinta "sprengingu" ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, "í beinni", eins og margir eflaust minnast.

En vitnum smá í viðtalið:

" kjölfarið gerðist það að Þorsteinn missti fótanna innan Sjálfstæðisflokksins, Davíð bauð sig fram gegn honum og varð formaður. Þar með fékk flokkurinn alveg nýja ásýnd. Því má segja að fall Þorsteins hafi rutt Davíð braut og frjálshyggjunni sem honum fylgdi. Davíð myndaði síðar stjórn með Alþýðuflokknum árið 1991. En eftir kosningarnar 1995 voru Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur bara með einn mann í þingmeirihluta. Davíð þorði því ekki að halda áfram meirihutasamstarfi með þeim eftir kosningarnar 1995 og sneri sér til Framsóknarflokks. Það stjórnarform er enn í gangi. Vinstri flokkarnir fóru í stjórnarandstöðu og tóku að endurskilgreina sig sem svo leiddi til myndunar Samfylkingarinnar. Ég tel að Samfylkingin hafi orðið til vegna áhrifa þess að Þorsteinn hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins og Jón Baldvin leiðir einnig líkum að því í viðtali sem ég tók við hann vegna ritgerðarinnar."
Ingólfur tók viðtöl við helstu þátttakendur í atburðarásinni í ritgerðinni.

Þeir eru Steingrímur Hermannsson, þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi fjármálaráðherra, spyrlarnir tveir í sjónvarpsþættinum sem voru Helgi Pétursson og Ólafur E. Friðriksson og svo Þorsteinn Pálsson, sem var ekki í sjónvarpsþættinum."

""Það sem ég spurði sjálfan mig var hvort ríkisstjórnin hafi í raun sprungið í þessari beinu útsendingu og ég rek bæði rök með og á móti í ritgerðinni. Ég komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði ekki sprungið í útsendingunni heldur var hún þegar sprungin, og viðmælendur mínir taka undir það. Stjórnarslitin má rekja til þess að allt var búið að vera í upplausn hjá ríkisstjórninni og menn gátu ekki komið sér saman um efnahagsaðgerðir."

"Í viðtali Ingólfs við Jón kemur fram að hann hafi fengið tillögurnar afhentar sem trúnaðarmál og hafi viljað tíma til að fara yfir þær ásamt sínu fólki. Jón segist hafa gert ráð fyrir að hafa sólarhring til þess áður en Þorsteinn myndi leggja þær fyrir ríkisráðsfund. En þegar hann hafi heyrt fjallað um tillögurnar í útvarpsfréttum um kvöldið gerði hann ráð fyrir að Þorsteinn hefði lekið þeim í fjölmiðla og afréð því að mæta í sjónvarpsþáttinn með Steingrími til að skýra sína hlið. Síðan kemur í ljós að þessi leki kom frá Alþýðuflokknum að sögn Ingólfs. "Ég tók viðtal við Ólaf, sem var annar spyrla í þættinum, vegna ritgerðarinnar og hann segist hafa fengið tillögurnar frá Alþýðuflokksmönnum sem stóðu nærri Jóni Baldvin. Þetta er alveg nýr punktur í umræðuna þar sem þetta fríar Þorstein af þeim ásökunum að hafa lekið tillögunum í fjölmiðla. En eftir stendur ásökunin um að Þorsteinn hafi komið með þá tillögu um að fella matarskattinn til að skapa sér vinsældir.""

"Það voru stórar yfirlýsingar í sjónvarpsviðtalinu á sínum tíma og fjölmiðlamenn eru svo spenntir fyrir fjölmiðlum að þeir taka þetta náttúrulega upp að ríkisstjórnin hafi sprungið í beinni. Þetta verður svo að goðsögn sem allir þekkja. Að mínu mati er þetta einn af örfáum viðburðum sem standa upp úr í íslenskri fjölmiðlasögu sem goðsögn sem hefur haft gríðarleg áhrif. Þess vegna langaði mig að kanna hvort þessi túlkun fjölmiðla hefði verið byggð á misskilningi. Þannig er þetta ritgerð um hvernig nýir miðlar geta skekkt söguna.""

Viðtalið í heild sinni má svo finna hér.

Viðtalið er gott og vil ég hvetja alla til að lesa það, en sjálfur myndi ég gleðjast ef hægt væri að finna sjálfa lokaritgerð Ingólfs einhvers staðar á netinu og myndi þiggja með þökkum upplýsingar þar að lútandi, ef svo er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband