Allt að gerast - jarðarberjatíminn - Grand Prix du Canada

Við erum önnum kafinn þessa dagana, líklega verður ekki mikið um blog á næstunni.  Fórum til lögfræðingsins okkar í morgun, með mest alla okkar peninga í einni ávísun.  Fórum yfir öll smáatriði hvað varðar kaup okkar á "Bjóránni".  Það er í ýmis horn að líta, lögfræðingurinn búinn að prenta út "bakgrunn" seljanda og okkar.  Kanna eignarhald og veðbönd á fasteigninni o.s.frv.  Skrifuðum undir skjöl hægri vinstri, allt í þríriti.  Síðan getum við líklega sótt lylana til lögfræðingsins seinnipart á mánudaginn. 

Á mánudaginn þurfum við að ganga frá kaupum á rafmagni, gasi, vatni, og gera eitthvað í síma og sjónvarpsmálum. 

Á þriðjudag verður síðan hafist handa við að mála, en flutningar verða vonandi um næstu helgi, ef illa tekst til þá þarnæstu.  Það styttist því í að "Bjórárbloggið" komi raunverulega frá "Bjórá".

En þetta er skemmtilegur tími, nú eru jarðarberin í blóma hér, og verða næstu vikur.  Hægt að kaupa (eins og ég gerði í gær) jarðarber fyrir lítið fé.  Stefnan fyrir fyrramálið hefur reyndar verið mörkuð, eldsnemma af stað og út í sveit, heimsækja þar bóndabæ sem leyfir lúnum borgarbúum að týna eigin jarðarber gegn vægu gjaldi (reyndar varla hægt að segja að það sé ódýrara en að kaupa þau út í búð, en það er skemmtilegt að velja sín ber sjálfur og týna bara það sem lítur best út).  Líklega verð ég þó einn í tínslunni þetta árið, verð að vona að konan og foringinn éti þau ekki öll jafnóðum á hliðarlínunni.  En að ganga inn í jarðarberjailminn sem liggur yfir svæðinu er unaðsleg upplifun, og að setja heitt sólbakað jarðarber í munninn stórkostlegt.

Stefnan er svo að vera komin heim fyrir kappaksturinn, en ég missti af tímatökunni í dag út af lögfræðistússinu.  "Skósmiðurinn" er nú ekki alveg að gera sig í 5. sætinu, en það verður að vona það besta.  Ég verð eingöngu fyrir framan sjónvarpið þetta árið, tók mig þó skratti vel út í stúkunni í fyrra, en það verður ekki á allt kosið.

Alonso datt úr keppni í fyrra, einhvern veginn hef ég ekki trú á því að það gerist í ár, þó að það kæmi sér vel fyrir minn mann, en Alonso er langsigurstranglegastur í ár, en Raikkonen og Schumacher gætu komið á óvart.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband