4.8.2015 | 20:15
Kynlegar kvikmyndir
I fjölmiðlum hefur undanfarna daga mátt lesa ákall ýmissa frammámanna um kynjakvóta hvað varðar úthlutun hjá Kvikmyndasjóði Íslands (ég vona að þetta sé rétt nafn).
Vissulega hljómar þetta nokkuð göfugmannlega, og er látið líta út eins og spor í átt til jafnréttis, og komandi frá "stútungsköllum", er varla vogandi að andmæla þessu.
En krafa um kynjakvóta vekur þó vissulega upp ýmsar spurningar.
Það er vissulega möguleiki að ég hafi eitthvað miskilið tilganginn með Kvikmyndasjóði (ég á stundum nokkuð erfitt með að skilja tilgang ýmissa opinberra styrktarsjóða), en ég hef staðið í þeirri meiningu að honum væri ætlað að styðja við vænlegar (til vinsælda) Íslenskar kvikmyndir, og jafnvel myndir sem styrktu á beinan eða óbeinan hátt, Íslenska menningu.
Vissulega eru slík markmið óviss og teigjanleg, og lengi má deila um hvaða leið sé best að þeim.
En eru þeir sem kalla á eftir kynjakvóta að segja að slík markmið hafi verið hundsuð, vegna þess að hallað hefur á konur í úthlutunum?
Hafa "síðri myndir" orðið fyrir valinu, til þess að koma körlum að?
Hefur "Sjóðurinn" ekki staðið sig sem skyldi þegar styrkþegar hafa verið valdir, og eitthvert annað sjónarmið en "kvikmyndalegt" verið haft að leiðarljósi?
Eða er hlutverk Kvikmyndasjóðs eitthað allt annað en að styrkja "vænlegar kvikmyndir"?
P.S. Mega Íslendingar vænta þess að "kynjakvóti" verði settur á forlög í bókaútgáfu og gallerí sem sýna myndlist?
P.S.S. Hefur einhver skoðað hlutfall kynjanna sem umsækjenda um styrki frá Kvikmyndasjóði, og hvert ef til vill sé fylgni á milli umsókna og styrkveitinga, frá "kynlegu" sjónarmiði?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Kvikmyndir, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ég get allavega frætt þig um að að 68% kvenna sem sækja um fá styrki en aðeins 58% karla.
Ójöfnuðirinn hallar á karlana, sem eru hinsvegar duglegri að sækja um.
Það er ansi afstætt þegar velja á verkefni í listum til fjármögnunar að það ráði úrslitum af hvoru kyni umsækjandinn er. Þessi öfgaspuni feminista er alveg hrokkinn af skaaptinu hér. Það eina sem vantar hér er að konur sæki tíðar um og geri sig gildandi í kvikmyndum. Samkvæmt tölum frá kvikmyndasjóði eiga þær 10% hærri líkur á að fá styrk en karlar og í sumum styrkflokkum miklu hærri líkur.
Sjá hér.
http://www.kvikmyndamidstod.is/frettir/nr/3874
Jón Steinar Ragnarsson, 5.8.2015 kl. 06:29
Á síðunni sem þú vísar til, Jón Steinar, sést þér yfir að samantektin nær aðeins yfir síðustu tvö ár ("Árangur í umsóknum síðustu 2 ár eftir kyni"). Ef litið er til lengri tíma þá fóru 87% fjármagns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til karla á árunum 2000 til 2012.
Það er vissulega rétt athugað hjá þér að færri konur sækja um en það er náttúrlega bara "öfgaspuni" karlrembusvína, eins og þín, sýnist mér, að það sé eina skýringin.
Hvað þínar spurningar varðar, G. Tómas, þá kemur hlutverk kvikmyndasjóðs fram á síðu hans: "Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa íslenska menningarlega skírskotun nema sérstök menningarleg rök leiði til annars." Hugsanlegar vinsældir eru hvergi nefndar.
Hversemer (IP-tala skráð) 5.8.2015 kl. 12:55
@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Það er gott að fá þessar tölur í umræðuna.
Verkefni í listum, er erfitt að meta og hvort þau séu verðug styrks eður ei, en ég held að kynferði hafi lítið vægi í þeirri jöfnu.
@Hversemer Þakka þér fyrir þetta. Það kann að vera rétt að tölurnar nái yfir aðeins tvö ár, en hefur þú einhverjar tölur yfir að hlutfall af umsóknum hafi verið með verulega öðrum hætti árin á undan? (ekki það að ég hafi þær)
Ef það er aðeins "öfgaspuni" karlrembusvína, að færri umsóknir kvenna skýri færri úthlutanir, hverjar eru þá skýringarnar - að þínu mati?
Þau að vissulega megi deila um skýringar á hugtökum eins og "menningarleg skýrskotum" nokkurn veginn endalaust, er þó ekki hægt að ætla að menningarleg skírskotun, felist í það minnst að hluta til í því hvað margir Íslendingar hafi áhuga á því að sjá myndina?
Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að slíkt er án efa verulega erfitt að meta fyrirram.
G. Tómas Gunnarsson, 5.8.2015 kl. 20:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.