14.7.2015 | 19:46
#Töfralausnin: Grikkland afsalar sér því sem eftir var af sjálfstæði þess og er nú í umsjá .. skiptaráðanda. Engar afskriftir þó að AGS telji þær nauðsynlegar.
Það var einu sinni sagt að fótbolti væri leikur sem spilaður væri í 2 X 45 mínútur og Þýskaland vinnur. Svipað má líklega segja um Eurosvæðið nú, það er fundað í 19 tíma og Þýskaland vinnur.
Þeir halda enda um stærstu budduna, buddu sem hefur bólgnað út vegna þess að þeir sígengisfella gjaldmiðill sinn með aðild að Eurosvæðinu, og hafa þar af leiðandi gríðarlegan viðskiptahagnað.
Sem þeir ætla ekki að deila með öðrum þjóðum svæðisins.
Grikkir eru hins vegar á hinum endanum, með alltaf sterkan gjaldmiðil, sem hefur á undanförnum 14 árum svipt landið samkeppnishæfi sínu, með með prógrömmum Eurosvæðisins og "Sambandsins" lagt efnahag landins því sem næst á hliðina, með efnahagslegum og samefélagslegum hörmungum.
Nú er niðurlæging Grikklands fullkomnuð, þegar erlent vald hefur neitunarvald á samþykktir þjóðþings þeirra. Sagt er að Grikkir hafi jafnframt afsalað sér rétti til að efna til kosninga. Slíkt verður ekki gert nema með samþykki Eurosvæðisins Þjóðverja.
Hluti af eignum Gríska ríkisins eru teknar og settar í sérstakan sjóð, og líklega seldar, hvort sem viðunandi verð fæst eður ei.
Svona getur farið fyrir ríkjum sem afsala sér valdi til yfirþjóðlegra stofnana og gangast undir að afsala peningamálstefnu sinni til seðlabanka sem er nær að fullu í erlendri eigu.
En líklega hefðu ýmsir talið að Grikklandi skorti fátt, 34. ár sem aðili að "Sambandinu" (töfralausninni), tók upp euro fyir ríflega 14 árum og hefur "sæti við borðið".
En töfralausnin virkaði ekki, euroið rændi landið samkeppishæfi sínu en gerði því kleyft að safna skuldum, og "sætið við borðið" var fyrst og fremst notað til að setja því skilyrði og úrslitakosti undanfarin ár.
En auðvitað var það ekki svo að töfralausninni, euroinu eða "sætinu við borðið" væri neytt upp á Grikki, nei þeir sóttust eftir því. Það er heldur ekki svo að allt annað í efnahag þeirra hafi verið í stakasta lagi.
Efnahagskerfið er meira og minna sósíalískt, reglufargan mikið, spilling landlæg og skattkerfi bæði gríðarflókið og óskilvirkt.
En það var vitað þegar Grikklanda gekk í "Sambandið, það var vitað þegar Grikkland fékk leyfi til að taka upp euroið, það vissu allir þegar Grikklandi voru veitt risalán 2010 (að mestu til að borga Frönskum og Þýskum bönkum) og það var vitað þegar Grikklandi voru veitt enn frekari lán 2012 (sem enn runnu að mestu til að borga lánadrottnum).
Og nú á enn að veita þeim lán, en engar skulda afskriftir eru nefndar. Og það þótt Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn telji skulda afskriftir algera nauðsyn. Það kemur fram í nýrri skýrslu frá "Sjóðnum", sem fullyrt er að Euroríkin hafi vitað um, áður en þau þvinguðu Grikki til samkomulags.
Það má telja furðulegt ef "Sjóðurinn" tekur þátt í einu enn prógrammi fyrir Grikkland án þess að verulegar skulda afskriftir komi til.
Sjóðurinn telur að Grikkkland þurfi greiðslufrí á öllum skuldum til "Sambandsríkja" í 30 ár eða meira, ef það eigi að eiga möguleika á því að rétta úr kútnum.
En Euroríkin ákváðu að hundsa þetta.
En ég hef samúð með Grikkjum, Grískum almenningi sem á mun betra skilið. En ég hef líka samúð með Þýskum, Finnskum, Slóvenskum, Eistneskum, Belgískum skattgreiðendum, sem eiga ekki skilið að sjálfsaflafé þeirra sé endalaust hent í einhverja óskilgreinda eurohít.
Grikkland mun aldrei borga allar skuldir sínar, það er bara spurning um hvernig þær "hverfa".
Líklega er best fyrir Euroríkin að huga að skipulegu uppbroti myntsvæðisins, slíkt kynni að takast vel, en óskipulegt uppbrot er líklegt að endi með hörmungum.
Verða að festa loforðin í lög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það er líka athyglisvert að lesa viðtal við fyrrum fjármálaráðherra Grikkja, Yanis Varoufakis, um þennan skrípaleik sem viðræður Grikkja við Evruríkin/Þýskaland (lesist Dr Schäuble) hafa verið undanfarna mánuði. Viðtalið má lesa hér: http://www.newstatesman.com/world-affairs/2015/07/exclusive-yanis-varoufakis-opens-about-his-five-month-battle-save-greece
Erlingur Alfreð Jónsson, 14.7.2015 kl. 20:29
@Erlingur Þakka þér fyrir þetta. Viðtalið er að ýmsu leyti athyglisvert. Varoufakis er áhugaverður karakter, þó að ég telji að hann (og Syriza) hafi að mörgu leyti haldið illa á málum. En þeir eru heldur ekki í öfundsverðri stöðu.
Ég held að flestum hafi verið ljóst um all nokkra hríð (sem hafa vilja til að sjá) að Þjóðverjar eru hið ráðandi afl á Eurosvæðinu og í "Sambandinu", þeir enda með bólgið veski, eftir að hafa sígengisfellt gjaldmiðill sinn um langa hríð.
En ég er einnig þeirrar skoðunar að Schäuble eigi ekki skilið allt það "rap" sem hann hefur hlotið.
Hann má eiga það að hann hefur sett "konkrít" hugmyndir á borðið. Sagði að það gæti hjálpað að Grikkir efndu til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir vildu euroið og sætta sig við viðeigandi niðurskurð.
Tillaga hans um 5 ára eurohlé fyrir Grikkland, er líka allrar athygli virði, og stendur þvert á það sem Varoufakis hefur haldið fram að ef Grikkland tæki upp drökhmu, yrði það að ganga úr "Sambandinu".
Persónulega held ég að eina langtímalausnin sé á slíkum nótum, Grikkland hverfi af eurosvæðinu (til skemmri eða lengri tíma) með aðstoð annara Euroríkja og Seðlabanka Eurosvæðisins.
Grikkland getur ekki til langframa ætlast til að önnur ríki Eurosvæðisins haldi áfram að senda þeim peninga,sem þeir eiga enga möguleika á því að endurgreiða.
Slíkt er eingöngu hægt ef sambandsríki yrði stofnað, og til þess er ekki pólítískur vilji í "Sambandinu", nema ef til vill í efstu lögum þess.
En öll þessi krísa sýnir hvað uppbygging Eurosvæðisins og "Sambandsins" er slæm, ákvörðunartaka er erfið, og á köflum næsta ómöguleg. Lagalegur ágreiningur og losaraleg lög (eins og um Eurosvæðið) auka á óvissu, en gerir jafnframt þeim sterku kleyft að fara fram, næstum eins og þeim þóknast.
Ég hef sagt það áður, að menn þurfa að vera verulega áhættusæknir, eða "létt geggjaðir" til að vilja að Ísland gangi í samband sem þetta og fela þeim yfirráð yfir t.d. fiskstofnum og hafinu í kringum Ísland.
Það er að opna á þvinganir og kúganir sem gætu endað illa. Ekki síst ef "eigin" seðlabanki starfar svo að mestu í þágu erlendra eigenda sinna.
Euro/Grikklandskrísan ætti að hafa vakið marga til umhugsunar.
G. Tómas Gunnarsson, 15.7.2015 kl. 06:58
Staðan núna hjá ESB er kannski að sýna hve illa fara saman hagsmunir stærri og smærri ríkja/hagkerfa. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til að Þýsklaland sem hefur sýnt ábyrgð og ráðdeild í sínum efnahagsmálum sé einhvers skonar "almannatryggingakerfi" fyrir önnur ESB lönd sem kunna ekki fótum sínum forráð í þeim efnum, sbr. t.d. þetta hér:http://structurae.de/fotos/193797-neubau-griechische-botschaft-berlin
Eygló (IP-tala skráð) 15.7.2015 kl. 15:30
@Eygló Þakka þér fyrir þetta. Þetta sýnir að Eurosvæðið er ekki "fúnkerandi" myntsvæði, þar sem ríkin innan þess eru of ólík. Þetta sýnir líka að þeir sterkari ráða, eins og oftast vill verða.
Hvað er sanngjarnt? Var það sanngjarnt að fórna Grikklandi árið 2010 til að bjarga euroinu? Var það ásáttanlegur fórnarkostnaður, og ef svo er fyrir hvern?
Ekki Grikki alla vegna.
Vissulega má saka Grikki um margrt, þar með talið spillingu, bruðl, sósíalíska efnahagsstjórnum o.s.frv., en ef til vill fyrst og fremst um barnaskap, með því að taka upp euroið og halda að þar sætu þeir jafnfætis stóru þjóðunum.
En eins og einn Íslenski "Sambandssinninni" skrifaði, voru menn svo áfram um að selja kosti eurosins, að þeir gleymdu að minnast á gallana.
Það eru einmitt gallarnir sem Grikki eru að upplifa nú.
En hvað lengi skyldu menn á Íslandi halda áfram að trúa á "töfralausnina"?
G. Tómas Gunnarsson, 16.7.2015 kl. 07:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.