Hluthafi ætti auðvitað að segja nei

Ég get vel skilið að Landsbankinn sjái hagræði í því að byggja stórar höfuðstöðvar, og sameina þar mikið af starfseminni. Það mun áreiðanlega hafa í för með sér sparnað til lengri tíma litið.

En ég get ekki séð nein rök fyrir því að slík bygging eigi að vera við hlið Hörpu á hafnarbakkanum í Reykjavík, sem líklega er með dýrustu byggingarlóðum á landinu.

Væri ekki nær fyrir Landsbankann að leigja pláss fyrir lítið útibú, annahvort í Hörpu, eða þá fyrirhugaðri hótelbyggingu á þessu svæði?

Höfuðstöðvar, bakvinnsla og annað slíkt mætti svo byggja í úthverfi, á ódýrri lóð. Slíkar lóðir má ábyggilega enn finna í Reykjavík, nú eða jafnvel í Garðabæ eða Hafnarfirði.

Með slíku vinnst margt.

Fasteignagjöld á hafnarbakkanum eru með eindæmum há, það hefur mátt lesa um vandræði sem slíkt skapar Hörpu. Ég hef ekki trú á því að slíkt valdi Landsbankanu vandræðum, en slíkt ætti þó að vera kærkominn sparnaður sem fengist með ódýrari byggingu.

Því myndi ekki aðeins byggingarkostnaður lækka, heldur myndi fasteignagjöld líklega vera 100 milljónum eða meira lægri á hverju ári.

Það myndi líklega sömuleiðis létta umferðina á og við hafnarbakkann og auðvelda starfsmönnum að komast í og úr vinnu. Sjálfsagt eru einhverjir sem koma á hjóli, en það er eitthvað sem segir mér að slíkt sé ekki meirihlutinn.

Auðvitað á aðaleigandi Landsbankans að grípa þarna inn og beita valdi sínu.  Eigendurnir eru skattgreiðendur, en er það ekki Bankasýsla ríkisins sem fer með atkvæðin fyrir þeirra hönd?

Er hún starfi sínu vaxin?

 


mbl.is Kemur niður á vaxtakjörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Jahérna. Nú er ég bara alveg sammála þér. Hverju orði.

Kristján G. Arngrímsson, 14.7.2015 kl. 18:21

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Þakka þér fyrir þetta. Líklega þarf ég eitthvað að endurskoða afstöðu mína, fyrst að við erum orðnir sammála. Það gengur auðvitað ekki upp.  :-) Set hér Glitnisbroskall.

En að öllu gamni slepptu, þá er þetta einfaldlega ekki hægt og hluthafar, eða fulltrúar þeirra, eiga auðvitað að láta mál sem þessi til sín taka.

Það er verið að eyða þeirra peningum.

G. Tómas Gunnarsson, 14.7.2015 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband