Er lýðræðið of mikilvægt til að hægt sé að treysta kjósendum fyrir því?

Ég horfði á Silfur Egils, svona á hlaupum með öðru í dag.  Ég verð að segja að í heild fannst mér þátturinn frekar dapur, þó að vissulega kæmu sprettir.

Vettvangur dagsins var ekki mjög skemmtilegur, þó kom Lýður mér skemmtilega á óvart, lang frambærilegasti forystumaður Frjálslyndra sem ég hef heyrt í fyrir þessar kosningar, ekki "smurðasta" sjónvarpsframkoman, en það sem hann hafði að segja var einhvers virði.

Síðan eitt enn viðtalið við Jón Baldvin, það er engu líkara en að Jón Baldvin sé á fullu að rukka inn gamla greiða hjá fjölmiðlafólki, persónlega næ ég því ekki hver tilgangurinn er með öllum þessum viðtölum við hann, nema að þetta eigi að uppfylla einhverja nostalgíu þörf hjá gömlum krötum.

A tímabili fannst mér eins og ég sæti á kaffihúsi og heyrði "óvart" samtal tveggja Samfylkingarmanna á næsta borði, þar sem þeir skeggræddu hvað gæti nú komið flokknum þeirra til hjálpar og hvað pólítíkin væri ósanngjörn.  Komment eins og um "ljóskuna í Menntamálaráðuneytinu" gerðu ekkert nema að undirstrika þá tilfinningu (ég býð eftir því að öll "kvenfrelsisfylkingin" særi Jón niður fyrir þetta orðbragð).

Annað sem mér fannst stórmerkilegt að heyra Jón segja, var að ef að ekki væri skipt um ríkisstjórn, væri lýðræðið ekki að virka.  Það er sem sé ekki almennilegt lýðræði, ef kjósendur kjósa ekki til að breyta.

Hvílíkt og annað eins rugl.

Þetta er eins og að segja að lýðræðið sé of mikilvægt til að treysta kjósendum fyrir því.

Auðvitað notar fólk kosningaréttinn til að velja þann kost sem hverjum og einum líst best á.  Eðli hlutanna samkvæmt endurnýja kjósendur umboð þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn, ef þeim þykir svo að betri kostir bjóðist ekki.

En það er einmitt meinið, vinstriflokkunum gengur illa að setja sjálfa sig fram sem betri og skynsamlegri kost, því eru þeir farnir að hamra á því að best sé að breyta, breytinganna vegna, enginn eigi að sitja lengi, heldur þurfi að breyta til.  Þetta er farið að hljóma hættulega nálægt pólitísku gjaldþroti ef þið spurjið mig.

Jón er að mínu mati reyndar farinn að hljóma eins og gamall þreyttur pólitíkus, sem er sársvekktur yfir því að þjóðin hefur plummað sig sem aldrei fyrr, eftir að hann hvarf frá stjórnvellinum, finnst eins og honum sé ekki nægur sómi sýndur, og reynir því eftir fremsta megni að troða sér í "spottið" og útdeila visku sinni, sem honum finnst of fáir fara eftir.

Langbesti partur þáttarins var hins vegar viðtalið við Slavoj Zizek, þó að ég sé ekki endilega sammála öllu því sem hann sagði, þá er ekki annað hægt en að hrífast af málflutningi hans og því af hvað miklum innileik hann setur fram mál sitt.  Hann veltir upp flötum og hlutum og kemur af stað hugsunum, ákaflega skemmtilegt að hlusta á hann.

Ég hef ekki lesið neitt efti Zizek, en keypti fyrir viku eða svo Revolution at The Gates, en þar velur hann úr ritverkum Lenins frá 1917, og skrifar inngang og eftirmála.  Líklega verð ég að fara að drífa í því að koma henni í lestur.

P.S. Ég hélt að flestum hefði verið það ljóst að hin "stóra sameining" vinstrimanna hefði mistekist þegar árið 1999, þegar Samfylkingin og VG buðu fram, en ekki einn flokkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband