9.7.2015 | 10:20
Beggja skauta byr Pírata - 2ja flokka stjórn?
Þeir sigla góðan byr í skoðanakönnunum þessa daga Píratarnir. Að mörgu leyti er það skiljanlegt, og að öðru leyti ekki.
Á miðju kjörtímabili er ekki óeðlilegt að ríkistjórn hafi mótbyr, reyndar gætir víða um lönd vaxandi óþolinmæði gagnvart stjórnvöldum og nýjum flokkum vex fiskur um hrygg.
Þess gætir einnig á Íslandi, því þó að ríkisstjórnin sé vissulega ekki ofsæl af sínu fylgi, virðast kjósendur enn síður geta hugsað sér að kjósa flokkana úr síðustu ríkisstjórn, Samfylkingu og Vinstri græn.
Reyndar er staða Samfylkingarinnar með eindæmum döpur, og ef ekki væri fyrir "sædkikkið" Bjarta framtíð, væri hún minnsti flokkurinn sem er á þingi nú (í þessari skoðanakönnun). Flokkurinn er búinn að missa u.þ.b. 2/3 af fylgi sínu frá því að best lét.
Sú afsökun sem lengi var notuð að Björt framtíð væri að fiska á sömu miðum, með sömu stefnumál, er vart nothæf lengur, enda samanlagt fylgi flokkanna aðeins um 15%.
Sjálfstæðisflokkurinn er ennþá langt frá sínu "eðlilega" fylgi, en má samt best una við sitt af "gömlu" flokkunum, þó að það sé auðvitað lítil huggun.
Framsóknarflokkurinn er búinn að missa mikið fylgi, þó segja megi að hann hafi séð það svartara í skoðanakönnunum. Það segir þó líka sögu að hann skuli vera fjórði stærsti flokkurinn í þessari könnun.
12% nægja Vinstri grænum til að vera þriðji stærsti flokkurinn. Þannig er ástandið í Íslenskri pólítík þessa dagana. Þó að margir virðast kunna vel við formann flokssins og bera til hennar traust, þá virðist afgangurinn af flokknum duga vel til að kjósendur leita annað.
Og svo eru það Píratar - þeir sigla með himinskautum líkt og í undanförnum könnunum.
Hve stór hluti þeirra sem gefa Pírötum stuðning sinn í þessari könnun, gerir það vegna þess að þeir fylgja þeim beint að málum er erfitt að segja til um, það er nokkuð freistandi að álíta að all margir geri það hreinlega vegna þess að þeir vilja ekki styðja nokkurn hinna flokkanna.
En það breytir því ekki að Píratar, ef þeir halda vel á spöðunum, eiga góða möguleika á því að stórauka fylgið í næstu kosningum, ég tel það reyndar nokkuð víst, þó ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að þeir verði yfir 30%.
En það skiptir auðvitað (jafnvel meira en hjá öðrum flokkum) miklu máli hvernig skipast á framboðslista og svo er það spurningin hvernig þeim gengur að halda sérstöðu sinni?
Nú er til dæmis að hætta á þingi sá þingmaður þeirra sem mér hefur litist best á. Í borgarstjórn virðast þeir falla inn í meirihlutann eins og flís.. og starfa þar eins og hefðbundnu vinstriflokkarnir, alla vegna eins og ég sé úr fjarlægð.
En mér þykir það nokkuð merkilegt þegar verið er að skeggræða skoðanakannanir upp á síðkastið, að ég man ekki eftir því að neinn hafi ymprað á einu tveggja flokka stjórninni sem er í spilunum, ef úrslitin yrðu með þessum hætti.
Það er stjórn Pírata og Sjálfstæðisflokksins, sem (með fyrirvara um skipan framboðlista) ég held að gæti orðið fyrir marga hluta sakir góð og athyglisverð ríkisstjórn.
En þar eru líklega margir ósammála mér.
Píratar enn langstærstir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Pírataflokkurinn er ekki aðeins stórlega ámælisverður,* heldur verða menn að átta sig á því að hann er of liðfár til að stilla upp framboðslistum um allt land. Haldi hann miklu fylgi næstu tvö árin, býður þetta upp á, að alls kyns óþekktir menn ryðjist þar snögglega í framboð stuttu fyrir koningar, kannski einberir egóistar sem ætla sér að ota sínum tota og komast í vel launað starf. Það væri þá eins og að kaupa köttinn í sekknum fyrir landsmenn að kjósa Pírata, menn vissu ekkert hvað kæmi út úr því næstu fjögur árin. Ábyrgðarlaust og í raun vítavert yrði þannig að kjósa þennan flokk, sem var nú nógu slæmur fyrir!
* Samanber til dæmis:
Valkosturinn er til (annar en Píratar) ef rétta fólkið hefur döngun í sér til að taka þátt í væntanlegu áhlaupi
Blindni einber og vondur ásetningur veldur því, að sumir, m.a. Píratar, vilja enn stunda ránsferðir á hendur kirkjunni
Æpandi þögn Pírata um afstöðu þeirra til kókaínsmygls - Málsvarar lögleysu?
Málefnablankur flokkur næstur Sjálfstæðisflokki í Reykjavík
Nefbeinslausir frambjóðendur vilja ryðjast inn á fagsvið læknavísindanna vegna ófaglegs, ytri þrýstings!
Smekklaus mótmæli gegn Thatcher látinni - og aðeins um Pírata og Búsáhaldabyltingu
Píratar: skrópasóttargemlingar Alþingis
Píratar hæstir - heyr á endemi !
Píratar - valkostur vegvilltra?
.
Jón Valur Jensson, 9.7.2015 kl. 11:16
Engum heilvita manni dettur í hug að píratar fái þriðjung gildra atkvæða á landsvísu.Ekki einu sinni þeim sjálfum. Sem gerir þessar kannanir að hreinum samkvæmisleik.
Pakkakíkir (IP-tala skráð) 9.7.2015 kl. 11:18
@Jón Valur Þakka þér fyrir þetta. Ég vil þó helst að hér sé skrifað með hefðbundnu letri, en ekki í upphrópunar og æsingastíl.
Þó að ég muni líklega ekki kjósa Pírata, sé ég því miður ekki marga betri valkosti, en það er önnur saga.
Ég þekki engar árásir á kirkjuna, en þeir eru margir sem vilja losna við að greiða til hennar með sköttum sínum og taka af henni forréttindi. Best væri að henni væri gert að standa á eigin fótum.
Líklega er þetta einn hluti vinsælda Pírata.
Æ fleiri vilja endurskoða refsistefnu í fíkniefnamálum og jafnvel gera þau lögleg. Stríðið gegn þeim hefur ekki skilað árangri.
@Pakkakíkir Þakka þér fyrir þetta. Eins og ég segi í upphaflega pistlinum, þá tel ég ólíklegt að Píratar haldi þessu fylgi, en líklegt að þeir bæti verulega við sig.
Ekki það að fram á síðustu stundu, höfðu ekki margir trú á því að næstum hreinn meirihluti Besta flokksins yrði talinn upp úr kjörkössunum.
Því ber að hafa í huga að, ef til vill ekki allt, en flest getur gerst.
En auðvitað skiptir meginmáli hvernig allt raðast upp fram að kosningum, og ekki síst hvernig ríkisstjórninni tekst til. Það eru mikilvæg mál framundan, aflétting gjaldeyrishaft o.s.frv.
Enn eru 2. ár til kosninga, en hinir "hefðbundnu" stjórnmálaflokkar geta ekki leyft sér að halda að fylgið snúi til baka fyrirhafnarlaust.
G. Tómas Gunnarsson, 9.7.2015 kl. 11:41
Spurning hvort þeir gætu orðið næststærsti flokkurinn með helming af spáðu fylgi. það væru stórtíðindi..☺
GB (IP-tala skráð) 9.7.2015 kl. 12:54
@GB. Þakka þér fyrir þetta. Það er góður möguleiki fyrir Pírata að verða næst stærsti flokkurinn. Eins og áður fer það allt eftir hvernig þeim tekst upp í aðdraganda kosninga.
Hvaða "liði" þeir stilla upp, hvaða mál þeir setja á oddinn og hvernig baráttan vinnst þeim.
G. Tómas Gunnarsson, 9.7.2015 kl. 14:47
Það er óþarfi að minna á Besta flokkinn, geri ég ráð fyrir.
Kristján G. Arngrímsson, 9.7.2015 kl. 17:21
Sá sem þetta "komment" skrifar er að vísu sjálfstæðismaður af gamla skólanum. Hef því lengst af litið á framsóknarmenn og hentistefnu þeirra sem versta óvin frjálslyndis og frjálsrar hugsunar. Við, sem tilheyrum þessum hópi sjálfstæðisfólks viljum því helst af öllu, að Bjarni slíti samstarfinu við framsókn og rjúfi þing og efni til kosninga í haust. Við erum sannfærð um að það yrði til þess að stórauka fylgi við þennan flokk okkar, sem hefur verið kjölfestan í stjórnmálalífi þjóðarinnar frá því hann var stofnaður. Flokkurinn hefur alltaf tapað á samstarfi við hinn sið- og samviskulausa framsóknarflokk.
Móri (IP-tala skráð) 9.7.2015 kl. 17:55
Það sem er svo aðlaðandi við Píratana er að þeir virðast ekki hafa neinn áhuga á völdum. Birgitta hefur beinlínis sagt að hún vilji ekki verða forsætisráðherra. Einmitt þess vegna þurfa þeir að taka við völdum og hún að verða forsætisráðherra. Það er komið alveg nóg af pólitíkusum sem eru eingöngu að seilast eftir völdum fyrir sig og hagsmunabræður sína, en þykjast vinna fyrir almenning, eins og ég held að Samfó hafi einhverntíma flaggað. Það er auðvitað bara hræsni. Venjulegir pólitíkusar eru núorðið ekki annað en lobbíistar.
Kristján G. Arngrímsson, 9.7.2015 kl. 17:58
@Móri Þakka þér fyrir þetta. Að mínu mati væri það það vitlausasta sem hægt væri að gera nú, að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og efna til kosninga.
Það er margt sem þarf að klára, ekki síst varðandi léttinug gjaldeyrishafta. Flokkur sem efndi til kosninga við slíkar kringumstæður ætti skilið að vera hegnt, og yrði það ábyggilega í kosningum.
Það má margt misjafnt segja um Framsóknarflokkinn (og reyndar alla flokka ef út í það er farið), en þegar litið er yfir stöðuna nú, get ég ekki séð að það bjóðist betri kostir.
@Krisján. Þakka þér fyrir þetta. Ég minntist reyndar á Besta flokkinn hér að ofan, það má sjá ákveðinn líkindi með þeim og Pírötum, en samt eru þetta gerólíkir flokkar. En margir munu líklega velta fyrir sér endingunni, rétt eins og með Besta.
Persónulega þykir mér Birgitta lang sísti þingmaður Pírata, og eitt af því fáa sem ég tel henni til kosta er að hún vill ekki verða forsætisráðherra.
En aðalspurningin er hvernig listar Pírata verða mannaðir í næstu kosningum. Líklega þurfa þeir "að berja frá sér" kandídata, ef fylgi þeirra helst í skoðanakönnunum þangað til.
Hvort það tekst er svo annað mál.
G. Tómas Gunnarsson, 9.7.2015 kl. 18:14
Jæja, við erum þá sammála um helsta kostinn við Birgittu: Hún vill ekki verða forsætisráðherra.
Ég er líka sammála því að mikil eftirspurn verði eftir sætum á lista Pírata. Ég gæti alveg hugsað mér að sitja þar sjálfur, en spurning hvort Jón Valur teldi mig ekki of óþekktan og jafnvel egóista.
En minni aftur á hvernig fór með Bezta, þar valdist mikið úrvalsfólk á lista og hefur sómt sér vel í borgarstjórn.
Kristján G. Arngrímsson, 9.7.2015 kl. 18:39
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Já, þá lýtur ávallt vel út ef pólítíkusar virðast þekkja sína takmörk. En það á líka til að breytast. Rétt eins og Birgitta var búinn að gefa út að hún ætlaði að hætta, en nú þegar völd virðast vera innan seilingar, er kominn efi í það.
Þá er bara að byrja að vinna í framboðsræðunum Kristján.
G. Tómas Gunnarsson, 9.7.2015 kl. 19:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.