Grísland?

Í allri umræðunni um Euro/Grikklandskrísuna hafa margið gert mikið úr samanburði á milli Grikklands og Íslands.

Þó að vissulega megi finna sameiginlega þætti, þá eru krísurnar í raun gjörólíkar.

Vissulega eru sameiginlegir þættir, eins og miklar skuldir, vinstri sinnuð stjórnvöld (þegar þjóðaratkvæðagreiðslurnar voru haldnar), þjóðaratkvæðagreiðslur, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið.

En stærsti munurinn er sá að skuldavandræði Grikkja hafa alltaf snúist um skuldir ríkisins. Það var ríkið sem sló lánin og það var ríkið sem var í erfiðleikum með að greiða þau.

Á árunum fyrir bankahrun hafði Íslenska ríkið hins vegar greitt sín lán upp að stærstum hluta. Það voru bankarnir sem voru ofurskuldsettir og lentu í vandræðum með að greiða sín lán.

Þjóðaratkvæðagreiðslurnar á Íslandi snerust ekki um hvort að ríkið ætti að greiða skuldir sínar (það hafa Íslensk stjórnvöld ávallt gert), heldur hvort ríkið ætti að taka ábyrgð á skuldum sem Landsbankinn hafði stofnað til, og Bresk og Hollensk stjórnvöld höfðu fært yfir til opinberra aðila.

Þjóðaratkvæðagreiðslan í Grikklandi var heldur óljósari, en snerist um hvort að segja ætti já eða nei við tilboð um greiðslu og lánaáætlun sem í boði var (eða ekki) af hálfu Euroríkjanna.

Gríska ríkisstjórnin ákvað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá álit þjóðarinnar, en vinstri stjórnin á Íslandi barðist gegn þjóðaratkvæðageiðslum, og hundsuðu flestir ráðherrar þá fyrri (líklega er það einsdæmi að forsætisráðherra lands hundsi þjóðaratkvæðagreiðslu).

Ísland þurfti aldrei að setja nein takmörk á notkun gjaldmiðils síns, eins og Grikkland og Kýpur hafa þurft að gera, þó að gjaldeyrishöft hafi vissulega verið sett á og séu enn í gildi.

En bankar á Íslandi lokuðu aldrei og allir höfðu aðgang að peningum sínum til nota innanlands eftir sem áður.

Seðlabanki Íslands starfaði enda með stjórnvöldum, en ekki gegn þeim.

Gengisfall Íslensku krónunnar efldi útflutning og styrkti samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. Slíkt er yfirleitt ein af grunnaðgerðum Alþjóða gjaldeyrisjóðsins en stóð Grikklandi ekki til boða.

Gjaldeyrishöft og sjálfstæður gjaldmiðill hindruðu fjárflótta frá Íslandi, nokkuð sem ekki stöðvaðist fyrr en bönkun var lokað í Grikklandi.

Það er því ljóst að mínu mati að þó vissulega megi sjá sameiginlega þætti, þá er aðstaða Grikklands og Íslands á engan hátt samanburðarhæf.

Grikklandi stendur engin "Íslandsleið" til boða.

Skuldirnar og orsakir þeirra eru ólíkar. Ísland fékk engar skuldir niðurfelldar og sóttist ekki eftir því. Fyrir Grikkland er slíkt lífsnauðsynlegt.

Það er engin spurning í mínum huga að Ísland var betur statt utan "Sambandsins" og Eurosvæðisins, með eigin gjaldmiðil og betur varið gegn þvingunum.

Það kemur æ betur í ljós í Grikklandi hvaða máli það skiptir að hafa framselt vald eins og t.d. í peningamálum til "Sambandsins".

Grikkir sýndu mikið hugrekki í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þrátt fyrir lokaða banka og lítt duldar hótanir ýmissa forystumanna Evrópusambandsins, sögðu þeir nokkuð afdráttarlaust nei.

Hvað við tekur veit engin og enn einn gálgafresturinn hvílir á landinu eins og mara, nú fram á sunnudag.

Þvælingurinn fram og aftur um "blindgötuna" hefur þegar valdið ómældu tjóni, bæði í Grikklandi og í Evróusambandinu, og þar bera báðir aðilar sök.

Það hljóta allir að vera sammála um að að mál sé að linni.

Það verður að ljúka málinu, endanlega. En það er nokkuð sem "Sambandið" virðist sífellt eiga erfitt með.

Svo vitnað sé til Ensks máltækis, þá er búið að sparka dósinni svo lengi áfram, að dósin er svo gott sem ónýt.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

  Atvinnuleysið hefur verið 25% í mörg ár og þjóðarframleiðslan hefur minkað um 30%. 

Greiðsla himinhárra skulda er  óhugsandi.

 Ætti ekki að vera forgangsmál.

Snorri Hansson, 8.7.2015 kl. 10:54

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Snorri Þakka þér fyrir þetta. Atvinnuleysi hefur verið ríflega 25% í mörg ár, þrátt fyrir mikinn brottflutning og þá staðreynd (sem ekki líklega farið fram hjá neinum) að Grikkjum stendur til boða að fara snemma á eftirlaun.

Þjóðarframleiðslan hefur hrunið, laun lækkað o.s.frv. Ekkert af þessu eykur skatttekju, sem innheimta á var þó broguð fyrir.

Sífellt "neyðarástand" og "neyðarfundir" sem engu skila hvetur heldur ekki til betri skattskila.

Fjárfestingar eru ekki álitlegar í stöðugu neyðarástandi.

Og svona má lengi áfram telja.

Þess vegna er nauðsynlegt að leiða málið til lykta, í eitt skipti fyrir öll.

Persónulega sé ég ekki að til séu nema tveir valkostir. Annað hvort skuldaniðurfelling (í það minnsta 30%) eða að Grikkland yfirgefi euroið.

En allt eins líklegt er að einhver ógegnsæ bráðabirgðalausn verði ofan á.

G. Tómas Gunnarsson, 8.7.2015 kl. 12:14

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Svo hefur það náttúrulega lengi verið þannig í Grikklandi að þeir ríku borga ekki skatta af ofurtekjum sínum. Það er bara þessi venjulega millistétt og fátækir sem borga skatta. Gamla sagan. Það eru þeir ríku sem valda mestum skaða með græðgi sinni.

En það sem er eins í grísku og íslensku krísunni er að menn vilja komast hjá því að standa við skuldbindingar sínar. Hvort það eru opinberir eða einkaaðilar skiptir í sjálfu sér ekki máli. Það er siðferðilega rangt að standa ekki við loforð.

Það sem vakti fyrir íslenskum stjórnvöldum í Icesave málinu var að "Íslendingar" stæðu við orð sín. Aðgreiningin í ríki og Landsbanka var bara mikilvæg sem retorík til að réttlæta það að loforð væru svikin. Fyrir utan að það voru stjórnvöld sem ákváðu að útlendingar sem áttu sparifé í Landsbankanum töpuðu því, en Íslendingar töpuðu ekki sínu. Þar með voru stjórnvöld orðin samsek, ef svo má segja, og hefðu átt að gangast við því.

Kristján G. Arngrímsson, 9.7.2015 kl. 08:01

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það er undarleg árátta að sjá ekki mun á hinu opinbera og einkafyrirtæki.

Landsbankinn er auðvitað langt í frá að vera eina fyrirtæki sem hefur farið á höfuðið og haft erlendar skuldir. Hvort sem talað er um Ísland eða í víðara samhengi. Og ekki hefur krafan um ábyrgð viðkomandi ríkja komið upp.

Og Grikkland er heldur ekki fyrsta ríkið sem ekki getur staðið við skuldbindingar sínar. Þau eru reyndar ótrúlega mörg ríkin sem hafa farið þá leið.

Yfirleitt er það svo að ríki reyna að vernda þegna sína, fremur en þegna annara landa. Það gerir Íslenska ríkið ekki sekt um eitt eða neitt.

Hvað skattheimtu í Grikklandi varðar, viðurkenni ég fúslega að vera ekki sérfræðingur í henni.

En það sem hefur þó verið að koma fram, er að kerfið er mjög flókið, fullt af undanþágum og virkar því ekki.

Bara virðisaukaskattkerfið er með 6 þrep ef ég hef skilið rétt, misjafnt eftir landsvæðum og þannig fram eftir götunum.

Innheimtan svo í molum.

Margir ríkir greiða svo eins og þú segir lítinn skatt og euroið hefur svo gert þeim kleyft að flytja fé sitt úr landi, án þess að tapa nokkru.

G. Tómas Gunnarsson, 9.7.2015 kl. 10:30

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hvort sem það er einkafyrirtæki eða hið opinbera sem stendur ekki við orð sín er um að ræða siðferðisbrest, þú hlýtur að sjá það. Siðferði hefur ekkert með eignarhald að gera, bara gjörðir einstaklinga.

Þótt mörg ríki og fyrirtæki hafi í gegnum tíðina ekki getað staðið við skuldbindingar sínar er ekki þar með sagt að það sé allt í lagi að standa ekki við skuldbindingar. "Svo má böl bæta að benda á eitthvað annað" er öfugmæli, þú veist það, ekki satt?

Ríki sem mismunar fólki eftir þjóðerni er jú svo sannarlega sekt um eitthvað. Kannski hefur það ríki ekki brotið lög, en það hefur brotið svo ótal siðareglur að ég veit ekki hvar á að byrja - t.d. bara á jafnræðisreglu, sanngirnisreglu og margar fleiri.

Það var og er mjög athyglisvert að fylgjast með málum eins og Icesave og Grikklandskrísunni útfrá siðferðilegum sjónarhornum, vegna þess að það er alltaf eins og siðferði komi þessu ekkert við, en samt er kjarni þessara mála alltaf siðferðilegur án þess að nokkuð sé minnst á það og þess vegna verða þessi mál alltaf öllum óskiljanleg. Það er alltaf talað um hluti sem skipta ekki meginmáli, eins og t.d. lög og peninga.

Kristján G. Arngrímsson, 9.7.2015 kl. 11:03

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Og hvernig heldur þú að Landsbankinn hefði átt að standa við sitt? Hann varð gjaldþrota og breyttist í það sem kallað var/er Gamli Landsbankinn. Hvort að gjaldþrot er svo siðferðislega rangt, er líklega umdeilanlegt, og spilar þar líkklega ekki síst inn í aðdragandinn. En siðferðisbrestir stjórnenda Landsbankans eru varla á ábyrgði Íslenskra stjórnvalda.

Í viðskiptum þar sem lán spila hlutverk, verður hver og einn að vega og meta hvernig hann metur áhættuna við að lána einhverjum. Það er gert svo milljónum skiptir á hverjum degi. Stundum tapast fé, þó að ég hygg að oftar sé það ekki.

Íslenska ríkið mismunaði fólki ekki eftir þjóðerni, heldur búsetu ef tala má um mismunun. Það ábyrgðist innistæður á Íslandi, en ekki í öðrum löndum. Ég get ekki séð að það brjóti verulega jafnræðisreglu.

Reyndar færðu Neyðarlögin og breytingar á forgangsröð innistæðueigendum hjá Landsbankanum (sem og öðrum bönkum) gríðarleg réttindi.

Mistökin í Grikklandkrísunni, að mínu mati, er fyrst og fremst þegar "Sambandið" færði lánin frá einkaaðilum yfir til skattgreiðenda.

Einkaaðilarnir áttu að þurfa að taka ábyrgð á því hvernig þeir höfðu lánað.

Sú tilfærsla er stærstu siðferðismistökin.

G. Tómas Gunnarsson, 9.7.2015 kl. 11:28

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

 Það er ekki hægt að skilja að Landsbanka (gamla) og stjórnvöld. Slíkt er bara hártogun. Orsakir þess hvernig fór var að stórum hluta græðgi, og þá ekki bara stjórnenda Landsbanka heldur líka stjórnmálamanna og forseta sem héngu eins og grúppíur utaní bönkunum. Að ógleymdum óbreyttum Íslendingum sem settu met í barnaskap og græðgi - sbr. Reinsróveraeign hérlendis.

Vel má vera að neyðarlögin hafi verið nauðsyn og lögleg, en það breytir ekki því að þau voru siðferðilega mjög vafasöm. En þá hefðu menn átt að hafa myndugleika í sér til að gangast við því og reyna eftir mætti að bæta fyrir. þess vegna hefði átt að semja. Í staðinn var haldið áfram að láta græðgina stjórna ferðinni. En þannig er nú einu sinni gildismatið sem liggur til grundvallar hagsmunabandalaginu sem kallast Sjálfstæðisflokkurinn.

Kristján G. Arngrímsson, 9.7.2015 kl. 12:56

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það er í raun ekkert sem tengir saman (gamla) Landsbankann og stjórnvöld, nema að bankinn var jú Íslenskur.

Rovera eign og annað slíkt breytir engu þar um.

Hvaða siðferðisskyldur eru það sem eru ofar lögum og hver ákveður það?

Það er sjálfsagt að reyna að semja og slíkt var auðvitað reynt. En eftir breytingar á fyrsta samningi (sem var reyndar hræðilegur) höfnuðu Bretar og Hollendingar honum.

Síðan höfnuðu Íslenskir kjósendur samningum.

Þegar ekki nást samningar er eðlilegt að málið sé útkljáð fyrir dómstólum.

Það var og gert.

G. Tómas Gunnarsson, 9.7.2015 kl. 14:38

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er enginn sem ákveður hvaða siðferðisskyldur eru ofar lögum. Það er enginn sem ákveður hvað er siðferðilega rétt. Það þarf einfaldlega að komast að því hver svörin við þessum spurningum eru.

En því miður er soldið algengur sá misskilningur á Íslandi að siðferði sé spurning um skoðun og að einhver þurfi að ákveða hvað er rétt og rangt. Þetta eru leifar af því þegar leitað var svara í Biblíunni. Lengi vel var það þannig að sá sem var ríkastur var álitinn vita muninn á siðferðilega réttu og röngu, einnig var mikið leitað til þeirra sem voru einfaldlega frekastir og stjórnsamastir.

Líklega rétt sem bent hefur verið á, að það veitir ekki af að landsmenn fái menntun í siðfræði.

Kristján G. Arngrímsson, 9.7.2015 kl. 17:25

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Ef þú segir að lög hafi ekki verið brotin, hvernig telur þú þig geta sagt að eitthvað sé siðferðislega rangt?

Vissulega getur það verið þín skoðun, en er það eitthvað meira?

Rétt eins og gamli frasinn: Löglegt en siðlaust, er í raun eingöngu skoðun, eða hvað?

En lögin breytast, stundum hægar en siðferði sumra, en hraðar en siðferði annara.

En siðferði, eða öllu heldur það sem oft er talað um sem "gott siðferði", breytist oft hratt og byggist ekki sýst á sjónarhóli hvers og eins.

G. Tómas Gunnarsson, 9.7.2015 kl. 18:23

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Mér sýnist að þér veitti ekki af að lesa smá siðfræði. Maður getur auðvitað haft skoðanir á öllu, þar á meðal siðferði, en skoðun er ekki það sama og þekking. Skoðun manns á góðu siðferði getur hæglega verið kolröng. Og þá á ég ekki við að einhver annar sé dómari þar um, heldur bara að nánari athugun leiðir í ljós að skoðunin er röng.

Kristján G. Arngrímsson, 9.7.2015 kl. 21:55

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Að sjálfsögðu veitti mér sjálfsagt ekkert af því að lesa siðfræði.

Og það er alveg rétt að skoðun er ekki það sama og þekking. En siðferði breytist bæði í tíma og eftir staðsetningu ef svo má að orði komast.

Og það sem einum finnst rétt finnst öðrum rangt, því það er heldur ekki svo að í öllum tilfellum sé við athugun, slíkt óumdeilanlegt.

Ýmsir kunna að koma sér upp sínum eigin siðferðiskerfi, sem getur ýmist verið strangara eða losaralegra en það sem einstaklingnum finnst gilda í kringum sig.

Það er líklega ekki síst þess vegna sem margir kjósa að halda sig við lögin.

Líklega mætti sömuleiðis halda því fram að mismunandi siðferði og skoðanir á því séu eitt af vandamálum "Sambandsins". Það er enda misjafnt eftir löndum og starfssvæðum.

Ef við höldum okkur til dæmis við Landsbankann, átti hann að taka meira mið af Íslenskri siðferðiskennd, eða þeirri siðferðiskennd sem ríkir í City? Eða var einfaldast og best fyrir hann að fara einfaldlega eftir þeim samevrópsku lögum sem í gildi voru?

Það er auðvitað í tísku nú um stundir að setja sér sínar eigin siðareglur. Oft á tíðum er þær (að mínu mati) óttalegt húmbúkk, svo ekki sé sterkara að orði kveðið.

G. Tómas Gunnarsson, 10.7.2015 kl. 05:13

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Veit ekki hvort þú hefur séð þetta, en Sandel er líklega besti siðfræðikennari sem hægt er að hugsa sér:

https://www.youtube.com/watch?v=kBdfcR-8hEY

Kristján G. Arngrímsson, 10.7.2015 kl. 07:17

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Ég hef nú ekki mikinn tíma fyrir gláp þessa dagana, en setti bókamerki á þetta.

En ég hef svo sem heyrt um eitthvað af slíkum "dílemmum". Og auðvitað er gott að velta slíkum dæmum fyrir sér.

En auðvitað er oftast leitað til laganna á endanum, en lögin viðurkenna gjarna "mildandi aðstæður", ef svo má að orði komast.

G. Tómas Gunnarsson, 11.7.2015 kl. 07:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband