Bannaðar ljósaperur

Þó að ég sé ekki almennt fylgjandi boðum og bönnum þá nenni ég ekki að setja mig upp á móti þessu banni á sölu glóðarpera hér í Ontario.

Ég held reyndar að svipaður árangur hefði náðst án bannsins, enda flestir sem ég þekki hér ákaflega sparsamir hvað varðar ljós og orku. En rétt er líka að athuga að það er ekki verið að banna notkun glóðarpera heldur einungis sölu þeirra.  Það er heldur ekki verið að banna allar glóðarperur, heldur einvörðungu glóðarperur sem hafa slaka orkunýtingu.  Þeim möguleika er haldið opið að hægt verði að bæta þessa tækni, og reyndar hefur komið fram í fréttum að GE vonast eftir því að árið 2012 verði komnar á markað frá þeim glóðarperur sem eru jafn sparneytnar og flúorperur eru í dag.

 Ennfremur hefur stjórnin hér í Ontario sem og raforkufyrirtækið þeirra verið duglegt að kynna íbúunum þann sparnað sem þeir geta notið og jafnvel dreift ókeypis sparperum einstaka sinnum.  Reyndar skilst mér að þeir ætli nú fljótlega að senda út "kúpón" að virði u.þ.b. 40 dollara sem gildir upp í sparperur.

Hér að Bjórá mun bannið t.d. ekki hafa nein veruleg áhrif, hér eru flúor eða halogen perur í öllum ljósum, utan einu, en það fást ekki slíkar perur.  Það verður því líklega að skipta þar um ljós.

En þetta var eitt af því sem við gengum í þegar við fluttum inn, skipta alls staðar í sparperur þar sem því var við komið og höfðum það sömuleiðis í huga þegar keypt voru ný ljós.

Það einfaldlega borgar sig þegar til lengri tíma er litið að spara.

En nú fer í hönd sá tími sem raforkunotkun hér í Ontario er mest, það er nefnilega svo að rafmagnsnotkun hér er ekki mestmegnis til ljósnotkunar, eða húshitunar (þar nota flestir gas), heldur er það loftkælingin sem er frekust til rafmagnsins og er orkukerfið jafnan þanið til hins ýtrasta á heitustu dögunum hér.


mbl.is Sala á glóðarperum væntanlega bönnuð í Ontario
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sparperur eru fínar þar sem heitt er og lengi látið loga. En hvernig ætla menn að bregðast við í kuldum og þar sem stutt er látið loga í einu?

Það er nefnilega svo að flúrljós tapa hratt ljósmagni í kulda og við ræsingu er margföld orkunotkun á við glóðarperu.

Ef menn eru að hugsa um sparnað er best að nota rétt tæki við mismunandi aðstæður.

Að banna glóðarperur er svipað og að banna stóra flutningabíla af því þeir eyði svo mikilli olíu. Nota svo marga litla bíla til að flytja vörurnar með miklu meiri tilkostnaði.

p.s. Halogen eru ekki orkusparandi. 

Hugsum (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 21:52

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þekki svo sem ekki þetta hvað varðar kuldann, enda alltaf þokkalega hlýtt inni hér að Bjórá.  Hvað varðar halogen ljós, er mér sagt (og hef lesið á netinu) að þau ljós eyði mun minni orku en hefðbundnar perur, þó að þau jafnist ekki á við flúrljósin.

En það er auðvitað alveg rétt að það borgar sig að nota rétt ljós við mismunandi aðstæður, og því eru bann auðvitað ekki rétt, heldur borgar sig að fræða fólk.  Reyndar hefur komi fram í fréttum hér að undanþágur (hvað annað) verða til staðar frá þessum lögum, og á það til dæmis við ýmis lækningatæki og annað slíkt þar sem mikil ljós þarf.

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2007 kl. 23:29

3 identicon

Það er rétt að nýting Halogen er betri en glóðarperu, en ekki mikið. Lumen/W hjá glóðarperu er 12-18 en 16-29 hjá Halogen. Sparperur ná 60-70 Lumen/W og bestar eru svo flúrpípurnar með 92 Lumen/W.

Nýtingin er svo bara ein hlið mála, því hún er miðuð við stöðuga notkun. Þ.e.a.s. ekki gert ráð fyrir breytingu á rekstrarumhverfi, svo sem hita og endurtekinna ræsinga. Þá er hætt við að nýtingin falli í skuggann af öðrum þáttum.

Helsti galli glóðarperunnar er léleg nýting og stuttur líftími, sem reyndar hefur aukist með betri tækni. En litur ljóssins er mjög góður og enginn kostnaður fylgir endurteknum ræsingum.

Halogen skapar vanda með mikilli hitamyndun og hættu á íkveikju. Halogen þarf spennubreyta sem sjálfir eyða orku. En litur ljóss er góður og lítill ræsikostnaður.

Galli við flúrljós, bæði sparperur og pípur er að nota þarf ballestir og startara en þar myndast hitatap. Einnig dregur úr ljósmagni við lækkað hitastig og peran tapar ljósmagni fljótlega með tímanum. Vandamál er að nota ljósastýringar (dimmera) við flúrperur.

Málið er að nota hvern ljósgjafa á skynsaman hátt, nýta sér kostina og reyna að draga úr göllunum. Glatað er t.d. að nota flúrljós þar sem stutt skal loga í einu og jafnvitlaust er að nota glóðarperur í hlýjum húsum þar sem ljós skal loga meirihluta dags. Halogenperur eru góðar í flóðlýsingu en mega ekki snerta brennanleg efni.

Vandamálið við löggjöf og reglugerðir er að oft setja menn tilfinningar í stað skynsemi og gleyma að skoða málin frá nema einum sjónarhóli. 

Hugsum (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband