29.6.2015 | 19:38
Grikklandstragedían er afurð Evrópusambandsins
Þó vissulega sé gamla málstækið, hver er sinnar gæfu smiður, enn fullgilt, og þannig megi segja að Grikkir beri höfuðábyrgð á eigin vandamálum, er ekki hægt að líta fram hjá ábyrgð Evrópusambandsins, enda Grikkland búið að vera meðlimur "Sambandsins" í 34 ár og varð aðili að Eurosvæðinu janúar 2001.
Eins og önnur sem fetað hafa þessa leið, hefur Grikkland afhent "Sambandinu", Eurosvæðinu og stofnunum þeirra hluta af fullveldi sínu.
En Grikkland aðlagaði sig ekki þeirri staðreynd, t.d. hvað varðar ríkisfjármál.
Euroið tryggði góðan aðgang að lánsfé, og gjaldmiðillinn hélst nokkuð stöðugur og sterkur (styrkist jafnvel) þó að efnahagstjórnunin hjá Grikkum væri í molum, enda Gríska hagkerfið vart sjáanlegur hluti af hagkerfi Eurosvæðisins.
Blaðran blés upp, og sprakk síðan með afleiðingum sem flestum eru kunnar.
2010 var Grikkland í raun komið í greiðsluþrot, en þar sem afleiðing af slíku hefði geta riðið Eurosvæðinu að fullu, var búinn til neyðarpakki.
Grikkjum var lánað mikið fé, en megnið af því rann til þess að borga Evrópskum bönkum, sem lánað höfðu Grikklandi mun fleiri euro, en það var borgunarríki fyrir.
Þannig var all nokkur hluti lána einkastofnana fluttar til opinberra, í raun Evrópskra skattgreiðenda.
Það átti að tryggja að vandræðin breiddust ekki út um Eurosvæðið.
En engin lánaniðurfelling átti sér stað.
Samhliða þessu fór Grikkland í "prógram" hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, Seðlabanka Eurosvæðisins og "Sambandinu". Prógram sem að urðu um miklar deilur innan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og vildu margir þar (bæði starfsmenn og stjórnarmenn) meina að áætlunin byggðis á óraunsærri bjartsýni og ætti litlar líkur á því að standast. En "Sambandsríkin" höfðu sitt fram, enda í raun ráðandi blokk inn "Sjóðsins".
"Prógramið" var enda ekki betra en svo, að 2012 þurfti "nýtt prógram", með all nokkurri skuldaniðurfellingu, eða "klippingu" hjá einkaaðilum, og næstum allur afgangurinn af skuldum Grikkja var færður yfir á herðar skattgreiðenda Eurosvæðisins.
En "prógramið" skilaði engum árangri, heldur skar efnhaga Grikkja niður við trog, atvinnuleysi fór upp úr öllu valdi, þjóðarframleiðsla dróst saman um fjórðung og skatttekjur hrundu eðlilega í kjölfarið (skattheimtukerfið hafði þó aldrei verið gott).
Niðurstaðan er því sem áður að Grikkir eiga enga möguleika á því að standa undir skuldum sínum. Þær hafa enda rokið upp sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og standa nú í u.þ.b. 180%. Þó má líklega telja þær vantaldar ef eitthvað er, enda "óbeinar" skuldir í gegnum ELA fyrirgreiðslu Seðlabanka Eurosvæðisins vaxandi dag frá degi.
Margir hafa viljað ásaka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að hafa haldið rangt á málum Grikklands. Þó að vissulega sé freistandi að taka undir það, enda erfitt að segja að meðferðin hafi verið til fyrirmyndar, er mikið nær að horfa til Evrópusambandsins. Það er enda meginskuldareigandi Grikklands (í gegnum stofnanir sínar og aðildarlönd), og þess utan hefur það verið ráðandi blokk í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum um áratugaskeið, með "heiðursmannasamkomulagi við Bandaríkin.
Þannig hefur forstjóri "Sjóðsins" ávallt komið frá Evrópu og líklega þarf að leita aftur til 7unda áratugar síðustu aldar til að finna forstjóra sem ekki kemur frá "Sambandslandi" (eða forvera þess) og þá var það frá Svíþjóð, sem hefur eins og flestir vita, gengið í "Sambandið" fyrir all löngu.
Það voru enda fulltrúar ríkja utan Evrópu og "Sambandsins" sem mótmæltu harðlega á stjórnarfundum "Sjóðsins" þegar áætlanir fyrir Grikkland voru þar til umræðu árið 2010, en fulltrúar "Sambandsins" keyrðu þær í gegn.
Það hefur enda alltaf verið litið á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem undir stjórn hinnar lítt útskýrðu "Evrópu", þó að ef til vill hafi sú skilgreining orðið nokkuð ljósari hin síðari ár, og segja má að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi verið undir stjórn Evrópusambandsins.
Það má ef til líka segja að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi aldrei átt að koma Grikklandi til hjálpar, enda enda að ég tel, engin fordæmi fyrir því að "Sjóðurinn" komi einu ríki á myntsvæði til hjálpar.
En þar kemur til sögunnar hvílíkur "bastarður" Eurosvæðið er.
Sameiginlegt myntsvæði, en þó engin sameiginlegt efnahagsstefna, og hver ríki með sjálfstæða aðild að alþjóðastofnunum, s.s. Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (spurning hvað lengi önnur ríki sætt sig við slíkt fyrirkomulag).
Þannig hefði "Sjóðurinn" ef til vill átt að neita Grikklandi um aðstoð, en gat trauðla gert það við eitt af aðildarríkjum sínum. Það hefði hins vegar mátt segja að Euroríkin hefðu átt að hafa kjark til að leysa vandamálið sjálf. En kjarkur hefur aldrei verið ríkjandi einkenni þar, frekar ákvarðanafælni og tilhneyging til þess að "sparka dósinni áfram".
Það hentaði enda "Sambandinu" afar vel að skýla sér á bakvið Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.
En öll Grikklandstragedían og það neyðarástand sem ríkir í Grikklandi er skilgetið afkvæmi "Sambandsins" og stefnu þess og í framhaldi af því Eurosvæðinu.
Það er hjákátlegt að ætla að leggja ábyrgðina á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem hefur þó vissulega tapað verulegu af orðspori sínu (sem var þó býsna flekkótt) með því að fallast á aðferðir "Sambandsins" hvað varðar Grikkland.
Það er enda ekki að undra að þjóðir annara heimsálfa vilji búa til nýjar stofnanir sem að hluta til er stefnt gegn Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
Það eru meðal annars "auka áhrif" af Grikklandskrísunni.
P.S. Þó að mér þyki tillögur DSK (Strauss-Kahn) alls ekki út í hött, þá virka þær hálf hlægilegar komandi frá þeim sem var forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins árið 2010, þegar vandræði Grikklands komu fyrst til kasta "Sjóðsins". Þá bugtaði hann og beygði sig fyrir kröfum "Sambandins" um hvernig skyldi höndla Grikklandskrísuna, þvert á það sem margir af starfsmönnum sjóðsins og stjórnarmenn sögðu.
Þá var hann enda að bjarga euroinu, gjaldmiðli m.a. Frakklands, ríkisins sem hann vonaðist eftir að verða forseti innan tíðar.
Það er lítið mark takandi á slíkum einstaklingum, hvorki í hótelherbergjum, eða nokkrum árum síðar. Jafnvel þó að þeir kunni að hafa góð hagfræðipróf.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Eitt er allavega ljóst. Fullyrðingar íslenskra sambandssinna um að aðild að ESB yki hér stöðugleika, er röng. Það sést af dæmi Grikkja.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.6.2015 kl. 10:46
@Bjarni Gunnlaugur Þakka þér fyrir þetta. Þær eru ekki margar fullyrðingar "Sambandssinna" sem standa, eða hafa staðist.
Vissulega er stöðugleiki mögulegur innan "Sambandsins", en það er rétt eins og utan þess, að veldur hver á heldur og stöðugleikinn verður að koma frá innlendum aðilum.
"Töframeðalið" sem Árni Páll og Samfylkingin töluðu um, er flestum orðið ljóst að er einungis "snákaolía".
G. Tómas Gunnarsson, 2.7.2015 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.