Píratar "ræna" atkvæðum hægri vinstri

Þetta er að mörgu leyti merkileg könnun, mesta fylgi sem mælst hefur við einn flokk, 30%, er við Pírata.

Ætli þetta gæti ekki gefið þeim 25 þingmenn eða svo, á kjördegi ef þeir halda slíku fylgi? Svona ef skiptingin er þeim hagstæð.

En það er hætt við að þeim reynist erfitt að halda þessu fylgi allt til þess er kjörstaðir loka, en þó ekki ómögulegt.

Mestu skiptir líklega hvernig Pírötum tekst til að byggja upp flokkinn og svo hvernig skipast á framboðslista í næstu kosningum.

Nú til dæmis skilst mér að sá þingmaður þeirra sem ég hef talið fremstan, sé að hætta nú í vor.

Hvernig verður sá sem fyllir í skarðið á eftir að koma í ljós.

En þessi staða hlýtur að vera öðrum flokkum all nokkurt umhugsunarefni.

Enginn þeirra er í stöðu sem þeir kæra sig um að vera.  Ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi jafnt og þétt, en hinir hefðbundnu stjórnarandstöðuflokkar ná litlu sem engu af því til sín.

Guðmundur Steingrímsson og félagar, virðast síðan eiga Bjarta framtíð að baki, alla vegna sé litið til þróunar í skoðanakönnunum.

En hvað er það sem veldur því að Píratar sækja fylgi í svo ríkum mæli, bæði frá hægri og vinstri?

Að mínu mati er erfitt að taka eitt atriði út úr málflutningi Pírata og segja að það skýri fylgisaukninguna.

Og að hluta til er það freistandi að halda því fram að fylgisaukningin sé ekki síður til komin vegna óánægju með aðra flokka, en að kjósendur fylki sér um málefni Pírata.

En það þýðir ekki að aðrir flokkar geti leyft sér að að líta á þetta fylgi sem stundarfyrirbrigði. Nei, full ástæða er til þess fyrir þá að líta þetta "alvarlegum augum".

En þó að mörgu leyti sé erfitt að gera sér grein fyrir stefnu flokks Pírata, og talsmenn þeirra tali á stundum nokkuð "út og suður" (það er þó líklega ekki meira en hjá öðrum flokkum, hygg ég að krafa þeirra um aukið lýðræði og vernd réttinda einstaklinga (á sumum sviðum) falli almennt nokkuð vel í kramið.

En það sem ég held að dragi ekki síður að, er að þingmenn þeirra koma fram og fyrir sem "venjulegt fólk", með sínum kostum og göllum.  Einstaklingar sem hafa ekki "fetað brautina" og valið hina "hefðbundnu" leið að þingsæti.

Og eins og ég sagði áður, þá er sá þingmaður Pírata sem mér hefur litist hvað best á að hætta nú í vor. Ef ég man rétt sá ég einhvers staðar að hann reiknaði með að "fara aftur í malbikið".

Það er ágætlega hressandi að lesa slíkt, og auðvitað er ekkert sem kemur í veg fyrir að hann bjóði sig að nýju fram í næstu kosningum.

Það er alls endis óvíst að Píratar nái slíku fylgi sem þeir hafa nú í næstu kosningum. Mér finnst það reyndar ólíklegt að slík verði raunin, þó að þeir komi líklega til með að vinna verulega á.

Bæði er það að mér þykir líklegt að hinir "hefðbundnu" flokkar muni að nokkru ná vopnum sínum, og svo er alls ekki útilokað að fleiri flokkar komi til sögunnar.

En ef að Píratar ná að hrista upp í stjórnmálakerfinu og ýta við hinum hefðbundnu flokkum, er það tvímælalaust af hinu góða.

 

 

 

 

 


mbl.is Píratar á hraðri siglingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fylgi Pírata virðist byggjast á tvennu: 1) bullandi óánægju allmargra með gömlu, stóru flokkana og 2) vanþekkingu á því, hve miklar öfgarnar eru sem finnast í flokki Pírata, í stefnumálum þeirra, og eins hve líkir þeir eru öðrum flokkum um að svíkja stefnumál sín, t.d. þessa "kröfu þeirra um aukið lýðræði," en svikin þar eru alger í flugvallarmálinu. Sjá um það og ónefndu öfgarnar hér: Hafa Píratar ekki gælt við öfgar í formi anarkisma? Trúverðugri en gömlu flokkarnir? - MEÐ SNÖRPUM VIÐAUKA!

Óánægja með hina flokkana er auðskilin í tilfelli vinstri flokkanna, sem gerðu minna til að reisa skjaldborg um eignasvipt fólk heldur en núverandi ríkisstjórn, auk þess sem svik þeirra í Icesave-málinu sitja í fólki (og þess naut Framsókn í kosningunum 2013). Í tilfelli ríkisstjórnarflokkanna hefur markviss stjórnarandstaða 365 miðla og hlutdrægra Rúvara unnið gegn þeim flokkum, sem og ýmis hneykslismál vegna einkavinavæðingar og misnotkunar á aðstöðu.

 

Það er pláss fyrir nýjan, 3. stjórnmálaflokkinn á mið-hægri væng íslenzkra stjórnmála.

Jón Valur Jensson, 3.5.2015 kl. 15:36

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Valur  Þakka þér fyrir þetta. Það er bæði veikleiki og styrkur fyrir Pírata að fulltrúar þeirra tala ekki endilega alltaf í sömu áttina (ekki eins og þeir séu eini flokkurinn sem það á við um).

Mér finnst til dæmis eftirtektarvert að fulltrúi þeirra í borgarstjórn sker sig á engan hátt frá vinstri flokkunum svo að ég hafi tekið eftir. En það er vissulega alltaf hætta á slíkum "samruna" í meirihluta.

Ég get ekki séð að Píratar séu miklir anarkistar, þó að þeir taki sér það orð stundum í munn. Vissulega vilja þeir flytja meira vald til einstaklingsins á ýmsum sviðum (en ekki öllum), en það er í sjálfu sér ekki svo mikill anarkismi.

Persónulega myndi ég líklega frekar gagnrýna þá fyrir að grípa um of til hefðbundinna vinstri lausna oft á tíðum, en það á reyndar við flesta ef ekki alla flokka á Íslandi.

G. Tómas Gunnarsson, 4.5.2015 kl. 04:16

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sem væntanlegur kjósandi Pírata, og fyrrverandi kjósandi Bjartrar framtíðar, held ég að ég geti að nokkru leyti varpað ljósi á fylgisaukningu minna (nýju) manna. Það er eins og öllum sé sama. Formenn stjórnarflokkanna virðast ekki einu sinni vita hvað það er að vera leiðtogi í stjórnmálaflokki, hvað þá ríkisstjórn. Sigmundur Davíð er eins og krakki með mótþróaþrjóskuröskun og fer alltaf í fýlu ef ekki eru allir sammála honum. Bjarni Ben. er þrúgaður af arfleifð sinni og finnur að hann rís engan veginn undir henni. Útkoman er sú, að hvorugur þeirra virðist vera í hlutverki sem hann vill gegna af ástríðu og sannfæringu. Það er eins og þeir séu bara að bíða þangað til þetta verður búið og reyna að græða sem mest þangaðtil. Viðbrögð beggja við gagnrýni einkennast alltaf af fýlu og snakillsku.

Og það sama á við um "leiðtoga" stjórnarandstöðuflokkanna, þá virðist alveg skorta sannfæringu og ástríðu. Katrín er eins og fræðingur sem horfir á vettvanginn úr fjarlægð og greinir hann skv. kenningu sinni; Guðmundur Steingríms er aðallega að hugsa um að vera fínn í tauinu og Árni Páll ... hann er bara í vinnunni, og virðist ekki sérlega hrifinn af þessari vinnu. Aðallega í henni afþví að þetta er þægileg innivinna skammt frá heimili hans.

Píratarnir hafa sannfæringu og ástríðu. Kannski á takmörkuðu og afmörkuðu sviði, en samt.

Kristján G. Arngrímsson, 4.5.2015 kl. 12:40

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þú hefur væntanlega séð Untergang. Sigmundur Davíð og Bjarni eru eins og Hitler í bönkernum. Brjálaðir við allt og alla, vitandi að þetta er allt búið.

Kristján G. Arngrímsson, 4.5.2015 kl. 12:43

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta athyglisverða sjónarhorn. Staðan á Íslandi virðist afar snúin og erfið, að mér virðist.

Og ansi margir virðast enn vera að leyta að "töfralausninni", sem vefst svo fyrir Íslendingum að finna.

Stjórnarflokkarnir virðast stefna á svipaðar slóðir og síðasta ríkisstjórn, þó eftir aðeins öðrum leiðum.

En fyrri ríkisstjórnarflokkar ná ekki af þoka sér af þeim, sem aftur skýrir stöðu stórs hluta stjórnarandstöðunnar, og að jafnvel frekar pólítískt sjarmerandi einstaklingur eins og Katrín Jakobsdóttir nær ekki að hífa VG upp.

Ég hef aldrei skilið hvað þú eða nokkur annar sá við Bjarta framtíð og Guðmund Steingrímsson, en vegir pólítíkarinnar, eru illskiljanlegir oft á tíðum.

En nú virðist sú bjarta framtíð mestu að baki.

Ég er nokkuð sammála þér með sannfæringuna og ástríðuna, hana vantar að miklu leiti í Íslensk stjórnmál, en stjórnmál, að mínu mati, þurfa að vera meira en að mæta í vinnuna og spyrja hvað sé í "inn bakkanum".

P.S. Ég hef auðvitað séð Untergang, en finnst það nú ekki sérslega góð líking.  Ef til vill fyrst og fremst þreytt, enda búið að "texta" svo mikið við hana.

En Hitler var auðvitað ástríðustjórnmálamaður, og var sólginn í rjómakökur.

En mér finst frekar allt of mikill "innbakkalúkk" á Alþingi í dag.

En það er ef til vill vegna þess að nú eiga allir að tala saman, hugsa í lausnum, en hugsjónir og ástríða eru óþarfi.

G. Tómas Gunnarsson, 5.5.2015 kl. 05:01

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svona innlegg eins og Kristjáns er vitaskuld engin röksemd með því að kjósa þennan afleita undanvillingaflokk.

Á Kristjáni tek ég reyndar takmarkað mark, eins og ljóst er af grein minni Depurð og Ömurð í slagtogi saman, sem ég neyddist til að skrifa vegna bjálfalegrar greinar hans í Mbl.: 'Ísland gangi Noregskonungi á hönd'!

Jón Valur Jensson, 7.5.2015 kl. 14:16

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

... glæfralega bjálfalegrar greinar ...

hefði ég viljað sagt hafa!

Jón Valur Jensson, 7.5.2015 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband