12.6.2006 | 14:05
Leti - Predictable Silverstone - IT landið - Mengele
Það var ekkert bloggað í gær. Annað hvort var þar um að kenna leti, eða þá að ég hef snúist til kristinnar trúar og hef haldið hvíldardaginn heilagan? Sjálfur myndi ég veðja á leti.
En sunnudagurinn hófst snemma, ég reif mig á fætur fyrir kl. 7, til að horfa á Formúluna. Það var ekki laust við að eitthvað af mönnum í uppslætti angraði mig, enda höfðu finnskir vinir konunnar boðið okkur til samsætis kvöldið áður. En það skánaði skjótt.
En Silverstone kappaksturinn olli nokkrum vonbrigðum, ekki svo mjög fyrir það að minn "Skósmiður" skyldi enda í 2. sæti, heldur fremur vegna þess að fátt ef nokkuð óvænt og skemmtilegt gerðist. Þetta "þolakstursform" er að fara illa með Formúluna.
Alonso vann sanngjarnan sigur, hans sigur var aldrei í hættu, tók þetta frá "pól" allt til enda. Schumacher "kíkti" einu sinni á Montoya, það var "hápunktur" kappakstursins, en ákvað að reyna frekar "hefðbundnari" leið og fór fram úr honum með aðstoð þjónusuhlés. Næst er svo kappakstur hér í Kanada, ég verð ekki spenntur í stúkunni eins og í fyrra, læt nægja að horfa á imbann.
Eftir þennan viðburðarsnauða kappakstur var ég svo andlega þreyttur að ég lagði mig.
Síðan eftir hressandi lúr, var haldið á vit ævintýranna með foringjanum. Hann í broddi fylkingar á hjólinu, sem hann ræður reyndar ekki fyllileg við, ég valhoppandi á eftir með Globe and Mail undir hendinni. Enduðum á leikvellinum og áttum þar góðar stundir. Þar hitti ég Kanadamann, sem var uppveðraður þegar það barst í tal að ég væri frá Íslandi, og sagðist hafa heyrt að aðalstarfsvettvangur landsmanna væri tölvur og tækni (IT). Það var allt að því raunalegt að þurfa að segja honum að það væri rangt, íslendingar væru að vísu framarlega í því að nýta sér tölvutæknina, en efnahagslífið byggðist á fiski. Sem sárabót sagði ég honum að álbræðsla væri vaxandi atvinnuvegur og stærsta álverið, enn sem komið er, væri í eigu kanadíska fyrirtækisins Alcan.
En ég uppfræddi manni um virkjanir og hitaveitu, ég kann nokkuð rulluna nú orðið, og aðra skemmtilega hluti, gleymdi þó alveg að minnast á íslenska hestinn og sauðkindina.
En svo var grillað og slappað af. Endaði svo með því að horfa á heimildarmynd um Mengele, rétt um miðnættið, á History Channel. Það vekur alltaf smá óhug að horfa á þessar myndir, en samt er það svo að seinni heimstyrjöldin og tengdir atburðir vekja alltaf áhuga hjá mér. En myndin var ágætlega gerð, rætt við samstarfsmenn, starfmann hans í Argentínu, og konu sem bjó með honum síðustu árin, auk þess sem fram kom fólk sem hafði lifað af veruna og tilraunir hans í Auschwitz.
Flestir lýstu honum sem myndarlegum, kurteisum og vingjarnlegum manni, jafnvel þau sem hann notaði sem tilraunadýr. En þau sögðu líka frá óútskýranlegri grimmd. Hvernig hann fór með börn í ökutúr um búðirnar, fáum dögum áður en hann gerði á þeim tilraunir sem drógu þau til dauða. Gaf þeim sælgæti áður en hann sprautaði þau með efnum sem voru ætluð til að drepa.
Óskiljanlegt, en má ekki gleymast.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Bloggar, Sjónvarp, Íþróttir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.