Endurnýjuð ríkisstjórn - nokkuð eftir bókinni en athyglisverðir nýjir kaflar

Það eru alltaf tíðindi þegar skipaðir eru nýjir ráðherrar, svo er einnig nú, en það er ýmislegt  sem vekur athygli.

Það sem athygli vekur er að Valgerður Sverrisdóttir er sá framsóknarmaður sem skipar þann ráðherrastól sem vegur þyngst, utanríkisráðuneytið. Hún er jafnframt fyrsta konan til að setjast í stól utanríkisráðherra.

Það vekur líka óneitanlega athygli að utanþingsmaður, Jón Sigurðsson, er skipaður ráðherra. Þó slík skipan sé ekki óþekkt í íslenskum stjórnmálum, þá hafa það verið formenn stjórnmálaflokka (Ólafur R. Grímsson og Geir Hallgrímsson) sem hafa setið í ríkisstjórn með þeim formerkjum.  Hvort að þetta bendi til þess að Jón verði næsti formaður Framsóknarflokksins er erfitt að segja, en hann gæti verið álitlegur leikur á meðan leitað verður að framtíðarformanni.  Jafnframt hlýtur það að teljast nokkur áfellisdómur yfir þingflokki framsóknarmanna að sækja verði ráðherra út fyrir hann (sem er ekki í forystusveit flokksins fyrir).

Jónína Bjartmarz og Magnús Stefánsson koma nokkuð traust inn en ekki er hægt að segja að það komi neitt á óvart.  Valið hlýtur að hafa staðið á milli þeirra og Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns, en það þarf líka að vera traustur maður í þeirri stöðu og hver er þá eftir til að manna hana?  Það skýrir ef til vill að hluta til þá ákvörðun að sækja einn ráðherra utan þingflokksins. Jónína og Magnús eru ennfremur oddvitar flokksins í sínum kjördæmum, þau njóta þess.

Guðni situr svo að sínu og Siv sömuleiðis.

En ég held að þetta ætti ekki að breyta miklu fyrir ríkisstjórnina, Geir verður forsætisráðherra og færist nú fókusinn yfir á hann í vaxandi mæli, þetta er því ljómandi, en líklega nokkuð óvænt, tækifæri fyrir hann að vinna fylgi fram að næstu kosningum.  Sömuleiðis eiga nýjir ráðherra Framsóknarflokks sóknarfæri.  Það að forsætisráðuneytið flytjist aftur yfir til stærri flokksins tel ég að ætti að styrkja stjórnina, almenningur verður mun sáttari við slíka skipan.

Einhverjir eru að gagnrýna að Sjálfstæðisflokkurinn sé að láta af hendi ráðherraembætti, það finnst mér frekar marklaus og innihaldslítil gagnrýni.  Skiptingin nú er einfaldlega sú hin sama og gilti í upphafi kjörtímabils.  Það mætti þá eins segja að Framsóknarflokkurinn hefði átt að skipa forsætisráðherra í stað Halldórs.  Forsætisráðuneytið vegur einfaldlega þyngra en önnur ráðuneyti, það er alla vegna hefðin og sú ekki óeðlileg.

"Jókerinn í stokknum" ef svo má að orði komast, er svo líklega Kristinn H. Gunnarsson, hvað honum finnst um þessi uppskipti er ekki gott að segja.  En það er virðist nokkuð ljóst að embættin falla honum ekki í skaut í Framsóknarflokknum. Margir velta því víst fyrir sér hvað hann gerir fyrir næstu kosningar, enda varla tryggt að Framsókn nái 2. þingmönnum í Vesturkjördæmi.

Það eru sömuleiðis margir að velta því fyrir sér hvort að Halldór Ásgrímsson hyggist láta skipa sig í þá stöðu Seðlabankastjóra sem nú losnar, og er yfirleitt talinn eign Framsóknarflokksins.  Það er eriftt að spá um það, en jafn auðvelt að fullyrða að slík skipan gæti reynst almenningi erfiður biti að kyngja, og ríkisstjórnarflokkunum illa næsta vor.

En nú er sumarið framundan, að öllu jöfnu rólegur tími í pólítíkinni, en þetta sumar er þó nýjum ráðherrum ákaflega mikilvægt, til að koma sér fyrir, kynna sér málefnin og undirbúa sig fyrir næsta vetur og gott að hafa frið til þess á meðan þing starfar ekki.  Að því leyti til eru þessi skipti á besta tíma.


mbl.is Þrír nýir ráðherrar framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband