Að frelsa konur frá ríkisrekstri - Pólitík í NorðAustri.

Í gærkveldi eftir að ró fór að færast yfir Bjórá og ég var að bíða eftir að Formúlan hæfist, fór ég að horfa á Íslenskt sjónvarp.  Horfði meðal annars aðeins á Silfrið frá því á síðasta laugardag, og svo kosningaþáttinn frá NorðAustrinu á Stöð 2.

Ég verð að segja að mér fannst Margrét Pála og það sem hún hafði fram að færa ákaflega áheyri- og merkilegt.  Tölurnar sem hún nefndi yfir muninn á konum og körlum sem starfa hjá hinu opinbera var líka sláandi, fast að 60% kvenna en rétt ríflega 20% karla vinna hjá hinu opinber..

Það verður fróðlegt að sjá hvort að það verða umræður í þessa átt á næstunni, sérstaklega nú fyrir kosningar.  Það verður sömuleiðis fróðlegt að sjá hvernig "kvenfrelsisflokkarnir" bregðast við við þessari umræðu.  Það er líklega flestum í fersku minni hvernig R-listaflokkarnir reyndu að virtist að bregða fæti sem oftast fyrir einkarekstur, t.d. í skólakerfinu.

Enda virtist fulltrúum Samfylkingar og VG í Silfrinu ekki líka þessi málflutningur, enda ekki þekktir fyrir stuðning við einkarekstur, þó að þeir tali líklega þega "mikið liggur við".

En ég myndi segja að það væri þarft að ræða þetta frekar.  Háskólasamfélagið á Íslandi hefur tekið gríðarmiklum breytingum með tilkomu einkareksturs og eftir því sem ég heyri hefur skólum og leikskólum Margrétar Pálu verið afar vel tekið.

Kosningaþátturinn frá NorðAustri var nokkuð sléttur og felldur, þó að það færi ekki fram hjá neinum að Steingrímur og Valgerður létu hvort annað fara í taugarnar á sér, snertiflöturinn hjá kjósendahópnum enda stór í kjördæminu.

En niðurstaðan úr þeirri skoðankönnun var ótrúleg og niðurlæging Valgerðar og Framsóknar algjör.  Þó að ég hafi nú trú á því að Framsókn "skrapi" inn 2. mönnum í kjördæminu er staðan augljóslega ekki góð.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig umræðan um álver á Bakka á eftir að þróast, en mér þykir líklegt að hún verði fyrirferðarmikil fyrir kosningar. Ég yrði ekki hissa þó að það yrði stærsta málefnið í þessu kjördæmi.  Athyglisverð sú hugmynd sem Kristján Þór skaut fram í þættinum,  að kosið yrði á meðal Húsvíkinga um byggingu álvers, samhliða þingkosningum.

Allir þeir sem voru fylgjandi því að Hafnfirðingar fengju að segja sitt álit á stækkun Alcan þar, hljóta að óska þess að Húsvíkingar fái sömuleiðis að greiða atkvæði.

Mín spá fyrir þetta kjördæmi er Sjálfstæðisflokkur 3, Framsókn, Samfylking og VG 2 hver, erfiðara eins og gefur að skilja að spá fyrir um jöfnunarmanninn.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Sammála þér Tómas, varðandi kosningu á meðal íbúa á Húsvík og í nágrenni, um staðsetningu og stærð álvers á Bakka.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 9.4.2007 kl. 08:47

2 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Margrét Pála er vissulega kvenskörungur og góð í að tjá sig. Guðfríður Lilja hafði hins vegar fína hluti til málanna að leggja, eins og það að fínt væri að opna fyrir strauma og stefnur innan menntakerfisins... en að innheimta skólagjöld býður upp á mismunun. 

Kíktu á grein sem kemur með konkret dæmi frá Ameríkunni einkavæddu gegn þeirri kenningu Möggu Pálu að konur muni frelsast ef skólar eru einkavæddir hér.

MEIRA MISRÉTTI Í EINKAVÆDDRI ALMANNAÞJÓNUSTU 

Fjölbreytni er góð - skólagjöld er mismunun. Að mínu mati er það ekkert nema jákvætt að hafa fjölbreytni innan skólakerfisins og ég fagna fólki sem vill koma í framkvæmd mismunandi stefnum og straumum sem foreldrar geta þá valið um. Það þarf ekki að þýða skólagjöld samt og það er í anda okkar Vinstri grænna að tryggja jafnan aðgang í grunnþjónunstu, þar með talið í menntakerfinu. Hugmyndafræðilegt frelsi getur vel þrifist jafnhliða því að þjónustan sé fjármögnuð með almannafé og tryggi jafnrétti og jafnan aðgang að mismunandi stefnum innan skólakerfisins. Það sem þarf hins vegar nauðsynlega að gera er að meta störf vinnukvennanna að verðleikum, hækka laun kennara - það er hið eina rétta. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 9.4.2007 kl. 14:44

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég fór og las þessa grein á Múrnum, ég verð að segja eins og er að mér fannst hún heldur klén.  Ekkert sagt um uppruna talnanna sem þar eru settar fram eins og hinn æðsti sannleikur, ekkert sagt hver framkvæmdi umrædda rannsókn, eða eitt né neitt sem hægt er að festa hönd á.

Eins þykir mér það nokkuð ódýrt að rjúka til og ætla að reka þetta til baka með rannsókn á takmörkuðu svæði í Bandaríkjunum.  Hvað með að ræða um Ísland?

Hvernig hefur rekstur t.d. Margrétar Pálu, eða annara einkarekinna skóla staðið sig í samanburði við ríkisrekna skóla?  Tekst Margréti Pálu að borga betri laun?  Tekst henni betur að manna leikskóla?  Síðast en ekki síst, hvernig kemur hennar rekstur út fyrir notendurnar, það er að segja börnin og foreldrana?

Ég þekki ekki svörin við þessum spurningum, en lít á þau sem ákveðin lykilatriði og þarfara að ræða þau heldur en einhver lítið studd dæmi frá Bandaríkjunum.

Það er sömuleiðis minnst á það í greininni að Margrét Pála hafi þróað stefnu sína innan opinbera geirans, ekki dreg ég það í efa, en það er þá líklega þarft að velta því fyrir sér hvers vegna hún kaus að flytja sig úr honum?

Síðan eru það ekki bara skólar og leikskólar sem eru undir í þessari umræðu, heldur einnig t.d.  hjúkrunar og ummönnunarstörf.

En stéttarfélag opinberra starfsmanna hefur alltaf haft einkarekstur á hornum sér (ef til vill ekki að undra) og af einskærri tilviljun virðist VG alltaf enduróma þann málflutning.

Það er hins vegar fagnaðarefni ef VG vill stuðla að aukinn fjölbreytni og auknum einkarekstri í þessum starfsgreinum, en einhvern veginn þarf ég að sjá það til að trúa á það.

G. Tómas Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband