4.4.2007 | 14:06
Valdamiklir Hafnfirðingar
Atkvæðagreiðslan í Hafnarfirði, sem haldin var um síðustu helgi var um margt athygliverð. Þátttakan var stórkostleg og munurinn gat vart verið minni.
En það er ekki síður athyglivert að lesa um hvað hinir ýmsu spekingar telja að Hafnfirðingar hafi verið að greiða atkæði um.
Talsvert algengt virðist vera að menn telji að Hafnfirðingar hafi verið að greiða atkvæði með algeru stóriðjustoppi og því að ekki verði frekar virkjað á Íslandi.
Næstum því jafn algengt virðist vera að menn telji að atkvæðagreiðslan hafi snúist upp í það að nú sé komið að því að byggja álver á Húsa- eða í Helguvík.
Ennfremur hafa spurst út þær skoðanir að vegna atkvæðagreiðslu Hafnfirðinga geti ríkissjóður ráðist í borun Vaðlaheiðarganga.
Það er ekki spyrja að þeim völdum sem Hafnfirðingum hafa verið færð.
Ég sem hélt í einfeldni minni (eins og bæjarstjórinn í Hafnarfirði) að kosningin snérist um deiliskipulag. Hvort að "Álverinu" yrði heimilt að nýta þá lóð sem Hafnarfjarðarbær hafði verið svo vinsamlegur að selja því.
Svona er hægt að misskilja hlutina.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Facebook
Athugasemdir
Jamm ég reyndar skyldi þetta alltaf á þann veg hvort Hafnfirðingar væru tilbúnir að fá stærra álver í bæinn, en svo voru "litlu" hlutirnir sem fór minna fyrir. Hefðu Hafnfirðingar samþykkt álverið, þá hefði verið virkjað í Þjórsá (eða einhvers staðar þar, man það ekki alveg í augnablikinu) og vatn hefði flætt yfir landsvæði bænda á svæðinu, og væntanlega eru þeir ekki að fá miklar bætur fyrir tapað landsvæði, yrði hissa ef svo væri. Rafmagnið hefði svo verið selt ódýrt til Alcan, mætti halda að þeir hefðu ekki efni á að kaupa það á uppsettu verði eins og við hin. Reyndar ætlar Landsvirkjun að virkja þarna þó svo að niðurstaðan hafi orðið sú að stækkun yrði ekki í Straumsvík, þeir þurfa bara að finna nýjan kaupanda ekki satt?
Héraðströllið, 4.4.2007 kl. 16:27
Ég get ekki skilið hvers vegna nokkur dró þá ályktun að Hafnfirðingum hefði verið falin sú ákvörðun hvort að virkjað verður í Þjórsá eður ei. Get ekki séð að það sé þeirra að taka ákvarðanir um slíkt.
Slíkur málflutningur er einfaldlega dæmi um rangan málflutning.
Orka er á mörgum stöðum öðrum nýtanleg heldur en í Hafnarfirði.
Hitt er svo annað mál að vissulega má deila um hvort virkja eigi þennan kostinn eða hinn, en það getur ekki talist mál Hafnfirðinga, nema auðvitað að virkjunarkosturinn sé innan þeirra bæjarmarka.
G. Tómas Gunnarsson, 5.4.2007 kl. 02:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.