17.3.2015 | 18:11
Steingrímur, Össur, rýniskýrslan og Kínverjar
Það gera sér flestir grein fyrir því að aðlögunarviðræður "Sambandsins" og Íslendinga sigldu í strand á sjávarútvegsmálum. "Sambandið" neitaði einfaldlega að afhenda rýniskýrsluna fyrir þann kafla, nema Ísland hæfi aðlögun að sjávarútvegsstefnu þess.
Jafnvel harðsvíruðustu "Sambandssinnar" á Íslandi gerðu sér grein fyrir því að það jafngilti "pólítísku sjálfsmorði".
Í janúar 2012, fór svo til þess að gera nýskipaður sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon til Brussel og vildi fá rýniskýrsluna afhenta.
En meira að segja eftirlætisdrengur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins kom tómhentur frá Brussel. Þar var ekki hlustað á hann.
Þá var aðildarumsóknin þegar orðin "lifandi dauð". Þó að slíkan pólítískan ósigur þætti best að fara með sem mannsmorð á Íslandi.
Og hvað gerðist næst?
Sama ár, 2012, örfáum mánuðum seinna eða í apríl, kom forsætisráðherra Kína í heimsókn til Íslands.
Þá var drifið í því að hefja aftur samningaviðræður um fríverslun við Kína, sem höfðu legið niðri um nokkra hríð. Það mark var sett að klára þær viðræður á u.þ.b. ári (meiri tíma hafði enda vinstri stjórnin ekki).
Og þó að hlé væri gert á á viðræðum við Evrópusambandið, gilti ekkert slíkt í viðræðum við Kínverja, enda skammur tími eftir af líftíma ríkisstjórnarinnar og skoðanakannair vægast sagt neikvæðar.
Það tókst að klára og var fríverslunarsamningur undirritaður á milli Íslands og Kína þann 15. apríl 2013. Það var líklega síðasta "stóra stund" ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Þau voru óneitanlega stolt á þessari stundu Össur og Jóhanna.
Eru slíkar tímasetningar tilviljun?
Stendur þjóð sem er "korteri" frá því að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið í viðræðum við aðrar þjóðir um fríverslun?
Eru einhver fordæmi fyrir því að þjóð sem rífandi gangur er hjá í aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið, geri fríverslunarsamning við fjölmennustu þjóð veraldar?
Eru einhver fordæmi fyrir því að þjóð sem rífandi gangur er hjá í aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið, geri fríverslunarsamning við einhverja þjóð, hvað þá "stuttu áður" en líklegt megi teljast að þeim ljúki?
Hver og einn verður að svara slíkum spurningum fyrir sig, en ég segi nei, og ég þekki engin dæmi um slíkt.
Það væri eiginlega virðingarleysi við bæði Kínverja og Evrópusambandið, ef mikil vinna er lögð í samninga sem ljóst er að aðeins annar getur staðið.
En ef til vill vildi Össur sýna að "það væru fleiri fiskar í sjónum", og vissulega voru þeir fleiri á Íslandsmiðum en oft áður, því makríllinn gekk þar sem aldrei fyrr. Og margir vilja meina að það hafi gert samningamönnum erfitt fyrir.
P.S. Fyrir mannleg mistök (af minni hálfu) birtist þessi færsla áður en hún var fullkláruð. Ég einfaldlega hef ýtt á rangan takka.
Ég biðst velvirðingar á þeim, og vona að mér fyrirgefist.
Það er rétt að hafa það í huga að 3. fyrstu athugasemdirnar við þessa færslu, voru gerðar á meðan hálfkaraða færslan var í "loftinu". Bið ég þá sem þær settu inn sérstaklega afsökunar.
P.S.S. Glöggir lesendur sjá líklega að þessi færsla er sett fram meira sem það sem hugsanlega hefur gerst, en staðreyndahlaðið, enda hefur aldrei verið lögð fram viðhlítandi skýring á því hvers vegna nauðsynlegt var að gera hlé á aðildarviðræðum, eða hvers vegna þær gengu svo mikið verr en búist hafði verið við.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gerði aldrei hreint fyrir sínum dyrum, hvað það varðaði.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt 18.3.2015 kl. 04:01 | Facebook
Athugasemdir
Nú er áróðurinn kominn á þetta stig..."það vita það allir".
Ef viðræður sigla í strand er það úrskurður samninganefndarinnar og þeirra stjórnmálamanna sem fara með málið.
Samningar sigldu auðvitað aldrei í strand, enda væri þá fyrir löngu búið að tilkynna það og slíta viðræðum.
Eins og aðrar ESB-þjóðir verða Íslendingar að lúta yfirstjórn ESB yfir fiskveiðimálum. Það breytir þó ekki því að við höldum öllum aflaheimildum í íslenskri landhelgi skv reglunni um hlutfallslegan stöðugleika.
ESB mun hins vegar hafa síðasta orðið um heildaraflann. Áður en ákvörðun er tekin um hann á ESB að ráðfæra sig við íslensk yfirvöld og fá tillögur frá þeim.
Þar sem hér er um staðbundna stofna að ræða, sem snerta á engan hátt hagsmuni annarra ESB-þjóða, mun ESB samþykkja tillögur Íslendinga, nema hugsanlega ef þeir telja að þeir leggi til ofveiði.
Það er bara jákvætt að hafa slíkt eftirlit.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.3.2015 kl. 21:06
Er síldin, loðnan og makrillinn staðbundnir stofnar Ásmundur? Hefurðu yfirleytt nokkra glóru um hvað þú ert að tala?
Jón Steinar Ragnarsson, 17.3.2015 kl. 21:58
Jón Steinar, reyndu að temja þér lágmarksmannasiði svo að hægt sé að taka mark á þér.
Ég hélt ég þyrfti ekki að taka það fram að það þarf hvort sem er að semja um flökkustofna við ESB og fleiri.
Í því sambandi er örugglega ekki verra að vera undir verndarvæng ESB og njóta þess sem því fylgir.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.3.2015 kl. 22:08
Sambandið hafði í hótunum við Íslendinga ef þeir sættu sig ekki við 3% makrílkvótans..
Pakkakíkir (IP-tala skráð) 18.3.2015 kl. 05:50
@Ásmundur Þetta er engin áróður. Það hafði ekkert verið að gerast í viðræðunum, því þótti nauðsynlegt að "setja þær á ís". Það hefði hins vegar verið gríðarlega pólítískt erfitt að tilkynna slíkt rétt fyrir kosningar, nógu erfið var staða Samfylkingarinnar og Vg samt.
"það vita allir" kemur ekki fyrir í pistlinum, en orðalagið "Það gera sér flestir grein fyrir því..." er notað. Á því er nokkur munur, en það gera sér líka flestir grein fyrir því hvað sjávarútvegsmál vega þungt.
Komdu nú ekki eina ferðina enn með "hlutfallsega" stöðugleikann. Það er búið að ræða það marg oft, og það er ekkert sem tryggir hann til frambúðar.
Ísland missir stöðu sína sem strandríki, ef það gengur í "Sambandið". Ísland semur því ekki við einn eða neinn, það gerir "Sambandið" og skammtar síðan Íslandi. Það eru engar líkur til þess að Ísland hefði fengið úthlutað verulegum makrílkvóta, ef það hefði verið komið í "Sambandið", þegar hann byrjað að sækja á Íslandsmið.
@Jón Steinar. Þakka þér fyrir þetta.
Til ykkar tveggja, Ásmundur og Jóns Steinar vil ég ítreka afsökunarbeiðni mína, sem má finna í eftirskrift pistilsins.
@Pakkakíkir Ekki veit ég um beinar hótanir, þó að vissulega hafi verið heitt í einstaka íbúum "Sambandsins", en það er ljóst að "Sambandið" ætlaði Íslandi að "fóðra" makrílinn en ekki veiða hann.
Nokkuð sem Íslendingar geta aldrei sætt sig við.
G. Tómas Gunnarsson, 18.3.2015 kl. 07:24
Í makríldeilunni var ESB tilbúið til að ganga að kröfum Íslendinga undir lokin en Norðmenn komu í veg fyrir að samningar náðust.
Eftir inngöngu Íslands í ESB hafa Norðmenn hins vegar ekkert að gera með hlutdeild Íslendinga í makrílkvótanum. Þá verður samið við ESB sem Ísland verður hluti af.
Varðandi flökkustofna munum við með ESB-aðild halda okkar hlutdeild í heildarafla ESB og okkar í samræmi við regluna um hlutfallslegan stöðugleika. Er það ekki ljóst?
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.3.2015 kl. 08:20
G. Tómas, það er fráleitt að gera litið úr reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Það er reglan sem gildir í dag og hefur gilt í áratugi.
Jafnvel þó að það sé ólíklegt að henni verði breytt þá er það ekki útilokað. En ef þú þekkir eitthvað til ESB þá veistu að þær breytingar verða aldrei þannig að verðmæti verði flutt frá einni þjóð til annarrar.
Hugsanleg breyting á reglunni mun taka mið af að hún verði flestum eða öllum til hagsbóta án þess að skaða neinn. Þetta er grundvallarþáttur í starfsemi ESB. Án hans myndi það fljótt líða undir lok.
Í ESB halda þjóðirnar sínum auðlindum. Þess vegna missum við aldrei spón úr aski okkar þótt breytingar á reglunni um hlutfallslegan stöðugleika verði gerðar.
Þetta er þó atriði sem þarf að ræða í samningaviðræðum. Niðurstaðan úr þeim viðræðum gæti kannski róað þá sem halda að ESB muni breytast í eins konar mafíu eftir inngöngu Íslands.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.3.2015 kl. 08:46
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Til þess að Norðmenn og "Sambandið" semji sín á milli þurfa báðir aðilar að vera reiðubúnir til þess.
Það er alveg rétt að ef svo illa færi að Ísland gengi í "Sambandið", þá hefði Íslendingar enga tryggða aðkomu að samningunum. Þeir yrðu einfaldlega að sætta sig við það sem "Sambandið" ákveði að þeir ættu að fá.
"Hlutfallslegi stöðugleikinn" er ekki tryggður og það er nákvæmlega engin ástæða fyrir Íslendinga að setja sjávarútveg sinn undir slíka skilmála.
Hvað heldur þú að Ísland hefði fengið mikið af makrílkvótanum undir "hlutfallslegum" stöðugleika?
Og vissulega ýjaði "Sambandið" að refsiaðgerðum, ef Íslendingar létu ekki segjast.
http://www.spiegel.de/wissenschaft/natur/makrelen-eu-stellt-ultimatum-bei-fischfang-quoten-a-946029.html
http://www.ruv.is/frett/lokatilbod-sem-gildir-ut-vikuna
Og af því þú ert alltaf að vitna til þess að eitthvað hafi ekki gerst áður í aðildarviðræðum við "Sambandið".
Þekkir þú einhver dæmi þess að þjóðir sem hafa staðið í aðildarviðræðum við "Sambandið", hafi á sama tíma staðið í gerð fríverslunarsamninga við þjóðir utan "Sambandsins"?
G. Tómas Gunnarsson, 18.3.2015 kl. 09:19
Sá á RUV að Árni Pall lofaði af mikilli rausn að það skyldu haldin þjóðaratkvæði áður en viðræður yrðu endurvaktar.
Þegar samkomulag var gert um svokallað hlé, þá var það gert að skilyrði að kosið yrði um umsókn, ekki áframhald. ""Application Referendum" kallast það. Ekki eitthvað "taka upp þraðinn" eins og menn vilja meina heldur umsókn um það hvort sótt yrði um. Af ESB að skilja var viðræðum slitið "suspend" eins og hér kemur fram:
"The Icelandic Parliamentary committee on foreign affairs tabled a proposal on 18 December 2012 to suspend accession negotiations. The motion also calls for an "application referendum" to be held to determine the will of the Icelandic people prior to any resumption of negotiations."
http://en.m.wikipedia.org/wiki/Accession_of_Iceland_to_the_European_Union
Ég held að menn ættu nú að skoða orðalagið á þessum slitum áður en þeir ærast frekar. Viðræðum var, samkvæmt þessu slitið, en ekki gert hlé og sambandið setur þau skylyrði að kosið verði um vilja þjóðarinnar áður en sótt verður um að nýju. Er ekki stór munur á þessu og á því að gera hlé?
Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2015 kl. 11:08
Auðvitað sigldu samningar í strand annars væri löngu búið að "semja" eða öllu heldur aðlaga okkur að sambandinu, en meira að segja treystu Össur og co. sér ekki til að halda áfram með þetta mál og settu viðræður á is vegna kosninganna sem fóru í hönd.
Það merkilega í umræðunni þessa dagana er að allir ESB sinnar eru að ganga af göflunum vegna þess að ríkistjórnin vill ekki halda aðlögunarferlinu áfram og menn krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda vitleysunni áfram. Ekki datt nokkrum manni í hug að heimta þjóðaratkvæðagreiðslu af Össuri þegar hann hætti viðræðum í miðju kafi.
Enn annað, af hverju, í allan þann tíma sem verið var að "semja" við ESB var þjóðinni aldrei leyft að kíkja í "pakkann" svo fólk fengi að sjá hvað í honum hefur fundist? svo hægt væri að gera sér grein fyrir herlegheitunum sem biðu okkar í ESB.
Blekkingarleikurinn í kringum þetta umsóknarferli er fyrri ríkisstjórn til háborinnar skammar.
Þá er rétt að minna á að Steingrímur J. sat í beinni útsendingu í sjónvarpssal kvöldið fyrir kosningar og laug vitandi vits að þjóðinni er hann taldi kjósendum trú um að Vinstri grænir myndu aldrei gefa sig út í það að sækja um ESB aðild. Á sama tíma vissi hann að hann og forusta VG var búin að semja við Jóhönnu um annað, en þetta hljómaði vel og var eingöngu til þess gert að ná í atkvæði. Þannig að á algerlega röngum forsendum og með svikráðum við kjósendur var farið í þessa vegferð. Meira að segja voru þeir frambjóðendur VG sem vildu vera heilir í afstöðu sinni til málsins þvingaðir og þeim hótað færu þeir ekki að vilja Jóhönnu Sig.
Ég held að Katrín Jakobsdóttir, sem var varaformaður VG og tók þátt í svikráðunum, ætti ekki að tala um svikin loforð hjá öðrum, það er kaldhæðnislegt að heyra slíkt af hennar munni.
Tómas Ibsen Halldórsson, 18.3.2015 kl. 11:17
"Suspend" stendur þarna en ekki "recess" "application Referendum" en ekki eitthvað á borð við "continuation referendum"
ég se ekki betur en að Össur hafi slitið þessu og lofað þjóðaratkvæðum um það hvort sótt yrði um. Hefur hann verið að leyna því allan þennan tíma?
pæling....
Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2015 kl. 11:39
Hvernig sem menn annars túlka þetta, þá er eitt sem fer ekki á milli mála.
Þarna stendur "Application referendum prior to resuming negotiations"
það þýðir einfaldlega að það þarf að spyrja"
"Viltu að sótt verði um aðild að Evrópusambamdinu?"
Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að spyrja slíkrar spurningar á meðan umsókn er ennþá virk. Maður spyr ekki um hvort folk vilji sækja um þegar búið er að sækja um og umsóknin ennþá opin.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2015 kl. 12:24
Stjórnarflokkarnir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort slíta skyldi aðildarviðræðunum. Þegar þeir fara frá, i síðasta lagi 2017, þarf auðvitað ekki þjóðaratkvæðagreiðslu til að halda viðræðunum áfram.
Það er beinlínis rangt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja skuli umsóknarferli, eða halda því áfram eftir hlé, nema það sé skilyrði fyrir áframhaldi viðræðna eins og núna.
Það er rangt vegna þess að þá er hætta á að menn hafni aðild vegna þess að þeir vita ekki hvað er í boði. Aðrar þjóðir hafa ekki haft þann hátt á. Einungis þjóðaratkvæðagreiðsla um endanlegan samning er hið eina rétta.
Ég trúi því ekki að Árni Páll hafo lohfað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald bv-viðrdæðna eftir næstu kosningar. Til þess hefur hann ekkert umboð. Það tefur bara málið.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.3.2015 kl. 13:57
@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Ég myndi alla jafna ekki þýða "suspended" sem varanlega gjörð. Alla jafna er þetta tímabundið. Til dæmis notað þegar einstaklingar eru tímabundið reknir úr skóla.
En "application referendum" er býsna margslungið (það er ekki eins og að "Sambandið" kunni ekki sitthvað fyrir sér í loðnu orðalagi.
Alla jafna yrði það þó þýtt sem þjóðaratkvæði um umsókn. Það er alla vegna ekki viðræður. En þarf þó ekki að þýða afgerandi stuðningur við aðild. Þetta er býsna teigjanlegt.
Það verður einnig að taka tillit til að Wikipedia er ekki áreiðanlegasta heimildin, hvað varðar "samtímadeilur", stundum vilja færslur þar litast um of af skoðunum þess sem skráir, og þeim heimildum sem hann/þeir hafa aðgang að. Ekkert óeðlilegt við það.
@Tómas Þakka þér fyrir þetta. Get tekið undir þetta allt meira og minna.
Ásmundur Þakka þér innleggið. Ég man ekki eftir neinum stjórnarliða sem lofaði þjóðaratkvæði um hvort ætti að slíta. Ég ætla þó ekki að fullyrða að ég hafi fylgst með umræðum það náið að það hafi ekki gerst. Það má vel vera.
En ég hef heyrt þá segja að ekki yrði haldið lengra áfram, án þjóðaratkvæðis.
Á þessu tvennu er verulegur munur.
Við þurfum ekki að gera eins og aðrar þjóðir. Það er nákvæmlega ekkert sem skuldbindur Íslendinga til þess. Þó að eitthvað hafi ekki gerst áður, er það ekki ástæða til þess að gera það ekki.
En hafa aðrar þjóðir staðið í því að gera fríverslunarsamninga við þjóðir utan "Sambandins" á meðan virkar aðildarviðræður eiga sér stað við "Sambandið"?
Finnst þér slíkt ekki lítilsvirðing við "Sambandið"?
Árni Páll, hlýtur að geta lofað hverju sem hann kærir sig um? Hvaðan þarf hann að fá umboð til þess? Er hann ekki "eigin herra" og bundin aðeins af eigin sannfæringu, eins og aðrir þingmenn? (ég hef ekki séð fréttina sem vísað er til).
Það er betra að fara hægar yfir, en undirbúa og byggja sig betur.
Ef það er eitthvað sem hin misheppnaða aðildarumsókn ætti að hafa kennt þingmönnum SF og VG, þá væri það það.
G. Tómas Gunnarsson, 18.3.2015 kl. 15:17
G, Tómas, ertu virkilega að efast um að ráherrarnir hafi fyrir kosningar lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna?
Þú hlýtir þá að hafa gert þér sérstakt far um að hlusta ekki á ummæli þeirra. Þau hafa óteljandi sinnum allt frá kosningum verið endurtekin í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
Auðvitað erum við ekki neydd til að gera eins og aðrar þjóðir. En að fara eins að getur auðvitað ekki verið gagnrýnivert þegar engin rök eru fyrir því að við höfum annan hátt á.
Rétti tíminn til að halfda þjóðaratkvæði er þegar samningur liggur fyrir. Ef þjóðaratkvæði áður en
Ég held það sé rangt að Árni Páll hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áfranhald viðræðna þegar hann kemst í meirihluta væntanlega á næsta kjörtímabili. Hann ásamt formönnum annarra stjórnaranstöðuflokka vill hins vegar þjóðaratkvæði í haust.
Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að vilja þjóðaratkvæði fyrir kosningar þegar ekki er í boði að halda viðræðunum áfram án þess.
En það er jafn eðlilegt að sömu aðilar hafni þjóðaratkvæði þegar möguleikar eru á að halda viðræðunum áfram án þess.
Þannig er stjornarandstaðan fullkomlega samkvæm sjálfri öfugt við stjórnina sem hagar batra seglum eftir vindi.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.3.2015 kl. 20:23
Síðasta innlegg mitt fór inn fyrir slysni ófullgert og óleiðrétt. Hér kemur það fullklárað:
G, Tómas, ertu virkilega að efast um að ráherrarnir hafi fyrir kosningar lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna?
Þú hlýtur þá að hafa gert þér sérstakt far um að hlusta ekki á ummæli þeirra. Þau hafa óteljandi sinnum allt frá kosningum verið endurtekin í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
Auðvitað erum við ekki neydd til að gera eins og aðrar þjóðir. En að fara eins að getur auðvitað ekki verið gagnrýnivert þegar engin rök eru fyrir því að við höfum annan hátt á.
Rétti tíminn til að halda þjóðaratkvæði er þegar samningur liggur fyrir. Ef þjóðaratkvæði er haldið áður en viðræður hefjast gætu margir greitt atkvæði gegn umsókn og þar með gegn aðild sem annars myndu samþykkja aðild að loknum samningi.
Ég held það sé rangt að Árni Páll hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna þegar hann kemst í meirihluta væntanlega á næsta kjörtímabili. Hann ásamt formönnum annarra stjórnarandstöðuflokka vill hins vegar þjóðaratkvæði í haust.
Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að vilja þjóðaratkvæði fyrir kosningar þegar ekki er í boði að halda viðræðunum áfram án þess.
En það er jafn eðlilegt að sömu aðilar hafni þjóðaratkvæði þegar möguleikar eru á að halda viðræðunum áfram án þess.
Þannig er stjórnarandstaðan fullkomlega samkvæm sjálfri öfugt við stjórnina sem hagar bara seglum eftir vindi.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.3.2015 kl. 20:32
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Eins og ég sagði áður, fylgdist ég ekki það grant með kosningum, að ég geti fullyrt um hvað hver sagði eða ekki, hvenær og hvar.
En fyrst talaðir þú um að lofað hefði verið þjóðaratkvæðgreiðslu um um hvort aðildarviðræðum yrði slitið. Nú talar þú um að lofað hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Á þessu tvennu er umtalsverður munur.
En ég man mest eftir því að talað hafi verið um að lengra yrði ekki haldið með viðræður án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er margt sem mælir með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu áður en viðræður hefjast (eða hefjast á ný, ef slíkt verður einhvern tíma), og æ fleiri eru að verða þeirrar skoðunar að það hefði betur verið gert. Umsóknin enda mun sterkari, ef slíkt hefði verið samþykkt.
En það sem mest mælir með slíku fyrirkomulagi, er að þegar á viðræðustiginu, hefjast umfangsmiklar breytingar á á lagaumhverfi og stofnunum. Það var enda þess vegna sem IPA styrkirnir eru veittir. Þeir eru ekki "þróunaraðstoð".
Markmið rýnivinnu, og aðlögunarviðræðna, er að landið sé tilbúið sem aðildarríki, þegar og ef samningur er samþykktur. Þá sem land sem búið að að laga sig að "Sambandinu".
Ef slíkt er ekki þegar gert, verður að vera til samþykkt áætlun um slíka aðlögun.
Það er því ekki óeðlilegt að leitað sé samþykki kjósenda fyrir slíkri aðlögun.
Ég ætla ekki að fullyrða neitt um hvað Árni Páll kann að hafa sagt. Hef ekki haft mikinn tíma til að fylgjast með fréttum akkúrast síðustu daga, og legg mig ekki eftir því sem hann segir, það er sjaldnast þess virði.
En þú svarar aldrei spurningunni hvort að þú þekkir einhver dæmi um að þjóðir í viðræðum við "Sambandið" hafi einhvern tíma staðið í viðræðum um, eða gert fríverslunarsamninga við ríki utan "Sambandsins" á sama tíma.
Það er alger óþarfi að vera "feiminn".
Finnst þér slíkt ekki vanvirðing við viðkomandi?
G. Tómas Gunnarsson, 19.3.2015 kl. 12:02
Það hefði engu breytt þó að kosið hefði verið um umsóknina nema því að hætta hefði verið á aðild hefði verið hafnað vegna ranghugmynda um ESB.
Þess vegna er kosning um umsóknina afar slæmur kostur enda hefur engum dottið slíkt í hug öðrum en Íslendingum.
Ef kosið hefði verið um umsóknina og hún samþykkt hefðu andstæðingar aðildar einfaldlega fundið upp á einhverju öðru miður gáfulegu gegn aðildinni.
Ég sé ekki að fríverslunarsamningur við Kína komi þessu máli neitt við. Samfylkingin kaus að halda þeim viðræðum áfram frekar en slíta þeim. Hún hefði hins vegar ekki hafið þessar viðræður.
Það var auðvitað ljóst að samningurinn félli úr gildi við inngöngu í ESB en það voru allavega einhver ár í það.
Annars er ég á móti þessum fríverslunarsamningi við Kína og önnur slík ríki. Mig grunaði einnig strax að Kínverjar myndu hagnast á honum en við tapa.
Ódýrar vörur frá Kína eru í samkeppni við íslensk fyrirtæki. Frá því að samningurinn tók gildi hefur innflutningur frá Kína stóraukist en útflutningur héðan til Kína minnkað verulega þrátt fyrir tollaívilnanir.
En það eru sjálfstæðismenn sem bera aðalábyrgðina á frísverslunarsamningi við Kína. Þeir hófu þessa vegferð og luku henni.
Annars er skondið að Samfylkingin heldur áfram með samning sem sjálfstæðismenn byrja á en sjálfstæðismenn reyna að slíta samningi sem Samfylkingin byrjar á þrátt fyrir andstöðu mikils meirihluta þjóðarinnar og loforða um að halda þeim áfram.
Hér heyrirðu loforðin sem voru svikin. En kannski hefurðu séð þetta allt og heyrt áður en lest bara annað út úr því en efni standa til.
https://www.youtube.com/watch?v=014HKVcM58w
Ásmundur (IP-tala skráð) 19.3.2015 kl. 15:02
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Auðvitað hefði það breytt öllu ef aðildarumsóknin hefði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefði verið ljóst að meirihluti hennar stóð að baki umsókn og málin hefðu hugsanlega spilast öðruvísi. Umboð samninganefndar hefði verið mun sterkara.
Það er þó allt eins líklegt að "Sambandið" hefði samt sem áður neitað að afhenda rýniskýrslu í sjávarútvegi og viðræðurnar siglt í strand.
Auðvitað kemur fríverslunarsamningur við Kína málinu við. Það er engin ástæða að gera fríverslunarsamning við Kína, ef það er bara "korter í "Sambandsaðild"".
Það var heldur engin nauðsyn að taka þær samningaviðræður upp, enda höfðu þær legið niðri um langa hríð.
Hvers vegna var það ljóst 2012, að það "væru ár" í "Sambandsaðild"?
Sjálfstæðismenn hófu vegferðina að fríverslunarsamningi við Kína, en það voru Samfylkingar og Vinstri græn sem luku henni.
Persónulega held ég að það hafi verið gott skref og Íslendingar eiga eftir að njóta hans í framtíðinni. Það er ekki svo margt sem er framleitt í báðum löndunum.
Og reyndar, ef ég man rétt hefur 1. land haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu. Það var að mig minnir gert í Sviss árið 2001. 3/4 felldu tillöguna.
Það er hægt að taka sér verri lönd en Sviss til fyrirmyndar.
G. Tómas Gunnarsson, 19.3.2015 kl. 15:50
Það er rangt að Sviss hafi haft þjóðaratkvæði um að hefja viðræður.
Viðræður hófust um EES-samning án þjóðaratkvæðis og síðan átti að halda strax áfram inn í ESB. EES-samningur var felldur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þá þótti sýnt að ESB-aðild yrði ekki samþykkt.
Svissnesk stjórnvöld töldu hins vegar ófært að slíta viðræðunum nema með aðkomu þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sviss var því ekki fyrirmynd okkar, heldur þvert á móti.
Svissnesk stjórnvöld töldu þjóðaratkvæðagreiðslu nauðsynlega til að slíta viðræðum þótt mikill meirihluti þjóðarinnar sé augljóslega hlynntur því.
Sjálfstæðisflokkur og Framsókn telja sig geta slitið viðræðum án þjóðaratkvæðis þvert gegn margítrekuðum loforðum og gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar.
Samanburðurinn við Sviss sýnir að þar er virðingin fyrir lýðræðinu í algjöru fyrirrúmi. En Sjálfstæðisflokkur og Framsókn virða ekki lýðræðið frekar en skitinn undir fótunum á sér.
Skoðaðirðu ekki myndbandið í hlekknum? Fyndið hvernig Illugi vildi afsaka svikin með því að ekki hefði verið hægt að sjá fyrir að þessir tveir flokkar myndu starfa saman.
Það var einmitt það stjórnarsamstarf sem næstum allir aðrir sáu fyrir. Það er eitthvað mikið að á Íslandi ef þessi vanhæfa stjórn fer ekki frá á næstu dögum eða vikum.
Ásmundur (IP-tala skráð) 19.3.2015 kl. 17:12
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég skrifaði þetta nú eftir minni og frásögn í gær. En nú leitaði ég mér aðeins meiri upplýsinga.
En EEA/EES samningnum var hafnað í Sviss árið 1992.
Síðan var haldin kosning hvort sækja ætti um aðild að "Sambandinu" árið 2001, það var fellt með 3/4 hluta atkvæða.
Eða eins og segir upp á enskuna: the federal popular initiative "yes to Europe!" (« Oui à l'Europe ! ») on opening accession negotiations is rejected by 76.8% of voters.
En það var ekki hið opinbera sem stóð fyrir atkvæðagreiðslunni, per se, heldur höfðu samtök safnað undirskriftum. Eftir stendur þó að umsókn var hafnað í þjóðaratkvæðageiðslu.
http://en.wikipedia.org/wiki/Switzerland%E2%80%93European_Union_relations
Svipað átti sér einnig stað árið 1997.
Ég hafði ekki tíma til að skoða myndbandið í gær, en gerði það nú.
Þetta er eins og er gjarna hjá stjórnmálamönnum, hæfilega loðið. Aðallega er talað um að lengra verði ekki haldið án þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki talað um að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til að stöðva eða hætta.
En svo verður auðvitað að taka tillit til þess hvort að staðan kunni að hafa breyst eða stjórnmálamenn hafi fengið nánari upplýsingar.
Hvernig er t.d. afstaða "Sambandsins" hvað varðar sjávarútveg?
Hvernig yrði svar við spurningu eins og þessari:
Vilt þú að aðildarviðræður Íslendinga og Evrópusambandsins haldi afrám og hafist verði hands við aðlögun sjávarútvegstefnu Íslendinga að stefnu Evrópusambandsins?
G. Tómas Gunnarsson, 20.3.2015 kl. 07:45
Þetta eru ekki loðin svör. Þau eru öll mjög afdráttarlaus.
Ráðherrarnir telja það einfaldlega í góðu lagi að lofa í mikilvægum málum fyrir kosningar, án þess að til standi að efna loforðin, til að fá atkvæði út á þau og komast í valdastöðu.
Síðan þykir það sjálfsagt að svíkja loforðin til að fá sitt fram. Þetta er valdarán. Þetta er hægri öfgastefna.
Endilega birtu hér orðrétt þessi loðnu svör eða hluta þeirra.
Ásmundur (IP-tala skráð) 20.3.2015 kl. 13:54
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Hvers vegna birti þú ekki hér hin orðréttu svör.
Og hvers vegna talar þú ekki um atkvæðagreiðslu Svisslendinga um hvort hefja skuli aðlögunarviðræður við "Sambandið"?
Og svo er aftur spurningin hvort að aðlögunarviðræður við "Sambandið" standist stjórnarskrá.
Það er svo margt sem þarf að hafa í huga.
Var eðlilegt af ríkisstjórn að hefja aðildarviðræður við "Sambandið", vitandi að þær stæðust ekki stjórnarskrá?
G. Tómas Gunnarsson, 20.3.2015 kl. 17:52
Auðvitað geturðu ekki bent á eitt einasta loðið svar enda eru þau öll alveg afdráttarlaus.
Öllum ráðherrunum var greinilega mikið í mun að sannfæra kjósendur um að viðræðum verði ekki slitið nema áframhaldi viðræðna verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Um þetta eru nánast allir sammála, sérstaklega að því er varðar Sjálfstæðisflokkinn, og þess vegna er algjör óþarfi að skrifa þetta upp. Hlustaðu bara aftur.
Þú þarft hins vegar að benda á hvað er loðið við svörin ef þú vilt vera marktækur. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri talað um loðin svör. Jafnvel ráherrarnir sjálfir hafa ekki neitað því að þeir hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.
Bjarni og Illugi hafa hins vegar kvartað undan því að þeim hafi ekki verið virt til vorkunnar að þeir vildu svíkja loforðin.
Bjarni barmar sér undan því að menn hlusti bara á það sem er sagt fyrir kosningar en ekki það sem er sagt þess á milli.
Og Illuga finnst að það sé nægileg ástæða til að svíkja loforð að stjórnarsamstarf með Framsókn varð niðurstaðan að loknum kosningum.
Ástæðan fyrir þessari botnlausu niðurlægingu ráðherranna er að þeir ráða í raun engu. Þeim er stjórnað af eins konar mafíum sem beita þá fyrir sig af mikill hörku.
Aðeins einn stjórnarþingmaður hefur sýnt sjálfstæði og komist upp með það. Aðrir hafa ekki treyst sér til þess vegna hættu á a missa lífsviðurværið.
Loforðasvikin eru þó ekki það versta. Tilgangurinn með þeim er enn svívirðilegri. Hér er um að ræða tilraun til að koma í veg fyrir ESB-aðild í mörg ár eða áratugi umfram valdatíð þessarar ríkisstjórnar, þvert á þjóðarvilja.
Það eru aumingjar sem láta nota sig í slíkt.
Ásmundur (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 11:54
Þjóðaratkvæðagreiðsla Svisslendinga, um hvort hefja skyldi aðildarviðræður, fór fram af sérstöku tilefni. Ástæðan var að áður höfðu Svisslendingar hafnað EES-samningnum með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Hér er allt annað uppi á teningnum. Við erum í EES og mikill meirihluti þjóðarinnar vill halda viðræðunum áfram skv skoðanakönnunum. Yfir 60% var einnig hlynntur umsókn þegar hún var samþykkt á Alþingi.
ásmundur (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 12:05
@Ásmdundur Þakka þér fyrir þetta. Mörg svörin eru á þá leið að ekki verði lengra haldið með viðræður, án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslu komi. Það er ekki það sama og að þeim verði ekki slitið, eða frestað án þess að til þjóðaratkvæðagreiðlsu komi.
En það sem meira skiptir er auðvitað undir hvaða formerkjum á að að "endurlífga" viðræður og hvernig er það mögulegt án þess að "Sambandið" afhendi rýniskýrslur í sjávarútvegi?
Það er líka útbreidd skoðun að ekki sé hægt ganga í "Sambandið" án þess að til komi stjórnarskrárbreyting.
Er rétt að "endurlífga" viðræður og treysta á að breyting náist, eða er rétt að fara í þær breytingar fyrst? Ef þær nást ekki fram er þá líklega óþarfi að fara í viðræður.
Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að næsta ríkisstjórn sæki um aðild að "Sambandinu", þó að viðræðum verði slitið. Það þarf einfaldlega að láta Alþingi samþykkja það, hvort sem það yrði með þjóðaratkvæði eður ei.
Ef umsóknin er almennilega undirbúin og byggð, en ekki keyrt í gegn eins og sú síðasta, þar sem þeir sem greiða atkvæði með henni segjast vera á móti henni og skilyrði eins og breytingar á stjórnarskrá eru enn í lausu lofti, reikna ég með að "Sambandið" myndi taka vel á móti henni.
Það eru nákvæmlega ekkert sem segir að sé ekki hægt að sækja um aftur, eins og rétt eins og sést í dæmi Svisslendinga. En þar var það fellt að sækja um bæði 1997 og 2001.
Það voru reyndar ekki nema 50.3% sem höfnuðu EEA/ESS samningnum í Sviss, en mun hærra hlutfall sem hafnaði að sækja um aðild.
Noregur sömuleiðis búinn að hafna aðild 2. sinnum, en ef umsókn kæmi í dag, er ég nokkuð viss um að "Sambandið" myndi hoppa hæð sína af gleði. Slík umsókn er þó ekki líkleg.
G. Tómas Gunnarsson, 21.3.2015 kl. 14:00
Það eru engin merki um klofning í Samfylkingunni.
Það er einn kostur við að framboð ISI bar svona seint að. Það var ekki tími til að skapa sundrungu meðal almennra kjósenda.
Þegar Ingibjörg Sólrún bauð sig fram gegn Össuri, sem þá var formaður, varð mikill klofningur í hópi stuðningsmanna flokksins. Hver höndin var uppi á móti annarri á netmiðlum.
Eins og alltaf þegar sundrung er mikil innan flokks sýndu skoðanakannannir lítið fylgi við Samfylkinguna.
En menn höfðu vit á að slíðra sverðin þegar kosningar nálguðust. Á aðeins fáum vikum fyrir kosningar tvöfaldaðist fylgið og kosningaúrslitin urðu mikill sigur fyrir flokkinn.
En auðvitað reyna andstæðingar flokksins að mála skrattann á vegginn.
Ásmundur (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 17:29
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Miðað við mann sem er ekki Samfylkingarmaður, og er óráðinn hvernig hann ver atkvæði sínu í næstu kosningum, virðist þú telja þig þekkja ótrúlega vel til Samfylkingarinnar.
En það er í sjálfu sér aukaatriði.
Það má sjá ýmis merki klofnings í Samfylkingunni, þó að enn sé óljóst hve mikill eða gleiður hann verður.
Hvort að Árni Páll verður svo síðasti formaður Samfylkingarinnar eður ei, á auðvitað eftir að koma í ljós, en það er nokkuð ljóst að sigling hans verður ekki auðveld.
Það eru enda "sjóræningjar" á miðunum, og aðrir sem lofa "bjartri framtíð". Enn aðrir kunna að lofa "viðreisn".
Ef til vill er "viðreisn" það sem hægri kratarnir telja sig þurfa.
P.S. Líklega hefur þessi athugasemd átt að rata á aðra færslu, en það er varla aðalatriðið.
G. Tómas Gunnarsson, 21.3.2015 kl. 17:50
Síðasta innlegg mitt á ekki að vera hér. Það er nú komið á sinn rétta stað og því rétt að svara því þar. G. Tómas geturðu ekki flutt svarið þangað.
Ásmundur (IP-tala skráð) 21.3.2015 kl. 18:27
@Ásmundur Ekkert mál, slíkt hendir.
Þetta er annars í annað skipti á stuttum tíma sem þetta hendir þig.
Eru "allir að fá sér" á landsfundinum? LOL
G. Tómas Gunnarsson, 21.3.2015 kl. 18:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.