9.6.2006 | 04:14
Eins og "Woodstock" fyrir samsæriskenningasmiði - Hood - Meirihlutastarf dýru verði keypt - Hver verður næsti formaður?
Rakst á þessa frétt í Globe and Mail í kvöld. Þar sem samsæriskenningar eru ræddar berst talið oft fyrr eða seinna að Bilderberg hópnum. En hann mun víst vera að funda í Ottawa þessa dagana. Sumir vilja meina að þeir stjórni heiminum, einhvern veginn hef ég ekki trú á því, en vissulega eru margir af þeim sem tilheyra "klúbbnum" valdamiklir" menn. En þeim sem hafa gaman af samsæriskenningum er bent á frétt Globe and Mail.
Annars var þetta frekar þreytandi og lýjandi dagur, fór til tannlæknis, aldrei beint upplífgandi, þó tannlæknirinn sé ljómandi. En var eitthvað hálf þreyttur eftir þessa tveggja tíma törn. Hef alltaf haldið því fram að ég hafi lélegar tennur, en tannlæknirinn segir að það séu engar lélagar tennur, bara lélegir tanneigendur. Líklega verð ég að kyngja því.
Foringinn ákvað þó að sýna sínar bestu hliðar til að hjálpa mér og fór snemma að sofa. Ég opnaði rauðvín og fór að horfa á sjónvarpið aldrei þessu vant. Þó að rásirnar séu u.þ.b. 70, er yfirleitt ekki margt sem vekur áhuga minn.
Fór eins og venjulega þegar fjarstýringin fellur í hendina á "History Channel", mín uppáhaldsrás. Horfði á heimildamynd um orrustu Hood og Bismarck. Skratti góð, þó aðeins fyrri hlutinn. Myndir sýndar frá báðum flökunum, Ísland kom auðvitað nokkuð við sögu og m.a. sá ég einvhern lóðsbát flytja síðasta eftirlifandi áhafnarmeðlim Hood á staðinn þar sem Hood hvílir. Líklega verð ég að reyna að ná seinni hlutanum.
Dýru verði þykir mér Sjálfstæðisflokkurinn kaupa meirihlutasamstarfið í Reykjavík, ef nefndarformenn skiptast 50/50, þegar fulltrúahlutfallið er 7/1. En það er ekkert nýtt að stærri flokkurinn gefi eftir, en þetta hljómar einfaldlega of mikið.
Það er því sem næst að "allir og eldhúsvaskurinn" komi til greina sem nýr formaður Framsóknarflokksins, eða sem ráðherra á vegum flokksins. Alls kyns "kviksögur" eru á kreiki og alls kyns nöfnum velt upp. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum "stóladansi", hver verður í stólnum þegar tónlistin þagnar?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Vinir og fjölskylda, Bloggar, Dægurmál, Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 04:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.