6.3.2015 | 14:05
Ódýr auglýsing sjónvarpsstöðvar?
Þegar ég sá fréttir um meintar efasemdir Árna Páls um "Sambandsaðild" Íslands, hugsaði ég með mér að lengi væri von á einum.
Mér þótti Árni Páll sýna óvenjulegt hugrekki með því að tala á þann veg sem fréttir hljóðuðu á, og allt kom mér þetta verulega á óvart.
En nú er þetta allt borið til baka.
Það kemur mér í sjálfu sér ekki mjög á óvart. Svona beygju taka formenn stjórnmálaflokka almennt ekki. Alla vegna ekki þeir sem eru að sækjast eftir endurkjöri. Stefnan er mörkuð af flokknum.
En þetta vakti áhuga minn og ég fór að reyna að finna eitthvað um viðtalið. Fann þennan stutta bút á YouTube.
Og það er ekki oft sem ég tek undir með Árna Páli Árnasyni (man ekki hvenær það var síðast) en ég geri það nú.
Þetta er fráleit túlkun á því sem kemur fram í þessum bút, en ég segi það með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð viðtalið í heild.
Ef til vill var þetta aðeins hugsað sem ódýr auglýsing fyrir nýjan fjölmiðil, en ég verð að segja að slíkar aðferðir vekja ekki traust á miðlinum.
En þetta kom líka stjórnamálamanni sem hefur átt frekar erfitt uppdráttar aðeins í umræðuna, og röng umræða er betri en engin umræða, sérstaklega stuttu fyrir landsþing.
Fráleit útlegging á því sem ég sagði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Sjónvarp | Facebook
Athugasemdir
Eins og fram kemur í þessari upptöku hefur afstaða Árna Páls nákvæmlega ekkert breyst.
Þvert á móti lagði hann áherslu á að málið væri í stöðugri skoðun hjá honum og niðurstaða hans væri alltaf sú að "langflest mæli með því að aðild að ESB sé farsæl leið fyrir Ísland" svo að orðrétt sé haft eftir honum.
Stærsta ástæða Árna fyrir því að hann aðhyllist ESB-aðild er að Ísland væri skelfilegur staður án ávinningsins af ESB-aðild.
Þetta er einmitt það ég hef verið að leggja áherslu á og færa rök fyrir hér undanfarið.
Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 14:59
@Ásmundur Takk fyrir innleggið. Ef ég man rétt þá sagði hann að Ísland væri skelfilegur staður án ávinningsins af Evrópusamrunanum.
Á Evrópusamrunanum og "ESB aðild" er nokkur munur, þú verður að hafa rétt eftir.
En þeir eru reyndar ekki svo margir sem taka mark á Árna Páli í þessum efnum, ég veit ekki með þig, en ég geri það alla vegna ekki.
Og að mestu leyti hefur þú aðeins farið með mönturnar þínar hér, og orðið afturreka með t.d. "hlutfallslega stöðuguleikann", sem er ein af þeim.
Ég held reyndar að lang flestir Íslendingar kjósi að standa fyrir utan næstu skref "Evrópusambandssamrunans".
Því auðvitað er Evrópa ekkert að "renna saman", þó að "Sambandið" sé að gera það.
Enn eitt dæmið um hvornig hugtakafölsun er í gangi hjá "Sambandinu" og Samfylkingunni, sem er að reyna að eigna sér hugtakið "Evrópa", vegna þess hve skaddað "brand" Evrópusambandið er.
G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 15:48
Það kemur skýrt fram að þetta er ekki orðrétt haft eftir Árna Páli enda er það sem er orðrétt haft eftir honum innan sviga með breyttu letri.
En merkingin er rétt. Með ávinningi af Evrópusamrunanum er Árni Páll greinilega að benda á að við þurfum að ganga í ESB til að njóta þessa ávinnings.
Skv síðustu könnun Capacent, sem var gerð fyrir Já Ísland í janúar, fer þeim mjög fjölgandi sem eru sammála Árna Páli. Af þeim sem tóku afstöðu voru yfir 46% hlynntir aðild.
Í ljósi þess að enn er enginn samningur fyrirliggjandi endurspegla þessi úrslit að mínu mati að meirihluti muni samþykkja aðild enda eiga yfir 40% enn eftir að taka afstöðu auk þess sem flest bendir til að samningurinn muni koma gleðilega á óvart.
Eins og ég hef margoft bent á verður það ekki vandamál þó að ekki sé útilokað að reglan um hlutfallslegan stöðugleika geti hugsanlega breyst þegar fram í sækir.
Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 17:30
@Ásmundur Takk fyrir þetta. Þessi orð má reyndar túlka á ýmsa vegu.
Persónulega myndi ég telja að Árni Páll sé að vísa til EEA/ESS samningsins, þar sem Íslendingar taka eins og flestum er kunnugt að verulegu leyti þátt í "Sambandinu", ef svo má að orði komast, með gríðarlega mikilvægum undantekningum þó, s.s. í sjávarútvegi.
Ég myndi alla vegna ekki vilja vera formaður stjórnmálaflokks á Íslandi, sem léti hafa það eftir sér að Ísland væri "skelfilegur staður".
En ef til vill er rétt að krefja Árna Pál frekari skýringa á þessum ummælum. Ef til vill gera fjölmiðlar þar, þó því sé varasamt að treysta.
Það eru að mínu mati engar líkur til þess að Íslendingar samþykki að ganga í "Sambandið".
En það er líka ljóst að það verður aldrei, alveg sama á hverju gengur, fyrr en tvö þúsund tuttugu og eitthvað.
Þannig að þangað til þarf þá Árni Páll að búa á "skelfilega Íslandi".
Hvað bendir til þess að samningur myndi koma "gleðilega á óvart"?
Það að "Sambandið" neitaði Íslendingum um rýniskýrslu í sjávarútvegi?
Þú hljómar svona eins og Steingrímur J., með sína "glæsilegu niðurstöðu" í IceSave samningunum.
Enda má sjá ýmis líkindi.
Hitt er svo að undirgangast "opin" samning um sjávarútvegsmál, er fyrir Íslendinga eins og fara í rússibana sem er enn í byggingu.
Og litlar sem engar líkur á að slíkt yrði samþykkt af þjóðinni.
G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 18:37
Þessi skilningur þinn gengur ekki upp vegna þess að þetta er að hans mati stærsta ástæðan fyrir því að "langflest mæli með því að aðild að ESB sé farsæl leið fyrir Ísland".
Ávinningur af Evrópusamrunanum eða EES-samningnum getur ómöglega verið ástæða, hvað þá stærsta ástæða, fyrir því að hann telur að ESB-aðild sé farsæl leið fyrir Ísland.
Ég er sammála Árna Páli um að Ísland eitt á báti með ónýta krónu sem hægt er að sveifla upp og niður eins og jó-jó er skelfileg framtíðarsýn. Það er einnig það sem vegur þyngst á metunum hjá mér varðandi aðild. Það er þó alls ekki eina ástæðan.
Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 21:46
@Ásmundur Hann talar orðrétt um að .. "Ísland væri skelfilegur staður án ávinningsins af Evrópusamrunanum".
Þannig endar þessi bútur. Ekkert um að ganga í ESB, heldur að Ísland (þá væntanlega í dag) væri skelfilegur staður án Evrópusamrunans. En það kemur þó skýrt fram að hann telur aðild æskilega.
Persónulega finnst mér erfitt að skilja þetta á annan veg, en að hann telji að Ísland njóti þess í dag, án þess væri Ísland skelfilegur staður.
Enda gerir Ísland það að miklu leyti, í gengnum EEA/EES samningin, en heldur utan þess mikilvægum atriðum eins og sjávarútvegi.
G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 22:16
Skv skoðanakönnun Capacent styðja 46% þeirra sem tóku afstöðu aðild. Fylgið þarf því ekki að breytast mikið til að fara yfir 50%.
Það er margt sem bendir til að fylgið eigi eftir að aukast, jafnvel mjög mikið. Helsta ástæðan er að það er ljóst að samningurinn verður miklu betri en ESB-andstæðingar hafa látið á sér skilja með blekkingum.
Þegar þessar ranghugmyndir verða afhjúpaðar munu margir eðlilega snúast til fylgis við aðild. Þess vegna og aðeins þess vegna vilja andstæðingar aðildar slíta viðræðum strax.
Ríkisstjórnarflokkarnir myndu aldrei svíkja loforð um þjóðaratkvæði og auk þess slíta viðræðum og tapa með því miklu fylgi nema vegna þess að þeir óttast að aðildin verði samþykkt.
Stærsti hópurinn skv skoðanakönnuninni, um 40%, hefur enn ekki tekið afstöðu. Það bendir til að hann, eða stór hluti hans, sé opinn fyrir aðild ef samningur verður hagstæður.
Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 22:20
G. Tómas, þú verður að skoða þessi ummæli í samhengi við næstu málsgrein á undan.
Þá hlýturðu að sjá að þessi túlkun þín gengur ekki upp. Þetta er rökstuðningur hans, reyndar stærsta ástæðan, fyrir því að aðild sé farsæl lausn fyrir Ísland.
Túlkun þín getur ómögulega átt að vera rök fyrir því.
Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 22:33
@Ásmundur Takk fyrir þetta. Ég ætla ekki að fara að rífast lengi við þig um merkingar orða, það er nokkuð tilgangslaust.
En orðið "væri" vísar ekki til framtíðar í mínum skilningi, heldur þess sem er.
Til framtíðarvísunar, þyrfti að nota orð s.s. "verður" eða frekar "yrði".
Hvað er það sem mun gera samningin betri? Nákvæmlega ekkert hefur komið fram sem bendir til þess.
Það breytist ekkert þó að þú takir "göbbelsinn" á þetta og þyljir þetta aftur og aftur.
Gleymdu því ekki að á tímabili héldu flestir að IceSave samningarnir (þeir þriðju) yrðu samþykktir.
En Íslendingar sjá í gegnum froðusnakkið og hótanir um "Kúbu án sólar" o.s.frv.
Þeir voru býsna margir "spekingarnir" sem sátu eftir með "egg á andlitinu" eftir þær kosningar.
G. Tómas Gunnarsson, 7.3.2015 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.