Þegar ríkið átti bankana

Undanfarnar vikur hefur verið deilt um hvort að ríkið hafi á einhverjum tímapunkti átt "bankana", það er að segja Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka.

Svo langt gekk það að fyrrverandi fjármálaráðherra virtist ekki kannast við að ríkið hefði átt alla bankana þrjá.

Ég var nú reyndar að leita að allt öðru þegar þessi texti kom upp í leit hjá mér. En hann ætti að taka af allan vafa um hvernig litið var á eignarhald bankanna í maí 2009.

"... marka skýra eigendastefnu þar sem fram komi framtíðaráherslur ríkisins sem eiganda bankanna og hvernig henni verður framfylgt. Markmið þess er að styrkja faglegan, gagnsæjan og traustan grunn undir aðkomu hins opinbera að atvinnulífinu. Meðal annars verði kveðið á um hvernig eignarhaldi bankanna verður hagað, hugsanlegri eignaraðild erlendra kröfuhafa og sýn á dreift eignarhald á bönkunum til framtíðar."

Er ekki full ástæða til þess að rannsaka einkavæðingu þessara ríkisbanka frekar, eins og Brynjar Níelsson, Björn Valur Gíslason og fleiri hafa lagt til?

P.S. Þeir sem vilja lesa textann í upphaflega skjalinu, finna það hér.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er útrætt. Allir málasaðilar nema Víglundur, meira að segja SDG, eru sammála um að ekkert ólöglegt hafi átt sér stað.

Það er ýmislegt annað sem væri meiri ástæða til að rannsaka td ástarbréfaviðskipti Daviðs Oddssonar sem olli þjóðinni tapi upp á hundruð milljarða.

Ásmundur (IP-tala skráð) 26.2.2015 kl. 20:45

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Ég held að flestir (eða næstum allir) séu sammmála um að ekkert ólöglegt hafi átt sér stað.

Það breytir því ekki að í skýrslu Brynjars var lagt til að málið væri rannsakað frekar, sem og mál annara fjármálafyrirtækja.

Enda tók skýrsla Brynjars ekki á málinu sem endanlegur úrskurður. Heldur fyrst og fremst gerð til að auðvelda ákvörðun um hvort frekari rannsóknar væri þörf.

Það telur Brynjar vera, þó að með undarlegum formerkjum, hafi flestum fjölmiðlum tekist að fjalla í raun ekkert um það.

Hví skyldi tillögu Brynjars um frekari rannsókn vera hafnað og hundsuð?

G. Tómas Gunnarsson, 27.2.2015 kl. 05:20

3 identicon

Hvers vegna ætti að setja af stað rannsókn þó að einn þingmaður telji það rétt?

Hvaða tilgangi á sú rannsókn að þjóna úr því að ekkert ólöglegt hefur átt sér stað? Ef það á að rannsaka málið frekar verður að vanda mjög til verksins og það kostar mikið fé eins og reynslan sýnir.

Ef rannsóknin á að beinast að því hvort ríkið hefði getað hagnast um 300-400 milljarða á hruni bankanna þá þarf enga rannsókn til að komast að niðurstöðu í því máli.

Ef ekki er vandað til verksins verður niðurstaðan aðeins eitt álitið enn sem er ekki ástæða til að taka meira mark á en öðrum álitum. Við erum þá engu nær.

Það er hins vegar full ástæða til að rannsaka ástarbréfaviðskipti Davíðs Oddssonar sem kostuðu almenning hundruð milljarða. Einnig 80 milljarða lánveitingu til Kaupþings og hvað varð um það fé.

Einnig þarf að rannsaka hvernig stóð á kaupum ríkisins á 75% hlut í Glitni fyrir 85 milljarða sem Davíð tilkynnti eftir að hafa hafnað Glitni um þrautavararlán.

Það tókst þó sem betur fer að afstýra þessum kaupum vegna þess að Glitnir féll áður en búið var að ganga frá þeim. Það gerir þó mistök Davíðs ekki minni.

Davíð hefur haldið því fram að hann hafi séð fyrir hrun bankanna og varað ríkisstjórnina við.

Hvernig stóð þá á því að hann stóð fyrir þessum kaupum á Glitni sem augljóslega hefðu leitt til 85 milljarða taps fyrir ríkissjóð ef ekki hefði tekist að koma í veg fyrir kaupin.

Og hvernig kom það til að Seðlabankinn lánaði kaupþingi 80 milljarða þrátt fyrir að Davíð sá fyrir hrun bankans? Er ekki kominn tími til að fá skýr svör við þessum spurningum?

Ásmundur (IP-tala skráð) 27.2.2015 kl. 10:23

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Vegna þess að það er ekki bara "einn þingmaður" sem leggur það til, heldur þingmaður sem var falið, af nefnd þingsins, að meta hvort að rétt væri að rannsaka málið frekar.

Flestir skilja líklega muninn á því.

Það hefur reyndar hvergi komið fram að hann sé einungis einn um þá skoðun. Réttast væri auðvitað að láta þingið einfaldlega greiða um það atkvæði.

Þess utan sagði varaformaður VG að ef ríkistjórnin myndi ekki leggja til rannsókn, myndu "þeir" gera það.

Það sem gerðist fyrir bankahrun, hefur verið rannsakað nokkuð vel, og gefin út um það risastór skýrsla, en hún hefur ef til vill farið fram hjá þér. Það getur þó vel verið að þar megi skerpa á einstöku atriðum.

Hvað varðar að Davíð hafi varað við, þá er það líklega enn fræg frétt þegar innlendur hagfræðingur sagði að "bjargbrúnarkenning seðlabankastjóra" hefði verið slegin af. Um hvað heldur þú að sú "bjargbrúnarkenning" hafi verið.

En það er hitt að engin rannsókn hefur farið fram á því sem var að gerast og var gert, eftir bankahrun.

Þó telja margir að það sé ekki síður rannsóknarefni, og það er einmitt það sem verið er að leggja til

Og hvers vegna ekki?

Það er ábyggilega margt þar sem ekki má síður læra af, en því sem gerðist fyrir bankahrun.

G. Tómas Gunnarsson, 27.2.2015 kl. 11:57

5 identicon

Þar sem hér virðist ekki vera neitt athugavert er engin ástæða til að rannsaka það. Hvers vegna kom ekki fram krafa um rannsókn þegar SDG hélt þessu fram?

Er það virkilega tilefni til rannsóknar, þó að ásakanirnar séu taldar rangar, að maður úti bæ tekur undir með SDG, að því er virðist til að hefna sin fyrir að fyrirtæki hans fékk ekki afskriftir?

Það er þó allt í lagi ef einhverjir þurfi að glöggva sig betur á málinu að þeir skoði það. En að eyða í það stórfé úr ríkissjóði ber vott um skort á aðhaldssemi og ómarkviss vinnubrögð.

Það er undarlegt að úrskurða að ásakanir Víglundar eigi ekki við rök að styðjast en mæla samt með rannsókn. Þú veist vel að Brynjar þykir oft ekki vera mjög marktækur.

Mistök Davíðs Oddssonar hafa ekki verið rannsökuð sérstaklega. Þar sem þar er um að ræða mörg hundruð milljarða tjón ríkis er auðvitað miklu brýnna að rannsaka þau mál.

Það læðist að manni sá grunur að þetta mál komi upp núna til að draga athyglina frá afglöpum Davíðs sem hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 27.2.2015 kl. 14:02

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þingmaður sá sem nefnin fól að forkanna málið hvetur eindregið til rannsóknar, þó að hann haldi því ekki fram að lög hafi verið brotin.

Hann hvetur jafnframt til rannsóknar á gjörðum í kringum önnur fjármálafyrirtæki, sem ég tek heilshugar undir.

Björn Valur, varaformaður VG, sagði einnig að hann vildi rannsókn og í raun krefðist þess, ef ríkisstjórnin færi ekki af stað með slíka.

Það á ekki að þurfa stórfé úr ríkissjóði, frekar að auðvelda aðgang að öllum gögnum og svo framvegi.

Ég hef ekki orðið var við að Brynjar sé minna marktækur en aðrir þingmenn (eða menn almennt) nema síður sé. Þetta þykir mér frekar skrítin röksemd.

Mistök Davíðs voru auðvitað rannskuð í "Rannsóknarskýrslunni", eigi síður en mistök annarra.

Það er alls ekki útséð um hvort ríkið hafi orðið fyrir tjóni af þessu máli, þó að í mínum huga sé það ekki aðalatriðið og engin ástæða til að viðhafa rannsókn með hefnigirni í huga. Pólísk réttarhöld voru í fyrsta sinn haldin á Íslandi af stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna og ég held að engin áhugi sé fyrir því að endurtaka slíkt.

Mér sýnist reyndar að umræðan um Davíð hafi aðallega tekið sig upp, eftir að þessi umræða hófst, þannig að ef eitthvað er hlýtur hún að vera "smjörklípan".

En það er sjálfsagt að rannsaka þetta mál frekar og draga af því lærdóm, hvernig sem niðurstaða rannsóknarinnar er.

Það sést best á textanum úr stjórnarsáttmálanum að Samfylking og Vinstri græn litu svo á að ríkið ætti alla bankana og veru og velta fyrir sér dreifðri eignaraðild og HUGSANLEGRI aðkomu kröfuhafa.

G. Tómas Gunnarsson, 27.2.2015 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband