2.4.2006 | 01:18
Hvað er ég að lesa?
Ég er nú einn af þeim sem alltaf verð að vera að lesa einhverja bók. Og að kaupa bækur er eitt af mínum uppáhalds áhugamálum. Reyndar kaupi ég yfirleitt ódýrar bækur, gjarna á útsölu, en það er annar handleggur.
Reyndar er það svo að sé ég að þvælast um þar sem verslanir eru, er það yfirleitt svo að ég dreg yfirleitt heim með mér annaðhvort bækur eða vínflöskur, nema hvorutveggja sé. Konan mín kvartar stundum yfir þessu. Ekki það að flöskurnar safnast ekki svo hratt fyrir, en það gera bækurnar.
En hvað hef ég verið að lesa upp á síðkastið? Ég er stuttu búinn að lesa "Collapse" eftir Jared Diamond, bók sem ég mæli heilshugar með, vekur lesandann til umhugsunar og er vel þess virði að lesa.
Síðan dreif ég loks í því að kaupa og lesa "The Da Vinci Code", þó að um ágætis afþreyingu sé að ræða, er varla hægt að segja að sú bók verðskuldi allt það írafár sem hún hefur valdið.
En nú er ég að lesa "Communism - A Brief History" eftir Richard Pipes, lofar góðu og heldur vonandi dampi.
Athugasemdir
Sumt í Collapse er frábært - einkum greiningin á því hvernig nokkur einangruð samfélög fortíðarinnar (t.d. norrænir menn á Grænlandi og Mayar) grófu sína eigin gröf með því að taka ekki tillit til umhverfisins. En Diamond tekst alls ekki það meginmarkmið sitt að tengja þá greiningu við umhverfisvandamál samtíðarinnar, svo að síðasti hluti bókarinnar veldur vonbrigðum, og sem heild verður bókin sundurlaus. Guns, Germs, and Steel eftir sama höfund er hins vegar mun betri bók. Hana þurfa allir að lesa.
Baldur Kristinsson, 2.4.2006 kl. 09:44
Ég er nú þeirrar skoðunar að enga bók beri að taka sem heilagan sannleik, hvorki "Collapse" né aðrar. Sömuleiðis get ég tekið undir það að bók Diamond´s, "Guns, Germs, and Steel" tekur Collapse fram.
En það hafa samt allir gott af því að lesa "Collapse", að mínu mati. Ekki til þess að taka hana sem neinn "stóra sannleik", heldur til að velta hlutunum fyrir sér.
G. Tómas Gunnarsson, 2.4.2006 kl. 13:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.