28.3.2007 | 14:56
Afstaða til Evrópusambandsins 1990 eða 1995?
Þeir kunningjar mínir sem hafa mikinn áhuga á því að Ísland gangi í ESB hafa sumir hverjir sent mér tölvupóst með þeim upplýsingum að nú sé mikið rætt um meinta umbreytingu viðhorfs Davíðs Oddsonar til Evrópusambandsins á árunum 1990 til 1995.
Bók Eiríks Bergmanns (sem ég hef auðvitað ekki lesið) á víst að leiða þetta í ljós.
Þar sem þeir vita að mín viðhorf hafa ekki verið hliðholl sambandinu og jafnframt að ég hef borið mikla virðingu fyrir stjórnmálamanninum Davíð og framlagi hans til Íslenskra stjórnmála, þykir þeim nú að hafi þeir komið mér í klípu, jafnvel ýtt mér aðeins upp að vegg.
Því er auðvitað til að svara að ég get ekki svarað fyrir Davíð Oddsson, það er hann enda fullfær um sjálfur ef hann kærir sig um.
Hitt er svo ef til vill ekki undarlegt að afstaða margra hafi breyst til "Sambandsins" á þessum árum, enda tók "Sambandið" sjálft gríðarlegum breytingum á þessum árum.
Í raun má segja að Evrópusambandið, í það minnsta eins og það var árið 1995 hafi ekki verið til árið 1990.
Evrópusambandið varð í raun ekki til fyrr en með "Maastricht sáttmálanum" árið 1991. Þar var mörkuð leiðin að því Evrópusambandi sem við þekkjum í dag, gegn t.d. vilja Breta. Þetta má lesa um t.d. á vef BBC hér og hér.
Tímalínu sambandsins má einnig sjá hér.
Í þessu tímabili gerðist það einnig að Íslendingar gerðust aðilar að EES samningnum. Þá lýsti ágætur stjórnmálaforingi því yfir að allt hefði fengist fyrir ekkert. Auðvitað má deila um sannleiksgildi þeirra orða, en var einhver ástæða til þess árið 1995 (eða nú) að "borga" meira fyrir "allt"?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Vinir og fjölskylda, Bloggar, Dægurmál, Saga | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.