Ég sá á bloggi Styrmis Gunnarssonar að umræða væri nú (eins og stundum áður) um að skattleggja ætti fjármagnstekjur jafnt og launatekjur.
Ef ég skyldi rétt er það Kári Stefánsson sem er upphafsmaður umræðunnar nú. Vitnað var til einhvers sjónvarpsþáttar sem ég hef ekki séð eða þekki til.
En mér finnst hugmyndin afleit. Rétt eins og mér hefur alltaf þótt.
Fyrir því liggja margar ástæður. Þó eins og oftast er ekkert svart og hvítt í þessum efnum.
Réttara væri t.d. að byrja á því að afnema allar undanþágur. Hvers vegna er t.d. fjárfesting í listaverkum undanþegin fjármagnstekjuskatti? Hvers vegna er hagnaður af sölu eigins húsnæðis undanþegin fjármagnstekjuskatti?
Persónulega er ég reyndar hlynntur undanþágu gagnvart sölu á eigin húsnæði, en það getur þó vissulega virkað tvímælis.
Hví skyldi sá sem fjárfestir í eigin húsnæði og selur það fimm árum síðar með góðum hagnaði, frekar sleppa við fjármagnstekjuskatt en einstaklingur sem var svipað staddur fjárhagslega og bjó í leiguhúsnæði, eða heima hjá foreldrum sínum, og ákvað að fjárfesta í hlutabréfum?
Hvers vegna á ríkið frekar skilið að fá hlutdeild í hagnaði af hlutabréfum, en húsnæði eða listaverkum?
Síðan er vert að hafa í huga að fjárfestingar eru gjarna afleiðingar af því að einstaklingar hafa sparað. Þeir hafa sparað af launum sínum sem þeir hafa þegar greitt ríkinu drjúgan hlut af. Er rökrétt að á þá séu lagðar byrðar, vegna þess að þeir spöruðu og ríkið eigi rétt á stórum hluta ávöxtunarinnar?
Rétt er að hafa í huga að eins og staðan hefur verið á Íslandi oft á tíðum, hefur raun fjármagnstekjuskattur verið mun hærri en skattprósentan segir til um. Því vextir hafa verið háir, vegna hárrar verðbólgu. Þegar lagður er fjármagnstekjuskattur á alla vaxtaupphæðina er raun skatturinn hár.
Ef einstaklingur á 1000 krónu í banka á 6% vöxtum í 4% verðbólgu, fær hann 60 krónur í vexti. 40 krónur eru í raun "verðbætur", en 20 krónur í vexti. Ríkið tekur svo 20% af 60 krónunum, sem gera 12 krónur. Meira en helming af raunvöxtunum. Það gerir 60% skatt af raunvöxtunum. Sá sem sparaði fær náðarsamlegast að halda eftir 8 krónum.
Finnst einhverjum virkilega ástæða til að hækka prósentuna enn frekar.
En auðvitað eru til ýmsar leiðir ef ástæða þykir til að auka skattheimtu hins opinbera frekar en orðið er.
Til dæmis má alveg eins segja að erfðaskattur eigi að vera jafn hár og skattur á venjulegar launatekjur, jafnvel hærri. Því einstaklingar leggja "minna til" þess sem þeir erfa en þeirrar ávöxtunar sem þeir hljóta.
En það er þó ekki mín tillaga.
Annað atriði sem má hafa í huga, ef sterkur vilji er fyrir því að "ráðast" á fjármagnstekjur, er að reyna að skilja frekar á milli þeirra sem eiga "venjulegan" hóflegan sparnað, og þeirra sem í raun lifa og vinna við að ávaxta sitt fé.
Rétt eins og við gerum greinarmun á þeim sem eru að selja sitt eigið húsnæði og þeim sem lifa af því að gera upp fasteignir og selja.
Það mætti til dæmis gera með því að gefa öllum einstklingum "frísparnaðarmark" á hverju ári, t.d. 5 til 800.000. Það væri flytjanlega á milli ára að einhverju marki, en félli úr gildi t.d. eftir 5 ár. Það fé sem sparað væri með þessum hætti bæri engan fjármagnstekjuskatt.
Fjármálastofnanir byðu upp "Skattlausa reikninga" og þar gætu einstaklingar ávaxtað fé sitt á þann hátt sem hver kysi, með hlutabréfakaupum, í skuldabréfum eða hreinlega á sparisjóðsbókum.
Öll ávöxtun á slíkum reikningi væri skattlaus og möguleiki á taka hana út, án skatts, eða bæta henni við höfðuðstólinn og hún nyti sömuleiðis skattfríðinda.
Öll ávöxtun utan slíkra reikninga gæti síðan verið skattlögð jafnt og launatekjur.
Þetta gefur öllum sömu upphæð skattfrjálst, óháð tekjum og tekur líka á því að sá sem er t.d. 62 ára, er líklegur til að eiga meira sparnað en þrítugur einstaklingur, og er ekki refsað fyrir að hafa sparað í lengri tíma.
Með slíkum hliðaraðgerðum má réttlæta að hækka fjármagnstekjuskatt upp að launatekjum, en jafnvel þó slíkt sé gert má halda því fram að sanngirniskrafa sé að af fjármagnstekjum utan slíkra reikninga sé leyfilegt að draga frá verðbótahluta, eða vaxtahluta sambærilegan verðbólgu. Aðeins sé greiddur skattur af raunvöxtum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:18 | Facebook
Athugasemdir
Það eru engin rök fyrir að menn greiði minni skatt af fjármagnstekjum en öðrum tekjum.
Það er hins vegar fráleitt að hækka fjármagnstekjuskatt upp í 40% að öðru óbreyttu vegna þess að verbólgan er innifalin í því sem teljast til fjármagnstekna.
20% skattur á fjármagnstekjur geta oft verið hærri skattur en 40% skattur á launatekjur. Ef verðbólgan er 10% og vextir 12% þá eru rauntekjurnar aðeins um 2%. Samt þarf að greiða 20% meira en tekjurnar í skatt sem er um 120% skattur. Það er að hluta hrein eignaupptaka.
Sama getur átt við um viðskipti með hlutabréf. Ef þau eru seld löngu eftir að þau voru keypt er líklegt að stór hluti af reiknuðum hagnaði sé verðbólga.
Þar að auki er ekki hægt að draga tap af hlutabréfum eitt árið frá hagnaði næsta árs. Þannig geta menn lent í umtalsverðum fjármagnstekjuskatti yfir margra ára tímabil þó að tap hafi verið á viðskiptunum í heild.
Einnig geta menn lent í umtalsverðum fjármagnstekjusköttum innan ársins þrátt fyrir tap ef tap af hlutabréfaviðskiptum er meira en vaxtatekjur. Það er ekki leyfilegt að draga þetta tap frá hagnaðinum.
Ef fjármagnstekjuskattur væri hækkaður í 40% þyrfti að reikna hann aðeins af rauntekjum auk þess sem það þyrfti að vera leyfilegt að draga tap eins árs frá hagnaði seinna og draga tap af hlutabréfaviðskiptum frá vaxtatekjum.
Ég var mjög hissa á þessari einfeldningslegu sýn Kára á málið.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.1.2015 kl. 14:29
Skattlagning á arðgreiðslur er 36% en ekki 20%. Áður en arðgreiðslur eru greiddar út til einstaklinga þarf félag að greiða 20% skatt af þeim hagnaði sem greiða á út. Í kjölfarið greiðir einstaklingurinn aftur 20% skatt af arðgreiðslunum sjálfum. Einstaklingar sem hafa tekjur sínar af arðgreiðslum greiða því um 36% tekjuskatt (2), sem er sambærilegt við greiðslur þeirra sem hafa 1 milljón kr. í mánaðarlaun. Sjá VB.
Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 17.1.2015 kl. 15:28
@Ásmundur Takk fyrir þetta. Líklega er þetta í fyrsta skipti sem við erum þó ekki nema hálfpartinn sammála, það er vissulega eitthvað sem vert er að færa til bókar.
Það eru vissulega til rök fyrir því að skattleggja fjármagnstekjur lægra en aðrar tekjur.
Þær eru oft sparnaður, af launum sem hefur verið greiddur fullur skattur af. Stundum eru gjafir. Hvers vegna á t.d. fermingarbarn að greiða skatt af vaxtatekjum, þó að það leggi peningana sína inn á banka, frekar en að geyma þá í skúffunni?
Eins er með ellilífeyrisþega. Það getur verið verra fyrir þá að geyma peninginn í banka, en undir koddanum. Ekki nóg með að ríkið hirði stærstan eða stundum allan part af raun ávöxtuninni, heldur getur einstklingurinn lent í skerðingu á lífeyri vegna vaxtatekna. Best er fyrir slíka einstaklinga að geyma fé undir koddanum, eða koma því til útlanda.
Er það skilaboðin sem við viljum senda?
Eða viljum við hvetja til sparnaðar og fjárfestingar í fyrirtækjum og uppbyggingu þeirra?
Viljum hvetja til sparnaðar eða refsa fyrir hann?
Hvaða rök er svo hægt að koma með fyrir því að enginn fjármagnstekjuskattur sé af listaverkum og eigin húsnæði, en hár skattur af bankainnistæðum og hlutabréfum?
Það er svo góður punktur að allur hagnaður er skattlagður en tapið ekki frádráttarbært.
T.d. ef einstaklingur keypti hlutabréf í Landsbankanum árið 2002, seldi þau árið 2007, með góðum hagnaði. Borgarði að sjálfsögðu fjármagnstekjuskatt af því og notaði það sem eftir stóð til að fjárfesta í Kaupþingi.
Í hvaða stöðu var sá einstaklingur í árslok 2008?
Þess vegna held ég líka að það sér þörf á að reyna að skilja á milli þeirra sem eru að spara og þeirra sem eru að höndla með hundruði milljóna jafnvel með "gírun" og nota öll trixin í bókinni. Þeirra sem í raun vinna "á markaðnum".
Þetta sjónarmið, að allar tekjur skuli skattlagðar jafnt, hefur oft heyrst af vintri vængnum, en varð nokkuð vinsælt víðar þegar Warren Buffet viðraði slíkt. Þetta er í raun tilraun ýmissa mjög ríkra einstaklinga til að þykjast taka afstöðu með "litla manninum" og standa með honum.
EF við viljum jafna aðstöðuna er ég næsta viss um að afnám allra undanþága væri árangursríkari. Ef það dugir ekki til, þarf líklega að banna skattalögfræðinga, og hafa viðurlögin hörð LOL
@Torfi Takk fyrir þetta. Það er áríðandi að þessi punktur komi fram. Þó mætti halda því fram að sambærilega væri skattur á laun mun hærri, enda greidd af þeim lauatengd gjöld. Sem er hluti af launakostnaði fyrirtækja.
G. Tómas Gunnarsson, 17.1.2015 kl. 16:03
Það ættu að gilda aðrar reglur um skatt á arðgreiðslur en vaxtatekjur og hagnað af viðskiptum með verðbréf, vegna þess að arður er hreinn hagnaður sem er ekki samsettur af raunhagnaði og verðbótum.
36% skattur af arði, sbr skýringu Torfa hér að ofan, er í raun of lítið. Heildarskattar vegna arðgreiðslna ættu ekki að vera lægri en hæsta skattþrep tekjuskatts að viðbættum tryggingargjöldum.
Ef ekki, sjá eigendur fyrirtækjanna sér hag í að greiða sér arð í stað launa. Lágur skattur á arð stuðlar að fjármagnsflótta úr fyrirtækjunum til eigenda þeirra og dregur úr uppbyggingu fyrirtækjanna eða veldur hættulegri skuldsetningu þeirra.
Við útreikning á eðlilegri prósentu fyrir skatt á arð er ekki eðlilegt að draga frá persónuafslátt. Arður er yfirleitt viðbótartekjur til þeirra sem þegar hafa notið persónuafsláttar. Auk þess fá menn persónuafslátt af fjármagnstekjum ef þeir hafa ekki aðrar tekjur.
Fyrir hrun, þegar skattur á fjármagnstekjur var aðeins 10% og skattur á fyrirtæki lægri en núna, komust fyrirtækjaeigendur upp með mjög lága skatta með því að greiða sér arð í stað eðlilegra launa.
Þetta misræmi milli launatekna og arðs er enn til staðar, þó að í minni mæli sé, og ætti að afnema það hið snarasta. Það hefur átt stóran þátt í því hve lága skatta tekjuháir hafa greitt á Íslandi.
Tiltölulega lágt hæsta tekjuskattsþrep í samanburði við þau Evrópulönd sem við berum okkur helst saman við, hefur einnig stuðlað að auknum ójöfnuði.
Í stað þess að afnema hæsta skattþrepið, eins og ríkisstjórnin stefnir að, ættum við að bæta við tveimur þrepum td við 52% og 58% til að standast samjöfnuð við samanburðarlöndin.
Slík skattheimta kæmi aðeins á mánaðarlaun langt yfir milljón og mundi því ekki snerta almenning sem myndi hins vegar njóta góðs af hraðari niðurgreiðslu lána og betri opinberri þjónustu.
Ekki veitir ríkissjóði af auknum tekjum til að greiða niður skuldir og koma í veg fyrir hrun innviða samfélagsins. Ísland þarf að taka sér til fyrirmyndar þau lönd þar sem velmegun er mest í heiminum.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.1.2015 kl. 19:02
@Ásmundur Athyglisvert sem þú setur fram hér, en ég get ekki séð að arður af "eigin fyritæki" sé í raun mikið öðruvísi en hagnaður af öðrum hlutabréfum. Þó gefur slíkt vissulega aðra "möguleika" ef svo má að orði komast.
En ef einstaklingur er með mikið fé bundið í eigin fyrirtæki er ekki óeðlilegt að hann vilji hafa af því arð. Það er sjálfsögð og eðlieg krafa.
Og ef hann t.d. með 10 milljónir bundnar í fyrirtæki sínu og verðbólga er 4% og algengir bankavextir 6%, og hann greiðir sér 600.000 í arð, sem er allur hagnaður fyritækisins, eru 400.000 í sjálfu sér alveg sömu "verðbæturnar" og hann hefði fengið frá bankanum.
Það verður að taka tillit til þess fjármagns sem bundið er í fyrirtækjum.
Það er mikil hætta á því að stóraukin skattheimta skili sér ekki í hækkun tekna. Því er sú leið varasöm. Enn og aftur er ekki rétt að einblína á skatt%.
Besta dæmið um slíkt er auðvitað Luxemborg sem er með frekar háa skattprósentu, en alls kyns undanþágur, svo ekki sé minnst á sérdíla fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki, en það er nú önnur saga sem við höfum rætt "stuttlega" áður.
Rétt eins og "stóreignaskatturinn" í Frakklandi sem gerði ekkert annað en að valda vonbrigðum á tekjuhliðinni og gera fjöldann allan reiðan, sem svo drifu í að "pakka niður".
Það fór enda svo að Hollande feldi hann fljótlega niður. Þegar upp var staðið reyndist "hátekjuskatturinn" lítið annað en slæmt "PR" fyrir Hollande og fyrir Frakkland.
Skapandi skattalögfræðingar og "one way tickets" sáu um að sárafáir borguðu umtalsverðar upphæðir.
G. Tómas Gunnarsson, 17.1.2015 kl. 20:08
G. Tómas, hagnaður af hlutabréfaviðskiptum reiknast sem munur á kaup- og söluverði. Ekkert slíkt á sér stað við arðgreiðslur.
Uppgefinn hagnaður af hlutabréfaviðskiptum er að hluta verðbólga svo að raunhagnaður er oftast mun lægri en uppgefinn hagnaður.
Þetta er ekki tilfellið með arðgreiðslur enda geta menn að miklu leyti haft val um hvort þeir greiða sér arð eða laun. Engum dettur í hug að laun séu ekki rauntekjur.
Í röksemdafærslu þinni gleymirðu að taka tillit til að fyrirtækið hækkar í verði með verðbólgunni að öðru jöfnu. Verðbæturnar sitja eftir í fyrirtækinu. Það er ekki fyrr en við sölu á hlutnum í því sem raunhagnaður kemur inn í myndina.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.1.2015 kl. 22:59
Lúxemborg er ekki með háa hæstu skattprósentu á einstaklinga í samanburði við nágrannaríkin þó að hún sé há í samanburði við Ísland.
Þeir dílar sem Lúxemborg varð uppvíst að voru við fyrirtæki en ekki einstaklinga.
Hæsta skattprósenta einstaklinga er 75% i Frakklandi sem er það hæsta í Evrópu. Hollande vildi hafa hana enn hærri en þetta varð niðurstaðan.
Há skattprósenta á hæstu tekjur reyndust mjög vel í Bandaríkjunum til að rétta úr kútnum eftir kreppuna miklu og seinni heimsstyrjöld.
Hún var um 90% í stríðinu og á næstu árum eftir stríð en lækkaði þá niður í um 70% og hélst þar þangað til frjálshyggjan hóf innreið sína með Reagan.
Há skattprósenta á hæstu tekjur stuðla að jöfnuði sem eykur velmegun eins og reynslan sýnir. Það er engin tilviljun að mestu velmegunarríkin í Evrópu eru með háa hæstu skattprósentu.
Háir skattar á hæstu tekjur hafa efnahagslega góð áhrif. Fé sem annars færi í erlend skattaskjól verður eftir í samfélaginu og stuðlar að auknum hagvexti og aukinni atvinnu.
Lág skattprósenta á hæstu tekjur endaði hins vegar með hruni 1929 og 2008.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 00:14
@Ásmundur Það er alveg rétt að hagnaður af kaup og sölu er ekki það sama, þó að vissulega séu mörg fyrirtæki (á markaði) sem borga arð af hlutabréfum. Slíkt er skattlagt með sama hætti og kaup og söluhagnaður ef ég hef skilið rétt.
En ef ég legg 10 milljónir í fyrirtæki, þó að það sé mitt eigið, þó vil ég gjarna ekki eingöngu skapa mér (og ef til vill fleirum) vinnu, þannig að ég fái kaup, heldur vil ég líka fá arð af fjárfestingunni.
Það er að mínu mati mjög eðlileg krafa. Hluti af þeim arði, er í raun aðeins "verðbætur", rétt eins og ætti sér stað ef ég hefði lagt sömu upphæð í banka.
Hins vegar kannast ég vissulega við umræðuna um að menn greiði sér hærri arð og lægri laun, en það tekur ekki "verðbótaréttinn" af einum eða neinum.
Og eins og hefur komið fram hér áður, þarf fyrirtækið a greiða skatt af hagnaðinum, sem hefði ekki orðið til ef launin væru hærri. Þannig að það er ekki svo svart dæmi eins og margir vilja vera láta.
Hollande er búinn að afnema 75% skattinn, hann rann út nú um áramót. Hann skilaði ekki miklu og olli í raun aðeins tjóni, sérstaklega á "orðspori" Frakklands, flestir eru sammála um það.
http://www.reuters.com/article/2014/12/23/us-france-supertax-idUSKBN0K11CC20141223
Kringumstæður rétt eftir seinni heimstyrjöld eru einfaldlega ekki sambærilegar við það sem nú gerist.
Í Lúxemborg (og mörgum öðrum ríkjum) er ekki bara sérdílar við alþjóðleg fyrirtæki, heldur eru það allar "holurnar" (loopholes).
Sem skapandi skattalögfræðingar og endurskoðendur breyta í "matarholur" fyrir sig.
Og ég get lofað þér því að það eru ekki þeir sem eru með "meðaltekjur" sema hafa efni á að ráða slíka skapandi "skattaverkfræðinga".
G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2015 kl. 08:24
Ég hef ekki gert neinar athugasemdir við að fyrirtæki greiði arð heldur aðeins bent á að arðgreiðslur eru hreinar tekjur en ekki að hluta verðbætur eins og hagnaður af verðbréfaviðskiptum eða bankainnistæðum.
Hitt er svo annað mál að eigendur freistast oft til taka of mikinn arð út úr fyrirtækjunum sem fyrir bragðið sitja eftir með of lítið eigið fé og lítinn slagkraft.
Hættan á slíkri sjálftöku er sérstaklega mikil þegar skattaleg meðferð slíkra tekna er hagkvæm fyrir þá sem njóta þeirra eins og verið hefur á Íslandi.
Eins og ég hef áður bent á er arður alfarið rauntekjur enda ekki um að ræða endurgreiðslu á fé sem hefur vaxið (eða rýrnað). Það fé situr eftir i fyrirtækinu.
Það er rétt að aðstæður eru allt aðrar núna en um miðja síðustu öld enda myndi ég aldrei mæla með 90% sem hæsta skattþrepi. En hæsta skattþrep upp á 50-60% hefur reynst vel í nágrannaríkjum okkar og ætti því ekki síður að gagnast okkur.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 10:25
Sparifé á Íslandi er yfirleitt í eigu margra, tiltölulega litlar upphæðir hjá hverjum einstaklingi. Þeir, sem eiga eitthvert fé að marki, leggja það ekki inn hér á landi fyrir ríkið til að skattleggja. Það er ekki að undra þótt fólk eins og Kári Stefánsson vilji skattleggja sparifé. Hann geymir sína peninga ekki hér á landi.
Orri (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 11:14
@Ásmundur Það er ekki óeðlilegt að fjárfestir vilji fá bæði "vexti" eða "arð" og "verðbætur" á fjárfestinguna sína, rétt eins og hann hefði lagt fé sitt í banka.
Hvort að hann vinnur hjá fyrirtækinu eða ekki skiptir ekki öllu máli í mínum huga.
Ef hann hann leggur 1000, krónur í fyrirtækið og verðbólga er 4%, þarf 40 krónur til að verðmætið sé það sama að ári. Hvort að slík verðmæti séu látin ávaxta sig inn í fyrirtækinu, eða greidd út er líklega upp og ofan.
Það er alveg rétt að það eru ýmsar leiðir til að sniðganga skattaálagningu. Víða um lönd er til dæmis hægt að láta fyrirtæki "lána" eiganda sínum peninga, með mjög lágum vöxtum. Síðan má framlengja og fá meira lánað.
Lán eru jú ekki skattskyld, en ég þekki ekki hvernig lögin snúa að þessu á Íslandi.
Staðreyndin er að í nútíma samfélagi skiptir staðsetningin svo littlu máli. Sú var ekki raunin á árunum eftir stríð.
Fyrirtæki sem framleiðir stærstan part t.d. í Kína eða Thailandi, selur t.d. 30% af vörum sínum í Evrópu, 30% í N-Ameríku, 15% í S-Ameríku, 15% í Asíu og 10% í Afríku, getur verið staðsett nokkurn veginn hvar sem er.
Borgað skatta af hagnaði hvar sem er, eigandinn getur búið hvar sem er. Og ef hann er mikið á faraldsfæti, þá getur hann löglega valið sér lögheimili hvar sem hann kýs.
En ef við segjum að fyrirtækið sé að grunni til Franskt. Á hið opinbera í Frakklandi einhverja kröfu í að fá skatt af hagnaði af vöru sem er framleidd í Kína og seld í Argentínu?
Þetta snýr að fyrirtækinu. Einfaldast hefði líklega verið fyrir fyrirtækið að snúa sér til Junckers og starfa í Luxemborg, þ.e. ef það er nógu stórt.
Ef eigandanum finnst svo skattarnir í Frakklandi of háir, er líklegt að hann hafi jafnvel ekki dvalið nógu marga daga í Frakklandi til að vera skyldugur til að hafa lögheimilisfesti þar, þannig að það er auðvelt að flytja slíkt. Það er ekkert flóknara að búa í Belgíu, Sviss, Luxemborg eða hvar sem er því sem næst.
Þó að aðalskrifstofan sé í París, er nærvera hans ekki það nauðsynleg. Svo má auðvitað fara að huga að þvi að flytja hana líka.
Það bitnar ekkert á sölu í Frakklandi, þó að slíkt hefði líklega gerst á 6. áratug síðustu aldar. Þó er líka liklegt að stór hluti framleiðslunnar hefði verið í Frakklandi.
G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2015 kl. 11:25
@Egill Ég þekki ekkert til sparnaðaraðferða þessa eða hins og finnst það góð regla að ræða mál sem þessi ekki út frá einstökum persónum.
Oftar en ekki eru þær ekki innan "þversniðsins".
En fyrir þá sem finnst þeir greiða of litla skatta er hins vegar yfirleitt til einfalt ráð.
Þeir þurfa einfaldlega að segja endurskoðenda sínum að þeir vilji ekki notfæra sér allar þær glufur sem til eru í skattkerfinu.
Það er ekki flóknara en það.
G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2015 kl. 11:30
Allar verðbætur koma fram við sölu á eigninni. Arðurinn er því rauntekjur rétt eins og laun enda hafa eigendurnir að miklu leyti sjálfval um hvort tekjur eru taldar fram sem laun eða arður.
Þetta misræmi í skattlagningu launa og skattlagningu arðs er mjög bagalegt og virðist eingöngu þjóna þeim tilgangi að láta auðmenn komast upp með lága skatta. Ég veit ekki til að slíkt misræmi sé í öðrum löndum.
Það er að sjálfsögðu ýmislegt annað en fjárhagslegur hagnaður sem ákveður búsetu fólks. Sjálfur er ég sannfærður um að ef þetta misræmi yrði leiðrétt og hærri skattur yrði greiddur af hæstu tekjum myndu tekjur ríkissjóðs aukast mikið.
Einnig væri rétt að halda áfram með auðlegðarskattinn og bæta jafnvel einu skattþrepi við hann. Í ljósi þess að þorri fólks greiddi eignarskatt lengst af eru rökin gegn honum fráleit.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 12:03
@Ásmundur Það er ekki gefið að fyrirtæki hækki í verði, allra síst ef mikill arður hefur verið greiddur út um árabil.
Slíkt misræmi þekkist víða, þó að það sé ef til vill ekki eins frá landi til lands. Rétt eins og dæmið sem ég tók með að fyrirtæki "láni" eigendum sínum fé. Það eru engir skattar af láni.
Það er engin ástæða til að einstaklingar greiði mikinn skatt af eignum sem skila engu.
Eins og kom fram í Reuters fréttinni um Frakkland, telja margir að það muni taka langan tíma að vinna upp þann skaða sem "hátekjuskatturinn" olli Frakklandi.
Það er umhugsunarefni.
G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2015 kl. 12:34
Ég skil ekki hvað þú átt við með að taka fram að það séu engir skattar af láni.
Er það ekki sjálfgefið enda eru lán ekki hagnaður? Þau eru hins vegar eign lánadrottnanna sem þurfa að greiða eignaskatt af þessari eign eins og öðrum eignum ef eignaskattur er innheimtur. Lánardrottnarnir þurfa einnig að greiða skatt af fjármagnstekjum.
Fjárfesting i fyrirtækjum er alltaf áhættufjárfesting. En ef eignin skilar raunhagnaði við sölu eru allar arðgreiðslur viðbótarraunhagnaður þegar upp er staðið.
Þó að mér finnist að almennt eigi fjármagnstekjur (rauntekjur) að bera jafnháa skatta og aðrar tekjur tel ég rétt að hafa undanþágur sem stjórntæki.
Það er td eðlilegt að sparnaður til kaupa á fyrstu íbúð sé undanþeginn fjármagnstekjuskatti ef erfitt er að kaupa íbúð. Einnig gæti slík undanþága gilt um alla upp að ákveðinni upphæð meðan ástæða þykir til að örva sparnað.
Mér finnst einnig óeðlilegt að menn greiði skatt af söluhagnaði (raunhagnaði) íbúðar ef verið er að fara úr einni íbúð í aðra. Það er óeðlilegt að hrein eign minnki við slíkan verknað auk þess sem stundum kæmi óhjákvæmilega fram tap.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 15:03
@Ásmundur Lánadæmið er einfaldlega dæmi um hvering mismunandi skattalöggjöf gefur möguleika á mismunandi "mótleikjum" fyrir "skapandi skattalögfræðinga".
Ef hagnaður fyrirtækja er skattaður lægra en laun, getur verið hagkvæmt að í stað launa fái einstaklingur "lán" hjá fyrirtæki sínu, frekar en laun.
Vextir í Evrópu eru í dag vart mælanlegir.
Í sumum löndun er hagnaður fyrirækja ekki skattlagður, ef honum er haldið innan fyrirtækisins.
Fyrirtæki eru stofnuð með mismunandi markmið. Hjá sumum er ekki markmið að fyrirtæki vaxi og aukist að verðmæti. Svo er alltaf möguleiki að fyrirtækið sé hreinlega lagt niður, þegar eigandi þess hættir að vinna, eða að ný tækni geri fyrirtækið hreinlega úrelt.
Svo er auðvitað deilt um hvort fyrirtæki eigi að leggja meiri áherslu á að vaxa, sérstaklega utan meginstarfsemi fyrirtækisins, eða skila meiri arði til eigenda.
Fyrirtæki eru eins og einstaklingarnir, mismunandi og passa ekki alltaf í "excelinn".
En ef það er ekki rökrétt að greiða fjármagnstekjuskatt ef farið er úr einni íbúð í aðra, af hverju er þá rökrét að greiða fjármagnstekjuskatt ef farið er úr einu hlutabréfi í annað?
Nú eða úr hlutabréfum í íbúð?
Og út af hverju á það að vera betra að kaupa og selja t.d. hlutabréf í eignarhaldsfélagi, en í eigin nafni?
G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2015 kl. 15:16
Það kemur ekki á óvart að hámark tekjuskatts í Frakklandi upp á 75% hafi reynst of hátt enda mikill munur á því og 50-60% hámarkinu í mörgum nagrannalöndunum.
50-60% á hæstu tekjur er það sem ég vil stefna að. Hér stefnir ríkisstjórn auðmanna að því að hámarkið verði aðeins 40%.
Ef ekkert er að gert eykst stöðugt ójöfnuðurinn. Það endar að lokum með hruni. Aukinn skattur á hæstu tekjur er mikilvægur liður í að stemma stigu við slíkri þróun.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 15:18
@Ásmundur Það er fjöldinn allur af löndum sem hafa lægri skattprósentu en 50 - 60 prósent. Lönd sem er jafn auðvelt að flytja til, eða jafnvel auðveldara.
Aðalmálið er skattalöggjöfin, ekki %.
Ef vilji er til að gera skattkerfið skilvirkara og "jafnara" er líklega árangursríkara að ganga í að afnema undanþágur og gera skattkerfið "gegnsærra".
Það má til dæmis halda því fram að fyrirtækjaeigendur og "auðugt" fólk ráðstafi skattgreiðslum sínum að hluta til sjálft og jafnvel í hltui sem ekki er endilega best að eyða skatttekjum í.
Það væri t.d. hægt að byrja þar.
G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2015 kl. 16:49
Ég er ekki fjárfestir eða skattasérfræðingur en mig langar að tjá mig hér um skattamálin.
Það ætti að vera grundvallaratriða að ekki sé verið að skattleggja kyrrstætt fé, og þá á ég t.d. við fasteignir/íbúðir, bankainnistæður, og.fl. Tekjur og arður á að vera skattstofninn.
ARFUR: Það var verið að ræða hér ofar um skattlagningu á árfi, þ.e. erfðaskatt.
Nú eru nokkrir frádrættaliðir, eins og útfararkostnaður og uppgreiðsla skulda og svo eru fyrstu kr.1.500.000,oo af hverju dánarbúi skattfrjálsar. Í þessu er innifalin viss mismunun. Ef einn er erfingi þá fær hann þennan afslátt en ef erfingjar eru átta þá deilist afslátturinn í átta hluti. Þá fær hver erfingi innan við kr.200.000,oo afslátt af sínum arfishluta. Hér er ekki einstaklingsmiðuð skattlagning á einhverjum jafnréttisgrundvelli. Ég tel að skattfrjáls arfur ætti að miðast við hvern arfþega og væri þá jafn hár á hvern erfingja, þ.e. kr.1.500.000,oo á hvern erfingja.
Svo tel ég að skattfrjáls arfur ætti að vera mikið hærri og jafnvel mætti miðað við meðal íbúðaverð á hvern erfingja, eða ca 20-30.000.000,oo á hvern erfingja.
Svo finnst mér að það mætti skoða aðrar reglur þegar arfurinn er hundruðir milljóna eða miljarðar.
FJÁRMAGNSTEKJUR: Mér finnst að verðbætur ættu ekki að vera skattlagðar. Hér er verið að viðhalda verðgildi inneignar og sama ætti að eiga við um sambærilega hluti.
Ef verðmat fasteignar hækkar vegna verðbólgu þá er hækkunin ekki skattlögð eins og fjármagnstekjur vegna verðbóta. ÞAÐ Á EKKI AÐ SKATTLEGGJA VERÐBÆTUR.
Ríkisskattstjóri skiptir reiknuðum fjármagnstekjum jafnt á milli hjóna, ALVEG SAMA hver hefur fengið fjármagnstekjurnar. Þetta er gert þó svo að hjón hafi gert kaupmála. Ég tel þetta rangt og að þessu hefði átt að hætta um leið og öryrkjadómurinn var upp kveðinn en þar var niðurstaðan að ekki ætti að taka tillit til tekna maka við útreikning á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun Ríkisins heldur horfa bara á tekjur einstaklingsins.
Grunn fjármagnstekna ætti líka að reikna út eins og rekstur, það er að tap ætti að dragast frá hagnaði. Það var ekki gert en ég hef ekki skoðað það núna.
FJÁRMÖGNUN FASTEIGNA: Það þarf að bjóða upp á skattfrjálsa söfnunarreikninga í bönkum til að safna fyrir útborgun í íbúð. Þetta er yfirleitt stærsta fjárfesting fólks og það þarf að hjálpa fólki við þá fjárfestingu. Vextir af öllum lánum einstaklinga ættu að vera frádráttarbærir frá sköttum. Þetta er gert í nágrannalöndum okkar og við verðum að gæta jafnræðis við t.d. fyrirtæki. Fyrirtæki sem kaupir fasteign til t.d. útleigu fær alla vexti frádráttarbæra. Það sama á að gilda um fólk.
Lánareglur og lánakjör flokkast ekki með þessari umræðu um skatta.
SKATTLAGNING FÓLKS. Frítekjumark á að vera það hátt að fólk með bætur og lágmarkstekjur ætti ekki að borga skatt. Frítekjumarkið/persónuafsláttur átti upphaflega að fylgja verðbólgu en það hefur verið svikið eins og flest loforð hins opinbera.
Reiknaður framfærslukostnaður mætti nýta sem skattleysismörk.
Skattaprósentan þarf að duga til að afla tekna sem samneyslan þarf. Þar koma líka fleyri skattar eins og virðisaukaskattur, vörugjöld og fl. auk eirnarmerktra skatta/gjalda sem ríkið hefur látið renna í ríkissjóð að einhverju eða öllu leiti. Of háir skattar auka svarta atvinnustarfsemi og það þarf að hafa skattlagningu hóflega.
Hátt frítekjumark og stighækkandi skattar skapa sanngjarnasta samfélagið.
Stærsti skattstofn margra sveitafélaga er fasteignaskattur, sem ég tel að eigi að afnema því að fasteignir eru kyrrstætt fé og allar tekjur af fasteignum eru skattlagðar sérstaklega.
Fasteignaskattar taka ekki tillit til ákvílandi skulda svo þetta eru ósanngjarnari skattlagning heldur en eignaskatturinn forðum og stóreignaskatturinn núna.
ÖRFÁ ORÐ UM SKATTLAGNINGU FYRIRTÆKJA:
Það er einkennilegt að ríkisskattstjóri gerir kröfu um að nýstofnuð fyrirtæki greiði eigendum sínum laun eins og reiknuð meðallaun eru í þessari atvinnugrein. Með þessu er ríkið að íþyngja fyrirtækjum sem ekki hafa náð að skapa sér sömu stöðu og önnur fyrirtæki hafa að meðaltali. Þetta eru fáranlegar reglur.
Grunnurinn á skattlagningu fyrirtækja á að vera raunverulegar tekjur þegar búið er að draga allan kostnað frá. Ekki á að skattleggja eignir.
Ég tel að ekki eigi að skattleggja hagnað fyrirtækis sé hann notaður til uppbyggingar innan fyrirtækisins.
Álagninar prósentan í fyrirtækjaskatti þarf að tryggja að fyrirtækin greiði til samfélagsins en forðast ber of hátt álagningarhlutfall. Stór fyrirtæki hafa oft tækifæri til að færi arð og skattgreiðslu fyrirtækisins úr landi en lítil og meðalstór fyrirtæki sitja föst hér og verða ag greiða lögboðna skatta hérlendis.
Fjölþjóða fyrirtæki þarf að meðhöndla sérstaklega því að nú horfum við t.d. upp á að móðurfyrtæki þeirra, oft í skattaparadís, skráir svo há lán á útibúin hérlendis að háir vestir leiða til þess að mögulegir skattar þeirra hérlendis stórlækka. Eins og fyrr segir þarf að meðhöndla fjölþjóðleg fyrirtæki sérstaklega og passa vel upp á möguleg göt í skattstofni þeirra.
Ég læt þessu lokið hér en þetta átti að vera pínulítil athugasemd en endaði svona...:)
Frímann Sigurnýasson (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 21:15
@Frímann Bestu þakkir fyrir þetta. Ég kann vel að meta innlegg eins og þitt. Það er einmitt áríðandi að umræðan sé ekki látin "skattasérfræðingum" og "fjárfestum" eftir.
Þetta með lengdina, það fer oft svona, enda getur ekki öll umræða farið fram í "statusum". Ekkert að því að koma með langar athugasemdir.
Að mörgu leiti er ég sammála þér, en eins og gengur eru skiptar skoðanir.
Hvað varðar erfðaskatt er það sanngjörn réttlætiskrafa að frádráttur sé upphæð á persónu, annað er eiginlega alveg fráleitt.
Hvað erfðaskattur á að vera hár, eða hvort að hann eigi að vera sjálfsagt deilumál.
Það væri slæmt að aftengja kraftinn sem býr að baki hugsuninni að búa i haginn fyrir afkomendur sína með mjög háum erfðaskatti.
Hins vegar staldra margir við erfðaskatt þegar talað er um að jafna stöðu milli einstaklinga.
Er það réttlátt að ávöxtun sem einstaklingur byggir upp sjálfur sé skattlagður, en það sem "kemur í fangið á honum" ekki?
En að þessu sögðu er ég fylgjandi lágum erfðaskatti, því skattlaust verður samfélagið líklega seint.
Hvað varðar skattfrjálsa sparifjárreikinga vegna húsnæðissparnaðar, þá er ég ekki á móti því. Ég tel hins vegar að allir eigi að fá að spara ákveðna upphæð skattfrjálst, óháð tilgangi. Það er jafnrétti.
Hið opinbera á ekki að reyna að reka einstaklinga í ákveðið ferli eða lífsmynstur. Sá sem kaupir hlutabréf á að eiga sama rétt og sá sem vill kaupa íbúð.
Ég leyfi mér að efast um allir vextir eigi að vera frádráttarbærir. Það er ekki góð stefna að verðlauna þá sem skulda.
Ég hef reyndar lesið mjög sannfærandi rök fyrir því að fella niður eða draga úr réttindum fyrirtækja til að taka vaxtakostnað sem rekstrarkostnað. Það ýtir undir mikla "gírun" og gerir aðgang að lánsfé að verðmæti í sjálfu sér. Af dregið yrði úr því ykist þörfin fyrir eigið fé og jafnframt líklegt að hlutafé kæmi úr ýmsum áttum. En ég hef ekki mótaða skoðun í þessu, en hef verið að velta þessu svo lítið fyrir mér. Þetta er einn hluti af því að draga úr undanþágum frá skattlagningu.
Hvað varðar skattlagningu einstaklingar er draumasamfélagið að allir borgi skatta. Ekki vegna þess að skattpíning sé svo mikil, heldur að allir hafi slíkar tekjur. Það verður líklega seint.
Skipting í "greiðendur" og "þiggjendur" er til lengri tíma litið óæskileg.
Hvað varðar fasteignagjöld, er ekki hægt að segja að fasteignir séu kyrstætt fé. Ég tel mig hafa sparað, eða fengið ávöxtun af því að kaupa þær fasteignir sem ég hef búið í. Þá er ég ekki að tala um hækkun á verðmæti, heldur sparnað miðað við annan búsetukost. En það er vissulega misjafnt og fer líka eftir svæðum og hvernig leigumarkaður er. En það má líka líta svo á að ef að 2. einstaklingar sem hafa svipaðar tekjur, en annar þeirra býr í 300 fermetra einbýishúsi, en hin í 60 fermetra kjallaraíbúð, þá sé sanngjarnt að sá í einbýlishúsinu borgi meira í fasteignajöld. Lóðarleiga, rekstur gatna, holræsa og þar fram eftir götunum spilar þar inn í.
Það má vissulega taka undir að það sé óþarfi að gera nýstofnuðum fyrirtækjum erfitt fyrir með að samþykkja ekki t.d. að stofnandi vinni fyrir mjög lítil laun.
Ef hagnaður er ekki skattlagður svo lengi sem honum er haldið í fyrirtækinu getur það auðveldað því að vaxa og dafna. Það býður hins vegar líka (eins og svo margt annað) upp á misnoktun, eins það að eigendur fái "lán" hjá fyrirtækinu, eins og ég nefndi hér að ofan.
Auðvitað vilja flestir hafa skatta sem lægsta, en "rétta" prósentan er vandfundin og umdeild.
Það er rétt að fjölþjóða fyrirtæki eru að verða að nokkur vandamáli og erfitt að eiga við það.
Með sérskattasamningum við ríki eins og t.d. Luxumborg og Írland fá þau óeðlilegt forskot gagnvart "lókal" fyrirtækjum.
Hvernig það er best leyst ætla ég mér ekki að fullyrða, en það er erfitt vegna réttinda fyrirtækjanna að starfa án hindrana í víða um lönd.
Ég læt þetta nægja í bili, þetta er bara svona "stikl" og þetta mætti ræða lengi og er raunar nauðsynlegt að ræða.
Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að einfalda skattkerfi frá því sem nú er, en meira að segja það verður yfirleitt flókið mál. lol
G. Tómas Gunnarsson, 19.1.2015 kl. 08:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.