Að vera grænn í gegn?

Ég get ekki varist þeirri hugsun að finnast umræða um umhverfismál á Íslandi að mörgu leyti komin út í nokkrar öfgar.  Menn keppast við að yfirbjóða hvern annan í því að vera "grænni og betri" en náunginn.  Meðal annars hef ég heyrt yfirlýsingar frá Íslandshreyfingunni um að þeir séu "grænir í gegn".

En hvað er að vera grænn í gegn, þarf ekki að skilgreina það?  Ég er ekki viss um að allir yrðu á eitt sáttir um hvernig sú skilgreining væri.

Sjálfur er ég  ekki "grænn í gegn", þó flokka ég sorp, 3. flokkar, rotnanlegt, plast, gler og pappír og svo annað sorp.  Ég fer með rafhlöðurnar á viðurkennda staði, rafmagnstæki og annað slíkt safnast fyrir í bílskúrnum þangað til hægt er að skila því af sér á umhverfisdögum og öll heimilistæki eru keypt með því sjónarmiði að þau noti sem minnsta orku og vatn (vegið á móti því sem þau skila í notagildi).  Keypti mér mannknúna sláttuvél og moka snjóinn með skóflu.

En listinn yfir það sem kæmi í veg fyrir það að ég teldist "grænn í gegn" yrði langur líka.  Ég nota pappírsbleyjur (fyrir börnin nota bene), ég grilla stundum á kolum, keyri minn bíl, borða mikið kjöt (sumir vilja meina að mengun frá nautgripum sé stórt umhverfisvandamál, líklega væri verulega umhverfisvænt að skipta yfir í hvalsteikur), ég kaupi vatn á flöskum í stórum stíl (klórblandað vatn er bara ekki að gera sig), geng meira að segja svo langt að kaupa gjarna innflutt vatn frá Ítalíu (San Pellegrino er bara svo skratti gott).  Líklega mætti bæta lengi við þennan lista.

En hvað skyldu margir geta sagt með góðri samvisku að þeir séu "grænir í gegn?

En eru menn grænir í gegn ef þeir vilja stórauka ferðamannastraum til Íslands, með tilheyrandi aukningu á flugi og útblæstri tengdu því?

Eru menn grænir í gegn ef þeir vilja stórauka ferðamannastraum til Íslands með tilheyrandi álagi á náttúruna?  Eru ekki margir sem vilja meina að margir ferðamannastaðir séu komnir að þanþoli sínu hvað á álag varðar?

Það má ekki misskilja þetta, sjálfur hef ég ekkert á móti ferðaiðnaðinum, tel hann tvímælalaust af hinu góða.  En gallinn við hann er þó að hann er nokkuð sveiflukenndur á milli ára og árstíða og svo hefur hann ekki beint orð á sér fyrir að skila miklu af hálaunastörfum.

Ég heyrði líka í viðtali við Ómar Ragnarsson að hann vildi stórauka veiðar krókabáta, vegna þess að það væri umhverfisvænt, efldi sjávarbyggðir og fljótlega færi að fást mikið betra verð fyrir þær afurðir vegna þess hvað þær væru umhverfisvænar.

Ekki ætla ég að draga það í efa að slíkar veiðar eru umhverfisvænar, en sjálfsagt er hagkvæmnin stærri spurning.  Hitt dreg ég ekki í efa, að ef að verð á slíkum afurðum fer að verða miklu hærra en t.d. þeirra sem veiddar eru með trolli, þá treysti ég Íslenskum kvótaeigendum til þess að færa aflaheimildir sínar í slíkar veiðar án afskipta stjórnmálamanna.  Þeir eru jú í bisness.  "Hægriflokkur" hlýtur að treysta markaðnum til að færa aflaheimildirnar þangað sem þær skila mestum arði, en það er einmitt það sem Íslenskt þjóðfélag þarf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Ekki veit ég hvar grasið hefur gróið í spor þín. Það eru mörg ár síðan markaðurinn fór að verðleggja fisk af krókabátum hærra en t.d. neta- og trollfisk. Það eru líka mörg ár síðan fyrirtæki fóru að gera út litla krókabáta í stórum stíl (á okkar mælikvarða), má þar nefna Vísi í Grindavík, sem er líka verkun. En að það sé pláss fyrir einhvern risarekstur eða fjölda fyrirtækja innan krókaleyfiskerfisins er annað mál. Og hvort það er pláss fyrir mikinn fjölda af slíkum rekstri á markaðnum er spurning. Markaðurinn læækkar öll sín verð verði framboð eitthvað meira í meðallagi. Það er nú bara þannig.

Auðun Gíslason, 25.3.2007 kl. 01:12

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég vissi nú af því að hærra verð fengist fyrir "bátafisk", en viðurkenni það fúslega að ég hef ekki fylgst með því hver munurinn er.  En hitt hlýtur að vera vafamál hver afraksturinn er, þó að vissulega geti gengið að reka slíka útgerð meðfram annari, virðast útgerðarmenn ekki sjá hagnaðinn í því að skipta út verksmiðjuskipunum.

En að sjálfsögðu er gott að hafa margan og mismunandi hátt á útgerð sem öðru, en ég treysti útgerðarmönnum fyllilega til að velja sjálfum og tel ekki þörf á því að stjórnmálamenn hlutist þar um.

G. Tómas Gunnarsson, 26.3.2007 kl. 05:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband