Splundruð staða í pólítíkinni

Þessi skoðanakönnun finnst mér að mörgu leyti athyglisverð.  Auðvitað vekur athygli hvað Sjálfstæðisflokkurinn nær að styrkja stöðu sína, ber í þessari könnun höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka.

Staða Framsóknarflokksins er einnig allrar athygli verð, þó með öðrum formerkjum sé.  Flokkurinn er búinn að tapa meira en helmingi af því fylgi sem hann hlaut í síðustu kosningum.

Þetta hlýtur að valda Framóknarmönnum nokkrum áhyggjum, því nú þegar stærsta kosningaloforðið hefur verið efnt, er vandséð á hverju þeir hyggjast sækja meira fylgi.

Staða ríkistjórnarflokkanna verður því að teljast misjöfn, og staða ríkisstjórnarflokkanna miðlungi góð, nú þegar styttist í tveggja ára afmælið.

En teljist staða ríkisstjórnarflokkanna aðeins miðlungi góð, verður staða fyrrverandi ríkistjórnarflokka, VG og Samfylkingar að teljast hræðileg.

Þó að ríkisstjórnin hafi vissulega látið undan síga, er það í raun aðeins Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn hefur styrkt stöðu sína, þá hafa þessir fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar í raun ekkert náð að bæta stöðu sína.

Samanlagt ná þeir ekki einu sinni Sjálfstæðisflokknum í fylgi.

Þó að VG hafi sem formann einn af vinsælustu og velmetnustu stjórnmálamönnum Íslands sem formann, dugir það ekki til.  Flokkurinn á sér ekki viðreisnar von hjá kjósendum og flýtur á bilinu 10 til 12%

Samfylkingin er sögulega séð jafnvel í verri málum og nýi "maðurinn í brúnni", svo notað sé gömul kratalíking, er hreint alls ekki að fiska.  Staða flokksins sem var stofnaður til að verða "burðarflokkur" í Íslenskum stjórnmálum er hræðileg og ekkert bendir til þess að hún sé að batna.

Slík er staðan hjá flokkunum sem mynduðu "fyrstu hreinu vinstristjórnina" á Íslandi.  Kjósendur virðast hafa lært sitthvað af þeirri lexíu.

Þrátt fyrir að hafa rekið frekar harða stjórnarandstöðu með eilífum upphlaupum og útifundum, þrátt fyrir að ekki sé hægt að segja að ríkisstjórnin sé að spila stjörnuleik, eru þessir fyrrum ríkisstjórnarflokkar langt í frá að vinna á.

Þeir flokkar sem mega hins vegar vel við una eru Björt framtíð og Píratar.  Þeir styrkja sig í sessi.  Ég treysti mér ekki til þess að dæma um hvers vegna svo sé, en ef til vill kunna kjósendur betur að meta hógstilltari stjórnarandstöðu á þeirra vegum, eða þá hitt að "andlitin" sem VG og Samfylking eru að bjóða upp á eru orðin svo yfirmáta þreytt.

En það er ekki síður vert að gefa því gaum hvað splundruð staðan er í Íslenskri pólítík nú um stundir.

Ef þetta væri niðurstaðan úr kosningum, væri ekki hægt að mynda tveggja flokka stjórn.  og það sem meira er, það væri ekki hægt að mynda þriggja flokka stjórn án Sjálfstæðisflokksins (nema þá mjög nauma ef skiptingin væri afar hagstæð þeim flokkum).

Það væri því ekki ólíklegt við þessar aðstæður að Íslendingar fengju annað hvort 3ja flokka stjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokks, eða það sem væri jafnvel líklegra 4ja flokka stjórn undir forsæti Samfylkingar eða Bjartrar framtíðar.  Svipað módel og nú er í Reykjavík.

En það er í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa of miklar áhyggjur af því nú, líklega er enn langt til kosninga og fylgistölur geta sveiflast mikið til.

 

 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að halda því fram að stjórnarandstöðuflokkarnir séu langt frá að bæta stöðu sína frá kosningum er beinlínis rangt. Samanlagt fylgi þeirra í kosningunum var 37.1% en er núna skv þessari könnun MMR 51.1%. Það er 45% aukning í stuðningi.

Annars eru skoðanakannanir MMR ekki mjög marktækar eins og búast má við miðað við hvernig að þeim er staðið. Fylgi stjórnarandstöðuflokkanna skv nýjustu könnun Capacent er 57.9%. Það er 56% aukning í stuðningi frá kosningum.

Eins og hjá MMR má búast við að fylgi stjórnarinnar aukist lítillega hjá Capacent í desember vegna skuldaleiðréttinganna. En það gengur væntanlega tilbaka þegar fólki verður ljóst hve lítil áhrifin verða á greiðslubyrðina. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.12.2014 kl. 00:05

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég segi hvergi í greininni að stjórnarandstaðan hafi ekki bætt við sig fylgi.  Hún hefur enda gert það.  Annað væri verulega skrýtið nú þegar ríkisstjórnin hefur látið verulega undan síga.  En nota bene í þessari könnun er það aðeins Framsóknarflokkurinn.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið á.

Það sem ég vakti hins vegar sérstaka athygli á að slök staða fyrrverandi stjórnarflokka, Samfylkingar og VG.  Þeir eru ekki samanlagt með nema 26.4%.  Vissulega er það örlítið aukning frá kosningum, en það væri augljóst að ef þetta væru kosningaúrslitin væri það hörmulega útkoma fyrir báða flokkana.  Samfylkingin að vísu upp um rétt rúm 3%stig frá síðustu kosningum, sem var jú Evrópumet í tapi.

Björt framtíð og Píratar eru samanlagt stærri en Samfylking og VG.

Þeir mættu vel við una ef úrslitin yrðu sem þessi könnun, BF með um tæplega 100& aukningu og Píratar með ríflega 100%.

Það er því alls ekki órökrétt að halda því fram að þeir tveir flokkar séu að "virka" í stjórnarandstöðu, en Samfylkingin og VG ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn er svo að skilja sig frá "hinum flokkunum", með þokkalegu fylgisaukningu, sem er ágætis árangur hjá stjórnarflokki.

Það er þó líklega lang mest kjósendur flokksins að snúa heim, efti að hafa kosið Framsókn í síðustu kosningum.

G. Tómas Gunnarsson, 21.12.2014 kl. 07:22

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Styrmir Gunnarsson heldur því fram að útskýra megi styrkingu Sjálfstæðisflokksins með því að Bjarni Ben. hafi náð til kjósenda. Sennilega er til í því, og á sama hátt hefur Sigmundur valdið meiri vonbrigðum en sennilega nokkur annar forsætisráðherra í sögu þjóðarinnar með hrokafullri framkomu sinni og yfirlætislegri hegðun.

Ég held að formenn skipti meira máli í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum, og að þessir flokkar höfði yfirleitt meira til kjósenda sem finnst formaðurinn mikilvægur. Að þessu leyti eru þetta gamaldags flokkar.

Sem kjósandi Bjartrar framtíðar er mér nokk sama um hver er formaður, nema ef ég mætti ráða væri það Jón Gnarr.

Annars hafa bæði Styrmir og kjósendur Sjálfstæðisflokksins rangt fyrir sér að mínu mati því að Bjarni er arfaslakur formaður, finnst mér, hikandi í framkomu og talar í frösum. En ég er náttúrulega ekki kjósandi Sjálfstæðisflokksins þannig að það er ekki að marka mig í þessu efni.

En kannski hefur líka brotthvarf Hönnu Birnu laðað fólk að flokknum á ný. Það þætti mér skiljanlegt.

Kristján G. Arngrímsson, 21.12.2014 kl. 09:23

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held, eins og ég sagði áður, að mest af fylgisaukningu Sjálfstæðisfólks megi rekja til þess að kjósendur hans séu að snúa "heim".  Ég þekki þó nokkurn fjölda Sjálfstæðismanna sem kusu Framsókn í síðustu kosningum. Sumir í fyrsta skipti að kjósa annan flokk en Sjálfstæðisflokkinn.

Það er ekkert óeðlilegt að þeir leiti "heim í heiðardalinn".

Ég veit ekki hversu miklum vonbrigðum Sigmundur hefur valdið, ég geri mér ekki grein fyrir hversu miklar væntingar voru bundnar við hann. Það er öllum ljóst að "stjórnarandstæðingar" hafa orðið fyrir miklum "vonbrigðum" með hann, en það kemur líklega fáum á óvart.

Það þarf ekki að leita lengra aftur en til Jóhönnu, til að sjá jafn mikil eða meiri "vonbrigði".  Jóhanna naut gríðarlegs trausts í upphafi, líklega mun meira en Sigmundur. En hún glataði því niður á mettíma, með þjösna og yfirgangspólítík, en það fennir auðvitað fljótt í sporin.  Engin Íslenskur flokksformaður hefur heldur skilað flokki sínum meira tapi á milli kosninga en Jóhanna.  Ef til vill gerir Sigmundur atlögu að því meti, við sjáum til.

Bjarni hefur vaxið í embætti, þó líklega megi segja að hann hafi komið "of snemma" í það.  Þannig voru kringumstæðurnar.

G. Tómas Gunnarsson, 21.12.2014 kl. 09:50

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Humm, fjandskapur þinn útí Jóhönnu er á við fjandskap margra útí Davíð Oddsson.

En með Sigmund, það eru ekki endilega verk hans í embætti sem hafa skapað honum óvild heldur held ég bara karakter hans. Hann er einkar ósympatískur og alltaf þegar hann talar í fjölmiðlum er hann með boxhanskana. Það kemur út eins og frekja í smákrakka. Eða talar í slíkum ýkjustíl að manni finnst eins og hann sé að spauga.

Hann er bara vonlaus pólitíkus. Sjálfsagt ágætis náungi en bara kann ekki að koma fyrir sig orði, skortir úthald (enda alltaf að "hverfa" af vettvangi) og ekki vottur af hógværð í framkomu hans. Þess vegna held ég að hann sé meginorsök fylgistapsins.

Árni Páll er ekki heldur sérlega magnaður formaður. Ekkert á við Jóhönnu - sem reyndar varð forkona by default þegar Ingibjörg hætti, eða var það ekki? Hvað sem segja má um pólitísk verk hennar var hún mun betri í fjölmiðlum og sem karakter en Sigmundur blessaður.

Kristján G. Arngrímsson, 21.12.2014 kl. 10:19

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Mér er alls ekkert illa við Jóhönnu, og þá er ég að tala um Sigurðardóttur, en ég þekki þær fleiri :ö-)

En hún er hins vegar skýrasta og nýjasta dæmið um hvernig stjórnmálamenn tapa niður miklu trausti og velvilja á undra skömmum tíma.

Ég hygg að hún hafi hafið sinn forsætisráðherraferil með mun meira traust en Sigmundur.  Því tel ég orð þín um að Sigmundur hafi vladið meir vonbrigðum en nokkur annar forsætisráðherra einfaldlega röng.  Það hefur hefur ekkert með fjandskap til Jóhönnu að gera. 

Metfylgistap Samfylkingar í formannstíð Jóhönnu er einfaldlega staðreynd em ekki er hægt að horfa fram hjá.

Ég fylgist ekki mikið með mynd eða hljóðrænum Íslensku fjölmiðlum.  Legg það ekki  ekki á mig.  Les meira.

Það eru reyndar ekki margir athyliverðir stjórnmálamenn á Íslenska sviðinu nú um stundir.

Það virðist enda gefast vel hjá mörgum þeirra að hafa sig lítt í frammi.

Jóhanna varð ekki forkona sjálfkrafa, heldur var kosin í embættið.  En "sagan" segir að hún hafi orðið forsætisráðherra fyrir atbeina Össurar, sem hafnaði því að taka embættið, sem var klókt of honum og skynsamlega gert.

G. Tómas Gunnarsson, 21.12.2014 kl. 11:00

7 identicon

Skv nýjustu skoðanakönnun Capacent er fylgi Samfylkingarinnar 20% sem gerir 56% aukningu í fylgi frá kosningum. Fylgi Vg er þar 14.5% sem er 33% aukning í fylgi frá kosningum. Þetta er mikil aukning sérstaklega hjá Samfylkingunni.

MMR sýnir yfirleitt allt aðra niðurstöðu en Capacent. Það er td sláandi að í hverri könnuninni á fætur annarri er fylgi Sf og Bf svipað hjá MMR meðan Sf hefur mun meira fylgi en Bf hjá Capacent.

Einnig sýna skoðanakannanir MMR mun meira fylgi hjá Pírötum en skoðanakannanir Capacent. Miðað við það hvernig staðið er að könnunum MMR má ætla að Capacent fari nær um stöðuna. Reynslan hefur einnig sýnt það.

Skv nýjustu könnun Capacent stendur Sjálfstæðisflokkurinn í stað meðan Framsókn hefur tapað meira en helmingi kosningafylgisins. Allir stjórnarandstöðuflokkarnir bæta hins vegar miklu við kosningafylgið.

Vegna skuldalækkananna má búast við að stjórnarflokkarnir samtals muni bæta einhverju við fylgi sitt í næstu könnun Capacent.

Þegar fólki verða ljós lítil áhrif lækkananna á greiðslubyrði lána og að þeir munu sjálfir þurfa að taka þátt í að fjármagna millifærsluna þá mun fylgi stjórnarflokkanna væntanlega aftur minnka.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.12.2014 kl. 11:51

8 identicon

Jóhanna stóð sig vel sem forsætisráðherra við mjög erfiðar aðstæður. Tal um annað er fyrst og fremst illmælgi og áróður andstæðinga Sf.

Slæm kosningaúrslit Sf eiga sér skýringar sem hafa minnst með Jóhönnu og flokkinn að gera. Í fyrsta lagi var stofnaður nýr flokkur Bf sem sótti á sömu mið og Sf og náði góðum árangri. Tilefni stofnunar þess flokks var ekki óánægja með Sf.

Í öðru lagi höfðuðu heimsmet SDG í kosningaloforðum til margra stuðningsmanna Sf eins og annarra flokka. Þeir hafa nú komið tilbaka skv skoðanakönnun Capacent.

Einnig hafa mörg ný framboð tekið fylgi frá Samfylkingunni. Stofnun flestra þeirra byggði á óraunsæi og persónulegum metnaði einstaklinga.

Í ljósi þess að ekkert nýtt framboð höfðaði til sjálfstæðismanna voru kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins hörmuleg, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að flokkurinn var í stjórnarandstöðu.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.12.2014 kl. 12:23

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eiginlega hef ég alltaf litið á Samfó og BF sem systurflokka þannig að það ætti að telja fylgi þeirra saman sem fylgi eins flokks. Það er bara tímaspursmál hvenær þeir renna saman. Sennilega þegar Guðmundur Steingríms verður formaður Samfó.

Annars var að koma ný könnun um fylgið í Rvík og þar tapar Framsókn manni til BF. Samfó dalar aðeins (en miðað við að vera systurflokkur BF eykst fylgið) en aðrir standa í stað, held ég.

Kristján G. Arngrímsson, 21.12.2014 kl. 12:39

10 identicon

Það er reyndar ekki rétt hjá mér að ekkert nýtt framboð hafi höfðað til sjálfstæðismanna. Eitt þeirra, Hægri græn, gerði það en fékk svo lítið fylgi að áhrifin á fylgi Sjálfstæðisflokksins voru mjög lítil.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.12.2014 kl. 12:45

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það eru u.þ.b. 3. vikur síðan síðasta Capacent könnunin var birt.

En fyrir síðustu Alþingiskosningar voru spár MMR að ég tel alls ekki verri en Capacent.  Sjá hér  http://en.wikipedia.org/wiki/Icelandic_parliamentary_election,_2013

Capacent var síðan með heldur betri spá fyrir Borgarstjórnarkosningarnar síðustu, en vanmat þó Sjálfstæðis of Framsókn all nokkuð, en ofmat Samfylkinguna.

Sjá hér: http://kosningaspa.is/

á milli Capacent og MMR munaði þó aðeins o.5% stigum, en vissulega munur samt.

En auðvitað er best að taka öllum skoðanakönnunum með fyrirvara, þær gefa þó góðar vísbendingar og gaman að skoða niðurstöður þeirr og hugleiða út frá þeim.

G. Tómas Gunnarsson, 21.12.2014 kl. 13:48

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Auðvitað finnst ýmsum að Jóhanna hafi staðið sig vel sem forsætisráðherra.  Öðrum finnst hún hafa staðið sig illa, þannig eru sjónarhornin mismunandi.

En traustið á henni fór hratt þverrandi og ég held að fáir hafi glutrað því hraðar niður.

Það er heldur ekki tilviljun hvað margir voru reiðubúnir til að "yfirgefa" SF, enda hafði Jóhanna svo sannarlege ekki slegið skjaldborg um fylgi flokksins.

Til þess að stjórnmálaflokkur tapi fylgi, þarf stuðningsmönnum hans að lítast betur á annan flokk.  Flóknara er það ekki.

Samfylkingin setti fylgistapsmet.  Svo margir af fylgismönnum hennar leist betur á aðra flokka.

Vissulega má líta á BF sem "systurflokk", eða "útibú" frá Samfylkingunni.  Persónulega notaði ég einu sinni lýsinguna "óþarfa bergmál".

En það breytir því ekki að þeim gengur ágætlega að ná til sín fylgi og að ýmsu leyti betur en Samfylkingunni.  Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei skilið það til fulls, en ef til vill skýrir Kristján það út, hvað heillar hann meira við BF en SF.

Ég rétt rak augun í þessa nýju könnun.  Ekki stórvægilegar breytingar, en undirstrikar þó sterka stöðu SF/BF í Reykjavík.  En af því að við vorum að tala um skoðanakannanir, þó vanmátu flestar þeirra Framsókn (og Sjálfstæðisflokk) fyrir síðustu kosningar, en ofmátu SF/BF.

G. Tómas Gunnarsson, 21.12.2014 kl. 14:00

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er ekki auðvelt að útskýra af hverju BF hljómar betur en SF. Að hluta hefur það með að gera að SF var ásamt Sjálfstæðis í ríkisstjórn þegar allt hrundi og hafði tekið þátt í að reyna að halda bullinu gangandi.

Svo er enn töluvert af gömlu hrokagikkjunum bendlað við SF, eins og Jón Baldvin og Ingibjörg Sólrún.

Og BF sló á einhvern hátt nýjan tón í pólitík, kannski er BF eiginlega eins og SF ómenguð af samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Kristján G. Arngrímsson, 21.12.2014 kl. 19:42

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Í pólitískri sýn Sjálfstæðismanna er það grundvallaratriði að flokkurinn sé hinn náttúrulegi stjórnarflokkur á Íslandi og ef hann er ekki í stjórn þá sé óeðlilegt ástand (ónáttúrulegt) í samfélaginu sem þarf að leiðrétta tafarlaust.

Þetta er auðvitað fullkomlega óeðlilegt viðhorf og til marks um yfirlæti og hroka.

Í Framsóknarflokknum virðist ríkja það viðhorf til valds að það sé fyrst og fremst veitingavald. Maður kemst til valda til að geta veitt sér og sínum embætti og bitlinga. Þetta er fyrirgreiðslupólitík sem mér finnst ógeðsleg.

Þetta tvennt er það sem er mest fráhrindandi við pólitík yfirleitt og birtist mjög afdráttarlaust í þessum gömlu hagsmunabandalögum sem þessir flokkar eru. Annarsvegar atvinnurekenda og hinsvegar hins úrelta bændasamfélags. Fyrir vikið eru báðir flokkarnir íhaldsflokkar, og Framsókn eiginlega afturhaldsflokkur.

Kannski er BF einhver vonarneisti um pólitík sem gengur út á annað en þetta. Það er hægt að hugsa sér stjórnmálamenn sem telja eðlilegt að vera stundum í stjórnarandstöðu, jafnvel gott. Því að það er óæskilegt að sami maður gegni æðsta valdaembætti í lýðræðisríki jafn lengi og t.d. Davíð Oddsson var forsætisráðherra (enda fór það eins og það fór). Þess vegna er t.d. enginn forseti USA lengur en í mesta lagi tvö kjörtímabil.

Einnig má alveg hugsa sér stjórnmálaflokk sem hugsar um hagsmuni annarra en bara sinna flokksfélaga. Framsóknarflokkurinn og fyrirgreiðslupólitíkin eru úrelt arfleifð þess tíma þegar flokkarnir tveir skiptu með sér gæðum landsins og þeir sem ekki tilheyrðu öðrum hvorum flokknum máttu éta það sem úti fraus.

Kristján G. Arngrímsson, 21.12.2014 kl. 19:53

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þú meinar Kristján að BF sé eins og SF á nýrri kennitölu.

Hver er nýi tónninn?

Það að lítil klíka komi saman og setji saman lista eins og BF hefur gert, hvort sem er undir merkum Bjartrar framtíðar eða Besta flokksins.

Reyndar hafa fáir flokkar þótt í gegnum söguna jafn harðir að koma sínu fóki á "jötuna" og kratar (Alþýðuflokkurinn).

En vissulega er það alltaf svo að þegar flokkar eru of lengi við völd fer að safnast utan á flokkinn einstaklingar sem fyrst og fremst eru í flokknum vegna ættartengsla eða vegna þess að þeir telja frama sínum best borgið þar.

Ég hygg að allir flokkar finni fyrir slíku, en þó eðlilega minnst þeir sem styst hafa starfað.

Sumir sem stofna nýja flokka taka þó slíka bagga með sér, enda fyrst og fremst að svala persónulegum metnaði og "tryggja sér þægilega innivinnu" eins og það er kallað.

Persónulega lýst mér ti.d. mun betur á Pírata en nokkrun tíma Bjarta framtíð.

En ég myndi auðvitað aldrei leita að ljósriti af Samfylkingunni, án sömu "þreyttu andlitanna".  En persónulega finnst mér þau býsna þreytuleg í BF.

G. Tómas Gunnarsson, 21.12.2014 kl. 20:23

16 identicon

Við vitum ekki hve margir hefðu kosið Bf ef hún hefði boðið fram 2009. Fylgið hefði þó alltént verið umtalsvert. Þess vegna er út í hött að kenna Jóhönnu um fylgistap Sf sem má rekja til stofnunar Bf.

Skoðanakannanir eru ekki spár um kosningaúrslit. Þær gefa aðeins vísbendingar um stöðuna eins og hún er þegar könnunin fer fram.

Ef MMR hefur stundum verið nær úrslitum en Capacent í síðustu könnun fyrir kosningar þá gæti Capacent samt hafa verið nær stöðunni eins og hún var þegar könnunin fór fram.

Jafnvel miðað við síðustu könnun MMR hefur Sjálfstæðisflokkurinn jafnvel ekkert unnið á því að neðri vikmörk í könnuninni eru við kosningaúrslitin.

Í ljósi þess að sjálfstæðismenn sem kusu Framsókn hafa greinilega flestir snúið tilbaka er staða Sjálfstæðisflokksins hörmuleg sérstaklega miðað við ótrúlega léleg úrslit í kosningunum.

Allt bendir því til að enn séu menn unnvörpum að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og skal engan undra.

Staðan er þó enn verri í borgarstjórn. Þar hefur fylgi flokksins minnkað um helming eða meira miðað við það sem það var lengst af á síðustu öld.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.12.2014 kl. 22:04

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hljómgrunnur fyrir flokk eins og BF hefði að mínu mati ekki verið mjög mikið árið 2009.  Þá stóðu Jóhanna og Steingrímur virkilega traustum fótum í Íslenskum stjórnmálum.

Guðmundur var þá auðvitað upptekinn við að vera Framsóknarmaður, eftir að hafa verið varaþingmaður Samfylkingarinnar kjörtímabilið á undan.

Síðustu kannanir fyrir kosningar eru yfirleitt það stuttu fyrir að það er ólíklegt að stórar breytingar verði, en alls ekki ómögulegt.  Sumir skipta um skoðun í kjörklefanum.

Skoðanakannanir eru því eins og við báðir segjum, aðeisn vísbending.  En það er ekkert sem bendir til þess að Capacent sé nákvæmara en MMR.  Þeir virðast hins vegar (einhverra hluta vegna) vera líklegri til að yfirmæla Samfylkinguna og og þess vegna kanntu líklega betur við þá :-)

Staða Sjálfstæðisflokksins í borginni er hörmuleg og ekkert sem bendir til þess að hún fari batnandi.

En á landsvísu er staða flokksins vel ásáttanleg, sé litið til þróunarinnar undanfarin ár og ríkisstjórnarsetunnar.

G. Tómas Gunnarsson, 22.12.2014 kl. 08:20

18 identicon

Bf varð ekki til vegna eftirspurnar úti í þjóðfélaginu. Hún varð til vegna þess að Guðmundur Steingrímsson gat ekki lengur verið í Framsókn og sem vettvangur fyrir Besta flokkinn til að láta til sín taka í þjóðmálum eftir góðan árangur í borgarstjórn.

Ásamt heimsmeti SDG hafði þetta óhjákvæmilega mikil áhrif á fylgi Sf án þess að það væri einhver áfellisdómur yfir flokknum. Ég þekki fjölda fólks sem kaus Bf en hefði kosið Sf með glöðu geði ef Bf hefði ekki boðið fram. Það voru einfaldlega fleiri kostir í boði 2013 en 2009.

Það eru miklar sviptingar í fylgi flokka á lokametrunum í kosningabaráttu. En þar að auki ná kannannir oftast yfir langan tíma. Nær ekki Þjóðarpúls Capacent yfir einn mánuð? Jafnvel MMR einnig?

Skoðanakannanir MMR hafa sýnt mikil frávik frá öðrum könnunum. Ég held að það stafi af því hvernig að henni er staðið. Það er alltaf sami hópurinn sem er spurður og honum er umbunað fyrir á einhvern hátt.

Þátttakan er þó oft mjög takmörkuð í hópnum án þess að það komi fram í gögnum um niðurstöðuna. Til að meta gildi könnunar er nauðsynlegt að geta séð svarhlutfallið.

Capacent notar hins vegar alþjóðlega viðurkenndar aðferðir við sínar kannanir.

Öfugt við Samfylkinguna hafði Sjálfstæðisflokkurinn nánast enga samkeppni frá nýjum framboðum í kosningunum. Fylgistap hans verður því alfarið að skrifast á vantraust á flokkinn og er því í raun þungbærara en fylgistap Samfylkingarinnar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.12.2014 kl. 09:41

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það var gríðareftirspurn eftir nýjum valkosti.  Það nýtti Guðmundur Steingríms sér.  Hann hefði án efa verið boðinn velkominn heim í Samfylkinguna, en það hefði einfaldlega ekki virkað, því SF var það laskað vörumerki.

Áður en BF kom til sögunnar var SF farin að tapa gríðarfylgi í skoðanakönnunum.  það var fylgi sem Guðmundur sá að hann átti mikinn möguleika að ná í.

Kannanir sýndu á sama tíma að traust á Jóhönnu hafði gersamlega hrunið.

Evrópumet í tapi varð því Samfylkingar.

Tap Sjálfstæðiflokks varð 2009, 2013 vann hann lítillega á en það var vissulega ekki mikið.

En tap hans 2009, var ekki jafn mikið og Samfylkkingar 2013,.

Flokkar tapa fylgi vegna þess að kjósendur vantreysta þeim, eða telja sig hafa fundið betri kost.

Auðvitað má reyna að spinna því á marga mismunandi vegu.

Guðmundur Steingríms, sagði sig úr Framsóknarflokki og með því klauf hann Samfylkinguna.  Það er ekki verri spuni en hver annar.

G. Tómas Gunnarsson, 23.12.2014 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband