"Yfirtekur" Samfylking Frjálslynda flokkinn?

Það hafa margir vakið athygli mína á bloggi þar sem rætt er um að Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn renni saman í eitt.

Persónulega er ég nú ekki mjög trúaður á að þetta gerist.  Ætli það hafi ekki verið fyrir síðustu alþingiskosningar sem ég heyrði fyrst að Margréti Sverrisdóttur hafi verið boðið gott sæti hjá Samfylkingunni.  En ég hef alltaf litið á það sem slúður.

 Vissulega er erfitt að halda litlum flokki gangandi.  En hafi slík sameining einhverntíma staðið til hlýtur vaxandi gengi Frjálslynda flokksins í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum að hafa dregið úr þeim líkindum.

En vilja Frjálslyndir sameinast einhverjum?  Það er svolítið sérstakt að lesa það haft eftir Magnúsi Hafsteinssyni þingmanni þeirra, að nú sé sameining við Sjálfstæðisflokkinn úr sögunni, en segir jafnframt að það hafi aldrei verið rætt, nema þingmaður á þingmann og ekki með neinum formlegum hætti.  Það má þá líklega skilja það sem svo að sameiningin sem aldrei hefur staðið til sé nú úr sögunni.

Persónulega held ég að næstu kosningar séu úrslitastundin fyrir Frjálslynda flokkinn, oft hefur þriðja kjörtímabilið reynst smá og klofningsflokkum erfitt, ef þeir hafa þá komist það langt. 

Persónulega hef ég ekki trú á því að Sjálfstæðiflokkurinn hefði áhuga á því að fá þingmenn Frjálsyndra í framboð fyrir sig, þó að allir séu velkomnir í flokkinn.  Hvort að aðrir stjórnmálaflokkar hafa áhuga á því er erfitt að spá um, þó má líklega leiða getur að því að þeir ættu betur heima í öðrum flokkum, enda hafa þeir staðið þétt við hlið Samfylkingar í mörgum málum á kjörtímabilinu.  Það verður líklega líka seint sagt að mörg kærleiksorð hafi fallið til Sjálfstæðisflokks, t.d. frá fyrrnefndum Magnúsi, sem meðal annars er þekktur fyrir "Spitfire" áhuga sinn.

En miðað við hvað sá orðrómur um "yfirtöku" Samfylkingar á Frjálslyndum er sterkur, má merkilegt heita að enginn fjölmiðlamaður hafi leitað svars frá þeim um þetta efni, eða hefur það bara farið fram hjá mér?  Ef svo er eru allar ábendingar vel þegnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband