Hinn pólítíski armur Fríhafnarinnar?

Það hljómar skringilega, að sama ríkisvaldið og ákveður álögur, s.s. vörugjöld, tolla, áfengisskatta og virðisaukaskatt, skuli jafnframt reka verslun sem er undanskilin þessum sömu álögum.

Því hærri sem álögurnar eru, því meiri er hvatinn til að kaupa vörur í verslun ríkisins.

Hljómar næstum eins og óeðlilegt samráð. Svona eins og Fríhöfnin hafi pólítískan stuðning til að auka hjá sér viðskiptin.

En því hærri sem álögurnar eru, færist meira af viðskiptunum frá hinum hefðbundnu Íslensku verslunum, ekki aðeins til Fríhafnarinnar eða annara þeirra sem versla í flugstöðinni, heldur ekki síður hreinlega erlendis.

Sömuleiðis aukast "fríðindi" þeirra sem ferðast til útlanda, á kostnað þeirra sem "heima sitja".

Það er því þarft mál að draga úr álögum og flytja verslunina í meira mæli "inn í landið".

 

 

 

 

 


mbl.is Ríkið með þriðjungshlutdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einokun ríkisins á sölu áfengis nær að sjálfsögðu yfir Fríhöfnina enda engin rök fyrir því að undanskilja hana.

Þar sem það getur ekki verið markmiðið að auka sölu á áfengi gilda ekki almenn samkeppnissjónarmið um sölu á því. Óheft samkeppni mundi leiða til aukningar á neyslu með miklum hörmungum fyrir marga einstaklinga og fjölskyldur þeirra og miklum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Auk þess er það auðvitað hið besta mál að almenningur njóti góðs af hagnaði af áfengissölu en ekki fáeinir einstaklingar sem ná yfirhöndinni í samkeppni þar sem ýmsir kunna að liggja í valnum.

Einkavæðing getur átt rétt á sér ef vel er að henni staðið og sýnt fram á að hún gagnist heildinni. En þegar einkavæðing er orðin eins konar ófrávíkjanleg trúarbrögð er illt í efni. Sporin hræða.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.11.2014 kl. 10:52

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er líklega ekki svo mikið sem ríkið græðir á áfengissölu, en vissulega væri gaman að sjá það alfarið sundurliðað.  Megnið af því fé sem hið opinbera fær í gegnum áfengissölu kemur frá vínandaskattinum, ætli vaskurinn sé ekki næst stærsti hlutinn?.

Ég þekki ekki hvernig skiptingin af hagnaði ÁTVR er t.d. á milli áfengis og tóbaks, en ef ég man rétt var þó lögð fram fyrirspurn í þá veru á Alþingi nýlega.

Ef mig misminnir ekki kom fram í fréttum fyrir skemmstu að Fríhöfnin hefði verið rekin með tapi.

Stór hluti áfengis (ég þekki ekki hlutfallið) er síðan seldur án þess að hið opinbera komi þar nokkuð nærri.  Þá er ég að tala um það áfengi sem dreift er af heildsölum til vínveitingastaða sem síðan selur það almenningi.

En færslan var ekki um einokun á áfengissölu, heldur þá skrýtn staðreynd að hið opinbera keyrir upp álögur á ýmsum vöruflokkum, en selur síðan sjálft stóran hluta þess sem neytt er á Íslandi án þessara sömu álaga.

Og ef þú hefðir síðan lesið fréttina, sem færslan er hengd við, er alls ekki eingöngu verið að tala um áfengi, heldur einnig minnst t.d. á snyrtivörur og innflutt sælgæti, þar sem Fríhöfnin er líklega með enn hærra hlutfall en af áfengissölu.

Er einhver sérstök ástæða til þess að verðlauna þá sem ferðast?

G. Tómas Gunnarsson, 5.11.2014 kl. 11:18

3 identicon

Fríhöfnin hefur verið rekin með góðum hagnaði.

http://www.vb.is/frettir/103822/               

http://www.m5.is/?gluggi=frett&id=189063

Það er eðli fríhafna að selja tollfrjálst. Það hefur einfaldlega ekkert með álögur utan fríhafnarinnar að gera.

Viðskiptaráð vill koma í veg fyrir þessa tollfrjálsu sölu til að bæta hag annarrar verslunar í landinu. Það vill því leggja niður fríhöfnina. Það þjónar hins vegar ekki þeim tilgangi sem stefnt er að.

Farþegar á leið til útlanda hafa þá enga möguleika á að kaupa tollfrjálst en kaupa í staðinn erlendis. Ávinningurinn fyrir aðra verslun hérlendis er því enginn.

Ef komufarþegar (einkum Íslendingar) geta ekki keypt tollfrjálst í Fríhöfninni kaupa þeir í staðinn í fríhöfn brottfararstaðarins svo að viðskiptin hverfa úr landi.

Það væri mikið óráð að hafa ekki þá þjónustu hér sem aðrar fríhafnir bjóða upp á. Þá er hætt við að Fríhöfnin hrapaði úr því að vera besta fríhöfn Evrópu niður í flokk hinna verstu.

Tillaga Viðskiptaráðs virðist því vera mjög vanhugsuð.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.11.2014 kl. 14:48

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alveg rétt, Fríhöfnin hefur verið rekin með þokkalegum hagnaði, en eins og fréttirnar sem þú vísar til sýna, hefur hann heldur farið minnkandi og loks er orðið tap ár rekstrinum, það sem af er þessu ári. http://www.vb.is/frettir/109471/

Það er alveg rétt að fríhafnir, selja tollfrjálst, það liggur í hlutarins eðli.  En eftir því sem álögur innanland eru hærri, eykst aðdráttarafl fríhafna.

Spurningin sem er þarft að velta fyrir sér er hvort að það sé besta leiðin, að hækka álögur, en selja svo allt að 1/3, af heildarsölu ákveðinna vara á fríhafnarsvæði?

Því eins og þú réttilega bendir á, eru fríhafnir í samkeppni á milli landa, en það gildir auðvitað ekki síður um verslanir sem eru staðsettar innanlands.  Þær keppa við verslanir í öðrum löndum, og það getur varla talist minna mikilvægt, að reyna að flytja viðskipti til þeirra (fá erlendum verslunum), en að flytja viðskipti til Fríhafnarinnar (frá erlendum fríhöfnum).

En fá lönd (þó að ég haldi að það hafi eitthvað aukist) bjóða upp á tollfrjálsa verslun við komu í landið.  Að sjálfsögðu myndu margir versla eitthvað í öðrum fríhöfnum ef ekki væri boðið upp á komuverslun í fríhöfn á Íslandi.  Þó er líklegt að sú verslun yrði mun minni en hún er á "heimavelli", enda ýmsar vörur sem efast má um að margir myndu leggja á sig að burðast með.  Síðan er auðvitað hvernig nútíma flugfélög myndu taka á því, enda ekki mikið sem ekki lagt á gjald á þeim vígstöðvum nú orðið.

En ég er ekki að leggja til í minni færslu að Fríhöfninni verði lokað (þó að Verslunarráð geri það, ef marka má fréttina).  Ég er hins vegar að leggja til að að með skiplögðum hætti verði dregið úr álögum innanlands og þannig verði stærri hlutur viðskipta færður "inn í landið", bæði frá fríhöfnum (þar með talið þeirri Íslensku) og erlendum verslunum.

Ef allt að þriðjungi viðskipta í einstaka vöruflokkum fer fram í Fríhöfninni, bendir það til að um óeðlilegar álögur sé að ræða á innanlandsmarkaði. 

Það er því fyllsta ástæða til þess að draga úr þeim, þannig að allir landsmenn geti notið lægra verðs, en það sé ekki forréttindi þeirra sem ferðast.

G. Tómas Gunnarsson, 6.11.2014 kl. 07:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband