Íslendingar þurfa að spara

Það er tekist á um söluform á tveimur tegundum vökva á Íslandi þessa dagana.  Áfengi og mjólk.  Framleiðslu og sölufyrirkomulagið á þessum tveimur "guðaveigum" er eigi að síður verulega ólíkt. 

Fjöldi af sjálfstæðra framleiðanda framleiðir áfenga drykki á Íslandi, en eingöngu einn aðili má selja þá (það er að segja í smásölu, í óopnuðum umbúðum).  Ein verslunarkeðja, ríkisrekin sér um smásöluna.

Hvað mjólkina varðar, eru sömuleiðis margir smáir framleiðendur, en úrvinnsla og dreifing er því sem næst á einni hendi, sem er undanþegin samkeppnislögum.  En fjöldinn allur af útsölustöðum sér um smásöluna.

Þeir eru margir sem fullyrða það við Íslendinga að hafa fyrirkomulagið með þessum hætti spari þeim milljarða í hvoru tilfellinu um sig.

Ef marka má það sem haldið er fram, er samkeppni aðeins til trafala á Íslandi og kostar stórfé.

Það má merkilegt vera ef Íslendingar eru ekki áfram um að yfirfæra þessa miklu markaðsspeki yfir á aðrar vörutegundir, landi og þjóð til heilla og sparnaðar.

Það er til dæmis líklega hægt að reikna það út að allar fréttir komast fyrir í einu dagblaði, þar mætti líklega spara dágóðar fúlgur, svo ekki sé minnst á öll tréin.

Sama gildir auðvitað um aðra fjölmiðla, s.s. útvarps og sjónvarpsstöðvar og vefsíður. 

Auglýsingastofum mætti renna saman í eina, enda einsýnt að stórfé myndi sparast og þróun og hugmyndaauðgi yrði best tryggð með þeim hætti.

Kostnaður við áfengisframleiðslu hefur líklega kostað þjóðarbúið stórar upphæðir síðan einkaleyfi ÁTVR til framleiðslu og dreifingar var afnumið.  Það er líka ótækt að dreifa einhverjum smáfyrirtækjum um allt land, þegar eitt stórt fyrirtæki gæti annast alla framleiðsluna. Gæti hentað vel í Húnavatnssýslurnar.

Og þessi símafyrirtæki.  Tómt bruðl að hafa fleiri en eitt fyrirtæki á littlum markaði eins og Íslandi.  Búið að kosta stórfé og hefur líklega leitt til stöðnunar.  Fjarskiptakerfið væri mikið betra ef aðeins væri eitt fyrirtæki og verð til neytenda ábyggilega 20 til 30% lægra.

Og fjöldinn allur af flugfélögum að fljúga til Íslands.  Hrein sóun og gerir mun erfiðara að stýra ferðamannastraumnum.  Auðvitað væri hægt að skipuleggja ferðamannastrauminn mun betur ef aðeins eitt flugfélag fengi að fljúga til og frá Íslandi.  Og upphæðirnar sem neytendur myndu spara yrðu líklega ekki lágar.

Síðast en ekki síst mætti auðvitað endurskoða hið pólítíska kerfi.  Fjöldi flokka með skrifstofur út um allar trissur og hugmyndavinnu (fer hún annars ekki örugglega fram ennþá?) á mörgum stöðum, er auðvitað hrein sóun.  Einn stór flokkur gæti hæglega annað öllu því sem núverandi stjórnmálaflokkar koma í verk og átt hellings pening afgangs. Ekki veitir af eins og tapreksturinn var á þeim á síðasta ári.

Það myndi líka spara stórfé því kosningar væru óþarfar.

Flokkurinn myndi einfaldlega raða á Alþingi.  Þannig myndi hæfileg endurnýjun (í bland við reynslu) best verða tryggð og framganga nýrra hugmynda eiga greiðasta leið.


mbl.is Hagræðing skilaði 20% raunlækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband