Að eiga orðin, er það hægt?

Ég velti því fyrir mér í kringum þá frétt að B og L hefði í heimildarleysi notað línur úr söngtexta, hvort að hægt væri að eiga orðin, og hvernig sá eignaréttur væri tilkominn?

Þurfa orðin eða orðnotkunin t.d. að vera ákveðinn orðafjöldi óbreyttur, eða getur það jafnvel bara verið eitt orð?  Varla er hægt að eigna sér eitt orð, en hvað þurfa á orðin að vera mörg svo að eignaréttur myndist?

Og mér datt í hug þegar ég sá þessa frétt um frumsýningu á Gullna hliðinu, eiga erfingjar Davíðs Stefánssonar, stóra óinnheimta skuld hjá hinni sívinsælu og gleðigefandi hljómsveit Sálinni Hans Jóns míns?

Þó að ekki væri greidd nema 100 krónur fyrir hvert skipti sem "Sálin hans Jóns míns"  hefur sést á prenti, væri ekki ólíklegt að sú skuld hlypi á milljónum, ekki síst ef greiða þyrfti fyrir hvert eintak.

Og er "mér finnst rigningin góð", eign Vilborgar Halldórsdóttur?

Önnur frétt af svipuðum toga sem vakti athygli mína er um deilur tveggja Danskra veitingastaða.  Þar er deilt um notkun hins algenga nafns Jensen.  Jensen Bøfhus, virðist eftir fréttinni að dæma telja sig eiga notkunina á nafninu Jensen í veitingageiranum.

Mörgum Dananum finnst þetta eðlilega býsna langt gengið.

En er ekki málið svipað á Íslandi?

Nýlega féll úrskurður þar sem einn aðili virðist eiga orðið fabrikka í veitingageiranum, meðal annars vegna þess að það er "frumlegt".

Þó þekkjast bæði "hamborgara fabrikur", eða "factories" um víða veröld og sömuleiðir "Pizzafabrikkur".  

Af sama meiði er tilraunir Íslensks fyrirtækis til þess að eigna sér orðið "gull" í bjórframleiðslu, sem er í notkun um víða veröld.  En ef til vill þykir það "frumlegt" að hafa dottið slík notkun í hug á Íslandi.

Og ef ég man rétt, var einu fyrirtæki gefin einkaeign á hinu almenna orði "bónus" í verslunarrekstri á Íslandi.

Og af því að ég er nafni eins þekktasta veitingamanns á Íslandi, verð ég líklega að gefa upp á bátinn þann draum að geta opnað veitingastað á Íslandi, sem héti "Tomma Pizzur", eða "Hjá Tomma".   :-)

Það getur bara verið einn Tómas í þeim bransa á Íslandi.

Gætu "Kentucky Fried Chicken" og "Southern Fried Chicken" bæði hafa verið stofnuð á Íslandi, eða hefði verið hætta á "ruglingi"?

Þessar vangaveltur eru ekki settar fram í neinni illgirni, eða það að ég hatist við höfundar eða vörumerkjarétt.

En ég held að það sé hollt fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvernig við viljum að sé staðið að þessum málum og á hverju er rétt að gefa einkaleyfi eða notkun.  Hvað skapar höfundarétt og hvað ekki?

Það þarf að reyna að eyða "gráum svæðum" eins og kostur er, þó að líklega sé það aldrei að fullu hægt.

Það má til dæmis nefna til samanburðar að "Wal Mart" hefur að sjálfsögðu varinn rétt á því nafni, en ekki á orðinu "Mart", það er of almenns eðlis.

Þess vegna hafa Amerísk fyrirtæki í vaxandi mæli gerst "skapandi" í stafsetningu og reyna þannig að búa til eitthvað "einstakt" sem hægt er að skrásetja og fá vernd á.

"General Electric", hefur vernd fyrir nafn sitt, en hvorki "general" eða "electric", alla vegna eftir því sem ég kemst næst.

Ef til vill verður það lausnin í framtíðinni að notast við Ensku, þar sem of margar orðasamsetningar í Íslensku verða höfundavarðar.

Góðar stundir.  (Skyldi nú ekki einhver eiga þann "frasa"?)

P.S.  Til að hafa "allt upp á borðum" (á ekki einhver þennan frasa?), er rétt að taka fram að ég á mjög góða kunningja á meðal skyldmenna Davíðs Stefánssonar, en færslan er ekki skrifuð að þeirra frumkvæði, né vita þau af henni.  Samskipti mín við liðsmenn Sálarinnar hans Jóns mín (sem m.a. hefur innifalið fyrrverandi starfsfélaga) hafa öll verið góð og hef ég ekkert upp á þá að klaga. 

Ég hef ekki snætt á neinum þeim veitingastöðum sem nefndir eru í greininni, nema KFC, þau viðskipti fóru eðlilega fram, skipt á mat og fé.  Ég tengist engum þeirra á neinn hátt.

Ég hef drukkið drjúgt magn af "gull" bjór um víða veröld, en tengist framleiðslu þeirra ekki á neinn hátt eða hef af henni hagsmuni.

 


mbl.is Skemmtu sér á Gullna hliðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband