7.9.2014 | 20:46
Stórtíðindi framundan?
Það yrðu vissulega stór tíðindi ef meirihluti Skota samþykkir að skilja landið frá Sameinaða Konungsdæminu og lýsa yfir sjálfstæði.
Ef marka má skoðanakannanir virðist sem kosningabarátta Nei, liða, þeirra vilja halda sambandinu við Englendinga, Walesbúa og N-Íra, hafi mistekist hrapallega og það forskot sem þeir höfðu hafi glatast.
Það er ekki síst áfall fyrir Verkamannaflokkinn, hann hefur að miklu leyti leitt baráttu Nei-liða (Íhaldsflokkurinn enda ekki sterkur í Skotlandi) og hefur haft drjúgt fylgi þar.
Hverfi Skotland úr Sameinaða Konungsdæminu, minnka möguleikar Verkamannaflokksins um að ná meirihluta þingsæta í Bretlandi svo um munar, og verður líklega langt í að slíkt gerist.
En það verður víða fylgst með úrslitunum í þessum kosningum, og ekki síður þeim samningaviðræðum sem munu hefjast á milli stjórnvalda í Skotlandi og Bretlandi um hvernig viðskilnaðurinn verður.
Það verður einnig fylgst náið með því hvernig "Sambandið" mun bregðast við og hvaða mótttökur Skotland mun fá, ef það verður sjálfstætt ríki
Ekki síst mun verða fylgst með í löndum eins og Spáni og Belgíu, þar sem ekki ólíkur klofningur er í spilunum.
En það má segja að framkvæmdin í aðdraganda kosninganna hafi verið til fyrirmyndar (að því minnsta sem ég hef fylgst með), báðar hliðar hafa haft góð tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og baráttan að mestu leyti farið heiðarlega fram.
Hitt er svo, að ef að aðskilnaði kemur, verða alltaf mörg óvissuatriði sem þarf að ná samkomulagi um, og engan veginn er hægt að sjá allt það fyrir sem verður að leysa.
Það er enda svo að í slík bandalög, þarf bæði að ganga í og ganga úr, með varúð og fyrirhyggju.
En kosningarnar í Skotlandi verða spennuþrungnari með hverjum deginum.
Meirihlutinn vill sjálfstæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.