25.5.2006 | 18:14
Eru sveitastjórnamál í "kjallaranum" hjá landsmálunum?
Það fer alltaf svo lítið í taugarnar á mér þegar ég heyri stjórnmálamenn og "stjórnmálaskýrendur" tala eins og sveitastjórnarmál, séu lítið annað en "undirflokkur" landsmálanna.
Þeir virðast vilja skýra fylgissveiflur í sveitastjórnum með því að kjósendur séu að tjá sig um landsmálin og sér í lagi ríkisstjórnina. Þetta hefur verið nokkuð áberandi upp á síðkastið og er til dæmis oft notað til útskýra frekar dapurt gengi Framsóknarflokksins í könnunum.
Mér finnst þetta bera vott um nokkra lítilsvirðingu gagnvart þeim frambjóðendum sem standa í eldlínunni í sveitarfélögum víða um landið. Svona rétt eins og þeir séu einhverjar "gínur" sem stilla má upp, en það eina sem skipti máli gerist á alþingi og í ríkisstjórn.
Persónulega tel ég það alrangt. Fulltrúarnir og þær stefnuskrár sem settar eru fram í bæjunum skipta nefnilega höfuðmáli.
Hver vill segja að sterk staða Samfylkingar í Hafnarfirði með Lúðvík Geirsson í forystu, sókn Sjálfstæðismanna í Kópavogi undir stjórn Gunnars Birgissonar, firnasterk staða Sjálfstæðismanna í Keflavík með Árna Sigfússon í fararbroddi, nú eða sá möguleiki að Sjálfstæðisflokkurinn vinni hreinan meirihluta í Reykjavík undir forystu Vilhjálms, sé eitthvað sem er að gerast vegna atburða í landsstjórninni?
Auðvitað gæti verið freistandi að segja að þetta sé tilkomið vegna frábærrar frammistöðu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn (nema Hafnarfjörður auðvitað), en hlutirnir eru ekki svona einfaldir.
Sjálfstæðisflokkurinn hopar hins vegar undan á Akureyri og á Ísafirði, en sækir á í Fjarðabyggð, Akranesi og í Árborg (ef marka má kannanir). Heilt yfir sýnist mér svo Vinstri grænir sækja á, víða jafnvel meira heldur en Samfylkingin, en þeir eru báðir í stjórnarandstöðu. Persónulega tel ég slæma stöðu Framsóknar hafa miklu fleiri ástæður, og sumar dýpri heldur en veru þeirra í ríkisstjórn. Ósamlyndi kemur til dæmis upp í hugann, og sést það ef til vill best á þeirri staðreynda að það eru ekki aðeins kjósendur sem eru að yfirgefa flokkinn, heldur einnig frambjóðendur (sbr. frétt frá Akureyri í gær.).
Auðvitað skipta stefnuskrár miklu máli, en það eru þó frambjóðendurnir sjálfir sem skipta þó líklega meira máli, enda nálægðin mikil, sérstaklega í smærri sveitarfélögum. Það er trúverðugleiki og það það traust sem sveitastjórnarmenn skapa sér, sem skiptir meginmáli, ekki hvort flokkurinn þeirra er í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Kjósendur eru að dæma verk þeirra síðustu fjögur ár, og hvort þeir treysta þeim áfram til að leiða bæjarfélagið næstu 4. Ekki hvort þeir vilja flokkinn þeirra í eða úr ríkisstjórn.
Þess vegna er landslagið í sveitarstjórnum eins fjölbreytt og raun ber vitni, og er það vel.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.