17.7.2014 | 07:15
Hágæða Bandarískt kjöt
Það má vissulega kaupa nautakjöt sem hefur verið alið með sterum í Bandaríkjunum og Kanada. Heilbrigðisyfirvöld í báðum löndunum eru þess fullviss að slíkt kjöt sé ekki hættulegt neytendum.
Um það eru skiptar skoðanir, en ég hef hvergi rekist á sannanir þess efnis að slíkt sé hættulegt, né heldur afgerandi sannanir þess efnis svo sé ekki. Það verður þó ekki séð að heilsufar Kanadabúa sé verra en annara svo eftir verði tekið.
En bæði Kanada og Bandaríkin bjóða upp á gríðarlegt úrval af kjöti sem ekki er alið með sterum og mikið af því hefur vottun sem "náttúrulegar afurðir", eða hvað við viljum kalla það.
Af því að Costco hefur verið mikið í umræðunni má t.d. benda á síður þar sem Costco netverslun býður upp á nautakjöt, bæði í Bandaríkjunum og svo í Kanada(Ontario), en úrvalið er mismunandi.
Eins og sjá má er úrvalið mun meira í Bandaríkjunum.
En Costco býður líka upp á t.d. vísundakjöt og villibráð, það er að segja í Kanada, en það gat ég ekki fundið á Bandarísku heimasíðunni.
Úrvalið er síðan annað í verslunum og líklega býsna misjafnt eftir staðsetningum, alla vegna er það mín reynsla.
En það er gott að þessi mál eru komin inn í umræðuna, en hún þarf, svo vel fari, að vera án upphrópanna og svigurmæla.
Reglugerðir um kjötframleiðslu eru mismunandi um víða veröld. En það þarf að hafa í huga að reglugerðir eru eitt og framkvæmd þeirra og árangur annað.
Ég geri að sjálfsögðu ekki kröfu um að vera sérfræðingur í þessum efnum, en mér hefur oft verið sagt að löggjöf Evrópusambandsins um matvælaframleiðslu sé mun strangari en sambærileg löggjöf í Bandaríkjunum og ég hef ekki dregið það í efa.
En þeir hinu sömu hafa sagt að árangur Bandaríkjamanna, t.d. hvað varðar sýkingar í fólki, sé mun betri.
Það er auðvitað gömul saga og ný, að sú trú að reglugerðir, boð og bönn leysi vanda, nær ekki langt, án eftir og framfylgni.
Það þekkja Íslendingar líka, af kjötlausum kjötbökum og mismunandi tegundum af salti. Reyndar má telja ólíklegt að kjötlausu bökurnar hefðu uppgötvast, nema vegna þess að umræðan fór að snúast um hrossakjötsíblöndun.
Það hneyksli, sem margir vilja halda fram að hafi viðgengist í Evrópu svo árum skipti, sýnir hve reglugerðir ná skammt. Þar var þó engin hætta á ferðum, einfaldlega vörusvik. Þó gilda aðrar reglur um lyfjagjafir fyrir hross (sem eru ekki ætluð til matar) og því fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur.
En nýlega fékk ég þessa töflu senda í pósti:
Taflan er fengin af síðu capreform.eu, og má finna í þessari grein, en upprunlegu vinnuna má finna hér.
Rétt er að taka fram að þetta er engin stóri dómur, það er erfitt að gera slíkan samanburð og skiptar skoðanir um gögnin, eins og sjá má hér.
Þessi samanburður er um matvæli almennt, en fókusar ekki á nautakjöt.
Einnig hafa verið uppi harðar deilur um erfðabreytt matvæli. Rétt eins og hvað vaxtarhormón varðar eru uppi skiptar skoðanir í því máli. Það þarf ekki að fara út fyrir Moggabloggið til að finna góða grein um það efni.
Margir eru þeirrar skoðunar að andstaða og bönn í Evrópu snúist fyrst og fremst um að vernda innlenda framleiðslu, en sitt sýnist hverjum.
Sjálfur neyti ég mikils kjöts og annara landbúnaðarafurða. Ég hef ekki óttast það kjöt sem mér hefur staðið til boða, en viðurkenni það fúslega að núorðið sneyði ég í vaxandi mæli hjá unnum kjötvörum. Ég kaupi ekki einu sinni kryddlegið kjöt.
Hvað mig varðar lít ég að mestu svo á að "matvælavinnslur" eða hvað við viljum kalla það, séu "veiki hlekkurinn" í minni fæðukeðju.
Ég er þeirrar skoðunar að ekkert geti komið í veg fyrir aukin innflutning á kjöti og landbúnaðarafurðum í Íslands á næstu árum.
Fréttir undanfarinna missera um innflutning á svínasíðum (í beikon), smjöri og öðrum vörum sýnir hver þróunin verður. Stjórnvöld virðast því miður fyrst og fremst hafa áhuga á því að passa upp á að almenningur njóti þess ekki verðlega og innlendir framleiðendur (ekki síst afurðastöðvar) njóti verndar.
Samhliða því að aðildarumsókn að "Sambandinu" yrði dregin til baka á næstunni, ættu Íslensk stjórnvöld að vinna áætlun til nokurra ára, hvernig best verði staðið að því að heimila aukin innflutning á landbúnaðarvörum, á forsendum Íslendinga, og með hæfilegum skrefum og hraða.
Segir bandarískt kjöt örugga vöru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.