Kosningar á netinu auka ekki kosningaþátttöku. Aðeins áhugaverð stjórnmál og stjórnmálamenn geta gert það

Nú að nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum er mörgum brugðið yfir þeirri staðreynd hvað kosningaþátttakan er léleg og hefur farið hratt minnkandi.

Margir telja að nauðsynlegt sé að hefja netkosningar til vegs og virðingar, svo auka megi kosningaþátttöku.

Persónulega er ég á öndverðri skoðun, þó að tækninni fleygi sífellt fram, hef ég ekki séð neinar sterkar vísbendingar um að netkosningar auki kosningaþátttöku, en hins vegar bjóða þær ýmsum hættum heim.

Fáar, ef nokkrar, þjóðir hafa meiri reynslu af netkosningum en Eistlendingar. Þar voru fyrstu kosningarnar með þeim möguleika að greiða atkvæði á internetinu haldnar 2005.  Það voru sveitarstjórnarkosningar, en síðan hafa verið haldnar þingkosningar, bæði til þings Eistlands og Evrópusambandsþingsins, þar sem boðið hefur verið upp á þann möguleika að greiða atkvæði á netinu.

Netkosningar fara ávalt fram nokkrum dögum fyrir hinn eiginlega kjördag.  Þannig lokar netkosningin 2 til 3 dögum fyrir kjördag.  Líklega er þetta gert í öryggisskyni, þannig að möguleiki sé á að hvetja kjósendur til að endurtaka atkvæði sín á "hefðbundin" hátt, ef eitthvað kemur upp á hvað varða e-atkvæðin.

Þeim fjölgar (sem hlutfalli) sem greiða atkvæði sín á netinu.  En það hefur ekki orðið til þess að stórauka kosningaþátttöku, sem fer upp og niður eftir sem áður.

Þannig minnkaði kosningaþátttaka í kosningum til Evrópusambandsþingsins sem voru í maí.  Þar fór kosningaþátttakan úr u.þ.b. 44% árið 2009 í  u.þ.b. 36% í ár.  Hvoru tveggja er þó betri þátttaka en árið 2004, er þátttakan var u.þ.b. 22%.

En auðvitað segja prósentutölur ekki alla söguna, það sem skiptir líklega mestu máli er hvort kjósendum finnst kosningarnar skipta máli og hvort að frambjóðendur nái til þeirra.  Þannig vilja margir þakka Indrek Tarand aukninguna í Evrópusambandsþingkosningunum árið 2009.  Hann var í einmenningsframboði, en hlaut rétt tæp 26% atkvæða.  Aðeins 1. stjórnmálaflokkur náði fleiri atkvæðum og var munurinn um 1100, eða um kvart %.  Atkvæðafjöldi hans hefði nægt til að koma 2. mönnum á þingið, en hann var einn í framboði.

Þannig hefur kosningaþátttaka verið upp og niður í Eistlandi, en óhætt yrði að segja að Eistlendingar yrðu nokkuð ánægðir með kosningaþátttöku þá sem Íslendingum þykir nú svo arfaslök

Hins vegar færa e-atkvæðagreiðslur þeim sem ekki eru staddir í heimalandinu, eða búa langt frá kjörstað að sjálfsögðu gríðarleg þægindi.  Það skiptir miklu máli í landi eins og Eistlandi þar sem tugir þúsunda sækja vinnu í öðrum löndum eða búa jafnvel í öðrum heimsálfum.

En netkosningar koma ekki án galla.  T.d. er ekki lengur hægt að tryggja að kjósendur séu "einir í kjörklefanum".  Það er hugsanlegt að einstaklingur kjósi undir "pressu" og auðveldara er að fylgjast með því að kosið sé "rétt".  Atkvæðakaup eru einnig gerð auðveldari og "tryggari". 

Hugsanlegt er að einstaklingar afhendi öðrum aðgang sinn að kosningakerfinu.

Ég held að aðeins áhugaverð stjórnmál og áhugaverðir stjórnmálamenn geti aukið kosningaþátttöku.

Það sem er ef til vill ekki hvað síst áhugavert, er hvað áhugi virðist minni fyrir sveitarstjórnarkosningum (sérstaklega í stærri sveitarfélögum), en t.d. Alþingiskosningum.  Þó eru sveitarfélög ekki síður að taka ákvarðanir sem snerta daglegt líf borgaranna.

Margir greiða hærra hlutfall af launum sínum til sveitarfélagsins en til ríkisins.  Ef ég man rétt er það ekki fyrr en um og yfir 300.000 króna tekjum sem einstaklingur fer að borga hærri tekjuskatt en útsvar.

Hér fyrir eru tvær greinar af netinu um netkosningar í Eistlandi.

http://blogs.lse.ac.uk/europpblog/2013/10/04/the-estonian-experience-shows-that-while-online-voting-is-faster-and-cheaper-it-hasnt-increased-turnout/

http://www.eui.eu/Projects/EUDO-PublicOpinion/Documents/bochslere-voteeui2010.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband