Kosningar og miðjusækin stjórnmál - "Sylvíu Nóttarvæðing" kosningabaráttunnar? Eru einhverjir að fara á taugum?

Ég fylgist, eins og ég hef áður sagt, með kosningabaráttunni úr fjarlægð.  Auðvitað upplifi ég ekki stemninguna, en ég reyni eftir fremsta megni að fylgjast með, í blöðum, á bloggum og stundum fæ ég tölvupósta frá gömlum kunningjum.

Baráttan í þetta skiptið er að því leyti öðruvísi nú en undanfarnar kosningar hvað Reykjavík snertir að R-listinn gaf upp öndina, að virðist saddur lífdaga, og eru því 5 flokkar í framboði.  Þannig  er R-listinn horfinn og virðast framboðin sem að honum stóðu oft á tíðum lítið vilja vita af honum.  Það má þó með nokkrum sanni segja að Samfylkingin sé arftaki R-listans, enda 4 af efstu mönnum hennar borgarfulltrúar R-listans.

Kosningabarátta Samfylkingarinnar hefur mér þótt frekar skrýtin, ef til vill er það að hluta til fjarlægðinni að kenna, hún teflir fram "Sylvíu Nótt" kosningabaráttunnar, "uppdiktaðri fígúru" mótaðri með sömu forskrift og Sylvía.  Persónulega finnst mér þetta ákaflega illa til fundið, og tel að kjósendur eigi betra skilið.  Flestir vita líklega hvernig "brandarinn" hennar Sylvíu endaði og einhvern veginn held ég að þessi fái keimlík örlög.

Persónulega er ég svo þeirrar skoðunar að prófkjör þeirra hafi ekki skilað besta fulltrúanum í fyrsta sætið, Stefán Jón, eða Steinunn væru mun betri í þessum slag, heldur en Dagur að mínu mati. 

Nú undir lok kosningabaráttunnar, þegar kannnanir benda til að heldur sé að fjara undan Samfylkingunni virðist sem svo að taugar Samfylkingarinnar séu að bresta, dregnar eru "neikvæðar auglýsingar" undan stólnum og svo virðist sem að SUS sé nú höfuðandstæðingur Samfylkingar í höfuðborginni, ekki framboðslisti Sjálfstæðisflokksins.

Þetta held ég að dugi þeim lítið, enda ekki nýtt á Íslandi að skiptar skoðanir séu innan flokka um hin ýmsu mál.  Líklega ætti að duga að nefna einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, svo að flestir Samfylkingarmenn skilji hvað ég er að fara. 

Samfylkingin sem og hinum R-listaflokkunum tókst þó vel að bjarga sér fyrir horn, þegar þeim tókst að útskýrar fyrir fjölmiðlamönnum og kjósendum að Framkvæmdaáætlun væri hugmyndabanki.

Tilraunin til að segja kjósendum að það væri Sjálfstæðisflokknum að kenna að Alfreð hefði verið svona valdamikill í 12, tókst ekki jafn vel, og held ég að flestir kjósendur hafi séð í gegnum þennan "kattarþvott" R-listaflokkanna.  Alfreð er þeirra maður, hefur setið í þeirra skjóli í 12 ár og verður svo fram á laugardag.

Vinstri grænir hafa að því er ég hef séð rekið frekar einfalda baráttu, reynt að keyra áfram að sínum málum á frekar jákvæðum nótum.  Auðvitað reyna þeir dulítið að skauta frá R-listanum, en það getur varla talist nema eðlilegt.  Nýr oddviti þeirra er líklega sá frambjóðandi sem hefur vaxið mest í baráttunni og hefur komið skemmtilega á óvart.  Vinstri grænir þyrftu þó að læra að nota vefinn betur í sinni baráttu.

Framsóknarflokkurinn er nokkuð sér á parti í kosningabaráttunni. Eina framboðið sem virðist ekki koma að manni og enginn "vill vera með".  Reka öfluga kosningabaráttu, en virðast ekki ætla að ná árangri, "parkera bömmernum" í stæði fatlaðra (sem ætti auðvitað ekki að vera stórmál, hefði átt að vera nóg að biðjast afsökunar, en verður eitt af þeim málum sem öðlast eigið líf).  Mótlætið virðist líka fara í taugarnar á þeim, og virðist þeim tamt að leita skýringa á óförum sínar alls staðar annarsstaðar  en hjá sjálfum sér.

Ein af skýringunum er ábyggilega að flokkurinn gengur ekki heill og óskiptur til leiks í Reykjavík, frambjóðandinn sem hafnaði í öðru sæti í prófkjöri, vildi ekki taka sæti á listanum.  Líklegast verður einnig að líta til þess að Framsóknarflokkurinn sem "brand" hefur ekki boðið fram í Reykjavík undanfarnar 3 kosningar.  Það sama gildir um Samfylkinguna og VG, en Framsóknarflokkurinn mátti líklega síður við að hverfa úr umræðunni, enda aldrei verið tiltakanlega sterkir í Reykjavík.

Ef menn vilja kenna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn um ófarir Frammara í Reykjavík (það hefur ábyggilega einhver áhrif), ættu þeir ekki síður að velta því fyrir sér hvað 12 ára samstarf við Samfylkingu (og forvera hennar) og VG hefur skilað þeim í Reykjavík.  Þegar búið að er ala framsóknarmenn upp við að þetta sé foringinn í Reykjavík, og hinn sami foringi er svo formaður annars stjórnmálaflokks, getur brugðið til beggja vona hvar atkvæðið lendir. 

Frjálslyndum hef ég ekki heyrt mikið í, enda á ég engan kunningja sem hefur lýst því yfir að hann styðji Frjálslynda.  Þeir virðast þó sigla ágætan byr, hafa markað sér sérstöðu í "flugvallarmálinu" og margir hafa sagt það mín eyru, að það sé eins með þá og Samfylkinguna, að betra fólk sé í 2. og 3. sætinu heldur en því 1.  Það verður þó að teljast gott hjá þeim að virðast vera með sinn mann nokkuð öruggan inni.

Sjálfstæðismenn eru með ákaflega "miðjusækið" framboð (það má reyndar segja um þau öll) og virðast reyna að sigla einföldustu leið, enda hafa kannanir sýnt þá með byr í seglunum, spurningin virðist vera hvort þeir ná 7 eða 8 borgarfulltrúum.  Því virðast Sjálfstæðismenn fyrst og fremst reyna að sigla hjá öllum skerjum og ekki láta hanka sig á neinu.  Að mörgu leyti eðlilegt þegar vel gengur.

Þessi ákveðna sókn Sjálfstæðisflokks inn á miðjuna virðist hafa komið Samfylkingunni í opna skjöldu, hún virðist ekki ná vopnum sínum og samkvæmt könnunum tapar hún fylgi á meðan barátta hennar virðist verða æ örvæntingarfyllri.

Fljótlega ætla ég að skrifa hér pistil um hvernig ég hef á tilfinningunni að meirihlutinn verði.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband