8.3.2014 | 08:33
Er leiðréttingin mikil eða lítil, röng eða réttlát?
Ég hef í sjálfu sér ekki mjög sterkar skoðanir á skuldaleiðréttingu þeirri sem ríkisstjórnin hefur boðað. Almennt er ég á móti því að hið opinbera taki ábyrgð á lántökum einstaklinga eða einkafyrirtækja og finnst nóg um hve fyrirferðarmikið hið opinbera er í lífi hvers og eins.
En þó eru mörg sjónarhornin.
Ef hið opinbera gerir kröfu til æ stærri hluta af hagnaði einstaklinga, má til dæmis spyrja hvort ekki sé rétt að það axli hluta af tapinu líka. Að hið opinbera sé ekki ekki bara "viðskiptafélagi þegar vel gengur".
Sjónarhornin á þetta efni eru mörg og næsta víst að ekki eru allir sammála.
En er leiðréttingin mikil eða lítil?
Eftir því sem ég man eftir að hafa heyrt, er talað um að hámarksleiðrétting verði 4. milljónir.
Það er vissulega all nokkur upphæð.
En ef barn er á dagheimili frá 2ja ára aldri og fram að 6 ára afmæli sínu, hafa foreldrar þess fengið hærri upphæð í niðurgreiðslur frá sveitarfélagi sínu. Þar er ekki spurt um tekjur, eða hvort foreldrar þess hafi "efni á" að greiða fyrir vistina.
Þannig fer það líklega eftir viðmiðum og í hvaða samhengi upphæðin er sett í, hvort að upphæðin þykir há, eða lág.
En auðvitað eru 4. milljónir ennþá meira en það sem sumir einstaklingar bera úr býtum á ári og það áður en skatturinn tekur sinn skerf, til að fjármagna eyðslu og "gjafmildi" hin opinbera.
Það er engin leið að komast að hinni einu sönnu niðurstöðu í máli sem þessu. Einstaklingar hafa hins vegar á því mismunandi sjónarhorn og skoðanir og eðlilegt að tekist sé á.
En það er líklega best fyrir ríkisstjórnarflokkana, og þá sérstaklega Framsóknarflokkinn að fara að drífa í því að koma þessu í framkvæmd.
Ella er hætt við því að kjósendur Samfylkingar og Vinstri grænna fari að flykkjast á Austurvöll að mótmæla svikum á framkvæmd kosningaloforða.
Leiðréttingafrumvarp á lokametrunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er engin leið að komast að hinni einu sönnu niðurstöðu í máli sem þessu.
Jú svo sannarlega. Kynntu þér vel lög um neytendalán. Þau svara flestum þessara spurninga og hafa verið í gildi hér á landi um áratugaskeið.
Eina rétta niðurstaðan er sú sem er lögum samkvæmt. Lög eru lög alveg sama hvað skoðun fólk hefur á því hvað sé "réttlát leiðrétting". Lögunum er slétt sama hvaða skoðun við höfum á þessu eða hvað okkur finnst "nægileg" leiðrétting. Þau segja okkur bara hvaða reglur gilda, og eftir þeim reglum ætti þetta að fara.
Það eina sem þarf er að framfylgja lögum og þá kemur leiðréttingin af sjálfu sér samkvæmt reglum sem hafa verið lengi í gildi og ættu því ekki að koma neinum á óvart. Það er algjör óþarfi að finna upp hjólið að nýju, en það er ennþá meiri heimska og beinlínis hættulegt að ætla að búa til ferkant og nota hann í staðinn.
Telji einhver dómstóleiðina hæpinn valkost, er viðkomandi bent á að rifja upp Icesave og hvernig það mál hefði klárast fljótt og vel ef réttum reglum hefði verið framfylgt.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.3.2014 kl. 13:48
Oft er það nú svo að það er ekki alveg svo einfalt að það dugi að fletta upp í lögunum, til að sjá hvað er rétt og rangt.
Það væri líklega ekki jafn fjölmenn lögfræðingastéttin ef svo væri. (Ég efast um að ég finni mér tíma til þess að fara í gegnum lög um neytendalán á næstunni).
Það er hinsvegar fínt að málið fari fyrir dómstóla, niðurstöðu Hæstaréttar verða allir að hlýta, þó að oft sé það þó svo að deilt sé um dóma.
Hæstaréttardómar eru langt frá því að duga í öllum tilfellum til þess að setja niður deilur.
Ríkisstjórnin virðist heldur ekki ætla að treysta á dómstóla, heldur fara af stað með eigin leiðréttingu. Það var um hana sem ég lét þau orð falla að... "Það er engin leið að komast að hinni einu sönnu niðurstöðu í máli sem þessu."
Og talaði þá um aðgerðir ríkisstjórnarinnar.
Ég biðst forláts ef það hefur verið eitthvað óskýrt.
G. Tómas Gunnarsson, 8.3.2014 kl. 14:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.