5.3.2014 | 22:40
Af Rússlands og Kínadaðri.
Upp á síðkastið hefur má sjá all nokkra gagnrýni á það meint Rússlands og Kínadaður Íslenskra stjórnvalda.
Vissulega er stjórnarfar í þessum ríkjum ekki til fyrirmyndar, og það má til sanns vegar færa að til eru betri fyrirmyndir og samstarfsaðilar. Það hefur verið ljóst um langa hríð og ofbeldi Rússa gagnvart Ukraínu á síðust dögum gerir ekkert nema að undirstrika það.
En forseti landsins hefur verið iðinn við að heimsækja og spjalla við forystumenn þessara ríkja. En mér er þó ekki alveg ljóst hvort að það er það sem mest fer í taugarnar á þeim sem gagnrýna aukin samskipti Íslands við Kína og Rússland.
En ef til vill er það velvilji Samfylkingarinnar í garð Huangs Nubos, sem hefur farið svona fyrir brjóstið á þessum gagnrýnendum utanríkisstefnunar.
Orsakanna fyrir gremju þeirra kynni einnig að vera að finna í fríverslunarsamningnum sem Jóhanna (fyrir hönd norrænu velferðarstjórnarinnar) undirritaði úti í Peking.
Það kann einnig að vera að áform Össurar Skarphéðinssonar um fríverslunarsamning við Rússlandhafi einngi gert þeim gramt í geði.
Það er þó erfitt að trúa því að fundur Katrínar Júlíusdóttur um samstarf í orkumálum, finnist þeim óþarfa Rússadaður.
En það sem er ef til vill merkilegast við þá sem sýna svo mikla andúð á "daðri" við Rússa og Kínverjar, er að margir þeirra vilja ekkert frekar en að Ísland gangi í "Sambandið".
En þar fúlsa hvorki einstaklingar, fyrirtæki né þjóðir við við- eða samskiptum við Kína og Rússland, öðru nær.
Það þótti nú ekki slæmt þegar Kína var reiðubúið til að kaupa skuldabréf Euroþjóða sem voru og eru í fjárhagsvandræðum. Sjá til dæmis hér, og hér. Og Merkel lagði meiri áherslu á viðskipti en mannréttindi í heimókn sinni til Kína.
Bretum þykir heldur ekki slæmt að selja u.þ.b. 10% af bílaútflutningi sínum til Rússlands, né fúlsa þeir á mót þeim 200 milljónum punda, sem þeir hafa selt vopn til Rússlands undanfarin ár. City of London þykir hagnaðurinn af viðskiptum Rússneskra fyrirtækja jafn góður og hagnaður frá öðrum löndum, og vilja ólmir liðka fyrir viðskiptum við Kína.
Bretar eru líka ólíklegir til að reka Chelsea úr úrvalsdeildinni, þó að Pútin hafi sent hermenn inn í Ukraínu.
Frakkar hafa heldur ekkert á móti því að selja Rússum herskip fyrir vel á annan milljarð euroa, end veita viðskiptin á annað þúsund manns atvinnu í mörg ár. Það þykir ekki amalegt í landi þar sem atvinnuleysi stendur í 2ja stafa tölu.
Svona má lengi áfram telja. Finnar hafa mikil viðskipti við Rússa og Eystrasaltsþjóðirnar allar hafa umfangsmikil viðskipti við Rússa og Rússneskt fjármagn flæðir þar í gegn.
Ekki hefur "Sambandsþjóðin" Kýpur heldur farið varhluta af Rússneskum áhrifum og fjármagni, og sífelldur grunur um stórfelldan Rússneskan fjármagnsþvott verið viðvarandi.
Þá erum við ekki byrjuð að tala um olíu og gaskaup "Sambandsríkja" af Rússum. Það lætur víst nærri að Rússar fullnægi 30% af orkuþörf "Sambandsins.
Eitthvað það fyrsta sem gerðist þegar Putin fór að hrista sig í Ukrainu, var að gas og olíuverð hækkaði í Evrópu.
Áróður um Rússa og Kínadaður Íslendinga, sem rekið er af "Sambandssinnum" hefur því ákaflega holan hljóm. Það rímar þó við flest annað í málflutningi þeirra.
Íslendingar eiga að kappkosta að eiga sem mest og best sam- og viðskipti við stóran hóp af þjóðum, þar er Kína, Rússland og auðvitað "Sambandið" meðtalið.
En Íslendingar eiga ekki að ganga í eina sæng með neinu þeirra.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 22:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.